Laugardagur 17.08.2013 - 11:56 - FB ummæli ()

AGS og gjaldeyrishöftin

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til gjaldeyrishöft eftir hrun til að aftra því að krónan félli meira en orðið var. Hvers vegna var það gert?

Jú, það var til að aftra því að kjaraskerðing heimilanna og hækkun erlendra skulda (í krónutölu) yrði enn verri en þó varð. Ísland hafði þegar sett Evrópumet í kaupmáttarrýrnun krónunnar þegar höftin voru sett á.

Gjaldeyrishöftin voru ekki síst til að verja heimilin fyrir enn stærri áföllum en hér urðu. Það er einhvers virði!

Nú vilja menn hins vegar afnema höftin sem fyrst. Talsmenn fjármálaafla og atvinnulífs fara þar fremstir og stjórnmálamenn á hægri væng, einkum í Sjálfstæðisflokki. Þeir segja það nauðsynlegt til að greiða fyrir aukinni fjárfestingu í atvinnulífinu og auka hagvöxt.

En eru það mikilvæg rök?

Það held ég ekki. Ísland hefur almennt ekki stólað á atvinnulífsfjárfestingu erlendis frá nema til orkufreka iðnaðarins, sem hefur verið gerð á sérkjörum. Þar fyrir utan er enginn skortur á fjárfestingarfé hér innanlands. Lífeyrissjóðir og bankar eru bakkafullir af fé sem skortir fjárfestingarverkefni.

Auk þess binda höftin ekki nýtt fjárfestingarfé sem kemur erlendisfrá, heldur fé sem var hér þegar við hrun.

Það er hins vegar tvennt sem sem heldur aftur af fjárfestingu í hagvextinum:

  • Hátt skuldastig fyrirtækja og ríkisins, sem leyfir ekki frekari skuldsetningu
  • Of lélegur kaupmáttur almennings, sem þýðir of lítil eftirspurn eftir vörum og þjónustu atvinnulífsins

En hvers vegna er þá lögð svo mikil áhersla á afnám gjaldeyrishaftanna, ef það þarf ekki til að auka fjárfestingu í hagvexti?

 

Hverjir vilja helst afnám gjaldeyrishaftanna?

Svar við því má finna í sérathugun AGS sem birt er með nýjustu skýrslu sjóðsins um Ísland (hér).

Sjóðurinn leggur mat á hversu miklar eignir íslensks efnafólks muni vilja leita úr landi við afnám gjaldeyrishafta. Það eru verulegir fjármunir –  hundruð milljarða.

Þar liggur kanski helsta ástæðan fyrir miklum þrýstingi á afnám gjaldeyrishaftanna? Ríkir og áhrifamiklir Íslendingar vilja koma fé sínu úr landi.

Hin megin ástæðan er þrýstingur frá stjórnendum lífeyrissjóðanna, sem vilja geta fjárfest erlendis líka. Slíkt verður þó að bíða þess að þjóðin hafi nægan gjaldeyri, auk þess sem varast verður að fórna með því kaupmætti sjóðfélaga (vinnandi almennings) með öðru hruni krónunnar, sem gæti fylgt of hröðu afnámi gjaldeyrishaftanna.

 

AGS-leiðin: hægfara og skilyrt afnám haftanna

AGS-menn eru greinilega meðvitaðir um hættuna á öðru hruni krónunnar og vara við því. Þess vegna leggja sérfræðingar sjóðsins til að afnámið verði tekið í skilyrtum skrefum, með “hraðahindrunum” (takmörkunum) á hverjum tíma, svo hægt verði að grípa inní til að verja krónuna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin.

AGS nefnir að afnám gjaldeyrishaftanna geti tekið allt að átta árum með slíkum hraðahindrunum, þegar hliðsjón er höfð af umfangi fjárins sem leita mun úr landi.

Þetta finnst sumum alltof langur tími.

Hins vegar er rétt að hafa í huga að gjaldeyrishöftin eru ekki alvarleg hindrun á neitt, nema frelsi efnafólks til að flytja fé í stórum stíl úr landi. Raunar hamla þau einnig frelsi til lántöku einkaaðila erlendis, en það er gott – því óhófleg slík lántaka setti þjóðarbúið á hausinn.

Gjaldeyrishöft aftra almennt ekki hagvexti né öðrum framförum. Hægt er að flytja inn flest allt sem almenningur og atvinnulífið þarfnast, þrátt fyrir höftin.

Þess vegna er óhætt að taka tíma til að létta þeim af í traustum skrefum og forða þannig kollsteypu krónunnar og heimilanna.

Munum það, að Íslendingar urðu ein af ríkustu þjóðum heims í skjóli gjaldeyrishafta. Þau voru hér við lýði til ársins 1995, en þá vorum við löngu komin í hóp hagsælustu þjóða Vesturlanda (sjá hér).

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar