Mánudagur 10.06.2013 - 23:39 - FB ummæli ()

Mikilvægi skuldaafskrifta – sérstaklega á Íslandi

Eitt af því sem fylgir bóluhagkerfum og fjármálakreppum er verulega aukið skuldastig, bæði í einkageira og opinbera geiranum. Þetta hafa fjármálasérfræðingarnir Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff sýnt á skýran hátt í tveimur nýlegum bókum, This Time is Different (frá 2009) og Decade of Debt (2010), þar sem þau greina frá miklum rannsóknum á helstu fjármálakreppum heimssögunnar.

Ísland og Írland höfðu þá sérstöðu að eiga heimsmet í hraða skuldasöfnunar í aðdraganda hrunsins og var hraðinn á Íslandi sýnu meiri. Íslenska frjálshyggjutilraunin var ein sú heimskulegasta sem mannkynssagan geymir.

Þó skuldastaða íslenska ríkisins hafi verið góð fram að hruni þá leiddi hrunið sjálft og kreppan í kjölfarið til stóraukinna skulda íslenska ríkisins, eða upp í um 100% af landsframleiðslu. Það þýðir að íslenska ríkið er nú með skuldugustu þjóðríkjum og skuldir heimila og fyrirtækja eru einnig með allra mesta móti (sjá hér og hér og hér).

Nú þegar hefur mikið verið afskrifað af skuldum fyrirtækja og um 200 milljarðar af skuldum heimilanna (vegna gengislánadóma og úrræða stjórnvalda). Það er þó ekki nóg.

Íslenska þjóðarbúið er enn með skuldugustu þjóðarbúum. Því fylgir sú hætta að fjárfesting í atvinnulífinu verði um langa hríð lítil og hagvöxtur hægur. Þeir sem eru á kafi í skuldum halda aftur af sér í neyslu og fjárfestingum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili.

Það er ekki skortur á fjárfestingarfé sem skýrir litla fjárfestingu á Íslandi um þessar mundir – heldur mikil skuldsetning fyrirtækja og heimila.

Fjármálafræðingarnir heimskunnu, Reinhart og Rogoff, hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að þjóðir með ósjálfbæra eða sérstaklega erfiða skuldastöðu fái umtalsverðar afskriftir frá kröfuhöfum sínum. Þau nefna í því sambandi þjóðir eins og Grikkland, Portúgal og Írland.

 

Ísland þarf meiri skuldaafskriftir

Ísland er ekki með skárri skuldastöðu en Írland, á heildina litið. Boðskapur Reinhart og Rogoffs um mikilvægi skuldaafskrifta á því einnig við um Ísland.

Þessir fjármálafræðingar vara auk þess við róttækum niðurskurðaraðgerðum til að bregðast við skuldavandanum. Slíkt getur magnað upp vandann, segja þau. Skuldaafskriftir eiga því að hafa forgang umfram niðurskurð opinberra útgjalda.

Þetta segir okkur að frekari skuldaafskriftir af íslenska þjóðarbúinu eru mikilvægar og réttlætanlegar.

Hugmyndir Framsóknar um afskriftir krónueigna erlendra kröfuhafa með samningum eiga því vel við í þessu samhengi. Ástæða er til að ná sem allra mestum afskriftum þar.

Raunar er einnig spurning hvort afskriftir geti átt við á fleiri sviðum, t.d. varðandi Landsbankabréfið svokallaða. Þar er nú óskað lengri greiðslufrests en ef til vill væri einnig athugandi að leita afskrifta af þeim skuldbindingum. Það bréf er jú að stórum hluta greiðsla vegna Icesave skuldarinnar sem EFTA dómstóllinn úrskurðaði um að Íslendingar ættu ekki að greiða.

Það er því afar mikilvægt að skuldavaktin hjá stjórnvöldum sé vel mönnuð. Á þeim vettvangi þarf að sækja fram af festu og klókindum.

Góður árangur í skuldaafskriftum mun greiða fyrir hagvexti í framtíðinni og kjarabótum fyrir heimilin.

 

Síðasti pistill: Ný sögufölsun frjálshyggjumanna um skuldir þjóðarbúsins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar