Sunnudagur 06.10.2013 - 23:43 - FB ummæli ()

Orsakir hrunsins – í fræðilegu samhengi

Margt hefur skýrst um orsakir íslenska hrunsins á síðustu árum.

Hrunið byrjaði sem hrun hlutabréfamarkaðarins haustið 2007. Síðan tók við hrun krónunnar frá ársbyrjun 2008 og loks kom hrun bankanna í október 2008. Eftir það hrundi traust á stjórnvöldum og efnahagslífið sökk í kreppu, sem náði botni á árinu 2010.

Hrunið kom í kjölfar óvenju stórs bóluhagkerfis sem byrjaði 1998 til 2001, eins og Gylfi Zoega hagfræðiprófessor benti á í nýlegum athyglisverðum fyrirlestri (hér). Síðan tók hagkerfið flugið aftur með mun róttækari hætti frá og með árinu 2003, eftir að bankarnir voru að fullu komnir í einkaeign vildarvina stjórnvalda.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins tvöfölduðust frá 1997 til 2001 en áttfölduðust svo frá 2002 til 2008 (sjá hér).

 

Íslenska bólan var af sama toga og aðrar bólur – en stærri og gáleysislegri

Í megindráttum er bóluhagkerfið og hrunið á Íslandi eins og flestar erlendar fjármálakreppur – bæði í aðdraganda og afleiðingum. Sérstaðan á Íslandi var einkum sú, að hér gerðust hlutirnir með meiri hraða og gengu lengra en annars staðar hefur sést. Þannig varð t.d. skuldasöfnun þjóðarbúsins (einkum bankanna og fyrirtækja) eftir 2002 meiri en annars staðar hefur áður sést (sjá hér og hér).

Þannig liggur beinast við að skoða ríkjandi kenningar um fjármálakreppur þegar skýra skal íslensku fjármálakreppuna, bóluna og hrunið.

Á myndinni hér að neðan eru samantekin helstu einkenni á aðdraganda og orsökum fjármálakreppa, samkvæmt áhrifamiklum fræðiritum um efnið.

Slide2

Flestar fjármálabólur byrja í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaði, bæði með afreglun (deregulation), nýmælum sem skapa aukið framboð fjármagns (t.d. skuldabréfavæðingu og vafningum o.fl.) og öðru sem eykur aðgengi að fjármagni. Í alþjóðlega umhverfinu magnaðist svo áhættan af þessu með auknu framboði lánsfjár á lágum vöxtum eftir 2001.

Eftir 1980 hafði víða á Vesturlöndum aukist trú margra á sjálfstýringarmætti óheftra markaða, sem jók andvaraleysi og afskiptaleysisstefnu. Þar með var dregið úr eftirliti og aðhaldi opinberra stofnana og stjórnvalda. Frjálshyggjan barðist einmitt gegn ríkisafskiptum, þ.m.t. eftirlitsiðnaði og fjármálaeftirliti sérstaklega.

Eins og Hyman P. Minsky sýndi fyrir löngu leiða slíkar aðstæður, með auknu frelsi og auknu aðgengi að lánsfé, til aukinnar bjartsýni, aukinna fjárfestinga og aukins brasks eða spákaupmennsku. Þensla eykst, með aukinni gróðasókn og auknum ójöfnuði, því það eru einkum aðilar úr yfirstéttinni sem taka þátt í fjármálabraski og hagnast mikið á uppsveiflunni.

Allt leiðir þetta til aukinnar skuldasöfnunar. Í þeim skilningi er mikil aukning skuldasöfnunar mikilvægasta hættumerkið um yfirvofandi fjármálakreppu, því ör skuldasöfnun magnar ofþenslu, eignaverð og önnur bóluáhrif – auk þess að stórauka áhættur hvers konar.

Því meiri sem skuldasöfnunin er, þeim mun meiri líkur eru á að illa fari og ekki takist að forða brotlendingu, þegar hægir á framboði fjár á mörkuðum eða þegar eignaverð falla með stórauknu framboði í kjölfar versnandi ástands – eða bara þegar traust lánveitenda þrýtur.

Hér á Íslandi varð skuldasöfnun þjóðarbúsins sem sagt meiri en áður hefur sést í fjármálasögunni, að mati Reinhart og Rogoffs. Það eitt og sér segir mikið um þróunina sem hér varð. Írland var næst því að jafna hina geigvænlegu skuldasöfnun Íslendinga.

Saman fóru alþjóðleg áhrif, klassísk bólueinkenni og séríslenskar aðstæður sem mögnuðu þróunina langt úr hófi.

 

Séríslenskar aðstæður mögnuðu bóluna

Þó íslenska bólan og hrunið hafi um margt verið í anda flestra þekktra fjármálakreppa, þá gætti einnig sérstakrar þróunar á Íslandi. Þróunin hér varð jú öfgafyllri eða gáleysislegri en í öðrum vestrænum löndum. Hvað olli því?

Eftirfarandi eru helstu séríslensku þættirnir sem mögnuðu bóluna og gerðu sitt til að hrunið varð stærra og hrikalegra en í flestum öðrum löndum.

  • Of náin samgangur stjórnmála og viðskipta til lengri tíma. Þetta veikti ríkisvaldið um leið og það styrkti fjármálaöflin og færði þeim meira frelsi til að fara afvega. Slíkt ástand eykur gjarnan klíkukapítalisma og fyrirgreiðsluspillingu. Slíkt fyrirkomulag hefur verið ríkur þáttur íslenska samfélagsins allan lýðveldistímann.
  • Hröð umskipti frá langvarandi ríkisafskiptakerfi til frjálsra markaðshátta, einkum frá og með 1995, skapaði verulegar nýjar áhættur, ekki síst í ljósi veiks ríkisvalds sem aðhylltist afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar. Þessu tengdust m.a. fjármálavæðing sjávarútvegs og aðildin að EES (sem innleiddi algert frelsi til fjármagnsflutninga milli landa, sem var mikið nýmæli á Íslandi).
  • Misheppnuð einkavæðing bankanna kom síðan til sögunnar, beint í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaðinum íslenska (nýir eigendur bankanna höfðu ekki reynslu af alþjóðlegri fjárfestingabankastarfsemi, en sökktu sér djúpt í slíka starfsemi strax – og fóru geist).
  • Oftrú á óhefta markaði og ókunnugleiki áhrifamikilla íslenskra hagfræðinga og stjórnmálamanna á hættum sem fylgja óheftum fjármálamarkaði.
  • Skortur á faglegri gagnrýni í þjóðmálaumræðunni og veikir fjölmiðlar. Möntrur óheftrar peningahyggju og afskiptaleysisstefnu áttu því of greiðan aðgang að þjóðinni og mögnuðu agaleysið – og áhætturnar.
  • Mistök í stjórnun peningamála og fjármála almennt, sem meðal annars mögnuðu upp ofþensluna (t.d. álver sem bættist við öfgafulla skuldabólu; létting bindiskyldu þegar þörf var á öndverðum aðgerðum; stórlækkun skatta á fjármagnstekjur þegar ástæða var til að veita viðnám gegn braski).
  • Kunningjasamfélag, með of nánum tengslum aðila sem ættu að veita hver öðrum aðhald.
  • Of mikil samþjöppun eignarhalds (krosseignatengsl), bæði á fyrirtækjum, bönkum og fjölmiðlum. Þetta stórjók áhættur og færði fjármálamönnum og atvinnurekendum of mikil völd í samfélaginu.
  • Landlægur skortur á reglufestu og aga.

Allt þetta varð sem sagt til þess að skuldasöfnun þjóðarbúsins varð geigvænleg. Þróunin varð öfgafyllri og gáleysislegri en í öðrum vestrænum löndum. Þegar alvarlegar viðvaranir bárust erlendis frá haustið 2005 og vorið 2006 þá voru það síðustu forvöð til að hemja þróunina og aftra stórslysi.

Það var ekki gert, heldur gefið í og brugðið á það ráð að fegra aðstæðurnar (með aðstoð fræðimanna og stjórnmálamanna).  Síðan var tekið til við að afla bönkunum skammtímalána með yfirboðum vaxta á innlánsreikningum á internetinu (Icesave o.fl.), þegar erlendir fjármálamarkaðir lokuðust. Það seinkaði uppgjörinu og stórjók tjónið sem af hlaust.

 

Niðurstaða

Þarna fóru því saman stóraukið frelsi á fjármálamarkaði á stuttum tíma, mikil oftrú á sjálfstýringu og hagkvæmni markaða, afskiptaleysisstefna, ókunnugleiki og andvaraleysi gagnvart augljósum áhættum, og veikt eftirlit Seðlabanka,  Fjármálaeftirlits og stjórnvalda.

Afleiðingin var taumlaust brask með auðfengið lánsfé, sem fól í sér gríðarlegar áhættur. Þróunin varð fljótlega ósjálfbær. Það tók nýja eigendur stærstu bankanna einungis um fimm ár að reka þá alla í þrot, með óhóflegum lánveitingum til braskara, ekki síst til þeirra sjálfra.

Þegar íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn knúðu dyra í seðlabönkum vestrænna grannríkja á árinu 2007 og 2008 með hjálparbeiðni, var þróunin á Íslandi of langt gengin til að hægt væri að bjarga bönkum sem voru allt að  tífalt stærri en þjóðarbúið sjálft. Íslandi var vísað á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem veitir neyðaraðstoð með uppbyggilegum skilyrðum fyrir þá sem hafa farið sér að voða.

Þjóðin hefði ekki verið borgunaraðili fyrir þeim lánveitingum sem þörf var á til að bjarga bankakerfinu. Að auki hefði slíkt bundið þjóðina á mun verri skuldaklafa en á endanum varð.

Bólan og fyrirhyggjuleysið voru svo langt gengin á árinu 2007 að hrunið var þá óumflýjanlegt.

Frá haustinu 2007 var einungis tímaspursmál hvenær blaðran myndi springa.

———————————-

Helstu heimildir: Hyman P. Minsky (2008); Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff (2009 og 2011); Charles P. Kindleberger og Robert Aliber (2005); Nourini Roubini og Stephen Mihm (2011); Joseph Stiglitz (2010); Gary B. Gorton (2012); Posner (2011 og 2012); Martin H. Wolfson og Gerald A. Epstein (2012); Rannsóknarnefnd Alþingis (2010); Robert Aliber og Gylfi Zoega (ritstj. 2011).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar