Fimmtudagur 09.01.2014 - 12:09 - FB ummæli ()

Launþegum sýndur fingurinn

Svona er staðan:  Hér var gerður kjarasamningur í skjóli jóla um 2,8% almenna kauphækkun og smá aukauppbót á lægstu laun. Verðbólgan var nærri 4% þegar sá samningur var gerður og verðbólguspá fyrir samningstímann (eitt ár) er um 3,6%.

Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar vonast til að kauphækkun sem er undir verðbólguspánni verði til að draga úr verðbólgu. Það er krefjandi forsenda og hæpið að gangi eftir.

Samhliða þessu lofuðu stjórnvöld og atvinnurekendur (sem ákveða sjálfir verðlagið á vöru og þjónustu) að halda verðhækkunum í hófi á samningstímanum. Það myndi hjálpa til að ná markmiði Seðlabankans um 2,5% verðbólgu. Kaupmáttaraukning yrði samt lítil sem engin.

Nú í fyrstu viku gildistíma samninganna skella hins vegar á verðhækkanir sem sumar hverjar eru margfaldar þessar kauphækkanir. Allt upp í 20% hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu er þar á meðal.

Þetta er meira að segja áður en kjarasamningarnir hafa verið bornir undir atkvæði félagsmanna!

Þeir sem þetta gera virðast gefa sér að fólk sé fífl, þ.e. að launþegar muni samþykkja samninginn jafnvel þó forsendurnar séu brostnar – strax í fyrstu viku samningstímans!

Það er eins og hægt sé að bjóða launafólki á Íslandi hvað sem er. Sýna bara fingurinn!

 

Verðtrygging launa er nú tímabær

Mér sýnist að nú sé lag til alvöru breytinga í kjarasamningum.

Ef launþegahreyfingin er ákveðin í að semja um svo lágar kauphækkanir, ekki bara í þessum “aðfararsamningi” heldur einnig til langs tíma í framhaldinu, eins og sagt er, þá þarf annað verklag í samningum.

Með svo lágum kauphækkunum, sem stefna einungis að 1-3% kaupmáttaraukningu á ári, þá er fráleitt annað en að verðtryggja kjarasamninginn.

Verðtryggingu launa var hafnað á verðbólguárunum vegna ótta við allt of miklar kauphækkanir, sem þóttu auka verðbólguþrýsting. Þá hækkuðu menn kaupið jafnvel um 10-20% í kjarasamningum og náðu iðulega ágætri kaupmáttaraukningu, þrátt fyrir hátt verðbólgustig.

Með hinum mjög svo hóflegu kauphækkunum sem nú er stefnt á er engin hætta á verðbólguþrýstingi frá launum.

Þess vegna er algerlega skaðlaust að verðtryggja slíka kjarasamninga. Það gæti raunar aukið stöðugleika.

Verðtryggðir kjarasamningar sem auka kaupmátt í takti við raunverulegan hagvöxt eru ekki verðbólguhvetjandi.

Ef fyrirliggjandi kjarasamningi verður hafnað ættu launþegafélögin því að halda sér áfram við hóflegar kauphækkanir (t.d. um 2-3% á ári) en verðtryggja samninginn til fulls – og án skilyrða.

Annað er ekki boðlegt. Það er raunar eina leiðin til að gera tal um “kaupmáttarsamning” meiningarbært.

Hin leiðin er auðvitað að halda áfram að fífla launafólk og láta reyna á hversu langt er hægt að komast á þeirri leið.

 

Síðasti pistill: Japanska ríkisstjórnin skilur nú gildi kauphækkana

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar