Sunnudagur 09.06.2013 - 16:47 - FB ummæli ()

Ný sögufölsun um skuldir þjóðarbúsins

Eftir hrun hefur orðið til ný atvinnugrein á Íslandi, sem fæst við endurritun sögunnar. Frjálshyggjumenn eru áberandi í þessum hópi skapandi sagnfræðinga, þeirra á meðal ritstjórinn Davíð Oddsson (fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri) og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hugmyndafræðingur frjálshyggjutilraunarinnar sem Davíð framkvæmdi.

Það sem vakir fyrir þessum söguriturum er að fría þá sjálfa undan ábyrgð á orsökum hrunsins. Flestir fræðimenn á sviði fjármála tengja hrunið einmitt við aukin frjálshyggjuáhrif og lausatök á fjármálamörkuðum, sem gátu af sér óhóflega skuldasöfnun. Óhófleg skuldasöfnun orsakaði hrun krónunnar og bankanna.

Áberandi í málflutningi þessara aðila er sú staðhæfing að skuldasöfnun Íslands hafi ekki byrjað fyrr en eftir 2004. Hannes hefur birt línurit sem hann segir sýna þetta (sjá hér, glæra nr. 44).

Hvers vegna 2004? Jú, þá lét Davíð Oddsson af völdum sem forsætisráðherra og gerðist utanríkisráðherra.

Hannes Hólmsteinn hefur haldið því fram að til 2004 hafi ríkt hér eðlilegur “markaðskapítalismi”, en eftir að Davíð Oddsson lét af völdum hafi tekið við “klíkukapítalismi” sem hafi leitt til hrunsins (sjá hér).

Klíkukapítalismi á sér hins vegar miklu lengri sögu á Íslandi en frá 2004.

Markmið þessarar endurritunar sögunnar er sem sagt að fría Davíð Oddsson og frjálshyggjuna af ábyrgð á óhóflegri og hættulegri skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins.

 

Hvað segja opinberar tölur um skuldirnar?

En hvað segja staðreyndirnar um skuldaþróun íslenska þjóðarbúsins? Það má sjá með skýrum hætti á meðfylgjandi mynd (tölurnar eru frá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun).

Niðurstaðan er sú, að óhófleg skuldasöfnun hófst frá og með árinu 1998.

Slide1

Tímamótin í skuldasöfnun Íslands urðu frá og með 1998, einmitt eftir að einkavæðing bankanna hafði hafist. Þegar árið 1999 voru erlendar skuldir Íslands orðnar hærri en þær höfðu nokkrum sinnum áður orðið á lýðveldistímanum (frá 1944).

Frá 1999 til 2004 meira en tvöfölduðust erlendar skuldir sem hlutfall landsframleiðslu (úr 81% í 173%). Meira en tvöfölduðust! Það er mjög mikil aukning á alla mælikvarða.

Það sem meira er, árið 2004 var Ísland orðið eitt skuldugasta þjóðarbú heims, eins og tölur Seðlabanka Íslands sýna (hér).

Hvernig er þá hægt að halda því fram að skuldaaukningin hafi ekki byrjað fyrr en eftir 2004? Það er auðvitað ekki hægt nema með því að segja ósatt, blekkja vísvitandi! Enda er það eins ósatt og nokkuð getur verið – og það vita þessir aðilar. Tölurnar sem Hannes birti sýna einnig gríðarlega skuldaaukningu frá 1998 til 2004, þó hann horfi framhjá því í tilraun sinni til að blekkja.

Síðan jukust erlendar skuldir Íslands áfram með stigvaxandi hraða eftir 2004, eins og myndin sýnir. En þá kemur ábyrgð Davíðs Oddssonar aftur til sögunnar.

Frá september 2005 varð Davíð aðalbankastjóri Seðlabankans og átti samkvæmt starfslýsingu að vernda fjárhagslegan stöðugleika Íslands. Of mikil skuldasöfnun er ein alvarlegasta ógnin við fjárhagslegan stöðugleika.

Á vakt Davíðs og félaga í Seðlabankanum fóru skuldir Íslands úr hæstu hæðum í ógnarhæðir – og urðu langt umfram það sem gat staðist. Áhættan jókst á hverjum degi.

Enda hrundi fjármálakerfið á endanum til grunna!

Það þarf talsverða dirfsku til að halda því að fólki að þeir sem stýrðu Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og sem brugðust svo í eftirlitshlutverki sínu er skuldirnar jukust út yfir ystu mörk, hafi ekkert haft með málið að gera.

En þetta reyna menn samt!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar