Mánudagur 18.2.2013 - 16:30 - FB ummæli ()

Þungvæg orð karla

 

Gamalmennisraus hins fallna konungs hefði sennilega litla athygli fengið nema vegna þess að karlinn var dónalegur við konu.

Karlana í röðum Vg og gamla Alþýðubandalagsins kallar ritstjórinn klókindamenn, gullkistuvörð, dráttarklár, leyniskjalaverði, samsærisbræður, og vísar til gamalla orða formannsins um Davíð sjálfan sem gungu og druslu.

Hann kallar forseta lýðveldisins að vísu ekki Óla grís svo sem venjan er, (og Bónusgrísinn sjálfur sem og stuðningsmenn hans láta svo skynsamlega sem vind um eyrun þjóta) heldur lætur hann sér nægja að vísa til hans sem „glókolls“ og líkja honum við uppvakning eða draug.

Af einhverjum ástæðum vega orð uppgjafa valdakarls þyngra þegar hann líkir Katrínu við gluggaskraut en þegar hann, nú eða Steingrímur sjálfur, úthúðar körlum.

 

Þungvæg eru orð karla og ekki þarf valdakarl til þess að hlustað sé á móðganir í garð kvenna. Nú krefst ríkissaksóknari þyngingar á sex mánaða fangelsisdómi yfir bófa sem hrækti á dómara af „hinu kyninu“ og kallaði hana tussu. Það er væntanlega talið hafa skaddað æru dómarans, gott ef ekki sjálfsvirðingu hennar, að svo mikils metinn maður skuli hafa valið henni þetta orð. Mannorð dómarans lagast væntanlega stórum við að bófinn sitji í fangelsi. Það mun sannfæra alþjóð um að dómarinn sé ekki tussa en þó því aðeins að hann fái að dúsa inni lengur en hálft ár.

Auðvitað á bófi ekki að nota orðið „tussa“ í réttarsal. Og auðvitað á ritstjóri Morgunblaðisins ekki að kalla Katrínu Jakobsdóttur gluggaskraut. En er ekki óþarfa þjónkun við karlrembuna að veita henni slíka athygli?



Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Föstudagur 15.2.2013 - 18:43 - FB ummæli ()

Vigdís Hauksdóttir er hætt að vera fyndin

Mér hefur löngum þótt það fyndinn gjörningur hjá Framsóknarflokknum að koma Vigdísi Hauksdóttur á þing.

En nú er þetta hætt að vera fyndið.

Ég er of reið til að skrifa um þetta í augnablikinu án þess að hætta á að segja eitthvað sem ég gæti séð eftir. Það hlýtur að koma að því að adrenalínflæðið jafni sig en endilega ræðið þetta á meðan ég fer til fiskmangarans og kaupi þorkshaus til þess að öskra á.

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 13.2.2013 - 15:18 - FB ummæli ()

Píkan hennar Steinunnar


Steinunn Gunnlaugsdóttir
er pólitískur lista(kven)maður sem ég vildi gjarnan að væri meira áberandi. Hún á heiðurinn af píkumyndbandinu sem ég tengi á hér að neðan.

Þar sem margar viðkvæmar sálir lesa Eyjubloggið mitt er hætta á að einhverjum misbjóði og fyrst var ég að hugsa um að birta þetta frekar á persónulegu síðunni minni. Við nánari umhugsun ákvað ég þó að sleppa tökunum á forræðishyggju minni og treysta lesendum með píkuóþol til þess að sleppa því bara að opna færslu með fyrirsögn sem vísar á píku.

Þessi tengill ber þig inn á klámsíðu 
svo ekki klikka á hann nema þú sért í aðstæðum sem þola djarfar myndir.

Hvað segir Klámstofa?

Það fyrsta sem mér kom í hug þegar ég sá myndbandið var Klámstofuhugmynd Lögmundar. Hér er ekki um klám að ræða heldur pólitíska list. Mun Klámstofa banna list af þessu tagi? Mun Klámstofa sætta sig við myndband Steinunnar ef það verður birt á sérstakri pólitískri kynlistasíðu? Verður til annarsvegar klám og hinsvegar klámlist? Mun Klámstofa sætta sig við þetta myndband ef það verður birt á sérstakri píkulistasíðu ásamt virtum píkulistaverkum?

http://www.uploadyourporn.com/play/51510

 

Hvað er manneskjan að fara?

Hin spurningin er svo auðvitað hvað manneskjan er eiginlega að fara með þessu. Sjálfsagt má skilja myndbandið á ótal vegu. Hér eru nokkrar tillögur:

  1. Hún er að benda á augljósan sannleika, að tungumálið er karllægt.
  2. Með því að láta píkuna tala kallar hún eftir því að list kvenna og kannski bara konur yfirhöfuð fái meiri athygli.
  3. Með því að birta þetta á klámsíðu bendir hún á að konur veki sjaldan athygli  nema í kynferðislegu samhengi.
  4. Hún er drulluþreytt áherslunni á kynferði listafólks og jafnar henni við klám.
  5. Með því að klámgera umræðuna um karllægni orðræðunnar bendir hún á að sú umræða sé varla brýnt jafnréttismál heldur óttalegt klám.
  6. Með því að gefa píkunni rödd bendir hún á þá valdeflingu sem viðurkenning á kynfrelsi kvenna hefur í för með sér.
  7. Hún á við að umræðan um karllægni orðræðunnar sé aðallega pólitískt runk.
  8. Með því að nota píkuna er hún að smætta listakonur niður í kynfæri sín og ráðast á hinn sérstaka reynsluheim kvenna.
  9. Með því að nota píkuna er hún að setja fram ádeilu á það viðhorf að þær konur sem berjast fyrir því að listakonur fái meira vægi séu álitnar algerar píkur.
  10. Þar sem píkan talar ekki nema henni sé handstýrt er hér um að ræða áframhaldandi hlutgervingu konunnnar/píkunnar.
  11. Með því að birta boðskapinn á klámsíðu vill hún vekja klámneytendur til meðvitundar um karllægni klámheimsins og kannski menningarinnar allrar.
  12. Með því að birta listaverk á klámsíðu bendir hún á að klám er list enda þótt mörgum þyki það vond list.
  13. Með því að birta listaverk á klámsíðu bendir hún á að það er útilokað að draga mörk milli kláms, erótíkur og pólitískrar listar.
  14. Hún er að gera grín að klámi.
  15. Hún er að gera grín að feministum.
  16. Hún er að gera grín að ófrumlegum listamönnum sem taka sig hátíðlega.
  17. Hún er að gera grín að listamönnum sem taka kynferði sitt hátíðlega.
  18. Þetta er ádeila á þá hugmynd að það sé gerlegt og/eða æskilegt að breyta viðhorfum með því að breyta málinu.
  19. Hún er að setja fram ádeilu á klámvæðingu listarinnar.
  20. Hún er að taka þátt í klámvæðingu listarinnar.
  21. Hún meinar ekkert með þessu, hún er bara svona athyglissjúk.

Hvað segja lesendur? Fleiri tillögur um túlkun? Einhver ofangreindra túlkana sem fólk er sammála eða finnst alveg út úr kortinu?

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Kynjapólitík · Mannréttinda- og friðarmál · Menning og listir
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 12.2.2013 - 14:55 - FB ummæli ()

Eigi skal efast

Viðbrögðin við hæstaréttardómnum í vítisenglamálinu, sem engir vítisenglar voru viðriðnir, afhjúpar þá útbreiddu skoðun að kynferðisbrot séu annars eðlis og miklu alvarlegri en annað ofbeldi.

Síðustu daga hef ég nefnt ýmis dæmi um ofbeldi sem ekki telst kynferðisbrot en felur engu að síður í sér niðurlægingu og brot gegn sjálfsákvörðunarrétti fórnarlambsins.  Ég hef spurt hversvegna brot gegn kynfrelsi sé í eðli sínu alvarlegra en annað ofbeldi þar sem brotið er gegn sjálfsögðum réttindum fólks. Enginn hefur svarað því en sumir segja að með spurningunni sé ég að gera lítið úr kynferðisofbeldi og fórnarlömbum kynferðisofbeldis.

Einmitt það: Þótt enginn geti útskýrt hvað sé svona sérstakt við kynferðisofbeldi, þá er það bara einfaldlega verra en allt annað ofbeldi. Af því bara. Ef ég voga mér að biðja um rök, er það árás á fórnarlömbin.

Fleiri spurningar sem eiga ekki rétt á sér

Þegar vinkona mín var lítil hélt hópur drengja henni niðri á meðan einn þeirra kitlaði hana þar til hún pissaði í buxurnar. Þremur áratugum síðar hefur hún enn ekki orðið fyrir verri niðurlægingu auk þess sem þetta var rifjað upp reglulega alla hennar grunnskólagöngu. Sá sem spyr hvort sé óumdeilanlegt að stúlkan sem varð fyrir því að strákur kippti niður um hana buxunum fyrir framan bekkinn, hafi orðið fyrir verra áfalli gerir lítið úr kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi er svo rosalega spes af því að það felur í sér niðurlæginu.

Vinur minn var lagður í einelti í barnaskóla. Eitt af því sem þótti mjög fyndið var að kaffæra hann í snjó. Við skulum ekki voga okkur að spyrja hvort brot gegn öndurnarfrelsi manneskju jafnist á við brot gegn kynfrelsi. Spurning af því tagi er árás á fórnarlömb kynferðisbrota.

Ég hef kynnst fórnarlömbum pyntinga; manni sem ber varanleg örkuml eftir margra daga vist í litlu búri þar sem hann sat í hnút og gat sig lítið hreyft; öðrum sem glímir við geðsjúkdóm eftir að hafa verið sviptur svefni dögum saman. Við skulum ekki spyrja hvort brot gegn hreyfifrelsi eða svefnfrelsi geti haft jafn slæmar afleiðingar og brot gegn kynfrelsi. Sá sem leyfir sér hvílík helgispjöll er í herferð gegn fórnarlömbum kynferðisglæpamanna.

Spyrjum heldur ekki hvort svelti, þvinguð lyfjanotkun, samskiptatálmun, frelsissvipting, líflátshótanir, líkamsmeiðingar eða hvaða ofbeldisglæpir sem maðurinn hefur hugarflug til að fremja, geti undir einhverjum kringumstæðum haft verri afleiðingar en kynferðisbrot. Sá sem spyr svo óguðlegra spurninga er að taka afstöðu með nauðgurum.

Af hverju segir fólk ekkert? 

Það er skiljanlegt að hreyfingin sem rauf þögnina um kynferðisofbeldi telji að sér vegið þegar einhver bendir á að umræðan sé komin út í rugl.  Og þá er gott þöggunartrix að halda því fram að gagnrýnin beinist gegn brotaþolum í nauðgunarmálum en ekki þeirri hreintrúarstefnu sem miðar að takmarkalausri fórnarlambsvæðingu kvenna.

Síðustu daga hef ég fengið mörg bréf frá fólk sem er ánægt með að einhver skuli leyfa sér efast um algera sérstöðu kynferðisglæpa en þorir samt ekki að segja neitt sjálft. Hvernig stendur á því á tímum tjáningarfrelsis að almennur borgari þarf sérstakan kjark til að segja að kannski sé nauðgun ekki hræðilegri en annað ofbeldi? Það versta sem getur gerst er að einhver haldi því fram að maður sé að níðast á fórnarlömbum nauðgara og það ætti að vera einfalt að láta slíka vitleysu sem vind um eyrun þjóta. En það er greinilega nógu þungbær dómur til þess að flestir kjósa frekar að þegja.

Ein tegund ofbeldisfórnarlamba er talin verðskulda meiri samúð en þolendur annarskonar ofbeldis. Það telst siðferðilegur glæpur að benda á að dómstólar líti kynferðisbrot af hálfu nuddara jafn alvarlegum augum og það að berja mann ítrekað í höfuðið með kylfu. Það er árás á nauðgunarfórnarlömb að efast um að varanleg örorka eða dauði sé neitt skárri örlög en áfallastreituröskun. Mig grunar að ástæðan sé sú að flestir þolendur kynferðisglæpa eru konur og nauðsynlegt þyki að viðhalda þeirri mýtu að örlög kvenna séu alltaf ömurlegri en örlög karla.

Kynferðisofbeldi er það versta sem getur komið fyrir: Þannig hljóðar hið heilaga orð. En er ástæðan fyrir því að þessar efasemdir eru tabú sú að þær geri lítið úr fórnarlömbum kynferðisofbeldis? Eða felst glæpurinn í því að storka kennivaldinu?

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , ,

Mánudagur 11.2.2013 - 12:17 - FB ummæli ()

Rakstur

Mörgum árum áður en komst í tísku að fjarlægja kynhár, vaknaði ungur piltur á sófanum hjá félaga sínum eftir þokkalega skrautlegt djamm. Hann brölti fram úr til að pissa og sá sér til furðu að hann leit út eins og englabarn að neðanverðu. Vinir hans höfðu dregið niður um hann buxurnar og rakað á honum punginn þar sem hann lá í rússi eftir óhóflega neyslu vímuefna. Honum þótti þetta að vísu ekki nærri eins fyndið og félögunum og varð svona nett pirraður yfir kláðanum sem angraði hann í nokkra daga á meðan broddarnir voru á sandpappírsstiginu. Hann erfði þetta þó ekki við vini sína heldur leit á atvikið sem fylliríisflipp sem hann hefði sjálfur verið líklegur til að taka þátt í ef einhver hinna félaganna hefði drepist fyrir miðnætti.

Þegar ég heyrði þessa sögu benti ég á að ef stúlka hefði átt í hlut hefði þetta kallast kynferðisbrot. Líklega hefðu margir talið þetta kynferðisbrot enda þótt vinkonur hennar hefðu staðið að því en ekki strákahópur. Svörin sem ég fékk voru þau að stelpur myndu aldrei hegða sér svona í góðu því þetta væri strákahúmor, og að viðkomandi grínarar hefðu aldrei gert þetta gagnvart stúlku, því það væri bara allt annað að fíflast í strák en stelpu. Kannski er blygðunarsemi kvenna viðkvæmari en blygðunarsemi karla, allavega virðast margir telja að svo sé.

Nokkrum mánuðum síðar vaknaði stúlka í sama bæjarfélagi eftir hrottalegt fyllirí. Hún mundi óljóst að nóttin hafði endað með vinslitum hennar og vinkonu hennar. Samband þeirra hafði löngum verið stormasamt og legið við slagsmálum í uppgjörinu sem fram fór áður en vinkonan lét sig hverfa. Stúlkan brölti fram úr til að pissa og fékk áfall þegar hún leit í spegilinn. Vinkonan, sem nú var ekki lengur vinkona hennar, hafði komið inn aftur og rakað af henni aðra augnbrúnina eftir að hún var sofnuð. Þetta var löngu áður en fór að þykja fallegt að raka af sér augnbrúnir og teikna mjó strik fyrir ofan augun. Stúlkan sagði síðar að það sem henni hefði þótt verst hefði verið að neyðast til þess að fjarlægja hina augnbrúnina sjálf.

Þótt atvikin séu lík eiga þau sér ólíka forsögu og höfðu ólíkar afleiðingar. Aunbrúnarraksturinn var framinn í reiði, með því hugarfari að særa og niðurlægja vinkonu sem gerandinn taldi að hefði hegðað sér óafsakanlega.  Pungraksturinn var framinn í galsaskap, með því hugarfari að stríða vini sem hefði sennilega tekið þátt í ámóta skemmtilegheitum gegn öðrum í hópnum. Augbrúnarraksturinn var stúlkunni áfall. Hann breytti andliti hennar í nokkrar vikur, var hverjum sem hún hitti sýnilegur og vakti umtal um það hvað hefði gengið á milli stúlknanna. Pilturinn upplifði pungraksturinn sem grín. Hann var ekki vanur því að bera á sér punginn á almannafæri svo það var aðeins meðal jafningja hans sem það var altalað að hann hefði orðið fyrir þessu. Enginn leit svo á að hann hefði kallað yfir sig hefnd heldur hafði hann djammað af meira kappi en forsjá.

Í báðum tilvikum er um að ræða einhverskonar ofbeldi. Kannski ekki svo gróft ofbeldi að það teljist refsivert en engu að síður yfirgang gegn friðhelgi líkamans. En var annað atvikið kynferðisbrot? Ef svo er, hvers konar brot var hitt atvikið þá? Brot gegn útlitsfrelsi? Brot gegn sjálfsímyndarfrelsi? Eða eitthvað annað?

Flokkar: Allt efni
Efnisorð:

Sunnudagur 10.2.2013 - 14:24 - FB ummæli ()

Hefndin

Fyrir mörgum árum heyrði ég sögu sem mér finnst líklegast að sé flökkusaga.

Stúlka varð brjálæðislega ástfangin af tilfinningalegum fávita. Hann kom illa fram við hana á milljón mismunandi vegu. Vanrækti hana, laug að henni, sveik loforð, brást henni þegar hún þarfnaðist hans, hélt fram hjá henni, gagnrýndi hana harkalega, gerði ósanngjarnar kröfur til hennar, o.s.frv. o.s.frv. Að lokum toppaði hann svo skíthælsháttinn með því að dömpa henni fimm mínútum áður en hún átti að stíga á svið og flytja erfitt verk á tónleikum.

Stúlkan varð að vonum miður sín en á nokkrum dögum breyttist sorgin í reiði og hún ákvað að láta ekki brjóta sig niður heldur taka til hefnda. Hún flutti lögheimilið sitt í ræktina og lifði á skyri og gulrótum í þrjá mánuði. Léttist um 12 kg og fékk flottan kúlurass og sléttan maga. Sofnaði út frá sjálffstyrkingarbókum og endurnýjaði fataskápinn og snyrtivörulagerinn.

Rúmum þremur mánuðum eftir dömpið mætti hún svo í samkvæmi þar sem hún vissi að fávitinn yrði staddur. Hún blakaði augnhárunum og svo fór að hann bauð henni með sér heim. Gaurinn var mikill áhugamaður um bindileiki og var svo þrælheppinn að sú ástfangna og endurnýjaða, sem aldrei hafði verið spennt fyrir slíku áður, hafði á þessum þremur mánuðum þróað mér sér skyndilegan áhuga á handjárnum og leðurbindingum. Hún batt viðfang hefndarþorsta síns kirfilega við rúmið með lostafullu látbragði og keflaði hann með boltakefli. Fávitinn reiknaði með að hún myndi svo fullnægja honum. Þess í stað fékk hann gullregn yfir smettið á sér. Á því hafði hann engan áhuga og allra síst yfir andlitið, hvað þá í sínu eigin rúmi. En stúlkan bara hló. Svo skellti hún einum brúnum á bringuna á honum.

Stúlkan fór svo í sturtu, kom aftur inn í herbergi til fávitans og á meðan hún klæddi sig og snyrti, útskýrði hún fyrir honum að hún kynni hreinlega enga aðra leið til að koma honum í skilning um það hvernig henni hefði liðið vegna hans framkomu. Svo fór hún. En hún fór reyndar ekki langt, heldur bara í partýið aftur. Þaðan sendi hún hóp fólks til að losa gaurinn. Það þótti honum ekki skemmtilegt.

Mér finnst ólíklegt að þetta atvik hefði verið kært enda þótt það hefði átt sér stað í alvöru. En ef þetta hefði nú gerst og ef þolandinn hefði viljað kæra þetta, hvaða lagagrein hefði þá átt við? Þótt maðurinn hafi undirgengist fjötrun og keflun sjálfviljugur er það augljóslega brot gegn frjálsræði manns að losa hann ekki þegar hann gefur til kynna að hann sé búinn að fá nóg svo eðlilegt væri að dæma slíkt brot sem frelsissviptingu. En hér er meira en brot gegn frjálsræði inni í myndinni og ég veit ekki hvernig það yrði flokkað. Hvað ef maðurinn hefði ekki verið bundinn heldur verið sofandi og vaknað við þessa meðferð?

Það er fráleitt að tilgangur konunnar í sögunni hafi verið sá að fá eitthvað út úr þessu kynferðislega. Markmiðið var niðurlæging. Að að valda tilfinningalegu tjóni í hefndarskyni fyrir niðurlægingu og annað tilfinningalegt tjón sem ekki telst refsivert. Engin kynferðismök áttu sér stað og það sem særði blygðunarkennd mannsins var ekki „lostugt“ athæfi samkvæmt venjulegri notkun orðsins heldur einmitt sá hluti atburðarins sem vakti hvorugu þeirra losta. Hefur „lostugt athæfi“ annars verið skilgreint í lögum?

Ég veit ekki hvort lögin ná yfir hegðun á borð við að losa úrgang yfir bundinn mann eða sofandi mann í þeim tilgangi að niðurlægja hann en hvernig finnst lesendum að væri eðlilegast að flokka ofbeldi af þessu tagi. Sem kynferðisbrot? Brot gegn blygðunarsemi? Eða eitthvað annað?

Flokkar: Allt efni
Efnisorð:

Laugardagur 9.2.2013 - 13:49 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin tilnefnd til Steingrímunnar

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru skref í átt að lýðræði. Það er þó til lítils að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu ef ekkert er gert með niðurstöðu hennar.

Helstu rökin gegn þjóðaratkvæðagreiðslum eru þau að almúganum sé ekki treystandi fyrir mikilvægum ákvörðunum. Við þurfum mannvitsbrekkurnar 63 sem sitja á Alþingi til þess að passa upp á okkur. Ef málum er skotið til þjóðarinnar gætu alkóhólistar, glæpamenn og kjánar haft áhrif á niðurstöðu, ólíkt því sem gerist í þinginu.

Nú hefur mbl.is upplýst okkur um að stjórnarflokkarnir séu hættir við að koma stjórnarskrármálinu í gegnum þingið. Í fyrstu hélt ég að þetta væri bara moggalygi en stjórnarliðar þegja þunnu hljóði og ég held ekki að skýringin sé sú að þeir séu allir uppteknir við að baka vatnsdeigsbollur.

Árið 2011 sæmdi vefritið Gagnauga Ögmund Jónasson viðsnúningsverðlaununum Steingrímunni. Tilefnið var sá gagngeri viðsnúningur Ögmundar í afstöðu til alræðishyggju sem birtist í skyndilegri hrifningu hans á þeirri hugmynd að veita lögreglu heimildir til að njósa um fólk sem ekki er grunað um að hafa framið glæp af neinu tagi.

Ég tilnefni hér með ríkisstjórnina til Steingrímunnar 2013 fyrir viðsnúning sinn í afstöðu til lýðræðis.

Athugið að þetta snýst ekki bara um stjórnarskrána heldur ekki síður lýðræðismál. Þeir sem ekki eru hrifnir af stjórnarskrárfrumvarpinu fagna kannski í dag en þeir sem styðja valdníðslu í þessu máli gætu skipt um skoðun næst þegar kemur til álita að skjóta máli til þjóðarinnar.

 

Þórarinn haki hannaði Steingrímuna

     

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Fimmtudagur 7.2.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Vítisenglamálið sem reyndist ekki Vítisenglamál

Ísland er andverðleikasamfélag. Samfélag þar sem undirmálsfólk kemst auðveldlega í áhrifastöður. Þar sem þingmaður sem hefur misfarið með almannafé í starfi og hlotið fangelsisdóm fyrir er kosinn aftur á þing. Þar sem fólk hefur verið ráðið til háskólakennslu án þess að hafa einu sinni lokið meistaraprófi. Þar sem það telst blaðamennska að renna greinum úr erlendum þvaðurblöðum í gegnum google translate. Þessi upphafning vanhæfninnar kemur sér vel fyrir nokkra einstaklinga en bitnar almennt á fjöldanum. Einn stór kostur fylgir þó andverðleikasamfélagi; vanhæfni valdafólksins nær einnig til undirheima.

Andverðleikar stjörnuglæpamanna

Íslenskir glæpamenn eru upp til hópa vanhæfir. Íslendingar hafa blessunarlega ekki átt raðmorðinga síðan þeir hálshjuggu Axlar-Björn. Þeir einu sem hafa burði til þess að stunda skipulagða glæpastarfsemi af einhverju viti eru varla, eða jafnvel alls ekki, glæpamenn í skilningi laganna. Þeir hæfustu (sem glæpamenn) hafa m.a.s. fengið asnalegt barmmerki hjá forsetadindlinum og mega þessvegna mæta í partýin hans. Þeir sjást hinsvegar ekki aka mótorhjólum í stórum hópum, útbelgdir af sterum og húðflúraðir upp að eyrnasneplum.

Þeir sem venjulega er átt við þegar talað er um glæpamenn eru ekkert af svipuðu kaliberi og útrásarvíkingar. Stjörnuglæpamennirnir okkar eru lúðar á borð við Jón Stóra og Annþór. Þetta eru mennirnir sem hafa komist til áhrifa í undirheimum. Vitleysingar sem stunda skítalabbaglæpi eins og dópmang og handrukkanir. Menn sem eru einstaklingum stórhættulegir en svo langt frá því að vera fagmenn að þeir ráða ekki einu sinni við að halda kjafti yfir því að þeir séu glæponar þegar þeir koma fram í fjölmiðlum. Enda þurfa þeir þess svosem ekki því aumingjadýrkun samfélagsins er á því stigi að menn sem lemja aðra geta auðveldlega orðið glæpaselebb.

Andverðleikar íslenskra glæpamanna hafa lengi verið yfirvaldsdýrkendum mikið áhyggjuefni. Vanhæfni krimmanna gerir yfirvaldinu erfitt að sölsa undir sig meiri völd vegna þess að það er mjög ólíklegt að þú, lesandi góður, kaupir þá kenningu að þótt einhver glæpalubbi sjáist í námunda við heimili þitt, gefi það Lögmundi og félögum rétt til þess að hlera símann þinn. Það er því sannkallaður hvalreki fyrir þá sem vilja koma á eftirlitssamfélagi þegar mótorhjólabullur fara að gera sig breiðar undir merkjum hinna illræmdu Vítisengla. Það eru nefnilega viðtekin sannindi að þar séu á ferð menn sem ráða við alvöruglæpi. Fagmenn í allt öðrum flokki en stjörnubófarnir.Þessari firru trúir fólk enda þótt þessar fimm eða tíu hræður sem fjölmiðlar kenna við Vítisengla séu ýmist í fangelsi eða á leið í fangelsi og hafi ekki sýnt sig færa um að skipuleggja eitt eða neitt framyfir það sem bófar hafa alla tíð skipulagt hvort sem þeir hafa merkt sig vélhjólaklúbbum eður ei.

En áróður virkar. Borgari sem hefur áhyggjur af því að til verði stórt samfélag þar sem ágreiningur er leystur með ofbeldi gæti fallist á að svo brýna nauðsyn beri til þess að stöðva þessa menn að friðhelgi einkalífsins sé fórnandi fyrir þá vernd sem skósveinar Lögmundar ætla að veita okkur út á forvirkar njósnaheimildir.

Vítisenglamálið var ekki Vítisenglamál

Það sem mér finnst áhugavert við hæstaréttardóm 521/2012 er efni í marga pistla en það atriði sem stingur mig mest er það hversu langt lögreglan virðist hafa seilst í viðleitni sinni til að tengja þessa árás meintum skipulögðum glæpasamtökum. Vítisenglum.

Einar „Boom“ Marteinsson sat í gæsluvarðhaldi í næstum því fimm mánuði, grunaður um aðild að málinu. Þegar hann losnaði hélt ég að hann hlyti að hafa sloppið naumlega. Það kom mér því á óvart að sjá á hversu veikum forsendum honum var haldið svo lengi. Af dómnum að ráða voru forsendur eftirfarandi:

1. Brotaþoli sagði á slysadeild að Einar hefði hótað sér. Tók það þó ekki fram í lögregluskýrslum. Ekkert kemur fram í dómnum sem bendir til að vitni eða nein önnur gögn styðji þetta.

2. Konan sem átti mestan þátt í árásinni hafði í samtali á facebook talað um að Einar myndi „væntanlega“ koma með henni til fórnarlambsins. Ekkert annað styður þá hugmynd að Einar hafi gefið nokkurt vilyrði fyrir því.

3. Brotaþoli hringdi í Einar fyrir árásina. Hann hafði ekkert hringt í hana og ekkert kemur fram um að hann hafi á neinn hátt átt frumkvæði að samskiptum.

4. Einar bauð árásarfólkinu afnot af sendibíl til að sækja vélhjól sem þau sögðust vera að endurheimta en því hefði verið stolið,  (þau þurftu ekki bílinn) og að geyma hjólið í bílskúrnum sínum.

5. Mörg símtöl eru á milli aðila málsins og Einars dagana á undan. Ekkert bendir þó til þess að það sé neitt nýtt og þau staðfesta öll langvarandi vinskap sín á milli.

6. Fundargerðabækur mótorhjólaklúbba benda til þess að meðlimir þeirra hafi einhver samskipti sín á milli. Ekkert bendir til að þau samskipti tengist neinu ólöglegu.

Þetta eru þau atriði sem lögreglan notaði til að bendla Einar við málið og dugðu dómurum til að halda honum í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Ekki nóg með það að engin gögn staðfesti að  Einar sem persóna hafi átt hlut að þessari árás, heldur er ekkert að sjá í dómnum sem gaf tilefni til að bendla Vítisengla sem samtök við árásina annað en óformleg frásögn brotaþola í áfalli, sem hún staðfestir ekki í formlegri skýrslugerð. Hæstiréttur komst enda að þeirri niðurstöðu að gögnin sýni hvorki fram á aðild Einars að málinu, né því að árásin flokkist sem skipulagt brot eða teljist liður í starfsemi skipulagðra glæpasamtaka.

Ég er ekki að segja að Vítisenglar séu ekki skipulögð glæpasamtök og stórhættulegir menn. Ég er ekki að segja að Vítisenglar tengist þessu ofbeldisfólki ekki.  Ég er heldur ekki að segja að Einar Marteinsston hafi ekki átt hlutdeild í þessu máli. Um það get ég ekkert fullyrt. Ekki frekar en hæstiréttur. Hitt leyfi ég mér að fullyrða að það að halda manni í gæsluvarðhaldi svo lengi þegar grunur er reistur á svo veikum gögnum, er í skársta falli vafasamt, í versta falli hreint og klárt mannréttindabrot.

Njósnaheimildir og Vítisenglaógnin

Meint glæpastarfsemi mótorhjólagengja hefur verið helsta áróðursbragð stjórnvalda til að sætta almenning við svokallaðar „forvirkar rannsóknarheimildir“. Slíkar heimildir hafa þó hvergi upprætt eða einu sinni dregið úr ofbeldi, fíkniefnaviðskiptum eða öðrum glæpum sem taldir eru einkenna vélhjólaklíkur. Njósnaheimildir hafa hinsvegar allsstaðar verið misnotaðar í pólitískum tilgangi. Þær eru notaðar til að fylgjast með grasrótarhreyfingum og pólitískum andstæðingum stjórnvalda. Allsstaðar.  (Ég fjallaði ýtarlega um misnotkun forvirkra rannsóknarheimilda hér.)

Nú er það staðfest af hæstarétti að engin efni séu til þess að tengja Vítisengla umræddu ofbeldismáli en með dyggri aðstoð fjölmiðla, hefur lögreglunni tekist að planta þeirri hugmynd meðal almennings að þarna hafi Vítisenglar verið að verki. Maður hefði kannski haldi að þetta yrði leiðrétt núna en þrátt fyrir að dómurinn staðfesti engin tengsl Vítisengla við málið, leyfir virtasti fréttaskýringaþáttur ríkisútvarpsins sér að kynna umfjöllun um dóminn sem „mál sem tengist meðlimum Hell’s Angels.“ Ef fréttamenn RÚV vita ekki betur, hvað hugsar almenningur þá?

Ég held að margir sem kenna sig við Vítisengla beri litla virðingu fyrir mannhelgi þeirra sem þeir telja sig eiga eitthvað sökótt við. Ég held að margir þeirra séu ótíndir glæpamenn og ég yrði ekki hissa þótt í ljós kæmi að mótorhjólagengi hafi stundað skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. En það að ég haldi það réttlætir hvorki að þeir séu tengdir við glæpamál að ósekju né sérstaka hörku réttarkerfisins gagnvart þeim; það réttlætir heldur ekki að yfirvöld noti ímynduð tengsl þeirra við ofbeldismál í áróðursskyni fyrir rýmri valdheimildum lögreglu og það réttlætir ekki að fjölmiðlar dreifi villandi eða röngum upplýsingum.

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Miðvikudagur 6.2.2013 - 14:02 - FB ummæli ()

Hvort viltu nauðgun eða líkamsmeiðingar?

Umræðan um nýlegan dóm hæstaréttar er áhugavert dæmi um þann árangur sem kennivald kvenhyggjunnar hefur náð. Réttarkerfi sem fær standpínu af tilhugsuninni um að negla mótorhjólagengi, hlýtur umsvifalaust að leggjast á sveif með meintum vítisenglavinum ef þeir eru kynferðisglæpamenn. Sá sem bendir á að óskilorðsbundnir fangelsisdómar upp á fjögur til fimm og hálft ár (samanlagt átján og hálft ár) séu vond staðfesting á kvenhatri dómara, er með því að ráðast á fórnarlambið.

Í gær spurði ég hversvegna kynferðisofbeldi væri talið í eðli sínu alvarlegra en líkamsmeiðingar. Tilefnið var hin mikla reiði sem braust út vegna þeirrar ákvörðunar hæstaréttar að dæmi mál 521/2012 sem líkamsárás en ekki kynferðisbrot. Sumum þótti spurningin heimskuleg. Öðrum fannst hún beinlínis dónaleg og töldu mig ekki einungis vera sammála hæstarétti um að ekki bæri að dæma hið títtnefnda atvik sem kynferðisbrot, heldur væri ég einnig að gera lítið úr þolendum kynferðisofbeldis með því að voga mér að varpa þessari spurningu fram. Svona virkar kennivald, eðlilegar spurningar verða tabú.

Nokkur svör fékk ég þó við þessari spurningu og er rétt að gera grein fyrir þeim.

Svörin sem svara einhverju öðru

Einn vísaði í þennan pistil. Ágætur pistill en hann svarar ekki spurningu minni. Markmið höfundar er að benda á fordæmisgildið. Sjálf ástæðan fyrir því greinarhöfundur hefur áhyggjur af fordæmisgildinu er sú að kynferðsbrot séu álitin verri en líkamsárásir.

Annar vísaði í pistil Þorgerðar E. Sigurðardóttur á rás eitt. Mjög góður pistill þar til í lokin þegar hún talar um að árás á kynfæri karlmanns geti ekki verið sambærileg við kynferðisofbeldi. Hún færir engin rök fyrir því, telur það bara svo augljóst að það þurfi ekki einu sinni að ræða það.

Sá næsti benti mér á rök Helgu Völu Helgadóttur  í Kastljósinu. Helga Vala segir þó alls ekki að kynferðisbrot sé verra en líkamsárás. Þau Brynjar virðast raunar vera sammála um að það þurfi að vera matsatriði hverju sinni hvort mál sé dæmt sem kynferðisbrot eða líkamsárás. Helga Vala er hinsvegar ósátt við það hvernig þetta tiltekna brot var metið og hún færir lögfræðileg rök fyrir því að frekar hefði átt að dæma á forsendu 194. greinar. Fín rök en þau varpa ekki ljósi á þá almennu skoðun að nauðgun sé verri en líkamsmeiðingar. (Ég hefði viljað heyra álit þessara lögmanna á því hvort hefði ekki mátt nota báðar greinarnar en það kemur ekki fram.)

Sá fjórði benti á að áfallastreituröskun greinist oftar hjá þolendum í kynferðisbrotamálum en öðrum flokkum áfalla. Nú gæti ég skrifað laaangan pistil en gefum okkur bara að þetta sé óumdeilanlegt. Getum við þá fullyrt að áfallastreituröskun sé í eðli sínu alvarlegri afleiðing af ofbeldi en líkamlegur skaði?

Allmargir virðast álíta það hafið yfir vafa og svöruðu með spurningu; „hvort viltu frekar verða fyrir nauðgun en líkamsárás?“ Spurningin er ágæt. Við skulum skoða nokkur dæmi:

Hvort má frekar bjóða þér nauðgun eða líkamsmeiðingar?

Á íslandi kostar hrottaleg nauðgun ásamt tilraun til vændiskaupa fimm ára fangelsi. Árið 2007 hlaut maður fimm ára dóm fyrir að hafa brot gegn sambýlsikonum sínum, bæði kynferðisbrot en auk þess fyrir frelsissviptingu. barsmíðar, hárreytingar, fyrir að ógna konu með kjötexi og búrhníf og teppa andardrátt hennar svo hún missti meðvitund. (Dómurinn var staðfestur í hæstarétti.)  Ég hef ekki legið yfir þessum dómum en þeir eru komnir á leslistann því mig langar að vita hvort er svona miklu ódýrara að nauðga sinni eigin konu en öðrum og hvort kjötaxarárásin telst léttvægari en tilraun til vændiskaupa.

Að elta konu uppi, þröngva henni inn á klósett og nauðga henni kostar fimm ár. (Staðfest í hæstarétti.) Manndrápstilraun þar sem játning um ásetning liggur fyrir eða þar sem þolandinn hlýtur ýmsa lífshættulega áverka kostar einnig fimm ár. Gernandinn var ungur en fleiri líkamsárásir eru teknar með í dómnum. Ég finn ekki hæstaréttardóminn en upplýsingar um hann eru vel þegnar.

Það kostar fjögur ár ef tveir menn fara með konu á afvikinn stað og neyða hana til kynferðismaka með því að slá hana og neyta líkamlegra aflsmuna. Það sama kostar líkamsárás sem leiðir mann til dauða. (Maðurinn var síðar sýknaður í hæstarétti en eftir stendur það mat héraðsdóms að slík líkamsárás skuli metin til fjögurra ára.)

Það kostar átján mánaða fangelsi að stinga fingri í endaþarm konu sem er að pissa. Það kostar líka átján mánaða fangelsi að berja mann í höfuð með hafnaboltakylfu, þ.e.a.s. ef maður er líka að rjúfa skilorð.

Sex mánaða fangelsi kostar það að fara upp í rúm til sofandi konu og þykjast vera kærastinn hennar. Hæstiréttur þyngdi þann dóm síðar í tvö ár. Það kostar einnig sex mánuði, (þar af þrjá skilorðsbundna ef árásarmaðurinn er mjög ungur) að ráðast á ókunnugan mann á götu og höfuðkúpubrjóta hann. Ég þekki fórnarlambið í þessu máli persónulega. Hann ber varanlegan skaða á máli og skerta getu til að nota hægri höndina eftir þessa árás.

 

Liggur það algerlega í augum uppi að kynferðisofbeldi sé í eðli sínu alvarlegri glæpur en líkamsárás? Eru dómarar of mildir gagnvart kynferðisglæpamönnum miðað við þá sem fremja önnur ofbeldisverk? Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Kynjapólitík · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Þriðjudagur 5.2.2013 - 14:49 - FB ummæli ()

Er kynferðisofbeldi verra en líkamsmeiðingar?

Endurbirt með leiðréttingum kl.17.15

———-

Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að það sé ekki kynferðisbrot að vaða með fingur inn í leggöng og endaþarm þolandans? Ég skildi það ekki – þessvegna las ég dóminn.

Dómur hæstaréttar í máli nr 521/2012 er mikil lesning, ríflega 120 blaðsíður og vekur satt að segja fleiri spurningar en hann svarar. Í þetta sinn er það þessi spurning um forsendur sem mig langar að ræða.

Þegar ég birti þennan pistil fyrr í dag taldi ég víst að vandamálið sem hæstiréttur stóð frammi fyrir hefði verið það að ekki sé leyfilegt að dæma þennan verknað á grundvelli tveggja lagagreina. Hefði sá hluti árásarinnar sem ég hefði  kallað kynferðisbrot, verið dæmdur sem nauðgun, hefði það tæmt sök um líkamsárás fyrir þennan tiltekna verkað og öfugt. Mér var fljótlega bent á að þetta væri misskilningur hjá mér. Ekkert sé því til fyrirstöðu að nota 1. mgr. 194. greinar og 2. mgr. 218. greinar samhliða.

Dómara greinir ekki á um það að umrætt atvik hafi átt sér stað og að það hafi verið meiðandi og lítilsvirðandi. Þá greinir hinsvegar á um hvort eigi að kalla það „kynferðismök“ eða „líkamsmeiðingar“. Öfugt við það sem ég taldi er hægt að beita báðum ákvæðum og sú spurning á því fullan rétt á sér hversvegna báðum ákvæðum var ekki beitt. Eftir sem áður langar mig þó að varpa fram spurningum um það hvort, og þá hversvegna, kynferðisofbeldi sé álitið verra en líkamsmeiðingar.

Árásin

Í dómnum er lýst hrottalegri líkamsárás. Vopnað og grímuklætt fólk réðst inn á heimili að nóttu til, ógnaði konu og meiddi hana. Hún varð fyrir niðurlægjandi ummælum, hún var hárreytt, barin og tekin kverkataki svo hún missti meðvitund hvað eftir annað. Hún varð fyrir spörkum með stáltá, skorið var í fingur hennar og fingurnögl rifin upp, henni var hótað aflimun og hnífi haldið við háls hennar. Að lokum var hún skilin eftir hálfrænulaus og útidyrum læst. Ef hún hefði verið ófær um að opna fyrir félaga sínum sem bar þar að skömmu síðar, hefði hann líklega haldið að enginn væri innan dyra og útilokað er að segja til um hvenær henni hefði þá borist hjálp.

Læknar staðfesta skallabletti á höfði og áverka víða um líkamann. Konan tognaði á þremur stöðum á baki, það blæddi inn á forhólf auga með þeim afleiðingum að hún var með blindublett um tíma og hún fékk heilahristing.

Fyrir utan fingurskurðinn hefur ekkert af ofangreindu fengið mikið vægi í samfélagsumræðunni. Hinsvegar finnst varla það mannsbarn sem ekki er með það á hreinu að hún varð einnig fyrir því að maður setti fingur í leggöng hennar og endaþarm og kleip í spöngina og umræða síðustu daga hefur öll snúist um það hvað hæstiréttur sé skeytingarlaus gagnvart kynferðisbrotum.

Niðurstaða dómsins

Þegar dómurinn sjálfur er skoðaður kemur þó í ljós að enda þótt fjórir dómarar af fimm vilji frekar flokka umræddan hluta árásarinnar sem líkamsmeiðingar en kynferðisbrot, fer því fjarri að þeim finnist slík hegðun léttvæg. Í niðurstöðu dómsins segir:

Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn var hér um að ræða afar illyrmislega líkamsárás sem fellur undir 2. mgr. 218. gr. laganna, bæði þegar litið er til aðferðar og afleiðinga árásarinnar.

Rétt er að taka fram að 1. mgr. 194. greinar á við um þvingað samræði eða önnur kynferðismök en 2. mgr. 218. greinar á við um lífshættulega líkamsárás. (Sjá nánar hér.)

Því verður ekki með nokkurri sanngirni haldið fram að hæstiréttur viðurkenni ekki alvarleika brotsins. Viðurkennt er að árásin hafi verið hrottafengin og árásarmennirnir eigi sér engar málsbætur. Einnig er viðurkennt að maður hafi sett fingur í leggöng og endaþarm konunnar. Nógu mörg vafaatriði eru um það atvik til þess að dómurum hefði verið í lófa lagið að sýkna af þeim þætti árásarinnar ef áhugi hefði verið fyrir því. Dómarar viðurkenna hinsvegar að þetta atvik hafi átt sér stað þótt þá greini á um hvort þar hafi verið brotið gegn lagagrein 194 eða 218. (Í ljósi þess sem mér hefur verið bent á að vel komi til greina að beita þessum greinum samhliða má svo spyrja hversvegna það var ekki gert.)

Í fyrstu hélt ég að hin mikla reiði sem braust út stafaði af því að fólk teldi víst að það hefði þyngt dóminn ef dæmt hefði verið á grundvelli 194. greinar. Ekkert bendir þó til þess því dómar yfir þremur sakborningum af fjórum eru þyngdir frá dómi héraðsdóms sem dæmdi málið að hluta sem kynferðisbrot. Í einu tilviki var refsing þyngd um heila 18 mánuði eða úr tveimur og hálfu ári í fjögur. Það er því fráleitt að líta svo á að hæstiréttur sé sáttur við þessa háttsemi.

Eru kynferðisbrot alvarlegri en líkamsmeiðingar?

Í umsögn sálfræðings þolanda segir að hún hafi þróað með sér áfallastreituröskun. Brotaþoli varð fyrir annarri hrottafenginni árás viku eftir þá sem þessi dómur snýst um. Henni var hent út úr bíl fyrir utan slysadeild Landspítalans og skilin eftir meðvitundarlítil á bílaplaninu. Hún rankaði við sér á sjúkrastofu við nánast sömu aðstæður og eftir fyrri árásina. Það mál er ennþá óupplýst.

Það kemur ekki á óvart að tvær hrottalegar líkamsárásir hafi alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlíf manneskju en athygli vekur að í umsögn sálfræðingins segir:

Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að A þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots.

Hér er gengið út frá því að einn tiltekinn þáttur árásarinnar valdi áfallastreituröskun. Það er út af fyrir sig ótrúlegt að hægt sé að segja til um það með vissu að einn tiltekinn þáttur sé hin eina, sanna orsök en þessi ummæli benda til þess að brotaþoli og/eða sálfræðingur hennar telji mikilvægt að brotið sé metið á forsendu 194. greinar.

Í þessari greiningu sálfræðingsins sem og í samfélagsumræðunni um hæstaréttardóm nr. 521/2012 endurspeglast sú hugmynd að kynferðisbrot séu í eðli sínu alvarlegri en aðrar líkamsárásir. Menn horfa ekki til þess að dómurinn hafi verið þyngdur heldur til þess að brotið hafi verið dæmt sem líkamsárás en ekki kynferðisbrot.

Hvernig stendur á þessari áherslu? Af hverju skiptir meira máli að brot sé viðurkennt sem nauðgun en að dómur á grundvelli lífshættulegrar líkamsárásar sé þyngdur?

Einu svörin sem ég hef fengið við því hingað til eru þau að það sé bara eitthvað að þeim sem sjái ekki hvað kynferðisbrot séu miklu alvarlegri en aðrar líkamsárásir og að kynferðisbrot séu niðurlægjandi og valdi andlegum áverkum. Þessi rök ganga ekki upp. Það er rétt að kynferðisbrot eru til þess fallin að niðurlægja og skaða fólk andlega en það eru líkamsmeiðingar líka. Ekki eru öll kynferðisbrot lífshættuleg en sérstaklega hættuleg líkamsrás eins og 218. grein snýst um, er það hinsvegar.

Áhugavert væri að fá betri skýringar hæstaréttar á því hversvegna brotið var ekki metið sem kynferðisbrot fyrst lögin bjóða upp á það. Á meðan við bíðum eftir skýringum hæstaréttar langar mig til að heyra frá þeim sem geta gefið mér skýringar á því hversvegna kynferðisofbeldi er talið vera í eðli sínu alvarlegra en högg, spörk, hárreytingar, hálstak, hótanir um aflimun og árás með eggvopni. Betri skýringar en þær að það sé bara augljóst.

Flokkar: Allt efni · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics