Laugardagur 16.11.2013 - 11:15 - FB ummæli ()

Óábyrg stjórnun íslenskra fyrirtækja

Ég hef áður bent á að það voru stjórnendur fyrirtækja sem ásamt bankamönnum drekktu Íslandi í skuldum á bóluárunum fyrir hrun, en ekki heimilin eða stjórnvöld (sjá hér).

Hrunið varð vegna þess að skuldsetning þjóðarbúsins alls var orðin algerlega ósjálfbær og þoldi ekki breytingar í umhverfi alþjóðlega fjármálamarkaðarins, þ.e. að lánsféð hætti að streyma til landsins.

Eftir hrun fór stór hluti íslenskra fyrirtækja “tæknilega” á hausinn og þurftu mikla aðstoð og skuldaafskriftir til að geta starfað áfram. Án slíkrar aðstoðar hefði hagkerfið allt hrunið – mun verr en þó varð.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig skuldsetning íslenskra fyrirtækja var úr öllu samhengi við það sem var að gerast í löndum í okkar umhverfi. Myndin kemur úr nýjustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika (bláa línan efst er fyrir Ísland).

Skuldir fyrirtækja til 2012

Skuldir fyrirtækjanna fóru hæst í meira en 300% af landsframleiðslu, langt umfram það sem verst var í samanburðarlöndunum.

Þetta segir okkur að stjórnun íslenskra fyrirtækja var óvenjulega óábyrg á árunum frá 2003. Við vitum auðvitað líka að stjórnun bankanna var afleit.

Svona upplýsingar komu ekki fram á meðan þetta var að gerast. Menn áttuðu sig ekki almennilega á gríðarlegri skuldsetningu þjóðarbúsins fyrr en á árinu 2007. En þá sóttu frjálshyggjumenn vúdú-hagfræðinginn Arthur Laffer til landsins og hann sagði að allt væri í allra besta lagi hér! Hann gaf helsjúku ástandi heilbrigðisvottorð! Það þarf jú vúdú-menn til að gera slíkt…

Þarna liggur ein af stóru orsökunum fyrir hruninu, þ.e. í ofurskuldsetningu fyrirtækja og banka. Þarf ekki að fyrirbyggja að slíkt gerist aftur, með því að girða fyrir áhættur og ábyrgðarleysi?

Fáir tala um þörf á því. Óheft frelsi atvinnurekenda og fjármálamanna virðist heilagt.

Í staðinn eru stjórnvöld nú að undirbúa afnám reglugerða, eftirlits og aðhalds, með veikingu þess sem frjálshyggjumenn og atvinnurekendur kalla “eftirlitsiðnaðinn”. Það á að fækka hamlandi reglum, eftirliti og draga úr aðhaldi með fyrirtækjum, nokkrum misserum eftir að fyrirtækin keyrðu þjóðarbúið fyrir björg!

Viðskiptaráð er einn helsti hagsmunavörður og þrýstihópur fyrirtækjanna á Íslandi. Fyrir hrun fengu þeir, að eigin sögn, um 90% af stefnumálum sínum framkvæmd af stjórnvöldum þess tíma. Enn er hlustað á  frjálshyggju-boðskapinn frá þeim.

Sú frelsisaukning sem Viðskiptaráð barðist fyrir hjálpaði stjórnendum til að stýra fyrirtækjunum með þeim hætti sem sjá má á mynd Seðlabankans hér að ofan. Á kaf í skuldir og endanlega fyrir björg!

Aðhald og eftirlit hefði betur verið öflugra og í stakk búið til að aftra stórslysum. Afreglun og oftrú á óhefta markaðinn er jú ein af helstu ástæðum fjármálakreppunnar. Þetta sýnir okkur mikilvægi öflugs fjármálaeftirlits og upplýsingagagnsæis.

Hvers vegna eru menn svona ákveðnir í að læra lítið af mistökunum sem leiddu til hrunsins?

Erum við þrælar frjálshyggjuhugmyndafræðinnar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar