Föstudagur 26.07.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Skuldastaða hins opinbera 2013 – samanburður

Um daginn sýndi ég stöðu ríkisfjármála í vestrænum ríkjum m.v. árið 2012. Þar kom fram að Íslandi hefur gengið betur en mörgum kreppuþjóðum að ná niður halla á ríkisbúskapnum og fer nálægt því að stöðva skuldasöfnunina á þessu ári.

En afleiðingar hrunsins voru miklar og verða með okkur inn í framtíðina. Ein vísbending um alvarleika þeirra eru heildarskuldir hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga).

Þó skellurinn sem hrunið veitti Íslendingum hafi verið hlutfallslega stærri en hjá öðrum þjóðum erum við ekki skuldugust vestrænna ríkja – en mjög skuldug samt. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan (heimildir Eurostat og OECD).

Skuldastaða hins opinbera 2013 q1

Ísland er sjötta skuldugasta vestræna ríkið, næst á eftir Bandaríkjunum. Írland, Portúgal, Ítalía og Grikkand skulda mun meira en Íslendingar.

Sumar þjóðanna sem koma næst á eftir okkur eru með vaxandi skuldir, t.d. Kýpur, Bretland, Spánn og Frakkland.

Skuldirnar fóru hæst í 119% af landsframleiðslu á Íslandi og eru því minni nú. Vöxtur landsframleiðslu hefur verið meiri á Íslandi en í flestum vestrænum ríkjum á síðustu tveimur árum og það hefur lagað skuldastöðuna.

Þetta eru brúttóskuldir (á móti koma eignir, t.d. í of stórum gjaldeyrisvarasjóði o.s.frv.). Skuldir umfram eignir hins opinbera (nettóskuldir) eru um 60%, sem er ekki svo slæmt miðað við aðrar þjóðir, né miðað við fyrri áratugi á Íslandi.

Þessar skuldir og mikill vaxtakostnaður vegna þeirra eru þó afar þungur baggi og mikilvægt að ná honum niður og stækka þjóðarkökuna.

Miðað við þróun kreppunnar í öðrum vestrænum ríkjum er viðbúið að fjölgi í hópi þeirra ríkja sem skulda meira en Ísland.

Góður hagvöxtur og afgangur af ríkisbúskapnum eru mikilvægustu meðulin við of háum skuldum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar