Fimmtudagur 18.07.2013 - 17:40 - FB ummæli ()

Niðurskurður dýpkar kreppuna

Alþjóðlega fjármálakreppan er nú á fimmta ári. Ástæðan fyrir því hve mörgum þjóðum gengur illa að endurheimta hagvöxtinn er röng stefna. Niðurskurðarstefnan (“austerity policies”) hefur illu heilli verið ráðandi.

Þrátt fyrir að reynslan frá Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar sé skýr varðandi mikilvægi keynesíska úrræða (opinberar örvunaraðgerðir og skjaldborg um lágtekjuheimili) þá hafa niðurskurðarmenn í hópi hagfræðinga og stjórnmálamanna haft yfirhöndina.

Niðurskurðarstefnu hefur verið beitt í of miklum mæli. Þegar það er gert í kreppuaðstæðum tekur hagkerfið aðra dýfu niðurávið (“double-dip crisis”; og jafnvel “triple-dip crisis”). Hætta er þannig á að niðurskurður opinberra útgjalda magni kreppuna og seinki umsnúningi til vaxtar.

Það reynist dýrkeypt því skuldavandi hins opinbera, sem leysa átti með niðurskurði, eykst vegna frekari samdráttar í hagkerfinu. Þess vegna kenndi Keynes að tíminn fyrir niðurskurð og skuldalækkun ríkissjóðs væri eftir að hagvöxtur væri kominn í trausta uppsveiflu.

Nú er reynslan að kveða upp sinn dóm á alþjóðavettvangi. Þeir hagfræðingar sem boðað hafa dygðir niðurskurðar í kreppunni hafa haft rangt fyrir sér og í reynd magnað og dregið kreppuna á langinn (sjá ágæta umfjöllun um þetta hér).

Í þessu samhengi er mikilvægt að ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna fari ekki offari í niðurskurði opinberra útgjalda á næstunni, jafnvel þó skuldirnar séu áhyggjuefni. Slíkt gæti dýpkað kreppuna, eins og fjölmörg dæmi sýna (Írland, Bretland, Spánn, Grikkland o.fl.).

Ísland var komið með góðan hagvöxt á árinu 2011, raunar einn þann allra mesta á Vesturlöndum. Það varð vegna vel heppnaðra viðbragða stjórnvalda og AGS við kreppunni og aukins kaupmáttar í kjölfar kjarasamninga 2010 og aftur vorið 2011.

Jafnvel hóflegar skattahækkanir á hærri tekjuhópa og fyrirtæki drógu ekki úr hagvextinum. Kaupmáttaraukning millistéttarinnar á að vera megin markmiðið. Það er sú fylking sem dregur hagvaxtarvélina áfram með aukinni neyslu – sem svo laðar fram aukna fjárfestingu.

Við ættum að halda áfram á þeirri braut. Bætt skuldastaða ríkisins komi svo í kjölfarið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar