Mánudagur 14.4.2014 - 15:00 - FB ummæli ()

Húsnæðiskostnaður – merk skýrsla Hagstofu

Í dag kom út ný skýrsla Hagstofu Íslands með upplýsingum um þróun húsnæðiskostnaðar í gegnum hrunið.

Þetta er mjög athyglisverð skýrsla.

Mótvægisaðgerðir stjórnvalda virðast hafa náð að halda aftur af aukningu húsnæðiskostnaðar eftir hrun, ekki síst með mikilli hækkun vaxtabóta. Raunar var byrði vegna húsnæðiskostnaðar þyngst á árunum 2004-6, en hlutfallslega minni eftir aðgerðirnar í kjölfar hrunsins.

Byrði vegna neyslulána (vegna bíla, yfirdráttar og annars) jókst hins vegar umtalsvert, ekki síst í lægri tekjuhópum (það má sjá hér). Loks hækkaði húsaleiga verulega um leið og nettó vaxtakostnaður eigenda í skuldsettu húsnæði minnkaði.

Eins og myndin hér að neðan sýnir fækkaði umtalsvert í þeim hópi sem var með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað frá 2006 til 2013, eða úr rúmlega 14% heimila í tæplega 9% heimila. (Verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður þýðir að heimili varði meira en 40% ráðstöfunartekna í þann lið).

Auknar niðurgreiðslur vaxtakostnaðar húsnæðislána réðu miklu um þessa hagstæðu þróun.

Screen shot 2014-04-14 at 1.38.51 PM

Ef skoðað er nánar hvernig verulega íþyngjandi husnæðiskostnaður skiptist á ólíka hópa eigenda og leigjenda kemur í ljós hve þróunin var leigjendum óhagstæð, en í raun furðu hagstæð eigendum sem glímdu við skuldir. Þeir fengu umtalsverðan stuðning.

 

Screen shot 2014-04-14 at 1.39.05 PM

Þessar niðurstöður benda til að raunlækkun ráðstöfunartekna sem gengisfellingin á árinu 2008 orsakaði hafi verið helsta orsök vaxandi greiðsluerfiðleika hjá heimilum, frekar en raunhækkun húsnæðiskostnaðar. Þeir sem lentu í atvinnuleysi þurftu svo að glíma við verulega aukna erfiðleika, vegna sérstaklega mikils tekjutaps.

Kaumátturinn til að glíma við allar skuldir heimilanna (ekki síst neysluskuldir og yfirdrætti) var einfaldlega of lítill eftir hrun, þrátt fyrir að stjórnvöldum hafi tekist að lækka greiðslubyrði húsnæðislána með auknum vaxtabótum.

Svona skýrsla frá Hagstofu Íslands skýrir þannig betur hver var helsta rótin að erfiðleikum heimilanna í kjölfar hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.4.2014 - 09:26 - FB ummæli ()

Burt með ykkur, segir Björn Bjarnason

Enn harðna átökin í Sjálfstæðisflokknum.

ESB-aðildarsinnar taka sífellt fleiri skref í átt að stofnun nýs hægri flokks um ESB-aðild, út úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir munu að vísu líka taka talsvert af hægri armi Samfylkingarinnar með sér.

Talað er um fundahöld eftir páska til að fullnusta flokksstofnunina.

Björn Bjarnason hefur ítrekað sent ESB-sinnum tóninn á Evrópuvaktinni. Það er að vonum, enda málið þeim árvöknu vaktmönnum meira skylt en öðrum.

Í nýjum pistli herðist Björn enn í afstöðu til ESB-sinna og segir þeim bara að hypja sig út af flokkslóðinni. Svo bætir hann þessu við:

“Andrúmsloftið innan Sjálfstæðisflokksins verður ánægjulegra ef óánægjuraddir ESB-aðildarsinna þagna þar.”

Rétt hjá Birni. Tónninn í flokknum verður auðvitað hreinni með meiri rétttrúnaði.

Hann vísar þarna á dyr fulltrúum gamalla ættarvelda í Sjálfstæðisflokknum og stórum hluta stjórnenda fyrirtækja, sem lengstum hafa verið hryggjarstykkið í Sjálfstæðisflokknum. Þeim sem hafa tryggt fjármagnið sem flokkurinn hefur nærst á.

Hraustlega gert hjá Birni!

Á meðan bognar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og segir forystu flokksins hafa haldið illa á ESB-málinu, mistök hafi verið gerð. Hún hvetur til að afstaðan verði endurskoðuð, til að vinna gegn þessari flokksstofnun.

Spurning hvort Bjarni Benediktsson formaður þurfi að taka snúning eða vafning á þetta?

Svo er líka spurning hversu mikið skýrslan um fall sparisjóðanna muni „flækjast fyrir Sjálfstæðismönnum“ í framhaldinu, svo vísað sé í fræg ummæli fyrrverandi varaformanns flokksins um skýrsluna miklu um fall bankanna?

Sjálfstæðisflokksmenn, óháð afstöðu til ESB-aðildar, voru í öllum aðalhlutverkum í þeim hildarleik sem felldi sparisjóðakerfið. Sérstaklega er saga stóru sparisjóðanna á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík sóðaleg (SPRON, BYR og SPKEF).

Kanski sumum Sjálfstæðismönnum hugnist bara vel að fá nýjan hægri flokk sem eins konar björgunarbát frá hrunstimpli Sjálfstæðisflokksins…

 

 Síðasti pistill:  Sparisjóðirnir – græðgi og óreiða skýra fallið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.4.2014 - 11:33 - FB ummæli ()

Sparisjóðirnir – græðgi og óreiða skýra fallið

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna er mikið plagg. Ég hef einungis skoðað niðurstöðukaflann og kynninguna, en af því og viðtölum við nefndarmenn má sjá að þau setja niðurstöður sínar fram af mikilli varkárni. Dómurinn er samt afgerandi.

Hlutafélagavæðing sparisjóðanna er upphafið að vanda þeirra, segir í skýrslunni. Það skapaði eigendum og stjórnendum aukið frelsi til að fara í áhættusamari bankarekstur og maka krókinn fyrir sig sjálfa og vildarvini.

Hlutafélagavæðinguna má rekja til herferðarinnar sem Hannes Hólmsteinn og Pétur Blöndal gengust fyrir og kölluðu “fé-án-hirðis”.

Sparisjóðirnir voru áður skilgreindir sem samfélagslegar stofnanir, hófsamar fjármálastofnanir er þjónuðu nærsamfélagi sínu í þágu almannahags. Það sögðu þessir talsmenn fjármálavæðingar og einkagróða vera af hinu illa. Nauðsynlegt væri að koma þessu “fé-án-hirðis”, sem þeir sögðu sparisjóðina vera, í hendur einkaaðila sem gætu ávaxtað það betur.

Það var gert og þá hófst dansinn í kringum gullkálfinn. Það leiddi til hrunsins.

Áhætta var aukin, reksturinn varð losaralegri („frjálsari“), eftirlit sömuleiðis – og stjórnendur og eigendur hófu að maka krókinn á starfseminni.

Farið var á svig við leikreglur við þá iðju. Rannsóknarnefndin vísar 21 máli til saksóknara þar sem rökstuddur grunur er beinlínis um lögbrot.

Ávöxtun stofnfjár var blásin upp og það var hækkað undir lok árs til að auka arðgreiðslur til hluthafa. Fé var fært úr rekstri og varasjóði til eigenda. Lánað var til hlutabréfabrasks með veði í hlutabréfunum sjálfum.

Hagur stofnfjáreigenda var aukinn um leið og sparisjóðunum sjálfum var íþyngt. Þetta er það sem William Black kallaði að “tæma banka innanfrá” – og það voru stjórnendur sem því stýrðu.

Hinir nýskipuðu “hirðar” sparisjóðanna hirtu féð í orðsins fyllstu merkingu!

Í skýrslunni segir m.a.:

„Enginn hafði að lögum eftirlitsskyldu með arðgreiðslum sparisjóðanna. Þegar yfirverðsvæntingar og arðsvonir stofnfjáreigenda voru komnar í algleyming var ugglaust erfitt að standa gegn kröfum þeirra um háan arð. Mikill hagnaður sparisjóðanna árin 2004 til 2007 leiddi til þess að arðsemi eigin fjár varð mjög há. Það gerði mörgum sparisjóðum kleift að greiða stofnfjáreigendum drjúgan arð.”

Slíkar greiðslur, óreiða og óhófleg áhætta í rekstri riðu svo sparisjóðunum að fullu.

Saklausir skattgreiðendur bera tjónið.

Samt höfðu þeir ekki setið veislu hirðanna og engar veitingar þegið.

 

Síðasti pistill: Samband lýðræðis og lífsgæða þjóða

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.4.2014 - 21:19 - FB ummæli ()

Samband lýðræðis og lífsgæða þjóða

Í nýjasta hefti fagtímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla birtist grein um lífsgæði nútímaþjóða, sem ég skrifaði um rannsókn er ég gerði á lífsgæðum 29 nútímaþjóða.

Rannsóknarverkefnið fólst í því að safna sem flestum mælingum á mikilvægum lífsgæðaþáttum þjóða og bera útkomur þjóðanna saman og leita skýringa á mismunandi árangri, bæði á heildarmati og einstökum þáttum lífsgæðanna.

Niðurstöðurnar byggja á samanburði nærri 70 ólíkra lífsgæðaþátta, frá hagsæld til heilsufars, menntunarstigs, atvinnustigs, lífskjarajöfnunar, minnkun fátæktar, fjölskylduaðstæðna, samheldni og samfélagsþátttöku og til huglægs mats almennings á lífsgæðum í viðkomandi löndum. Upplýsingarnar eru fyrir tímabilið frá 2005 til 2008, þ.e. fyrir kreppu.

Eins og lesa má um í greininni koma norrænu þjóðirnar best út úr samanburðinum, ásamt Hollandi, Lúxemborg og Sviss.

Þessar þjóðir eru með bestu útkomu á flestum sviðum lífsgæðanna. Niðurstöðurnar benda til að meðal þessara þjóða sé að finna bestu lífsgæði almennings sem finnast í heiminum nú á dögum.

Yfirstéttir sumra landa eru með betri lífsgæði en meðaltal ofangreindar þjóða, en hvergi hefur tekst betur að tryggja almenningi bestu lífsgæði en í norrænu löndunum fimm og Hollandi, Lúxemborg og Sviss.

 

Skýringar á mismunandi lífsgæðum nútímaþjóða

Í seinni hluta ritgerðarinnar er fjallað um mögulegar skýringar á mismunandi lífsgæðum nútímaþjóða.

Þar kemur m.a. fram að mjög sterkt samband er milli styrkleika lýðræðis og almennra lífsgæða. Myndin hér að neðan sýnir sambandið milli styrkleika lýðræðis og lífsgæða þjóða (þetta er mynd 6 í ritgerðinni).

Það er líka niðurstaða merkrar nýlegrar bókar um farsæld þjóða, Why Nations Fail, eftir hagfræðinginn Daron Acemoglu og stjórnmálafræðinginn James Robinson. Sú bók byggir þó á allt annarri aðferðafræði.

Þetta er afar athyglisverð niðurstaða.

Slide1

Þjóðirnar sem eru innan hringsins hægra megin á myndinni sameina það að vera með bestu lífsgæðin og sterkasta lýðræðiskerfið af öllum 29 þjóðunum sem saman eru bornar.

Þetta þýðir að þar sem stjórnvöld svara betur þörfum og óskum almennings (almannahag), þar eru lífsgæðin almennt best. Þar fer saman góð hagsæld og góð almenn lífsgæði (gott heilsufar, menntun, hátt atvinnustig, minni fátækt, betri aðstæður fyrir börn, betri samheldni og samfélagsþátttaka – og þar er meiri ánægja þegnanna með lífið).

Annað sem er athyglisvert á myndinni er að þær þjóðir sem koma best út eru allar frekar fámennar þjóðir.

Í fámennisumhverfinu eru einmitt oft betri skilyrði til að stjórnvöld svari óskum almennings, vegna nálægðar sem er milli stjórnvalda og almennings. Fjarlægðin milli leiðtoga og grasrótarinnar er oft meiri í fjölmennissamfélögunum.

Þar sem lýðræði er afar veikt eða ekki fyrir hendi, svo sem í einræðis- og herstjórnarríkjum, þar er þróunarstig að öðru leyti lágt og lífsgæði almennings mun lakari, samhliða miklum ójöfnuði.

Fámenn yfirstétt hirðir þau gæði sem er að hafa í slíkum löndum og almenningur líður þar viðvarandi skort og fátækt.

Þær þjóðir sem koma best út eiga það líka sameiginlegt að vera með öflug velferðarkerfi sem sérstaklega styðja við lífsgæði lægri stétta og greiða þannig fyrir meiri jöfnuði tækifæra en er í ójafnari samfélögum, eins og til dæmis í Bandaríkjunum.

 

Lýðræði og lífsgæði í Bandaríkjunum

Það er líka athyglisvert að skoða stöðu Bandaríkjanna almennt í þessum samanburði. Bandaríkin eru með mikla hagsæld, raunar í fremstu röð á því sviði, en vegna mikils ójafnaðar í skiptingu þjóðarkökunnar verður þar of mikil fátækt við hlið mikils auðs yfirstéttarinnar.

Lýðræðið í Bandaríkjunum er heldur ekki sérstaklega sterkt.

Það er vegna mikilla áhrifa peningaafla í bandaríska stjórnkerfinu. Það kemur niður á lífsgæðum þeirra sem eru í neðri þrepum samfélagsstigans. Það fólk á fáa málsvara í stjórnmálunum.

Þó við Íslendingar kvörtum oft undan stjórnmálunum, fyrirgreiðsluspillingu og sérhagsmunagæslu, þá eru þrátt fyrir allt góðar forsendur hér fyrir því að stjórnvöld hlusti á óskir og kröfur þegnanna.

Það er einmitt vegna nálægðarinnar sem fylgir fámennissamfélaginu hér.

Þetta er útkoman eins og hún var á árunum fyrir kreppu. Síðan kom hrunið með talsverðu lífsgæðaáfalli, einkum efnahagslegu. Með því drógust við afturúr frændum okkar á Norðurlöndum og fremstu þjóðunum á meginlandi Evrópu – á sumum sviðum, en ekki öllum.

Við færðumst niður um nokkur sæti á lífsgæðakvarðanum. Þó eru lífskjörin hægt og sígandi að batna hér eftir áfall hrunsins.

Skoðum það nánar síðar.

 

Síðasti pistill: Siðlaus svindlari í hávegum hafður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 8.4.2014 - 14:48 - FB ummæli ()

Siðlaus svindlari í hávegum hafður

Úlfurinn frá Wall Street, Jordan Belfort, er á leið til Íslands til fyrirlestrahalds. Belfort varð frægur af mynd Martin Scorsese er sýndi vel siðleysi og svindilhætti prangarans.

Nú er Íslendingum boðið að kaupa sig inn á fyrirlestur Jordan Beforts um “sölutækni” sína fyrir allt að 50 þúsund krónur á mann.

“Sölutæknin” sem um ræðir hefur fengið söluvænt heiti (“Straight Line Persuasion”!), til að gefa manninum yfirbragð “fagmennsku”.

En aðferð Belforts snýst um ekkert annað en að plata fólk og svíkja með lygum. Koma sparifé fólks í vasa miðlarans. Ræna fólk í björtu á kaldrifjaðan og ákveðinn hátt. Fyrir það hlaut hann á endanum dóm og háar sektir sem hann hefur ekki greitt.

Í Danmörku mun aðgöngumiðinn að lygafyrirlestri Belforts bjóðast á rúmar 7 þúsund krónur. Það þykir ekki eins auðvelt að tæla Dani inn á svona samkomur eins og Íslendinga.

En dapurlegast er auðvitað það sem þetta segir um siðferðisstigið í íslensku viðskiptalífi og samfélagi – þ.e. ef menn mæta á samkomuna í stórum stíl.

Við erum nýkomin út úr braskbólu sem setti þjóðarbúið á hliðina og einkendist af taumlausri græðgi, braski og skuldasöfnun – og vafasömum viðskiptaháttum.

Næsta stopp er lygafyrirlestur hjá siðlausum svindlara. Í auglýsingum verður þetta sjálfsagt kallað stórviðburður í markaðsmálum og sölutækni!

 

Síðasti pistill: Dagsverk – 3000 leiguíbúðir í Reykjavík

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.4.2014 - 23:27 - FB ummæli ()

Dagsverk – 3000 leiguíbúðir í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík kynnti nýlega áherslumálin fyrir kosningarnar í vor.

Þau eru að vísu allmörg. En tvennt stendur uppúr í byrjun:

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu 2500-3000 leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Þar á meðal eru glæsilegar stúdentaíbúðir í miðborginni.

Svona áætlun léttir af þrýstingi á leigumarkaði og svarar brýnni þörf í Reykjavík.

Svo vilja Dags-menn hækka frístundakortið upp í 50 þúsund krónur á hvert barn.

Það var Eyjubóndinn Björn Ingi Hrafnsson sem innleiddi frístundakortið á sinni tíð í borgarstjórn. Góð hugmynd fyrir ungar barnafjölskyldur.

Svona húsnæðis- og barnapakkar eru velferðarmál sem gætu slegið í gegn – því þeirra er þörf.

Hér er mynd af fyrirhuguðum stúdentagörðum við Brautarholt:

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.4.2014 - 20:23 - FB ummæli ()

Íhald eða öfgar?

Það er skemmtilegt að fylgjast með Sjálfstæðismönnum þessa dagana.

Í gær skrifaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra flokksins grein um ESB málin. Þar sagði hann ESB-aðildarsinna í Sjálfstæðisflokki vera öfgamenn. Þar á hann við fólk eins og hinn Engeyjarættaða Benedikt Jóhannesson og Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann flokksins.

Benedikt og Þorsteinn kalla hins vegar Björn og Davíð róttæka einangrunarsinna og svikara.

Björn vekur einnig athygli á því, að í grannríkjunum eru það oftar andstæðingar ESB-aðildar sem teljast öfgafullir eða róttækir.

Björn er eins konar aðalsmaður í flokknum, sonur leiðtogans Bjarna Benediktssonar (eldri). Honum lætur vel að tala um að aðrir en hann sjálfur séu öfgamenn. Hann ætti náttúrulega að vera  “íhald”, af gömlu gerðinni.

Það er Benedikt raunar líka. Þarna takast því á ólík ættarveldi aðalsmanna í Sjálfstæðisflokknum.

Samt horfir Björn framhjá því, að hann er sjálfur í hópi róttækustu stjórnmálamanna landsins, frjálshyggjuhirðar Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar.

Frjálshyggjan sem Hannes flutti til landsins frá Texas í Bandaríkjunum er róttækasta pólitíkin sem hefur verið stunduð hér á landi um langt árabil. Það er pólitíkin sem færði okkur bóluhagkerfið, hrunið og vúdú-hagfræðina.

Og róttæklingar frjálshyggjunnar vilja ekkert læra af þeim mistökum sem leiddu Ísland svo herfilega afvega. Þeir fylgja frjálshyggjukreddunni af mikilli róttækni og halda fast í rétttrúnaðinn.

Kanski þeim sé best lýst sem róttækum íhaldsmönnum – eða íhaldssömum róttæklingum!

Þeir eru í öllu falli mótsagnakenndir.

Það ríkir því ótrygg stilla í Sjálfstæðisflokknum. Sannkallað svikalogn.

 

Síðasti pistill: Snjall samningur hjá kennurum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.4.2014 - 15:04 - FB ummæli ()

Snjall samningur hjá kennurum

Það er ánægjulegt að sjá hversu vel tókst til með kjarasamning framhaldsskólakennara og stjórnvalda. Að vísu þurfti verkfall í þrjár vikur til að klára málið – en árangurinn er þess virði.

Þetta er óvenjulegur og skapandi kjarasamningur. Menntamálaráðherra kallar hann tímamótasamning.

Þetta er umbótasamningur, sem skilar mikilvægum framförum í skólakerfinu og umbunar kennurum með alvöru kjarabótum, ef vel tekst til. Kauphækkanir ráðast af árangri í umbótastarfi.

Raunar má segja að þetta sé tímamótasamningur, sem vonandi verður fyrirmynd fyrir aðra hópa í skólakerfinu.

ASÍ gæti tekið þessa aðferðafræði sér til fyrirmyndar, til dæmis í samningi um framleiðniaukningu og styttingu vinnutíma sem tengdur yrði við verulegar kauphækkanir, sem þó væru skilyrtar með árangri í umbótunum. Vonandi verður fljótlega möguleiki á slíkum samningi.

Hér er lýsing á helstu þáttum samningsins við framhaldsskólakennara:

Kennarar fá 2,8% hækkun strax,  tvö prósent í ágúst og önnur tvö prósent í janúar 2016. Launahækkanir  þeirra tengjast þó að mestu leyti breytingum á skólastarfinu sem kveðið var um í lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru 2008. Það á við um fimm daga lengingu skólaársins, nýja námseiningu og tenginu próftíma og námstíma. Þessar breytingar eru metnar á 17 prósentustig á samningstímanum.

Laun hækka í tengslum við breytingarnar fyrst um 4 prósent og um 5 prósent í ágúst í haust.  Eigi síðar en í febrúar á næsta ári verður atkvæðagreiðsla meðal kennara um breytt vinnufyrirkomulag. Ef kennarar eru á móti þeim fellur kjarasamningurinn úr gildi og ekkert verður úr launahækkunum  á næsta ári og því þarnæsta. Samþykki þeir hins vegar hækka laun þeirra um átta af hundraði í maí á næsta ári.

Þegar allar hækkanir eru lagðar saman geta laun kennara hækkað um allt að 29 prósent.  Krafa kennara var um að laun þeirra yrðu leiðrétt og grunnkrafan var 17 prósenta hækkun.

 

Síðasti pistill: Frjálshyggjumenn flýja Jörðina – á lekum báti

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.4.2014 - 09:28 - FB ummæli ()

Frjálshyggjumenn flýja Jörðina

Sífellt safnast upp sönnunargögn um hlýnun lofthjúpsins og vísindamenn vara við alvarlegum afleiðingum fyrir jarðarbúa.

Frjálshyggjumenn á Vesturlöndum hafa véfengt niðurstöður vísindamanna og telja þetta árás á kapítalismann. Þeir boða því afskiptaleysisstefnu gagnvart loftslagsvandanum. Það gera þeir líka í málum fjármálamarkaðarins.

Frjálshyggjumenn eru ákveðnir í að læra ekkert af vísindum né af fjármálakreppunni. Halda bara áfram trúboði sínu um óhefta markaðshyggju og afskiptaleysisstefnu, eins og ekkert hafi í skorist! Þeir hafna öllu jarðsambandi og fljóta sofandi að feigðarósi.

Í besta falli segja þeir að þetta lendi á framtíðarkynslóðum og spyrja svo: “Hvað hafa framtíðarkynslóðir gert fyrir okkur? Við skuldum þeim ekkert! Höldum frekar áfram að græða og grilla.”

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur leitt baráttu frjálshyggjumanna hér á landi.

Eftirfarandi eru fróðleg orðaskipti hans og Guðna Elíssonar prófessors, en Guðni afhjúpaði eftirminnilega götin í málflutningi Hannesar um loftslagsmálin:

Hannes segir:

„Hvernig í ósköpunum ættum við að trúa þessu fólki (vísindamönnum)? Og það, sem meira er: Hvers vegna ættum við að afsala okkur þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapítalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátinn, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva“.

Guðni svarar þessu í grein sinni:

„Stærsta áhættan sem menn geta tekið lýtur að lífi mannkynsins á jörðinni. Þrátt fyrir það hafa ýmsir af þeim sem Hannes fylgir að málum sett fram þá kröfu að við gerum ekkert. Hannes segir sjálfur: „Ég ætla ekki í björgunarbátinn, fyrr en ég er viss um, að skipið er að sökkva.“ Líkingin slær Hannes blindu. Hvert flýr sá sem kemst hvergi?“

Hér að neðan má svo sjá frjálshyggjumenn í björgunarbátnum. Hannes hefur fyrir þeim orð.

Slide1

 

Síðasti pistill: Skólar: Hví ekki að tengja kjör og styttingu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 2.4.2014 - 11:48 - FB ummæli ()

Skólar: Hví ekki að tengja kjör og styttingu?

Verkfallið í framhaldsskólunum dregst á langinn og lítið virðist ganga.

Verkefni kennara er að ná fram umtalsverðum kjarabótum og lyfta launum kennara upp fyrir meðaltal OECD-landanna. Það er forsenda fyrir umbótum í skólastarfi og betri árangri nemenda. Auk þess hafa kennarar dregist afturúr öðrum.

Þetta krefst umtalsvert meiri hækkana en samið var um í ASÍ-samningunum. Þar er einmitt fyrirstaðan. Erfitt verður að brjótast út úr þeim samanburði. En rjúfa þarf spennitreyjuna og það kallar á sérlausn fyrir kennara.

Nærtækast er að tengja samning um áform um styttingu námstíma til stúdentsprófs við verulegar kjarabætur fyrir kennara. Styttingin og aðrar umbætur réttlæta kjarabætur kennara umfram aðra. Allir munu samþykkja það.

Hvers vegna eru kennarar þá ekki jákvæðari gagnvart tengingu sérstakra kjarabóta og áforma um styttingu framhaldsskólans? Kanski er þetta bara samningatækni hjá þeim, vilja fyrst sjá alvöru vilja til raunverulegra kauphækkana fyrir þetta. Það má vera raunsætt, ef fyrirstaða er mikil hjá ríkinu.

Kennarar gætu samið um innleiðingu styttingarinnar á einhverju árabili, með lágmarksfjölda uppsagna. Fækkun gæti komið með starfsmannaveltunni, þ.e. að ekki verði ráðið í stað þeirra sem hætta á tilteknu árabili.

Klókir samningamenn gætu nýtt sér þessa sérstöðu til umtalsverðra kjarabóta í skólunum, vel umfram ASÍ-samninginn. Slík stór lagfæring kennarakjara er löngu tímabær.

Án þess að byggja slíka lagfæringu á sérstöðu verður róðurinn þungur og framfarir í skólakerfinu dragast á langinn.

 

Síðasti pistill: Útkall hjá Hólmsteini og náhirð auðmanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.3.2014 - 15:03 - FB ummæli ()

Útkall hjá Hólmsteini og náhirð auðmanna

Enn eru Sameinuðu þjóðirnar að senda frá sér skýrslur vísindamanna sem segja að jörðin sé að hitna úr hófi fram, með væntum skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið allt (sjá hér).

Einn fremsti “sérfræðingur” Íslendinga í umhverfismálum og loftslagi jarðar, vúdú-hagfræðingurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur haldið hinu gagnstæða fram.

Hannes hefur neitað því að um nokkra hitun lofthjúpsins sé að ræða. Svo hefur hann þó stundum líka sagt að um nokkra hitun gæti veri að ræða, en segir þá um leið að það sé ekki mannkyninu að kenna – og alls ekki kapitalismanum.

Síðan hefur hann dregið þá ályktun af þessum kveðskap sínum, að ekki sé hægt að gera neitt í málinu. Hitun sé einn af duttlungum sólkerfisins sem gangi fram og til baka, án skýringa. Alvöru vísindamenn á sviði umhverfismála sjá þó ótvíræð merki um annað og segja loftslagsmengun manna rót vandans.

Hólmsteinn og félagar hans í hópi frjálshyggju-róttæklinga hafa því boðað afskiptaleysisstefnu á sviði loftslagsbreytinga, líkt og vúdú-hagfræðin þeirra boðar í fjármálaheiminum (það var einmitt stefnan sem leiddi til fjármálakreppunnar). Ekki eigi að gera neitt til að aftra loftslagsmengun.

Frjálshyggjumenn segja að allt sem ríkið geri sé til óþurftar, hvort sem er á sviði loftslagsmála eða fjármálamarkaða. Óheft frelsi til að græða og grilla jörðina eigi því að hafa forgang. Þess vegna boða þeir afskiptaleysisstefnu – í öllum málum. Óheftur markaður ráði för. Það er boðskapur sem mengandi auðmönnum líkar vel.

Með þessari nýju skýrslu Sameinuðu þjóðanna er sem sagt enn vegið að speki Hólmsteina og frjálshyggju-róttæklinga um heimsbyggðina alla.

Það er því viðbúið að Koch bræðurnir bandarísku, sem fjármagna hugveitur frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum og víðar (t.d. Cato Institute), sendi útkall til Hólmsteina heimsins.

Þeir munu vilja kveða þennan boðskap vísindamanna Sameinuðu þjóðanna í kútinn. Koch bræður og fleiri mengandi iðnjöfrar þurfa að fá að menga jörðina áfram án hindrana frá óvinum kapítalismans, jafnvel þó þeir kalli sig „vísindamenn“.

Til þess eru þræðirnir spunnir.

 

Síðasti pistill: Gott framtak hjá Ögmundi

 

Síðasti pistill: Myndverk á sjó

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 31.3.2014 - 11:56 - FB ummæli ()

Gott framtak hjá Ögmundi

Undanfarið hefur gætt mikillar gagnrýni á fyrirhugaða gjaldtöku fyrir náttúruskoðun á helstu ferðamannastöðum landsins.

Ef fram fer sem horfir mun ásýnd Íslands sem ferðamannalands, bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti, gjörbreytast. Aðrar leiðir eru betri.

Það var því afar gott framtak hjá Ögmundi Jónassyni og félögum að fara að Geysi og Kerinu í Grímsnesi um helgina og mótmæla sjálftöku landeigenda.

Vonandi verður þetta allt til að koma málinu í annan farveg. Boltinn er hjá stjórnvöldum.

Markmiðið á að vera að tryggja Íslendingum áfram óheft aðgengi að náttúru Íslands og halda geðþekkri ásýnd íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart erlendum gestum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 29.3.2014 - 18:22 - FB ummæli ()

Myndverk á sjó

Var að klára nýja seríu í myndagalleríi mínu á netinu. Þar eru myndir af speglunum á sjávarfleti, mest af bátum. Þetta er fátækleg tilraun ljósmyndara til að búa til málverk!

Hér er tengill á nýju seríuna.

Hér er tengill á galleríið.

Svo eru hér tvær myndir úr seríunni:

129-DSC_0152 c1

 

 

134-DSC_1798 b1

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.3.2014 - 23:47 - FB ummæli ()

Léttvægt framlag Sjálfstæðisflokks

Framlag stjórnarflokkanna til skuldaúrræðanna er mjög misjafnt. Framlag Sjálfstæðisflokksins er mun veigaminna og beinist meira til þeirra tekjuhærri.

Þegar litið er til baka má segja um skuldaúrræði vinstri stjórnarinnar að þau hafi einkum beinst að þeim sem verst voru staddir, þeim sem höfðu mesta þörf fyrir stuðning. Mörgum þótti það viðeigandi í aðstæðum þar sem verið var að ráðstafa fjármunum sem taka þurfti að láni – í óvenju erfiðu ástandi.

Helsta gagnrýnin á þau úrræði var sú, að ekki hafi verið gengið nógu langt í að lækka skuldir eða létta greiðslubyrði heimila. Almenningur vildi meiri stuðning og þegar stjórnarflokkarnir töldu sig ekki geta meira gert snéru kjósendur sér annað í síðustu kosningum. Skiljanlega.

Framsóknarflokkurinn svaraði kalli heimilanna með vænum loforðum, en Sjálfstæðisflokkurinn var sífellt að hugsa um skattalækkanir til milli og hærri tekjuhópa og fyrirtækja – til kjósenda sinna í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Almennt fagna ég því að gripið er til þessara úrræða sem kynnt voru á ný í vikunni.

Þegar maður les plöggin sem ríkisstjórnin lagði fram nú og útreikninga á því hvernig skuldalækkunin skiptist á þjóðfélagshópa þá finnst mér nokkrir veikleikar áberandi.

  • Framsókn er ein um að skila raunverulegri lækkun höfuðstóls húsnæðisskuldanna með beinum fjárstuðningi frá stjórnvöldum. Hlutur Sjálfstæðisflokksins í úrræðunum er að mestu greiddur af skuldurunum sjálfum, með séreignasparnaði þeirra.
  • Það er tilfærsla á sparnaði frá lífeyri til húsnæðis. Skattaívilnanirnar verða að vísu varanlegar nú, en ekki tímabundin seinkun eins og áður var (það er eina viðbótin, en hún lendir á ríkisstjórnum framtíðarinnar).
  • Það virðist vera sem Sjálfstæðismenn (og Vigdís Hauksdóttir) hafi fengið því framgengt að vaxtabætur voru lækkaðar í fjárlögum þessa árs og sérstöku vaxtabæturnar aflagðar. Það var ótímabært og dregur úr árangri skuldalækkunarinnar nú.
  • Loks er sú ákvörðun gagnrýniverð að draga það frá nýju úrræðunum sem heimili fengu í stuðning á síðasta kjörtímabili. Það snertir einkum heimilin sem eru í verstu stöðunni, þ.m.t. sum millitekjuheimili. Það fólk er enn í slæmri stöðu, en fær fyrir vikið lítið út úr aðgerðunum núna.

Sá bragur Sjálfstæðisflokksins að veita með annarri hendi en klípa til baka með hinni og að setja hærri tekjuhópa í forgang er sem sagt of áberandi í nýju úrræðunum.

Til að úrræði sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur að verði í þágu almennings þarf alltaf að sveigja hann af leið, með þrýstingi. Annars hjálpar hann bara yfirstéttinni.

Framsókn hefði átt að beita Sjálfstæðisflokkinn meiri þrýstingi við frágang þessara úrræða. Samfylkingin brenndi sig líka á því að láta of mikið eftir Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn Geirs Haarde. Alltof mikið.

Framsókn er vissulega að skila verðmætum stuðningi við heimilin í þessum úrræðum. Án Framsóknar væru engin alvöru úrræði að skila sér núna. Meira mátti það þó vera.

Sjálfstæðisflokkurinn var allan tímann á bremsunni gagnvart skuldalækkuninni og skilar nú heimilunum litlu inn í pakkann.

Hann býður skuldugu fólki einfaldlega að færa sparnað sinn úr einum vasa í annan – og kallar það “úrræði stjórnvalda”. En það eru úrræði skuldaranna sjálfra.

Þetta er heldur léttvægt framlag hjá Sjálfstæðisflokknum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.3.2014 - 22:23 - FB ummæli ()

UKIP vinnur sigur í ESB umræðunni

Það var athyglisverð umræði á SKY stöðinni í kvöld, um ESB aðild Bretlands.

Þar tókust á Nigel Farage formaður hins nýja Breska Sjálfstæðisflokks (UKIP) og Nick Clegg formaður Frjálslynda flokksins og vara-forsætisráðherra.

UKIP hefur átt undir högg að sækja hjá hinum stjórnmálaflokkunum og hjá mörgum álitsgjöfum. Þeir þykja ófínir! Leiðtogar stærstu flokkanna, Cameron og Miliband, neituðu til dæmis að taka þátt í rökræðunni með Nigel Farage í kvöld.

Hins vegar hefur fylgi UKIP verið mjög vaxandi og þeir virðast líklegir til að ná góðri kosningu til Evrópuþingsins í vor.

Sókn UKIP veldur því miklum usla í breskum stjórnmálum.

Íhaldsflokkur Camerons neyðist til að herða afstöðu sína gagnvart ESB og mun að öllum líkindum sækja af festu fram með kröfur um breytingar á aðildarskilyrðum, ekki síst til að takmarka frelsi innflytjenda til að koma til Bretlands. Það yrði grundvallarbreyting á ESB.

Umræðan í kvöld var fjörug og í bestu hefð Breta, málefnaleg en tekist á af festu. Mikið væri gaman ef íslenska umræðan næði slíku plani – en mikið vantar uppá það. (Ég vil helst fara í felur þegar ég heyri talsmenn Heimssýnar tala um ESB – jafnvel þó ég hafi efasemdir um það fyrirbæri. Lágkúran og heimskan er oftast yfirgengileg).

En tíðindi dagsins eru þau, að Nigel Farage formaður UKIP vann rökræðuna, skv. niðurstöðu könnunar meðal almennings sem gerð var í kjölfarið. Um 57% sögðu hann hafa haft betur, en 36% sögðu vara-forsætisráðherrann hafa haft betur. Restin var óviss. Meðal þeirra sem tóku afstöðu var þetta ríflega 60:40 sigur Farage og UKIP.

Meðal stuðningsmanna Íhaldsflokksins voru það um 70% sem sögðu Farage hafa haft betur. Það mun trufla Cameron forsætisráðherra gríðarlega.

Kosningarnar til Evrópuþingsins í vor verða væntanlega spennandi.

 

Síðasti pistill: Byr í seglum Dags

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar