Miðvikudagur 10.07.2013 - 20:00 - FB ummæli ()

Um hvað snérist bóluhagkerfið?

Bóluhagkerfi verður þegar ofþensla keyrir um þverbak. Of mikið fé verður í umferð, of miklar framkvæmdir, of mikil eignakaup, of mikil spákaupmennska eða brask – og mest með lánsfé.

Mikil skuldsetning þjóðarbús er þannig oft lykileinkenni á bólutíma. Verulega aukin skuldsetning skapar aukna hættu á hruni eða fjármálakreppu (sjá hér).

Stundum er talað um húsnæðisbólur. Þá er fjárfest of mikið í húsnæði (of mikið aðgengi er að lánsfé til að byggja og kaupa húsnæði). Verðið hækkar þá umfram annað og byggingamenn og braskarar græða.

Írsla bóluhagkerfið var einkum húsnæðisbóla. Það sama á við um bóluna á Spáni og í Bandaríkjunum  á árunum 2002-2007.

Frá 1995 til um 2000 var bóla á markaði hátæknifyrirtækja, “dot.com-bólan”. Henni fylgdi offjárfesting í netfyrirtækjum og öðrum hátæknifyrirtækjum, sem leiddi til verulega mikilla hækkana á hlutabréfaverði í þeim geira (Nasdaq vísitalan mælir það). Þessarar bólu gætti mest í Bandaríkjunum.

Svo getur verið um að ræða almenna bólu á hlutabréfamarkaði, sem tengist ofþenslu í hlutabréfakaupum, ekki síst með lánsfé. Skuldsettar yfirtökur og kaup fyrirtækja/hlutabréfa eru algengar við slíkar aðstæður.

Íslenska bóluhagkerfið snérist að mestu leyti um slíkt fyrirtækjabrask með lánsfé. Verð á hlutabréfum í íslensku kauphöllinni hækkaði sjöfalt frá 2002 til 2007, sem er óvenju mikið. Skuldir íslenska þjóðarbúsins margfölduðust álíka mikið á sama tíma.

Þó bóluáhrifa hafi gætt á íslenska fasteignamarkaðinum þá var það víkjandi einkenni, samanborið við fyrirtækjabraskið. Húsnæðisbólur voru víða meiri en hér á landi.

Þetta má til dæmis sjá á þróun skuldsetningar hjá heimilunum annars vegar og fyrirtækjunum hins vegar (myndin hér að neðan – heimild Seðlabanki Íslands).

Skuldir fyrirtækja og heimila stærri

Mynd 1: Skuldaþróun fyrirtækja og heimila á Íslandi frá 2001 til 2012 (skuldir sem % af landsframleiðslu)

Hér má sjá hvernig skuldir fyrirtækjanna jukust miklu örar en skuldir heimilanna. Raunar jukust skuldir íslenskra fyrirtækja mun meira en skuldir fyrirtækja í öðrum vestrænum löndum á þessum tíma (hér). Skuldasöfnun einkabankanna var auðvitað líka einstök. Þeir gerðu hina gríðarlegu og stórhættulegu skuldasöfnun þjóðarbúsins mögulega.

Íslenska bóluhagkerfið var þannig einkum braskbóla með lánsfé. Fyrirtækjaeigendur og fjármálamenn voru helstu þátttakendurnir. Það voru þeir sem settu Ísland á hausinn.

Hvers vegna gerðu þeir það? Jú, þeir græddu gríðarlega á braskinu (sjá hér). Einmitt þess vegna munu þessir aðilar reyna fyrir sér aftur – ef aðstæður leyfa.

Það voru þannig hvorki heimilin né Íbúðalánasjóður sem settu þjóðarbúið á hliðina, hvorki með fjárfestingum í íbúðum né flatskjám. Og því síður voru það 90% húsnæðislán Framsóknar!

Það voru sem sagt einkabankarnir og atvinnurekendur í einkageiranum sem drekktu Íslandi í skuldum. Þeir söfnuðu langmestu af skuldunum. Opinberu eftirlitsaðilarnir (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir) leyfðu þeim að gera það – og brugðust þar með hlutverki sínu í einu og öllu.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga – öllum stundum!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar