Mánudagur 09.09.2013 - 22:37 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan: Leiðin til skuldaánauðar

Ein frægasta bók frjálshyggjunnar er Leiðin til ánauðar, eftir Friðrik von Hayek. Hún var skrifuð á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hayek var efst í huga að auka hlutverk markaðarins og minnka ríkisafskipti. Boðskapur hans var að allt sem markaði tengist sé gott, en allt sem ríkið gerir slæmt.

Hayek hafði horft upp á aukin ríkisafskipti á árum kreppunnar miklu og síðan stórjukust þau með styrjaldarrekstrinum. Hann óttaðist um hlutskipti markaðarins og einkageirans.

Í huga hans jafngiltu aukin ríkisafskipti auknu alræði og ófrelsi. Hann hafði ekki mikla trú á fulltrúalýðræði og velferðarríki. Bókin var skrifuð til að vara lesendur við að blandaða hagkerfið myndi leiða til of mikilla ríkisafskipta sem gætu ekki annað en endað í alræði fárra yfir fjöldanum.

Hayek hafði hins vegar algerlega rangt fyrir sér um þetta.

Þróunin á kreppuárunum (1929 til 1939) var afleiðing þess að óheftir markaðir höfðu farið illa afvega, en það leiddi til hrunsins á Wall Street 1929 og djúprar kreppu í kjölfarið. Markaðurinn og einkageirinn brugðust, eins og á Íslandi í aðdraganda hrunsins. Óheftir markaðir leiða oft til slíks ófarnaðar. Þess vegna þarf ríkið og samfélagið að hemja markaðina í þágu almannahags. Það gerir blandaða hagkerfið.

Blandaða hagkerfið sem tók við eftir seinni heimsstyrjöldina leiddi ekki til ánauðar, eins og Hayek spáði, heldur til mesta framfaraskeiðs í sögu mannkyns, með auknum hagvexti, auknu lýðræði, bættum kaupmætti almennings, bættri menntun og aukinni velferðarþjónustu. Úr stéttaskiptingu dróg. Allt gekk upp fyrir almenning á Vesturlöndum.

Framfaraskeið blandaða hagkerfisins stóð fram undir 1980, en þá tóku frjálshyggjuáhrif að aukast á ný.

Annað sem tengist frjálshyggjuáhrifunum er aukið frelsi og afskiptaleysi á fjármálamörkuðum. Meðal annars vegna þess að hægri menn veikja eftirlitsiðnaðinn (ríkisafskiptin) um of. Það hefur í för með sér mikla hættu á fjármálakreppum, auknum ójöfnuði og skuldaánauð.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig skuldir bandaríska þjóðarbúsins tóku að aukast á ný upp úr 1980 og náðu hámarki í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Slide1

Frjálshyggjuáhrifin leiddu til sívaxandi skuldaánauðar upp úr 1980, bæði hjá heimilum og ríkinu. Það er raunar mögnuð þversögn.

Frjálshyggjuboðskapur Hayeks átti að leiða til aukins frelsis fyrir alla – í orði kveðnu. En eina frelsið sem jókst var frelsi auðmanna og bankamanna. Auðmenn græddu mikið en almenningur festist í þrældómi skuldaánauðar. Fólk í USA skuldsetti sig t.d. meira vegna þess að kaupmáttur launa stóð í stað eða lækkaði eftir 1980.

Kostnaður við að koma hagkerfum heimsins upp úr rústum frjálshyggjuhrunsins nú eykur svo skuldaánauð skattgreiðenda framtíðarinnar.

Frjálshyggjan reyndst vera hugmyndafræði sem miðaði að bættum hag auðmanna á kostnað almennings, en drekkti í leiðinni þjóðarbúinu og heimilunum í skuldum.

Skuldaþrælar eru ekki frjálsir – heldur í ánauð.

Frjálshyggjan er “leiðin til (skulda)ánauðar”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar