Miðvikudagur 13.06.2018 - 23:10 - Lokað fyrir ummæli

Viðhaldsframkvæmdir í fjöleignarhúsum

Þegar farið er í framkvæmdir er mikilvægt að eigendur fjöleignarhúsa gæti réttra aðferða við þær. Boða þarf til húsfundar með lögmætum hætti og í fundarboði þarf að tilgreina þau mál sem fyrir verða tekin á fundinum og meginefni tillagna. Ekki er hægt að taka mál til atkvæðagreiðslu á húsfundi sem ekki hefur verið getið í fundarboði nema allir félagsmenn séu mættir og samþykki það.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögunum gilda ákveðnar reglur um það hve margir þurfa að samþykkja ákvörðun til að hún sé bindandi. Meginreglan er samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi. Þegar um slíkar ákvarðanir er að ræða getur húsfundur tekið ákvörðun án tillits til fundarsóknar enda sé hann löglega boðaður og haldinn.

Þegar um venjulegar viðhaldsframkvæmdir er að ræða gildir þessi meginregla nær undantekningalaust enda sé ekki með framkvæmdunum verið að breyta sameigninni eða ganga lengra en almennt tíðkast í viðhaldsframkvæmdum. Í þeim tilvikum sem gengið er verulega lengra eða ef um er að ræða verulega dýrari og umfangsmeiri endurbætur, breytingar eða nýjungar en sem fellur undir venjulegt og nauðsynlegt viðhald þá þarf samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta. Þarf þá a.m.k. helmingur eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta að vera á fundi og tilskilinn meirihluti þeirra að greiða atkvæði með tillögunni. Nái fundarsókn því ekki en tillagan er samt samþykkt með 2/3 hluta atkvæða á fundinum bæði miðað við fjölda og eignarhluta skal þá innan 14 daga halda nýjan fund og bera tillöguna aftur upp á þeim fundi. Getur sá fundur tekið ákvörðun án tillits til fundarsóknar og fái tillagan tilskilinn meirihluta telst hún samþykkt.

Í ákveðnum tilvikum þarf þó samþykki allra eigenda.

Þótt að með viðhaldsframkvæmdum sé sjaldnast verið að gera breytingar á sameigninni getur sú staða þó komið upp. Ef breyta á húsinu við framkvæmdirnar út frá því sem ráð var fyrir gert í upphafi og á samþykktri teikningu, t.d. loka svölum, stækka glugga, lengja svalir, gilda mismunandi reglur hve margir þurfa að samþykkja breytingarnar sem slíkar.

Ef breytingin á sameigninni telst veruleg, þar á meðal á útliti hússins, þá þurfa allir eigendur hússins að samþykkja þær. Ef framkvæmdirnar hafa ekki í för með sér verulegar breytingar á sameigninni nægir samþykki 2/3 hluta eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta og til smávægilegra breytinga nægir samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta.

Kærunefnd húsamála (áður kærunefnd fjöleignarhúsamála) hefur ítrekað fjallað um túlkun á því hvað teljist veruleg breyting, ekki veruleg breyting og smávægileg breyting á sameign og hefur nefndin nær undantekningarlaust komist að þeirri niðurstöðu að breytingar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu teljist verulegar sem samþykki allra eigenda þurfi til. Í þeim tilvikum sem framkvæmdir eru byggingarleyfisskyldar þarf einnig að fá samþykki viðkomandi byggingaryfirvalda fyrir þeim áður en ráðist er í framkvæmdirnar.

Meginreglan samkvæmt fjöleignarhúsalögunum er að kostnaður vegna sameignar skiptist á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta. Sem dæmi má nefna kostnað vegna viðhaldsframkvæmda á ytri byrði hússins, svo sem á útveggjum, þaki, göflum, ytra byrði glugga og útitröppum. Gler í gluggum, innra byrði glugga og svalahurðir falla hins vegar undir séreign og er því sérkostnaður íbúðareigenda.

Þar sem fjöleignarhúsalögin kveða á um ákveðnar formreglur við töku ákvarðana vegna viðhaldsframkvæmda er mikilvægt að eigendur fjöleignarhúsa kynni sér vel þessar reglur áður en út í framkvæmdir er farið.

Flokkar: Fasteignamál · Fjöleignarhús · húsfélag · Húsfélög · Húsfundir · Húsnæðismál · Óflokkað

«

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur