Laugardagur 27.07.2013 - 11:32 - FB ummæli ()

Þjóðarsátt um að hækka bara hæstu launin?

Ritstjóri tímaritsins Frjálsrar verslunar fór mikinn í fjölmiðlum í gær. Þeir voru að birta árlegt tekjublað sitt með upplýsingum um launatekjur 3000 Íslendinga.

Skilaboðin sem hann greindi frá voru þau, að laun forstjóra, stjórnenda og sjómanna hafa hækkað talsvert. Samt ná tölur Frjálsrar verslunar ekki til fjármagnstekna sem eru stærsti hluti tekna hátekjufólks.

Almenningur situr hins vegar enn nálægt botni kreppunnar sem færði honum um 20% rýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna með hruni krónunnar og bankanna.

Ritstjórinn, Jón G. Hauksson, hafði ekki sérstakar áhyggjur af því að laun forstjóra væru mjög há (í viðtali á Bylgjunni), heldur hinu að almenningur færi að draga af því ályktanir um að hækka þyrfti laun í komandi kjarasamningum (í nóvember nk.).

Ef slíkt gerðist færi allt á versta veg, því ekki væri innistæða fyrir neinum launahækkunum (þó stjórnendur atvinnulífsins hafi þegar séð svigrúm til að hækka sín eigin laun).

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs MP-banka, skrifar svo í Fréttablaðið í dag um þessa „hættu“ á kauphækkunum. Hann kennir að vísu ekki hátekjufólkinu um, heldur fyrrverandi velferðarráðherra og Kjararáði.

Þorsteinn vill að ríkisstjórnin kalli saman nýtt sumarþing og setji neyðarlög um að afnema hækkanir toppanna í opinbera kerfinu (sem fylgja þó bara hóflega í kjölfar hækkana hátekjumanna í einkageiranum), til að forða því að almenningur láti sér detta í hug að sækja kjarabætur í kjarasamningum í haust.

Velferðin mun hrynja ef kaupið verður hækkað, segir Þorsteinn Pálsson.

Það byggir Þorsteinn á því, að atvinnurekendur vilja yfirleitt frekar fleyta öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið en að leita hagræðingar eða minnka arðgreiðslur sínar ef kaup almennings hækkar. Það ættu þeir þó að gera, einkum að auka hagræðingu og framleiðni.

Þjóðina vantar einmitt kauphækkanir og framleiðniaukningu.

Margir fulltrúar yfirstéttarinnar vilja nú fá nýja þjóðarsátt sem aftrar því hins vegar að laun hækki. Þeir virðast vilja festa þjóðina á kjarabotni kreppunnar – önnur fjögur ár til viðbótar.

Þessir hátekjumenn hafa ekki beinlínis áhyggjur af hækkun launa í eigin stétt, heldur því að almenningur láti sér detta í hug að hans bíði samsvarandi kauphækkun í haust.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar