Áður birt í Kvennablaðinu
Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með skrifum mínum að ég er hreint ekki hrifin af þeim feminisma sem hefur tröllriðið íslenskri samfélagsumræðu á síðustu árum. Ég er oft sökuð um að setja alla feminista undir sama hatt, en þeir séu nú svo margir og misjafnir. En það skiptir í sjálfu sér litlu hversu margir og misjafnir þeir eru. Það sem skiptir máli er það hvaða viðhorf heyrast og hafa áhrif.
Til er áhugafólk um kynjapólitík sem tekur ekki nema að litlu leyti undir þær hugmyndir sem einkenna feministahreyfinguna. Umsjónarmenn þáttarins Kynlegir kvistir á útvarpsstöðinni X-inu eru athyglisverðasta dæmið sem ég þekki. Í fyrsta þætti sínum veltu kynlegir kvistir upp mjög góðri spurningu; hvar liggur skilgreiningarvaldið? Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður feministafélagsins, svaraði á þá leið að skilgreiningarvaldið hlyti að liggja hjá hverjum og einum.
Það liggur í hlutarins eðli að ef hver og einn notar sína skilgreiningu, þá erum við ekki að tala um sama hlutinn þar með er samræða tilgangslaus. Það er einmitt það sem feministar vilja. Þeir vilja stjórna umræðunni og hluti af strategíunni felst í því að rugla fólk í ríminu með því gangast ekki við eigin skoðunum þegar þeir lenda í rökþroti. Og þegar talsmenn tiltekinnar hugmyndafræði neita að setja fram nothæfa skilgreiningu, þá hlýtur sú stefna að skilgreinast af því sem sagt er og gert í nafni hennar.
Sá feminismi sem er ríkjandi á Íslandi einkennist af fjórtán þáttum. Það er auðvitað til fólk sem kallar sig feminista sem er annars sinnis en það eru ekki undantekningarnar sem skipta máli þegar hugmyndafræði er skilgreind, heldur reglan. Bendið mér á eina umfjöllun í útbreiddum fjölmiðli sem er laus við þessi einkenni og ég skal á móti benda á hundrað dæmi sem einkennast sterklega af einhverjum þessara þátta.
1 Feðraveldishugmyndin
Sú hugmynd að flest fyrirbæri sögu og samfélags megi skýra í ljósi þeirrar kenningar að karlar vilji kúga konur. Einnig að enginn eðlismunur sé á aðstæðum kvenna í strangtrúarríkjum múslima og á Vesturlöndum. Meint feðraveldi er sameiningarafl feminista; blóraböggull fyrir öll vandræði og eymd kvenna.
2 Áberandi tvíhyggja
Dregin upp svarthvít mynd hvenær sem þess er kostur. Skýrasta birtingarmynd tvíhyggjunnar er ímynd konunnar sem fórnarlambs og karlsins sem skúrks. Þessi veruleikasýn helst óhjákvæmilega í hendur við mikinn tvískinnung, fordóma og tvöfalt siðgæði. Annað dæmi um tvíhyggju er sú hugmynd að feminismi standi fyrir allt sem er rétt, gott og fagurt og andfeminismi nái yfir allskyns fordóma og illvilja.
3 Stjórnlyndi
Birtist í sterkri forræðishyggju, vilja til að beita opinberu valdi til að takmarka sjálfsákvörðunarétt kvenna, refsihyggju gagnvart karlmönnum, eftirlitsórum og ritskoðunartilburðum. Opinbert yfirvald er gagnrýnt en um leið ber á yfirvaldshyggju sem birtist í persónudýrkun á leiðtogum feminista og hjarðhegðun safnaðarmeðlima.
4 Hugtakanotkun óljós og þversagnakennd
Skilgreining hugtaksins „feminismi“ er svo víð að nánast allir sem hafa áhuga á kynjapólitík gætu kallað sig feminista samkvæmt henni. Þeir eru þó í minnihluta sem fallast á aðrar hugmyndir sem einkenna feminiska orðræðu en þá að jafnrétti eigi að ríkja. Að sama skapi eru skilgreiningar á ofbeldi, klámi, mansali og öðrum áhugamálum feminista of loðnar til þess að vera nothæfar.
5 Óvísindalegar rannsóknaraðferðir
Kynjafræðingur er manneskja með háskólagráðu í þeirri list að gefa órökstuddum skoðunum fræðilegt yfirbragð. Rannsóknaraðferðirnar eru oftar en ekki langt frá því að vera vísindalegar. Niðurstöðurnar eru ákveðnar fyrirfram og handvaldir viðmælendur sem eru líklegir til að staðfesta skoðanir rannsakandans.
6 Blekkingar og lygar í þágu málstaðarins
Gölluð tölfræði og gervirannsóknir lagðar til grundvallar og algengt að vísað sé í heimildir sem staðfesta alls ekki það sem haldið er fram. Krafa um sögufölsun, til dæmis að fræðimenn og fjölmiðlar dragi upp mynd sem stenst ekki raunveruleikann með því að gera meira úr hlut kvenna en efni standa til.
7 Kynbundin mismunun
Krafa um að fólki sé mismunað á grundvelli kyns en þó aðeins þegar það er konum í hag. Þetta viðhorf birtist í kynjakvótum, vægari hæfniskröfum fyrir konur en karla og kynbundnum styrkjum og viðurkenningum sem körlum standa ekki til boða.
8 Ofstækisfull mótunarhyggja
Allur kynjamunur skýrður með menningarlegum þáttum. Enginn málsmetandi eðlishyggjusinni hafnar því að umhverfi hafi mikil áhrif á hegðun okkar en margir feminiskir fræðimenn hafna nær algerlega eðlislægum kynjamun fyrir utan hina líkamlegu þætti sem greina kynin að. Mjög lítið umburðarlyndi fyrir þeirri skoðun að staðalmyndir eigi sér kannski flugufót í raunveruleikanum.
9 Kynhyggja
Svo mótsagnakennt sem það virðist hafa margir fundið karlrembu sinni farveg í feminisma. Karlamenning er álitin svo merkileg að það telst sérstakt jafnréttismál að auka áhuga kvenna á henni, ásamt því að greiða veg kvenna að völdum óháð því hvort valdakerfin þjóna hagsmunum kvenna.
Samtímis er krafist forréttinda handa konum og konur taldar siðlegri og betri verur en karlar.
Feministahreyfingin einkennist þannig af karlrembu og kvenrembu í senn.
10 Þráhyggjukennd áhersla á klám og kynferðisofbeldi
Ranghugmyndir um samfélagsleg viðhorf sem birtast í hugtökum eins og „nauðgunarmenning“. Blind trú á það að klám orsaki beinlínis kvenhatur og kynferðisofbeldi. Stöðugt klifað á þeirri hugmynd að konur séu hvergi óhultar fyrir nauðgurum og öðrum ofbeldiskörlum.
11 Kennivald og pólitískur rétttrúnaður
Feministar hafa tekið við því kennivaldshlutverki sem kirkjan hafði áður. Þeir hafa víða öðlast sterk ítök í stjórnkerfinu og hafa gríðarleg áhrif á fjölmiðla, opinbera umræðu og réttarkerfið. Áhrifafólk sem talar gegn skoðunum feminista getur átt von á harðri fordæmingu. Feministar vilja einnig fá að koma áróðri áleiðis í gegnum menntakerfið og fleiri stofnanir samfélagsins.
12 Sjálfskipað siðgæðiseftirlit
Birtist í nýhreintrúarstefnu og mikilli vandlætingu, einkum gagnvart gríni og greddu. Óvægin og oft ósanngjörn gagnrýni á alþýðumenningu, hégóma, spaug og almenna umræðu þar sem ber á staðalmyndum og ógætilegu orðalagi, ekki síst þar sem kynferðismál eru höfð í flimtingum.
13 Vænisýki og tilheyrandi túlkunarárátta
Feministar leita allsstaðar að merkjum um kvenfyrirlitningu, karllæg yfirráð, klám, kynferðisofbeldi og feministahatur. Þeir sjá þessa djöfla í öllum þáttum menningarinnar. Til dæmis auglýsingum, listum, leikjum, verkfærum, leikföngum og klæðnaði. Stundum birtist túlkunaráráttan í því að óviðkomandi hlutir eru túlkaðir sem ádeila á karllægt samfélag.
14 Dólgslegar baráttuaðferðir
Málflutningur einkennist af rökvillum, útúrsnúningum og blekkingum. Rangfærslur endurteknar þar til þær verða að viðteknum sannindum. Gagnrýni ekki svarað efnislega heldur með svívirðingum og ásökunum um annarlegar hvatir svosem kvenhatur, gerendasamúð, ofbeldishneigð eða klámfíkn. Mannréttindahugtakið misnotað í þágu málstaðarins.