Sunnudagur 02.06.2013 - 17:24 - FB ummæli ()

Lífsánægja þjóða í kreppunni

Íslendingar hafa lengi verið í efstu sætunum þegar hamingja þjóða og ánægja með lífið hafa verið mæld og samanborin – ásamt Dönum, Írum, Hollendingum og öðrum norrænum þjóðum.

Þetta hefur svolítið breyst í kreppunni síðustu fjögur árin.

Lífsánægja minnkaði verulega á Íslandi í kjölfar hrunins. Við fórum úr einu af efstu sætunum niður að meðaltali OECD-ríkjanna. Frá og með árinu 2011 fór lífsánægja Íslendinga að aukast á ný, sem kom einnig fram í væntingavísitölu og lífsgæðamati Capacent.

Samkvæmt nýjustu samanburðartölum frá OECD var Ísland aftur komið í efstu sætin á árinu 2012, raunar í fjórða efsta sæti. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Lífsánægja þjóða 2012 og 2010

Nýjustu tölur frá OECD um lífsánægju þjóða, 2012 samanborið við 2010 (www.oecd.org).

 

Hvergi í OECD-ríkjunum hefur ánægja með lífið aukist meira en á Íslandi, frá því skömmu eftir hrun til 2012. Ísland náði botni í kreppuþróuninni vorið 2010 og fór svo að lyftast á ný undir lok ársins og áfram á árunum 2011 og 2012.

Aðrar þjóðir sem hafa orðið ánægðari með líf sitt í kreppunni eru Svisslendingar, Norðmenn og Svíar, sem allar eru ofan við okkur á ánægjulistanum. Þetta eru allt með afbrigðum hagsælar þjóðir sem fundu lítið sem ekkert fyrir fjármálakreppunni.

Það er raunar merkilegt að við Íslendingar skulum hafa verið búnir að ná stöðu okkar í hópi ánægðustu þjóðanna þegar á árinu 2012. Næst á eftir okkur komu Hollendingar og Danir, en þeir síðarnefndu hafa nú sigið niður listann sem þeir hafa oft  áður toppað.

Þar fyrir neðan ar athyglisvert að sjá enskumælandi þjóðirnar (Kanada, Ástralíu, Bandaríkin, Bretland og Írland) sem hafa minni lífsánægju 2012 en 2010. Þær hafa verið á leiðinni niður síðustu misserin.

Á neðri endanum standa svo út úr þjóðir sem fóru seinna og dýpra inn í kreppuna en við og hafa mun lægra ánægjustig 2012 en 2010. Þar eru Grikkir fremstir í flokki, en þeir fara álíka mikið niður og Ísland fer upp!

Þessi jákvæða útkoma fyrir Íslendinga er í samræmi við ýmsar aðrar mælingar á kjörum og hugarfari þjóðarinnar frá síðustu tveimur árum (sjá hér og hér og hér). Sérstaklega var árið 2011 hagstætt í endurreisninni en síðan hafa framfarirnar orðið hæggengari.

Í ljósi þess að Íslendingar voru aftur orðnir með allra ánægðustu þjóðum með líf sitt á árinu 2012 er athyglisvert að velta fyrir sér útkomu kosninganna í apríl sl. Stjórnvöld nutu þess í engu að hafa hugsanlega átt þátt í að endurbæta ástandið hér svo þjóðin gæti endurheimt hamingju sína á ný.

Þvert á móti var stjórnvöldum harkalega refsað af kjósendum. Þar vegur mest að stjórnvöld misstu sjónar á æskilegu velferðarhlutverki sínu í kosningabaráttunni og stjórnarandstaðan, sérstaklega Framsókn, var í mun betra jarðsambandi og bauð heimilunum betri von um frekari kjarabætur.

Önnur lexía sem draga má af þessum upplýsingum er sú, að þó þjóðir geti verið óánægðar með fjárhagsafkomu sína þá geta þær verið ánægðar með margt annað í lífi sínu. Þar er einmitt að finna þætti sem skipta meira máli en peningar, svo sem fjölskylda, félagsleg tengsl og önnur samfélagsleg og persónuleg skilyrði.

Fjárhagur heimilanna á Íslandi er enn ófullnægjandi þó lífsánægjan hafi batnað.

Fjármálakreppa skerðir efnahagslegu kjörin til skemmri tíma, en forsendur hamingjunnar og ánægju með lífið eru flestar áfram fyrir hendi – eða koma fyrr til baka en afkomugleðin.

Með bættri fjárhagslegri afkomu íslenskra heimila munu lífskjör Íslendinga aftur geta orðið sambærileg við það sem var lengst af á síðasta áratug.

En í millitíðinni er það auðvitað mikilvægt að Íslendingar skuli hafa tekið gleði sína á ný.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar