Miðvikudagur 12.06.2013 - 11:32 - FB ummæli ()

Er Orkuveitan andvíg orkuveitu?

Í framhaldi af fréttum af vanda við orkuvinnslu í Hellisheiðavirkjun er nú komið upp hið furðulegasta mál. Fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Guðmundur Þóroddsson, sakar núverandi stjórnendur Orkuveitunnar um að standa í herferð gegn álverum, í anda róttækra umhverfisverndarsinna.

“Þetta er þáttur í baráttu gegn alþjóðafyrirtækjum á heimsvísu, sem mér þykir öll umhverfisumræða hér lituð af”, segir Guðmundur.

Það hljóta að vera tíðindi ef femínískir umhverfisróttæklingar og óvinir alþjóðafyrirtækja hafa tekið völdin í Orkuveitu Reykjavíkur!

En haldið ró ykkar. Svo er ekki.

Núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Bjarnason, er fyrrverandi forstjóri Íslenska járnblendifélagsins. Þar starfaði hann farsællega fyrir hið alþjóðlega fyrirtæki Elkem. Síðar varð hann stjórnandi hjá Landsvirkjun á sviði orkuframleiðslu og orkusölu til alþjóðlegra álfyrirtækja. Ég þekki til starfa hans og veit að hann er hinn vandaðasti og mætasti maður.

Bjarni og félagar í stjórn Orkuveitunnar hafa haft ærinn starfa af því að koma Orkuveitunni á réttan kjöl aftur, eftir að fyrirtækið var í reynd orðið gjaldþrota, vegna óvarkárni og mistaka í rekstrinum um árabil. Sú leið var meðal annars vörðuð á stjórnartíma Guðmundar Þóroddssonar, sem einnig tengdist REI-málinu óheppilega.

Allur nýlegur fréttaflutningur af málefnum Hellisheiðavirkjunar sýnist mér stafa af eðlilegum áhyggjum og varkárni núverandi stjórnenda vegna erfiðrar stöðu mála og brostinna forsendna fyrri áætlana.

Hinn vandaði og hófsami jarðvísindamaður og fyrrverandi háskólarektor, Sveinbjörn Björnsson prófessor, hefur einnig tjáð sig um málið og segir of hratt hafa verið farið í uppbyggingu fyrri ára og eðlilegar varfærnireglur við þróun orkuöflunarinnar sniðgengnar.

Það er því af miklu kokhreysti sem Guðmundur Þóroddsson fer fram með ævintýralegar og órökréttar ásakanir á hendur núverandi stjórnendum Orkuveitunnar. Orð hans virðast einmitt sanna það sem Sveinbjörn Björnsson bendir á – óvarkárni í starfsháttum.

Fyrri stjórnendur Orkuveitunnar fóru bæði framúr sér og afvega í háttum sínum. Athyglisvert er að sjá nú eindreginn ásetning eins af leiðtogum þeirra um að læra ekkert af fyrri mistökum.

Kjánalegar ásakanir um fjandskap Orkuveitunnar í garð orkuveitu til atvinnurekstrar dæma sig sjálfar.

 

Síðasti pistill: Mikilvægi skuldaafskrifta – sérstaklega á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar