Fimmtudagur 15.08.2013 - 00:11 - FB ummæli ()

Brást kapítalisminn?

Hér að neðan má sjá nýlegt myndband frá Institute for New Economic Thinking í Bretlandi, með afar athyglisverðri umræðu um kapítalisma nútímans og fjármálakreppuna.

Þekktur þáttastjórnandi á Al Jazeera ræðir við Adair Turner, fyrrverandi formann breska Fjármálaeftirlitsins (FSA) um kreppuna, orsakir hennar, afleiðingar og nauðsynleg viðbrögð. Fleiri málsmetandi aðilar taka þátt í umræðunni.

Turner segir kapítalismann ekki hafa brugðist sem slíkan, heldur hafi ríkjandi viðhorf síðustu áratuga leitt hann afvega. Þar vísar hann til aukinna áhrifa frjálshyggju á fjármálamarkaði, sem ágerðist frá áttunda áratugnum. Hverfa þarf frá þeim viðhorfum með meira afgerandi hætti en gert hefur verið, segir Adair Turner.

Turner sakar eftirlitsaðila (þar með talið FSA sem hann stýrði) og seðlabanka um að hafa leyft breytta skipan fjármálamarkaða sem gerði bönkum kleift að skuldsetja sig meira en áður – langt úr hófi fram. Á Íslandi keyrði slík þróun lengra afvega en annars staðar, með hrikalegum afleiðingum hrunsins.

Hann telur einnig að regluverkið um fjármálakerfið hafi verið of flókið og ómarkvisst, auk þess að sjá ekki nægilega vel við nýjungum og undanbrögðum markaðsaðila.

Turner segir eigið fé og bindiskyldu fjármálastofnana hafa verið ófullnægjandi. Bönkum hafi verið leyft að skuldsetja langt umfram það sem þeir gátu staðið undir. Auka þurfi í framhaldinu kröfur um eigið fé og handbært reiðufé, því bankar þurfi meiri styrkleika til að taka á sveiflum og áföllum. Efla og bæta þarf fjármálaeftirlitið.

Athyglisverð ábending hjá Adair Turner er sú, að aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum hafi átt þátt í að gera kreppuna alvarlegri og dýpri en ella hefði orðið. Það liggur í því, að tekjur milli og lægri stétta jukust afar lítið eða ekkert frá um 1980, en í staðinn var fólki í þeim stéttum boðið að skuldsetja sig meira en áður, til að halda uppi lífsstandardinum (“let them eat kredit”!), m.a. með undirmálslánum.

Þá leggst hann gegn niðurskurðarleiðinni („austerity policies“) sem beitt er í allt of miklum mæli í Evrópu og mælir í staðinn með hressilegum örvunaraðferðum í anda John Maynard Keynes, líkt og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman hefur gert. Segir hann m.a. að peningaprentun seðlabanka til að fjármagna aukin útgjöld ríkisins sé viðeigandi í ríkjandi kreppuaðstæðum (“helicopter money”).

Með slíkum rökum mætti réttlæta stofnun sjóðs í Seðlabanka Íslands til að létta af heimilunum húsnæðisskuldum, uns tekst að leysa snjóhengjuvandann með samningum við erlenda kröfuhafa, samkvæmt hugmyndum Framsóknar. Það kæmi hagvextinum á góðan skrið. Þetta mættu stjórnvöld hafa í huga.

Adair Turner er einn af virtustu áhrifamönnum Vesturlanda á sviði fjármála. Það er því afar fróðlegt að heyra mat hans á orsökum og afleiðingum kreppunnar – sem og hugmyndir hans um leiðir út úr kreppunni.

Hann segir okkur hvernig megi koma kapítalismanum í lag, eftir feigðarflan frjálshyggjunnar.

Þessi umfjöllun á meira erindi við Íslendinga en flestar aðrar þjóðir.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar