Mánudagur 05.08.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Kostnaður Íslands af hruninu – samanburður

Í nýlegri rannsókn á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lagt mat á kostnaðinn af fjármálakreppunni frá 2007 til 2009. Ísland er borið saman við helstu kreppulöndin (sjá hér).

Niðurstöðurnar eru að miklu leyti samhljóða niðurstöðum rannsókna Reinhart og Rogoff (2009) hvað varðar orsakir og einkenni fjármálakreppa eftir 1980, en höfundarnir grundvalla rannsókn sína á miklum gagnabanka um fjármálakreppur á tímabilinu 1970 til nútímans, sem þeir hafa byggt upp hjá AGS.

Algengt einkenni í aðdraganda fjármálakreppanna, sem höfundarnir Laeven og Valencia draga fram, er umtalsverð aukning skulda í einkageira, sem kom gjarnan í kjölfar aukins frelsis á fjármálamörkuðum (afreglunar, aukinna lausataka og nýmæla í starfsháttum, t.d. með aukinni skuldabréfavæðingu), samhliða auknu framboði lánsfjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Skuldasöfnunin var almennt mest hjá bönkum, heimilum eða fyrirtækjum. Á Íslandi voru það bankarnir og fyrirtækin sem söfnuðu langmestu skuldunum, sem á endanum keyrðu Ísland fram af bjargbrúninni (sjá hér).

 

Þríþætt mat á kostnaði af fjármálakreppunni

Höfundarnir leggja þríþætt mat á kostnað af fjármálakreppunni í helstu kreppulöndunum 2007 til 2009. Eftirfarandi eru mælikvarðarnir:

  • Beinn kostnaður við að endurreisa eða bjarga bankakerfinu (% af landsframleiðslu)
  • Aukning opinberra skulda (% af landsframleiðslu)
  • Töpuð framleiðsla (miðað við lengri tíma þróun, þ.e. leitni)

Á myndunum hér að neðan má sjá niðurstöðurnar um kostnað af fjármálakreppunni á Íslandi í samanburði við helstu kreppulöndin.

Ísland var með mestan beinan kostnað af endurreisn bankakerfisins og mesta aukningu opinberra skulda vegna hrunsins, en töpuð framleiðsla varð mun meiri á Írlandi og í Lettlandi en á Íslandi.

 

Beinn kostnaður af endurreisn fjármálakerfisins – mestur á Íslandi og í Hollandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.05 PM

 

Aukning opinberra skulda – langmest á Íslandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.26 PM

 

Töpuð framleiðsla – mest í Lettlandi og á Írlandi:

Screen shot 2013-08-05 at 11.13.45 PM

 

Inn í þetta mat vantar svo kostnað vegna kjaraskerðingar heimilanna og vegna vaxtagreiðslna af opinberum skuldum sem skattgreiðendur munu bera langt inn í framtíðina.

Kaupmáttarrýrnun heimilanna varð hvergi meiri en á Íslandi (sjá hér).

Það er því mikið í húfi að skuldalækkunin til heimilanna sem Framsóknarflokkurinn boðaði nái fram að ganga sem fyrst. Einnig væri gott ef afskriftir krónueigna erlendra kröfuhafa dygðu að auki til að lækka opinberar skuldir um nokkur hundruð milljarða króna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar