Föstudagur 04.10.2013 - 21:40 - FB ummæli ()

Mistök ríkisstjórnarinnar?

Það er auðvitað hægt að hafa ýmsar skoðanir á fjárlögunum.

En ef mið er tekið af málflutningi aðstandenda ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar þá blasa við a.m.k. þrenn stór mistök í fjárlagafrumvarpinu.

  • Meðferðin á Landsspítalanum
  • Undanhald í nýsköpun.
  • setja auðmenn í forgang í skattalækkunum

Allir voru sammála um að nú væri komið að umskiptum fyrir Landsspítalann. Læknar, stjórnmálamenn og almenningur töluðu einum rómi – af mikilli alvöru. Þeirra á meðal voru núverandi heilbrigðismálaráðherra  og einnig formaður fjárveitinganefndar.

Hver er svo uppskeran?

Engin aukning og sérstakt framlag vinstri stjórnarinnar til tækjakaupa (um 600 m.kr.) er fellt niður! Að auki er sérstakur skattur lagður á sjúklinga (gistináttagjald).

Forstjórinn lét ekki bjóða sér þetta og hætti samstundis.

Þau ljós sem kveikt voru í fyrra eru slökkt á ný, þ.e. aukið rými til tækjakaupa, sérstök launahækkun til starfsfólks og áform um nýbyggingar. Hnignunin heldur því áfram.

Þetta eru slæm mistök. Ríkisstjórnin hefði frekar átt að bæta einum til þremur milljörðum til Landsspítalans strax og marka stefnu um frekari uppbyggingu á næstu þremur árum.

Bæði heilbrigðismálaráðherra og formaður fjárlaganefndar viðurkenna nú að hæpið sé að leggja gistináttagjald á sjúklinga. Segjast vonast til að Alþingi breyti því!

Hvers vegna voru þau þá að leggja þetta til, með Bjarna Benediktssyni?

Datt þeim í hug að skattur á veikasta fólk landsins yrði vinsæll?

 

Nýsköpun kæfð

Vinstri stjórnin virðist hafa haft meiri skilning á gildi nýsköpunar fyrir hagvöxt en núverandi stjórn. Það kom fram í sérstökum skattaívilnunum til nýsköpunarfyrirtækja sem vinstri stjórnin innleiddi.

Nýsköpun var einnig hjartað í fjárfestingaráætlun fyrri stjórnarinnar, sem átti að fjármagna með hagnaði af bönkunum (arði og sölu hluta) og með nýja veiðigjaldinu. Fjárfestingaráætlunin var vel hugsað plan um hagvaxtarörvun, sem gæta átti um allt land, t.d. í sóknaráætlunum landshlutanna.

Meðal annars átti að tvöfalda fé í rannsóknar- og þróunarsjóðum, sem skiptir miklu fyrir nýsköpun.

Þetta er allt blásið af.

Skynsamlegra hefði verið hjá ríkisstjórn sem vill auka hagvöxt að tvöfalda eða þrefalda fjárveitingar til viðfangsefna fjárfestingaráætlunarinnar.

En það er sem sagt allt blásið af. Raunar er ekki að sjá nein merki örvunar í nýja fjárlagafrumvarpinu.

Halda menn að niðurskurður án örvunar skapi hagvöxt?

 

Mistök að setja auðmenn í forgang

Það má líka telja mistök hjá ríkisstjórninni að setja auðmenn í forgang, með lækkun veiðigjaldsins og afnámi auðlegðarskattsins. Einnig með lækkun álagningar í milliþrepi sem skilar mestu til þeirra tekjuhærri.

Sjálfstæðismenn töluðu fyrir kosningar eins og skattar allra yrðu lækkaðir, en ekki bara skattar þeirra ríkustu.

Þó væri skrítið að kalla þetta mistök, því þetta er jú það sem Sjálfstæðisflokkurinn í reynd setur í forgang – að bæta hag þeirra ríkustu.

 

Síðasti pistill: Eldhafið í Evrópu!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar