Laugardagur 20.07.2013 - 06:45 - FB ummæli ()

Keith Richards – skuggalegur skratti!

KeithÉg las fyrir skömmu ævisögu Keith Richards, gítarleikara Rolling Stones. Bókin heitir einfaldlega “Life”.

Þetta er frábær bók sem kemur skemmtilega á óvart.

Ég hef að vísu aldrei verið mikill aðdáandi Keiths og bara svona hóflegur aðdáandi Rolling Stones. Þeir voru þó stór hluti af umhverfinu sem maður ólst upp í og tilheyrðu auðvitað tíðarandanum sem mótaði mína kynslóð.

Það áhugaverða við bókina er hversu hreinskilinn Keith er og hann segist muna allt, þrátt fyrir líferni sem margir myndu tengja við gleymsku! Hann hefur í öllu falli frá mörgu að segja og glæðir tíðarandann og umhverfi stórstjarnanna miklu lífi.

Við lestur bókarinnar verður manni ljósara en áður hversu mikið Keith á í því stórveldi í músíkinni sem Stones urðu. Hann á stærstan þátt í hinum sérstaka tónlistarstíl sem einkennt hefur hljómsveitina. Mick Jagger var auðvitað sérstakur söngvari og frábær sviðsmaður – en tónlistarheilinn var Keith.

Hann var líka driffjöðurin bak við hið skapandi starf. Samt sökk hann djúpt í dópið, ekki síst kókaín og heróin um langt árabil. Ævintýralegar eru lýsingar hans á þeim veruleika, sem hann mælir þó ekki með fyrir neinn.

Ótrúlegt er líka hvernig hann náði að lifa af þetta líferni, þar sem augljóslega var ítrekað teflt á tæpasta vað. Á einum stað segir hann, að þetta hafi verið slæmt ár, því margir vina hans hafi fallið í valinn vegna ofneyslu. En sjálfur skrölti hann alltaf áfram. Keyrði sig meðal annars áfram á lyfjum í allt að sjö sólarhringa samfleytt við upptökur og lagasmíð, t.d. er þeir gerðu plötuna Exile on Main Street í suður Frakklandi!

Þetta var öfgafullt líferni. Auðurinn sem fylgdi frægðinni hjálpaði til. Ofneyslan fór ekki eins illa með hann og algengast er vegna þess að hann gat stólað á meiri gæðaefni en seljast alla jafna a götunni, segir hann. Og dýrir lögfræðingar björguðu honum ítrekað frá fangelsunum.

Þrátt fyrir skuggalegt líferni var greinilega í honum heil manneskja. Hann er vinur vina sinna og augljóslega klókur. Les bækur í stórum stíl og endaði sem traustur fjölskyldumaður.

Ævisaga Keith Richards er ekki bara forvitnileg sýn inn í hans heim, heldur einnig ómetanleg lýsing á tíðaranda rokksins – og raunar tíðaranda síðustu áratuga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar