Laugardagur 03.08.2013 - 21:55 - FB ummæli ()

Neyðarkall úr heilbrigðisgeira

Í góðærinu eftir aldamótin var skorið niður í heilbrigðiskerfinu. Svo kom hrunið og enn meira var skorið niður, raunar alveg inn að beini.

Málsmetandi og leiðandi læknar, eins og prófessorarnir Einar Stefánsson og Sigurður Guðmundsson, senda nú út neyðarkall og vara við hættu á vítahring sem geti skaðað heilbrigðisþjónustuna varanlega.

Sífellt fleiri læknar tala orðið tæpitungulaust um þessa alvarlegu stöðu (sjá t.d. hér).

Þetta er ekkert grín, heldur dauðans alvara.

Fyrri stjórn áformaði að hefja byggingu nýs Landsspítala og var byrjuð að veita meira fé til tækjakaupa. Hún hóf einnig kjarabætur meðal starfsliðs heilbrigðisþjónustunnar.

Nú er hins vegar talað um enn frekari niðurskurð í opinbera kerfinu og breytta forgangsröðun í heilbrigðismálunum – jafnvel aukna einkavæðingu.

Það sem er að í heilbrigðisþjónustunni er m.a. þetta:

  • Húsakostur Landsspítalans og tækjabúnaður er úreltur og í vaxandi mæli illa bjóðandi sjúklingum og starfsfólki.
  • Starfsfólk flýr í hlutastörf eða varanlega til hinna Norðurlandanna, ekki síst Noregs. Nýútskrifað fagfólk í læknisfræði og fleiri greinum kýs í auknum mæli að koma ekki til starfa á Íslandi.
  • Íslenski heilbrigðisgeirinn er ekki samkeppnisfær í launakjörum, hvorki fyrir lækna né aðra sérfræðinga.
  • Heilsugæslan, sem á að vera fyrsti viðkomustaður og stýra aðgengi að dýrum sérfræðilæknum (og þar með auka hagkvæmni verulega), er í langtíma hnignun og hefur þegar látið verulega á sjá.

Þetta eru grafalvarleg mál – öll sömul.

Þetta ástand kallar á þjóðarátak til að bregðast við áður en óbætanlegt tjón verður á gæðum heilbrigðisþjónustunnar, með vítahring samdráttar og niðurskurðar og frekari flótta ómetanlegs fagfólks.

Breytt forgangsröðun og/eða niðurskurður eru engin boðleg úrræði. Það þarf endurnýjun og umbætur. Framsókn en ekki afturför. Einkarekstur er almennt ekki ódýrari en ríkisrekstur, þó ástæðulaust sé að útiloka hann með öllu. Stórtæk einkavæðing væri að fara úr öskunni í eldinn hvað kostnað snertir.

Í þessu samhengi veldur miklum vonbrigðum að stjórnvöld hafi afsalað sér réttmætri hækkun veiðigjaldsins og hóflegri hækkun virðisaukaskatts á gistingu erlendra ferðamanna – auk þess að fella niður auðlegðarskatt á þá sem stórgræddu á bóluárunum 2003 til 2007.

Ef þessir skattstofnar væru nú nýttir eins og til stóð væri hægt að ráðast í verulegar umbætur í heilbrigðismálunum, þar með talið að hefja byggingu hins nýja Landsspítala (sem sparar rekstrarkostnað til lengri tíma).

Bygging Landsspítalans væri þar að auki kærkomin örvun fyrir byggingariðnaðinn, sem myndi stuðla að auknum hagvexti og minna atvinnuleysi.

Það er líka sparnaður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar