Sunnudagur 14.07.2013 - 21:42 - FB ummæli ()

Frá vúdú-brellum til niðurskurðar

Ég sagði það aftur og aftur fyrir kosningar, að vúdú-hagfræði Sjálfstæðismanna, sem þeir fengu að láni frá Hannesi Hólmsteini, væri blekkingarleikur einn. Hún væri brella til að réttlæta skattalækkanir til hátekjufólks og fyrirtækjaeigenda.

Fólki var talin trú um að hægt væri að lækka skatta verulega og að þá myndu skatttekjur ríkisins aukast – en ekki draga saman. Nýtt fé yrði til, eins og þegar kanínur spretta upp úr hatti töframannsins!

Þetta hljómaði svo vel að næsta fráleitt virtist að slá hendi á móti slíkum hvalrekum.

Nú er búið að samþykkja verulega lækkun veiðigjaldsins og auðlegðarskattur stóreignamanna verður lækkaður í árslok. Gróði auðmanna eykst við hvoru tveggja, en fátt annað mun breytast.

Ekki fjölgar fiskiskipum né störfum sjómanna, enda ekki hægt að sækja fleiri fiska en kvótinn heimilar. Sama er í áliðjunni. Gróði útvegsmanna eykst einfaldlega – en tekjur ríkissjóðs dragast saman.

Og nú segja bæði fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að fé vanti í ríkissjóð. Það vantar t.d. um 8 milljarða til að reka heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra segir einn valkost þann að loka einstökum þáttum þjónustunnar og einnig boðar hann að aðrir en ríkið séu hæfari í að reka heilbrigðisþjónustuna.

Einkavæðing heitir þetta, með einum eða öðrum hætti, m.a. svipuð rekstrarform og á elli- og hjúkrunarheimilinu EIR. Menn muna hvernig það fór!

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var fljótur að taka undir með Kristjáni heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins um að frábært væri að fá ný rekstrarform í heilbrigðisþjónustuna. Hann telur líklega að reynslan af EIR sé svo góð!

Og þó – hann varar við einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum í viðtali við RÚV í dag.

Menn hafa kanski ekki heyrt af slæmri reynslu Svía af aukinni einkavæðingu og nýjum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustunni. Röð hneyksla og slæmrar reynslu af þeirri leið er nú að breyta stefnunni í Svíþjóð – aftur til aukins ríkisrekstrar.

 

Vúdú-hagfræðin sett til hliðar

Í stað vúdú-hagfræðinnar er nú sem sagt verið að reifa verulega aukinn niðurskurð. Gerður hefur verið út niðurskurðarhópur stjórnvalda, sem gárungarnir kalla “slátrara” eða “dauðasveit”. Það hljómar ekki vel.

Auðvitað má leita aukinnar hagræðingar í opinbera geiranum . Mikið hefur þó verið gert í því á síðustu 4 árum og óvíða er því hægt að skera mikið niður til viðbótar án þess að skaða þjónustustig og gæði, hvort sem er í menntun eða heilbrigðisþjónustu (sjá t.d. hér og hér og hér).

Heilbrigðisráðherra talar um samdrátt opinberu þjónustunnar og að fólki verði í staðinn boðið að kaupa sér þjónustu af einkaaðilum. Hann virðist vilja minnka velferðarríkið.

Ekki var mikið talað um niðurskurð eða einkavæðingu fyrir kosningar.

Nú er hins vegar allt á annan veg. Töfrabrögð frjálshyggjumanna eru úr sögunni og niðurskurður, einkavæðing og aukin notendagjöld eru komin á dagskrá.

Engum ætti að koma þetta á óvart. Ég sagði að þetta færi svona – í mörgum greinum hér á Eyjunni. Vúdú-hagfræðin eykur einfaldlega vanda ríkissjóðs og kallar á niðurskurð (sjá hér). Hversu hratt og ákveðið er gengið til verks af ráðherrum Sjálfstæðisflokks er þó ef til vill undrunarefni.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hversu mikið viðnám Framsóknarmenn munu geta veitt gegn nýrri frjálshyggjuvæðingu Íslands?

Mikið er í húfi í þeirri baráttu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar