Mánudagur 13.01.2014 - 11:43 - FB ummæli ()

Ljósmæður komnar í feministaruglið

Skapabarmaaðgerðum fjölgaði mjög í Bretlandi á árunum 2004-2011. Árið 2011 var gerð ein slík aðgerð þar á hverjar 12500 konur á aldrinum 15-49 ára. Ef hlutfallið er svipað á Íslandi merkir það að árlega fara 6 konur í skapabarmaaðgerð á Íslandi.
Nú hafa ljósmæður ítrekað mælt gegn lýtaaðgerðum á kynfærum. Það er þarft verk að upplýsa fólk um hætturnar sem ónauðsynlegar aðgerðir hafa í för með sér og vel má vera að ranghugmyndir um útlit kvenlíkamans séu útbreiddar og að konur fari í skapabarmaaðgerðir á vafasömum forsendum. Það réttlætir þó ekki órökstuddar fullyrðingar heilbrigðisstarfsfólks um ástæður kvenna og eðli þessara aðgerða.
Þann 20. desember birti Kvennablaðið grein um skapabarmaaðgerðir eftir tvær ljósmæður. Höfundar fullyrða að helstu ástæður fyrir skapabarmaaðgerðum séu útlitslegar eða til að geðjast maka. Ekki vísa ljósmæðurnar í nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu. Samkvæmt Wikipediu eru um 37% slíkra aðgerða gerðar eingöngu vegna útlitsins. Þar er átt við bandarískar rannsóknir en vel má vera að hlutfallið sé allt annað á Íslandi. Það væri þó rétt af ljósmæðurnum að taka fram hvaðan þær hafa þetta. Ég hef ekki fundið nein gögn um það hversu margar konur fara í kynfæraaðgerðir vegna þrýstings frá maka sínum og væri áhugavert að fá upplýsingar um það hvaðan ljósmæðurnar hafa þá hugmynd að það sé ein af algengustu ástæðunum.
Til stuðnings þeirri hugmynd að skapabarmaaðgerðir séu samfélagsvandamál, vísa höfundar í rannsókn sem gerð var í Bretlandi árið 2007. Samkvæmt henni fara konur í skapabarmaaðgerðir vegna þess að þær telja útlit sitt óeðlilegt, án þess þó að þær séu vissar um hvað teljist eðlilegt. Um er að ræða svokallaða eigindlega rannsókn. Valdar voru 17 konur sem höfðu farið í skapabarmaaðgerð á tveggja ára tímabili.  Aðeins 6 þeirra fengust til þess að ræða við rannsakendur. Af frásögnum þessara 6 kvenna eru dregnar almennar ályktanir. Þessi gögn nota svo íslenskar ljósmæður til þess að kynda undir þeirri hugmynd að lýtaaðgerðir séu sambærilegar við kynfærabrottnám barna í Afríku.
Höfundar virðast undir sterkum áhrifum frá feminisma því varpað er fram spurningum um það hvort ástæðurnar fyrir lýtaaðgerðum séu þær sömu og fyrir kynfærabrottnámi í samfélögum sem einkennast af ólæsi, örbirgð og nauðungarhjónaböndum og hvort hinn alræmdu klámvæðingu sé um að kenna,
…eða er þessi aðgerð til að markaðssetja kynfæri kvenna á nýjan hátt, gera þær gjaldgengar á hjónabandsmarkaði í karllægu samfélagi nútímans, eða gjaldgengar í eigin augum vegna markaðssetningar klámvæðingarinnar?
Greinin er skrifuð fyrir hönd ljósmæðrafélags Íslands, sem bendir til þess að félagsmenn hafi gefið almennt ef ekki einróma samþykki fyrir greininni. Í janúar komu svo tvær ljósmæður til viðbótar fram í síðdegisútvarpi rásar tvö. Þær telja einnig að skapabarmaaðgerðir falli undir skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á kynfæraumskurði og staðhæfa að slíkar aðgerðir séu ólöglegar.
Þótt ég hafi efasemdir um nauðsyn skapabarmaaðgerða ég tel samlíkinguna við kynfærabrottnám ekki gera umræðunni neitt gagn og fullyrðingin um að þær séu ólöglegar er fráleit. Ég fjallaði nánar um þessi mál með grein í Kvennablaðinu.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics