Fimmtudagur 05.09.2013 - 20:58 - FB ummæli ()

Láglaunalandið Ísland: Förum nýja leið

Nýleg gögn frá Eurostat og Hagstofu Íslands sýna að kaupmáttur tímakaups á Íslandi var um 82% af meðaltali ESB-ríkja á árinu 2010. Samt er þjóðarframleiðsla á mann yfir meðaltali ESB-ríkja.

Ísland er óeðlilega mikið láglaunaland, miðað við ríkidæmi þjóðarinnar.

Íslendingar hafa löngum bætt sér upp hið lága kaup með því að vinna mikla yfirvinnu og með því að hafa tvær fyrirvinnur á heimili. Langur vinnutími og mikið vinnuálag á fjölskyldur hefur því verið fastur liður í kjaramálum þjóðarinnar. Það er ekki til fyrirmyndar.

Við vinnum um 8 klukkustundum lengur en Norðmenn á viku hverri. Það er einn virkur dagur sem við erum lengur í vinnu en Norðmenn – á hverri viku. Einn heill dagur! Það er mikill munur á lífskjörum.

Hvar við erum stödd í raunverulegum kaupmætti tímakaups á árinu 2010 má sjá á samanburðinum hér að neðan. Við erum allt of neðarlega.

Tímakaup í ESB

Svo segja menn að þetta sé vegna þess að framleiðni á vinnustund sé svo lág á Íslandi!

En við vitum það líka, að margir eru að vinna lengri vinnutíma vegna lágra launa – og langur vinnutími leiðir til minni framleiðni. Þetta er vítahringur. Við þurfum að brjótast út úr honum sem allra fyrst.

Íslendingar þurfa nú að fá kaupmáttaraukningu. En samhliða því eigum við að fara í þjóðarsátt um tvennt:

  • Að berjast af mikilli hörku gegn verðhækkunum (eins og gert var upp úr 1990, með árangri).
  •  Launþegar, atvinnurekendur og ríkisvaldið eiga einnig að fara í átak til að auka framleiðni. Stefna ætti að auknum afköstum samhliða styttri vinnutíma. Ná ætti sömu afköstum á 40 klst. og nú fást á 45 stundum – og færa yfirvinnulaunin inn í dagvinnulaunin.

Með slíkri þjóðarsátt um skynsama en ákveðna aukningu kaupmáttar getur Ísland bætt samkeppnishæfni sína fyrir launafólk. Það styrkir stöðu atvinnulífsins, með aukinni eftirspurn – eflir hagvöxt.

Með betri samkeppnishæfni fyrir launafólk hættum við að tapa gæðafólki til útlanda.

Samkeppnishæfni er ekki bara fyrir fyrirtæki. Mun mikilvægara er að ná samkeppnishæfni fyrir launafólk.

Það er forsenda búsetu á Íslandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar