Mánudagur 5.11.2012 - 12:54 - FB ummæli ()

Neyðarkallar með gasgrímur

Mér er vel við slysavarnarfólk og starfsemi björgunarsveitanna. Ekki bara vegna þess að þeirra vegna er mér rórra þegar ævintýramenn sem mér þykir vænt um eru prílandi  uppi um fjöll og firnindi, heldur líka af því að þessi félög  eru svo greinilegt dæmi um það hvernig hægt er að halda uppi mikilvægri samfélagsþjónustu með sjálfboðastarfi. Lifandi sönnun þess að þátttökusamfélag virkar. Ég vil Landsbjörgu allt hið besta og vona að mjög margir kaupi neyðarkall.

Ég verð samt að segja að mér fannst þessi pistill í aðra röndina athyglisverður. Það er svosem ekki huggulegt að ætla einhverjum svekktum sölumanni það innræti að vilja ekki aðstoða þá sem ekki versla við sveitirnar en hinsvegar er dálítið hressandi að einhver skuli benda á það hvernig staða slysavarnarfélaga og björgunarsveita getur þróast.

Það er umhugsunarvert hversvegna sá sem kaupir flugelda af öðrum en björgunarsveitunum getur reiknað með að mæta heilagri vandlætingu. Það er umhugsunarvert að einhver félagsskapur sé svo mikilvægur að það teljist ganga landráðum næst ef einhver vogar sér í samkeppni við hann. Ekki heyrir maður umræður um að kvenfélög og Lionsklúbbar, sem þó hafa látið margt gott af sér leiða, ættu að hafa einkarétt á því að selja kleinur og harðfisk. Af hverju er þá svona ofboðslega ljótt að fara í samkeppni við björgunarsveitirnar? Jú, það er vegna þess að þær eru ómissandi. Það er algjörlega óraunhæft sem höfundur Kryppupistilsins stingur upp á, að Landhelgisgæslan verði látin um þau björgunarstörf sem sjálfboðaliðar sinna í dag. Gæslan hefur ekki mannafla til þess og svo eru starfsmenn hennar ekki sjálfboðaliðar heldur á góðum launum, sumir mjög háum. Það er heldur ekki hægt að reikna með því að nema lítill hluti þjóðarinnar sýni þá fyrirhyggju að koma sér upp lager af dósamat og grjónum.

Neyðarkallarnir eru orðnir ómissandi og þegar félagsskapur er farinn að sinna samfélagsþjónustu sem við getum ekki verið án, þá er hætta á að hann verði að stofnun og öðlist völd. Mörg dæmi eru um að áhugafélög sinni verkefnum sem með réttu ættu að vera á hendi ríkisins, fyrst við á annað borð sitjum uppi með ríkisvald. AA samtökin hafa tekið að sér hlutverk sem heilbrigðiskerfið ætti með réttu að sinna. Svo sjálfsagt þykir að slíkur félagsskapur, sem byggir á trúarlegum grunni, gegni heilbrigðisþjónustu að til skamms tíma voru fangar á Vernd skikkaðir á AA fundi. Nú eru SÁÁ, sem vinna út frá sömu hugmyndafræði og AA samtökin, orðin hluti af heilbrigðiskerfinu og vilja að hluti skatttekna verði eyrnamerktur þeirra skjólstæðingum. Stígamót eru annað dæmi um félag sem er á leið með að öðlast stöðu ríkisstofnunar. Stígamótakonur eru svo heilagar að þær geta haldið fram hvaða þvælu sem er í fjölmiðlum án þess að nokkrum blaðamanni detti í hug að spyrja augljósustu spurninga.

Björgunarsveitirnar byggja mér vitanlega ekki á neinni sérstakri hugmyndafræði en engu að síður má spyrja hversu heppilegt það er að ríkið reiði sig á þjónustu þeirra. Þær sinna nú þegar öryggisgæslu á menningarhátíðum. Hvernig mun það hlutverk þróast? Mun koma að því að slysavarnarfólki verði gefið umboð til að gramsa í eigum Þjóðhátíðargesta?

Ég vil að björgunarsveitir séu vel búnar og ef ég kaupi stjörnuljósapakka um áramótin mun ég kaupa hann af einhverri þeirra. Og ég vildi helst sjá samfélag sem væri borið algerlega uppi af sjálfboðastarfi. En ríkisvald er einmitt, eins og orðið gefur til kynna, stofnun sem hefur vald yfir öllum þorra almennings og þau félög sem það treystir á verða með tímanum hluti af því. Það er vert að hafa í huga að í nágrannalöndunum eru björgunarsveitir hluti af hernum. Í Danmörku heyrir yfirstjórn björgunarsveita og slökkviliða, Beredskabsstyrelsen, undir Varnamálaráðuneytið og ég hef velt því fyrir mér hvert hlutverk íslenskra björgunarsveita verði ef draumórar Björns Bjarnasonar um íslenskan her verða að veruleika.

Ég tel litlum vafa undirorpið að björgunarsveitir og slysavarnarfélög séu ómissandi fyrir íslenskt samfélag og kannski færi bara best á því að viðurkenna stöðu þessara félaga og gera þau að ríkisstofnun. Þau þyrftu þá ekki að standa í sölu neyðarkallsins til að lifa af. Kryppumenn geta svo huggað sig við að ef kemur að því að björgunarsveitirnar taki við hlutverki gasmanns, verður allavega bráðfyndið að sjá óeirðarlögguna vappa um Austurvöll á froskalöppum og með gasgrímu. Kannski löggan stofni á móti kafarahópa sem bera kylfur og skildi 🙂

Flokkar: Allt efni · Lögregla og dómsmál
Efnisorð:

Laugardagur 3.11.2012 - 17:08 - FB ummæli ()

Sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Feitabollufeminismi í skólana – um heilsufarskafla Kynungabókar
Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—————-

Ungliðahreyfing VG vill kennivaldið inn í skólana. Réttlætingin er sú að viðhorfskannanir sýni að hærra hlutfall unglinga hafi íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk nú en fyrir 20 árum. Hvernig unga fólkið í vg fær það út að feministatrúboð muni breyta því er vandséð. Aldrei hefur feminisk umræða verið meira áberandi en á þessum 20 árum og þó hefur þetta bakslag orðið; það er því nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að kynjafræðikennsla hafi tilætluð áhrif.

Meira máli skiptir þó að með sömu rökum mætti segja að þar sem einelti hafi aukist sé rétt að lofa kirkjunni að predika kærleika Krists yfir börnunum eða að þar sem þeim hafi fækkað sem álíti mikilvægt að eiga fé í banka, sé nauðsynlegt að láta Hannes Hólmstein kenna „frjálshyggjufræði“ í grunnskólum. Kynjafræði er nefnilega pólitísk hugmyndafræði og þrátt fyrir fræðilegt yfirbragð á námsefnið Kynungabók meira skylt við trúboð en fræði.

Í dag ætla ég að fjalla um sýn Kynungabókar á kynbundið ofbeldi. Athygli vekur að ólíkt öðrum köflum bókarinnar er þessi kafli svartur í bókstaflegri merkingu, hvítt letur á svörtum grunni. Sjálfsagt er talin þörf á að dramatísera ofbeldi gegn konum í samfélagi þar sem varla líður dagur án þess að netmiðlarnir klæmist á reynslusögum af nauðgunum og öðru ofbeldi.

 

Klám sem kynbundið ofbeldi

Svarti kaflinn hefst á endurskilgreiningu á kynbundnu ofbeldi, nú er orðið „ofbeldi“ farið að ná yfir kynlífsþjónustu og klám:

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám.

Takið hinni postullegu kveðju. Klám er ofbeldi. Samkvæmt því er kona sem verður fyrir hrottalegri nauðgun komin í sama flokk brotaþola og sú sem les Fifty Shades of Grey enda margir sem álíta að sú bók sé niðurlægjandi fyrir konur.

Það eru ekki bara höfundar Kynungabókar sem hafa tekið upp þessa endurskilgreiningu á kynbundnu ofbeldi; nærbuxnafeminisminn er líka ríkjandi hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem snemma á árinu fór í allsherjarátak gegn meintri klámvæðingu á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Í fyrstu átti titillinn á bæklingnum að vera „Klámvæðing er kynferðislegt ofbeldi“ en hann var mildaður og endanlega útgáfan varð „áreitni“ í stað ofbeldis. Þörfin á þessum bæklingi þótti víst brýn enda segjast 2-3 af hverjum 1000 starfsmönnum einhverntíma hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af einhverju tagi á vinnustað. Skömmu síðar kom í ljós að jafnvel á stærsta vinnustað borgarinnar Landspítalanum er kynferðisleg áreitni næsta sjaldgæf og helst að starfsfólk verði fyrir slíku af hálfu sjúklinga. Mannréttindafrömuðirnir ætla kannski að berjast gegn geðveiki og elliglöpum með klámpredikunum yfir skólabörnum?

 

Ónothæf tölfræði sem námsefni

Auk endurskilgreiningar á kynbundu ofbeldi er sú tölfræði sem notuð er til að kynna umfang vandamálsins, stór galli á svarta kafla Kynungabókar. Fullyrt er að kynlífsþjónusta og mansal hafi aukist enda þótt engar ábyggilegar tölur séu til um umfang þessarra mála fyrr og nú. Vitnað er í tölur frá Stígamótum og Kvennaathvarfinu um tíðni ofbeldis en þær tölur gefa engan veginn rétta mynd af ástandinu. Oft er um eldgömul mál að ræða og sömu málin geta komið inn á borð til þessara hreyfinga ár eftir ár, svo fjöldi heimsókna segir nákvæmlega ekki neitt um það hversu margar konur hafa sætt slíku ofbeldi. Ég hef áður skrifað um tölfræði Stígamóta og almennar ýkjutilhneigingar varðandi ofbeldi gagnvart konum svo ég ætla ekki að eyða meira púðri í þann þátt hér.

Í svarta kaflanum er ennfremur fullyrt að ný rannsókn leiði í ljós að fjórða hver kona verði fyrir ofbeldi í nánu sambandi (á bls 34-35). Þar sem enga tilvísun er að finna eða neinar upplýsingar um heimildina, er erfitt að leggja mat á þessa staðhæfingu. Ólíklegt er þó að þar hafi klám verið skilgreint sem ofbeldi. Áhugavert væri að sjá tölurnar ef sameiginleg klámneysla para væri skilgreind sem ofbeldi.

Samkvæmt skilgreiningu Kynungabókar á kynbundnu ofbeldi eru allar konur fórnarlömb, annað hvort í nánum samböndum eða utan þeirra, þar sem við komumst ekki hjá því að verða varar við efni sem feministar flokka sem klám, svosem öskudagsbúninga og legófígúrur. Ósköp finnst mér kaldhæðnislegt að þeir sem mest tala um normaliseringu ofbeldis skuli sjálfir standa fyrir hvílíkri normaliseringu á hugmyndinni um þolendur ofbeldis.

Ef klám er ofbeldi þá eru nánast allir strákar ofbeldismenn

Athyglisvert er að bera fullyrðingar nærbuxnafeminista um áhrif kláms saman við siðaboðskap fyrri alda. Nú er því haldið fram (án þess að nokkur hafi bent á gögn sem styðji þá tilgátu) að kynferðisofbeldi sé afleiðing klámneyslu og að áhrif kláms á unga menn séu m.a. kvenfyrirlitning, vandi við að mynda tilfinningatengsl og „skert sjálfsmynd“ (hvað sem það nú merkir.) Á endanum verður drengurinn svo klámfíkninni að bráð með tilheyrandi skömm og félagslegri einangrun.

 

Hugmyndir kvenhyggjusinna um ógnvænlegar afleiðingar klámsins eiga sér skemmtilega hliðstæðu í hugmyndum fyrri alda um sjálfsfróun. Í umfjöllun um hinn „skæða löst“ frá 1920 er sunginn sami söngurinn um skömm og sjálfvirðingarleysi og sá sem nú er kveðinn um klámfíknina.

Myndirnar hér til vinstri sýna sjálfsflekkunarforvörn frá 19. öld; þá var talið nauðsynlegt að skerða aðgengi ungra manna að sjálfsþægingu en nú þarf að takmarka aðgang þeirra að klámi.

Í játningabók sinni talar Jean Jacques Rousseau, einn af helstu forkólfum Upplýsingarinnar, um sjálfsfróun sem skelfilegan löst sem ýti undir kynferðislega óra. Kynlífsfantasíur eru  að hans mati „hugræn nauðgun“ þar sem ímyndunaraflið sem sjálfsflekkunin kyndi undir geri draumóramanninum fært að serða hvaða yngismey sem honum þóknast án hennar samþykkis. Þessi hroðalega synd, sjálfsfróun, er svo ávanabindandi að ekkert nema dauðinn getur orðið unglingnum til bjargar.

Sú afstaða Rousseaus að sjálfsfróun væri stórhættuleg var ekkert nýnæmi. Aðskiljanlegustu geðrænir og líkamlegir sjúkdómar hafa verið taldir afleiðingar sjálfsfróunar og kynóra í gegnum aldirnar og fyrir 2000 árum talaði Jesús frá Nasaret um það sem synd að drýgja hór með konu „í hjarta sínu“. Það var aðeins stigsmunur á hugsun og gjörðum, ekki eðlismunur. Það þarf því enga klámvæðingu til þess að álykta að allir strákar séu upprennandi ofbeldismenn, það er alveg nóg að þeir gæli við lostúðugar hugsanir til þess verða geðveiki og ofbeldisfýsn að bráð.

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi endurskilgreining á klámi sem ofbeldi, muni hafa til langs tíma. Varla trúa menn því almennt að drengir muni hætta að sækja í kynferðislegt efni af því að kynjafræðikennarinn segi að það sé ljótt? Hafa höfundar Kynungabókar og aðrir skrattamálarar, sem eru nú ekki lítið uppteknir af áhrifum orðræðunnar á sjálfsmynd unglinga, velt því fyrir sér hvaða áhrif það getur haft ef þorri unglingspilta fer að líta á klámneyslu og kynferðislegar fantasíur sem ofbeldi? Ef maður er ofbeldismaður hvort sem er, hvar liggja þá mörkin milli þess ofbeldis sem allir fremja og þess sem ekki er réttlætanlegt?

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 2.11.2012 - 13:57 - FB ummæli ()

Hvað er pólitískur rétttrúnaður?

Í opinberri umræðu ber alltaf á einhverjum tískuhugtökum.Fyrir 10-12 árum komst varla nokkur maður í gegnum þriggja mínútna útvarpsviðtal án þess að koma orðinu „stærðargráða“ einhversstaðar að. Meira ber þó á hugtökum sem fela í sér gildisdóma, orðum sem verða nánast eins og töfraþula, svar við öllu og hentug leið til að loka umræðunni. Árið 2009 klæmdust netverjar á orðinu „meðvirkni“ þar til það missti nánast merkingu sína. Varla er hægt að kalla það tísku að tala um aðför og einelti gegn stjórnmálaflokkum; það fer nú sennilega að teljast sígilt.

Eitt af tískuhugtökum dagsins er „pólitísk rétthugsun“. Hugsjónafólk er gegndarlaust lamið í hausinn með ásökunum um pólitískan rétttrúnað, oft af litlu eða engu tilefni. Það er í rauninni ósköp skiljanlegt að þessi ásökun komi fram. Hugsjónastarf einkennist af sterkri sannfæringu og eldmóði, auk þess sem baráttufólk ryður brautina fyrir viðhorf sem víkja frá norminu (svokallaðar öfgar). Heit sannfæring minnir á trúarbrögð og stundum fylkir hugsjónafólk sér svo þétt um málstaðinn að það  þolir enga gagnrýni á sína samherja, sama hversu fráleitur málflutningur þeirra er. Líkingin við rétttrúnað getur því vel átt rétt á sér. Hugsjónafólk heldur auk þess oft á lofti skoðunum sem flestum þykja sláandi og einnig tileinka grasrótarhreyfingar sér oft baráttuaðferðir sem rúmast ekki innan þægindasviðs samfélagsins. Þegar fólki blöskrar er það líklegt til að afgreiða umræðuna sem rugl og öfgar.

Það er samt engin sanngirni að afgreiða alla fylgispekt við hugsjónir og flokka sem pólitíska rétthugsun. Þessi stimpill er í mörgum tilvikum dæmi um „explaining by naming“ eða það að afgreiða hugmyndir annarra með því að þeir séu kommúnistar, fasistar, trúarnöttarar eða hvað það nú er, án þess að takast á við það sem þeir hafa að segja. Pólitísk rétthugsun er ekki það að hafa hugsjónir eða halda þeim fram af eldmóði.

Pólitískur rétttrúnaður er það þegar hollusta við ákveðinn málstað og/eða hóp, verður heilbrigðri skynsemi yfirsterkari og tekur ekki tillit til forsögunnar, samfélags eða einstaklingsaðstæðna.

Pólitísk rétthugsun er vont innlegg í alla umræðu því hún er ósanngjörn, hún styður rangfærslur og útúrsnúninga og lokar umræðunni í stað þess að hleypa fleiri sjónarmiðum að.  Hér eru nokkur dæmi um það hvernig málefnaleg skoðun getur af sér pólitíska rétthugsun:

Pólitísk afstaða Pólitísk rétthugsun
Ekkert getur réttlætt stríðsglæpi og þjóðernishreinsanir. Þar með ertu að afneita Helförinni ef þú spyrð hvað sé hæft í því að Rudolf Höss (ekki sá sami og Hess) hafi verið pyntaður til játninga.
Palestínumenn eiga rétt á að beita vopnum gegn hernáminu. Þar með er það stuðningur við Zionisma að gagnrýna sjónvarpsbarnaefni Hamas.
Nató er glæpastofnun sem hefur beitt hernaði gegn saklausum borgurum í þágu heimsvaldastefnu. Þar með er hernaðaríhlutun aldrei réttlætanleg.
Vesturlandabúar hafa engan rétt til að troða sinni menningu upp á þróunarlöndin. Þar með eigum við ekki að skipta okkur af aftökum og öðrum mannréttindabrotum “því þetta er bara þeirra menning”.
Það er óþolandi að stórfyrirtæki geti stjórnað heiminum. Þar með ertu með óvininum í liði ef þú kaupir þér súkkulaðistykki.
Við sættum okkur ekki við að náttúruperlum sé fórnað í þágu stóriðju. Þar með ertu hræsnari ef þú notar álpappír.
Kjötát stríðir gegn dýravernd. Þar með ertu dýraníðingur ef þú gerir ömmu þinni það til geðs að borða grænmetisréttinn sem hún eldaði af tillitssemi við skoðanir þínar, af því henni varð það á að setja kjötkraft í hann.
Klám er ógeðslegt og getur stuðlað að ranghugmyndum um kynlíf. Þar með ertu að hvetja til barnanauðgana ef þú fjarlægir kynhár.
Útlitsdýrkun getur haft alvarleg áhrif á sjálfsmynd ungra stúlkna. Þar með ertu að hvetja til átröskunar ef þú gagnrýnir námsefni sem notar hugmyndafræði Fat Acceptance hreyfingarinnar sem rök fyrir því að offita sé ekkert vandamál.
Konur verða fyrir fordómum á vinnumarkaði og eru minna metnar en jafn hæfir karlar. Þar með ertu fylgjandi kynbundinni mismunun ef þér finnst óhæfa að kona sem lendir í fimmta sæti í hæfnismati verði tekin fram yfir karl sem lendir í því fyrsta.
Flóttamenn eiga rétt á vernd gegn ofsóknum og aðstæðum sem ógna öryggi þeirra og frelsi. Þar með ertu að vinna gegn málstaðnum ef þú ert á móti því að afreksmenn fái sérmeðferð.
Samkynhneigðir eiga að njóta allra sömu réttinda og annað fólk. Þar með má svipta þá vinnunni sem viðra úreltar hugmyndir um öfughneigð á blogginu sínu.
Fötluð og veik börn eiga sama rétt á skólagöngu og öll önnur börn. Þar með á heilbrigða barnið bara að sætta sig við að geðveika barnið sem situr við hliðina á því hrelli það og trufli í sífellu.
Samfélagið á að virða börn og gefa þeim rými. Þar með áttu að umbera barnagrát og aðra truflun í leikhúsi, kirkju og við öll önnur tilefni.
Lögleiðing vímuefna myndi skapa fleiri vandamál en hún leysir. Þar með ertu að gera lítið úr vímuefnavandanum ef þú neitar því að grasreykingar leiði til heróínneyslu.

Ég held að flestum sem hafa heitar skoðanir verði það einhverntíma á að missa sig í pólitíska rétthugsun. Ég hef staðið sjálfa mig að því og séð mörg dæmi um það hjá fólki sem allajafna er mjög málefnalegt. Það er sjálfsagt að benda á ofstopafullan málflutning en það er líka jafn sjálfsagt að sá sem er sakaður um póltíska rétthugsun fái skýringar á því hversvegna andmælendur hans álíti hann kominn út fyrir mörk skynsemi og sanngirni.

Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra. Krafan um efnislega gagnrýni á einnig við um þá sem tala um mig sem „skoska rannsóknarréttinn“. Þeir hinir sömu hafa aldrei útskýrt þá líkingu, enda er hún jafn innihaldslaus og ómarktæk og tuðið í þeim sem án nokkurra raka kalla allt andóf gegn umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum pólitískan rétttrúnað.

Flokkar: Allt efni
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 1.11.2012 - 11:46 - FB ummæli ()

Feitabollufeminismi í skólana – Um heilsufarskafla Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Fjölmiðlakafli Kynungabókar
Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

—–

Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem  fjallar um kennivald kvenhyggjunnar. Til þess að draga fram þau sjónarhorn á jafnréttismál sem feministar eru að reyna að innleiða í skólakerfið, er tilvalið að skoða Kynungabók, kennslubók fyrir unglinga skrifaða á forsendum feminisma og mótunarhyggju.

Í fyrstu köflum Kynungabókar vantar sjónarhorn karla. Í Fjölmiðlakaflanum hófst fórnarlambsfemnisminn á loft og hann heldur fluginu í heilsufarskaflanum, þar sem vandamál karla eru lítt til umræðu. Verra er þó að í heilsufarskaflanum er predikuð sú ranghugmynd að holdafar skipti ekki máli.

 

Hin kynbundna heilsufarsþversögn

Í heilsufarskaflanum er fyrst kynnt til sögunnar „hin kynbundna þversögn í heilsufari“.

Meðalævi kvenna er lengri en karla. Konur leita oftar til læknis, fá oftar greiningu og fara oftar í aðgerðir. Þetta telja höfundar Kynungabókar stórmerkilega þversögn; konur virðast samkvæmt notkun sinni á heilbrigðisþjónustu veikari en karlar en lifa samt lengur!

Fólk sem hugar að heilsu sinni og fær viðeigandi meðferð lifir lengur en fólk sem fær ekki viðeigandi meðferð við sjúkdómum, þetta er „hin kynbundna heilsufarsþversögn.“ Allt verður nú kynjafræðinni að vísindum.

Mér finnst mun áhugaverðari spurning hversvegna karlmenn drusli sér ekki til læknis þegar eitthvað amar að þeim og hefði haldið að þar væri tilefni til að skoða kynjaímyndirnar sem feministum eru svo hugleiknar. Þær eru líka sannarlega til umfjöllunar í þessum kafla sem öðrum, en ekki þó í þessu samhengi; hér er niðurstaðan sú að heilsufar kvenna sé verra en karla.

 

Gjald karlmennskunnar

Í heilsufarskaflanum gerast þó þau undur og stórmerki, í fyrsta sinn í þessari bók, að nefnt er jafnréttismarkmið sem snýr fremur að körlum en konum; það markmið að draga úr þáttum sem skerða lífslíkur karla. Þessir þættir eru samkvæmt Kynungabók kallaðir „gjald karlmennskunnar“, þar sem kynjaímyndir séu stærsta orsök þeirra.

Um er að ræða afleiðingar af áhættuhegðun, álagssjúkdóma tengda vinnu, vinnuslys, fíknsjúkdóma og sjálfsvíg, jafnvel árásarhegðun. Ég lýsi ánægju minni með að þessir þættir séu nefndir en auglýsi um leið eftir því hvar og hvernig jafnréttisbaráttan hefur brugðist við þessum vandamálum á Íslandi. Það kemur ekki fram í Kynungabók og ég hef aldrei nokkruntíma séð eða heyrt neitt um þetta háleita markmið í tengslum við jafnréttisbaráttu. Slysavarnir á vinnustöðum hafa verið algerlega óháðar jafnréttismálum og miðað að því að auka öryggi óháð kynferði og ég ætla rétt að vona að ekki verði tekin upp „jákvæð mismunun“ í þeim efnum.

Þótt aðeins sé tæpt á kynímyndartengdum heilbrigðisvandamálum karla eru algengustu heilbrigðisvandamál pilta ekki til umræðu. Ofvirkni, athyglisbrestur og ýmsir sértækir námserfiðleikar greinast mun oftar hjá drengjum en stúlkum og valda gjarnan verulegum vanda í daglega lífi. Ekki er þó vikið að þeim orði.

 

Kynheilbrigðis og ofbeldiskaflinn

Kynungabók ræðir einnig kynheilbrigði og árásarhegðun. Ég er í megindráttum sátt við þá umfjöllun en hef þó eina athugasemd við hvorn þátt.

Í kynheilbrigðiskaflanum er þessi staðhæfing á bls. 30

Ýmislegt í menningu okkar virðist t.d. ýta undir gagnkynhneigðarrembu þrátt fyrir að umburðarlyndi gagnvart hommum og lesbíum hafi aukist á síðustu árum.

Nú efast ég ekkert um að samkynhneigðir og transfólk verði ennþá fyrir fordómum en mér finnst þetta þarfnast útskýringar. Hvernig birtist „gagnkynhneigðarremba“ og hvaða „ýmislegt“ er það sem ýtir undir hana? Þarna er áhugaverður punktur sem ekkert er unnið úr.

Í ofbeldiskaflanum kemur fram að karlmenn fremji flestar líkamsárásir. Þess er hinsvegar ekki getið að það eru líka karlmenn sem í yfirgnæfandi meirihluta tilvika verða fyrir þeim. Raunin er sú að karlmenn eru í meirihluta brotaþola í öllum flokkum afbrota nema kynferðisbrotamálum. Ég hefði haldið að í jafnréttisumfjöllun væri viðeigandi að taka það fram, ekki síst þegar fjölmiðlaumfjöllun vinsælustu miðla um ofbeldi gagnvart konum er meiri en öll önnur umfjöllun um heilbrigðisvandamál og glæpi samanlagt.

 

Feitabollufeminismi heldur innreið sína í skólakerfið

Í heilsufarskaflanum er athygli vakin á því að stúlkur hætti fyrr að stunda íþróttir en drengir og áhersla lögð á að hreyfing og góð heilsa fari saman, ekkert annað en gott um það að segja.

Umfjöllun Kynungabókar um næringu og holdafar er hinsvegar stórkostlega gagnrýniverð. Ofeldi er eitt algengasta heilbrigðisvandamál ungs fólks á Íslandi og, fyrir utan neyslu ávanabindandi efna, það sem mest er komið undir líferni. Offita unglinga er ekki nefnd einu orði, aðeins tæpt á því í einni setningu að fólki yfir kjörþyngd hafi fjölgað, körlum þó meira en konum. Áherslan er öll á álagið sem fylgir því að reyna að standast útlitskröfur dægurmenningarinnar og átröskun er kynnt sérstaklega sem heilbrigðisvandamál.

Það er ástæða til að ræða útlitskröfur og  átraskanir. Útlitskröfur eru vafalítið sterkur áhrifaþáttur í þróun átraskana og stærsti áhættuhópurinn er samkvæmt þessari grein íþróttastúlkur (svo það er nú kannski ekki eingöngu klámvæðingunni um að kenna.) Langvinnt lystarstol er ekki tískufyrirbæri heldur geðsjúkdómur, tíðni þess hefur haldist stöðug í amk tvo áratugi og má því ætla að tilraunir feminista til að breyta hugmyndum unglinga um æskilegt útlit hafi sáralítil áhrif á nýgengi hans. Svar feminista við útlitsdýrkuninni er sú lygi að offita sé ekkert vandamál. Ég hef enga trú á að margir muni gleypa þá kenningu hráa, hvað þá staðhæfinguna um að „fegurð sé til í öllum stærðum“. Einu unglingarnir sem munu taka mark á því eru þeir sem eru í áhættu á að koma sér upp offitusjúkdómum.

Heimildin fyrir því að heilsa sé óháð holdafari er ekki læknisfræði af neinu tagi, heldur netsíða áhugafólks um megrunarlausa daginn, likamsvirding.is. Blogg Sigrúnar Daníelsdóttur ber sama heiti, líkamsvirðing, og sama netfang er gefið upp á báðum síðum. Það liggur því beinast við að upplýsingarnar sem unglingunum er boðið upp á um tengslaleysi heilbrigðis og fitu, séu frá Sigrúnu komnar.

Sigrún Daníelsdóttir er góður bloggari. Hún hefur vakið athygli á ýmsum öfgum og mýtum sem tengjast næringu, líkamsrækt og heilbrigði. En hún er ekki sérfræðingur í næringarfræði eða næringartengdum sjúkdómum, heldur sálfræðingur. Það er út af fyrir sig áhugavert að fá innsýn sálfræðings í útlitsdýrkunarsamfélagið en gallinn er sá að Sigrún byggir sínar skoðanir á því sem ég hef kallað feitabollufeminisma, þ.e. feminiskri hugmyndafræði sem afneitar offitu sem heilbrigðisvandamáli og staðhæfir að megrun virki ekki.

Í Kynungabók eru það ekki vísindi, heldur skoðanir Sigrúnar Daníelsdóttur, sem eru nefndar sem rök fyrir því að fólki eigi að borða; eins og segir á bls. 29:

 samkvæmt innri merkjum hungurs og saðningar, matarlystar og næringarþarfar hvers og eins í stað þess að fylgja utanaðkomandi matarplönum, reglum, boðum og bönnum.

Þetta er í samræmi við þá kenningu að það að takast á við ofát með matarplani, eða yfirhöfuð að stjórna mataræði sínu í þeim tilgangi að grennast, sé bæði óþarft og tilgangslaust. Þessari hugmyndafræði er haldið fram sem staðreynd, í kennslubók fyrir krakka sem hafa alist upp í samfélagi þar sem auglýsingum um skyndifæði og sælgæti er miskunnarlaust beint að unglingum með öllum sálfræðitrixum sem auglýsingabransinn kann að nefna. Unglingum sem búa í samfélagi þar sem  20% barna eru of feit. Við erum ekki að tala um einkaframtak einhverrar grasrótarhreyfingar, heldur kennslubók sem gefin er út af Menntamálaráðuneytinu. Í alvöru talað, finnst ykkur þetta í lagi?

 

Hér má finna eldri umfjöllun mína um feitabollufeminisma og marga fleiri pistla um næringu og holdafar má finna með leitinni á pistillinn.is

Bara sleppa því að ljúga takk

Líkamsvirðing stendur fyrir?

Feitabollufræðin á leiðinni

 

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 31.10.2012 - 14:52 - FB ummæli ()

Ungdómurinn nú til dags

Allt frá tímum Sókratesar hefur ungdómurinn verið uppivöðslusamur og áhrifagjarn, hrokafullur, kærulaus, latur, illa upplýstur, eltandi hverja tískusveiflu eins og hvolpur skottið á sér, óalandi og óferjandi, gott ef ekki óverjandi.

Uppreisnargirni æskunnar gegn gömlum gildum hefur jafnan verið álitin einna stærstur ljóður á ráði hennar en nú ber nýrra við. Í dag snúa áhyggjur öldunganna helst að því hve íhaldssamur ungdómurinn sé.

Í gær loguðu netheimar af vandlætingu yfir skólaballsauglýsingu. Stúlka krýpur fyrir framan pilt og áhorfandinn ályktar að hún sé að veita honum munngælur. Þetta þykir bera vott um óskaplega kvenfyrirlitningu og af umræðunni helst að sjá að þeir hneyksluðu greini engan eðlismun á þessu og því „gonzoklámi“ sem klámpostulinn Gail Dines heldur fram að sé ríkjandi.

Heimsósómarausið snýr þó ekki aðeins að því hversu forhertir syndaselir standi á bak við þessa auglýsingu; einn ágætur bloggari sér það helst athugavert að skólaklám sé svo gamaldags og hallærislegt að það nái ekki að ögra neinum.  Nema náttúrulega þessum 30.000 sem supu hveljur í netheimum.

Ég mátti hreinlega til að skrifa smávegis heimsósómaraus handa Gamla sorrý Grána og öðrum sem hafa áhyggjur af því hvert æska vors lands stefni. Þegar allt kemur til alls munu þessir klámdrengir taka við af þeim andans mönnum sem nú sitja á Alþingi, í stjórn Orkuveitunnar og slitastjórnum bankanna.

 

Ungdómurinn okkar
er ósvífinn, frekur
alinn við dekur
agalaus og sljór.

Hann er athyglisjúkur
en oftast sem kúkur
til afreka mjúkur og hyskinn.
Hann er  brekinn og villtur
og brjálaður, trylltur
og  baldinn, hve spillt er vor æska.

Ungdómurinn okkar
er andlega dauður
ástríðusnauður
engum ögra kann.

Hann er netheimum náinn
og negldur við skjáinn
og duglaus og dáinn úr æðum.
Hann er kjaftfor að vonum
og klæmist á konum
ó hvað verður honum til ráða?

Æskublóminn okkar
af fordómafullum
fávísum bullum
samanstendur enn.

Hann er gagnslaus og geldur
í hugsun, og heldur
á lofti svo gamaldags gildum.
Hann er kapítölsk veila
með kynlíf á heila
og kann ekki að deila með tveimur.

 

 

Flokkar: Allt efni
Efnisorð:

Miðvikudagur 31.10.2012 - 00:10 - FB ummæli ()

Handa Láru Hönnu

Fyrirtækja fjölmargt prang
feilað hefur Nubo Huang
Gríms á stöðum gróðamang
grillir í á Fjöllum

Þúsund keikir Kínverjar
koma vegna framkvæmdar
breiðar lendur byggja þar
bleikum skýjahöllum

Ótal milljón auðjöfrar
elska golf og sportveiðar
spóka sig þar spjátrungar
og spila á moldarvöllum

Land á Fjöllum fyrir beit
friðað er en Nubo veit
að undanþágu er ástin heit
hjá ýmsum ráðaköllum

því Óðalsbóndi enginn býr
utan hesta ær og kýr
Flugvölll þarf að byggja og brýr
borgar GáF með öllum?

Ekki metur íslensk þjóð
útlendingsins plönin góð
sem þorrinn anda og eldimóð
yrkir ljóð á Fjöllum

 

Lesið

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Þriðjudagur 30.10.2012 - 14:30 - FB ummæli ()

Má karl flengja konu sína ef hún undirritar samkomulag?

Til er fólk sem setur ofbeldisskilmála inn í hjúskaparsáttmála sinn. Eða kannski er ofbeldi ekki rétta orðið, þar sem ekki er um ofbeldi að ræða þegar upplýst samþykki liggur fyrir. Líkamleg tyftun verður nú samt ofbeldi um leið og viðfang meiðinganna dregur samþykki sitt til baka, þannig að jú, við getum kallað þetta ofbeldisskilmála.

Ég er að vísa til svokallaðra CDD sambanda. Skammstöfunin stendur fyrir „Christian Domestic Discipline“ eða „kristilegan húsaga“. Hugmyndin á bak við þetta fyrirbæri er sú að Gvuð hafi gefið eiginmanninum húsbóndavald yfir fjölskyldu sinni. Karlinn er í leiðtogahlutverki á heimilinu. Honum ber að elska konu sína og fórna sér fyrir hana og hann ber ábyrgð á velferð hennar, öryggi og framfærslu. Hann ber einnig ábyrgð á hegðun hennar að sama marki og foreldrar bera ábyrgð á hegðun barna sinna. Samkvæmt þessari hugmyndafræði ber karlinum einnig skylda til að setja konu sinni reglur og vald til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Konunni ber að lúta húsbóndavaldi og ef hún óhlýðnast fyrirmælum síns ektamaka, eða sýnir honum ekki tilhlýðilega virðingu, er það húsbóndaskylda hans að refsa henni, venjulega með flengingu.

Á netsíðum af þessu tagi er fullyrt að þessi lífsstíll snúist ekki um erótískan leik, heldur raunverulegt húsbóndavald. Neðst á þessari síðu má meira að segja finna leiðbeiningar um það hvernig karlinn eigi að bera sig að við flenginguna ef konan er ekki samvinnuþýð.

Ég reikna með að þeir séu til sem taka svona sambönd alvarlega og efist ekki um rétt húsbóndans til að hirta konuna gegn vilja sínum enda hafi hún gengið sjálfviljug inn í slíkt samband. Samt sem áður heitir það ofbeldi, því lögum samkvæmt má ekki lemja fólk gegn vilja þess. Má þá einu gilda hvað Gvuð hefur um málið að segja; við erum að tala um vestrænt réttarkerfi og Gvuð ræður ekki hér. Kona sem sætir refsingu sem hún frábiður sér, getur því leitað til dómstóla og beri eiginmaðurinn á þá leið að hann hafi  flengt hana samkvæmt sínum húsbóndarétti, verður hann fundinn sekur um ofbeldisverk, jafnvel þótt konan hafi skrifað undir ævilangt samkomulag um að undirgangast refsingar samkvæmt hans ákvörðun. Slíkir gjörningar hafa einfaldlega ekkert gildi fyrir dómi. Það sem er slæmt við svona samninga er að mannleg tilhneiging til að virða samkomulag verður til þess að  fáar konur í þessari stöðu leita til dómstóla.

Fyrir mörgum árum tók ég íbúð á leigu. Í samningnum stóð skýrum stöfum „leigan skal ekki gefin upp til skatts“. Leigusalinn vildi endilega hafa þetta inni, til þess að hafa réttinn örugglega sín megin. Ég skrifaði bara undir. Hvað haldið þið að hefði gerst ef ég hefði þinglýst samningnum og gefið leiguna upp?

Það væri hægt að finna mörg fleiri dæmi um samkomulag sem hefur ekkert lagagildi, en ég læt þetta duga í bili.

 

Notendaskilmálar Snjáldurskinnu 

Þegar fólk ákveður að nýta sér þjónustu netfyrirtækja, t.d. samskiptavefja á borð við Facebook, samþykkir það ákveðna notendaskilmála. Yfirleitt er þessum skilmálum ætlað að tryggja að fyrirtækið verði ekki gert ábyrgt fyrir misnotkun og að undirstrika einkarétt fyrirtækisins á vörumerki og öðrum auðkennum.

Hvað Facebook varðar má strangt til tekið túlka notendaskilmála á þann veg að um leið og maður skráir sig inn á vefinn sé allt sem maður hleður inn eða deilir orðið eign fyrirtækisins. Margir virðast trúa þessu. Af og til koma upp tröllasögur um að Facebook ætli sér að selja auglýsendum fjölskyldumyndirnar okkar  og er viðvörunum dreift samviskusamlega, dögum saman.

En það skiptir engu máli hvaða notendaskilmála maður kann að hafa undirritað; Facebook er kannski okkar tíma Gvuð en Facebook er nú samt sem áður ekki löggjafi. Facebook getur ekki selt myndirnar okkar af því að það stenst ekki lög.

 

Má birta skjáskot?

Í umræðu síðustu daga hefur borið töluvert á því sjónarmiði að þar sem Facebook sé einkafyrirtæki hafi það rétt til að setja notendum reglur um það hvað megi og megi ekki gera á vefnum. Facebook sé í fullum rétti með að takmarka aðgang Hildar Lilliendahl, þar sem hún hafi brotið gegn umgengnisreglum með því að birta skjáskot.

Reglur um birtingu skjáskota eru settar í þeim tilgangi að vernda höfundarrétt og friðhelgi einkalífs. Ég efast um að Facebook sé lagalega stætt á því að banna fólki að birta skjáskot, þegar tilgangurinn er augljóslega bein tilvitnun. Það getur verið ástæða til að birta skjáskot frekar en að hafa texta beint eftir innan gæsalappa, því myndræn framsetning, svo sem uppsetning texta, broskallar og aðrar myndir, fjöldi „læka“ og fleira, er æ sterkara einkenni á netsamskiptum og þessir þættir geta haft merkingu. Það er í öllu falli umdeilanlegt hvort reglur Facebook um þetta standast fyrir lögum. Það er þó ekki fyrir neina aukvisa að ætla að fá úr því skorið þar sem Facebook nýtur þess valds sem felst annarsvegar í ríkidæmi og hinsvegar í því að vera ómissandi; Facebook getur auðveldlega ráðið allt Boston Legal liðið í sína þjónustu og þeir eru áreiðanlega margir sem nota þennan samfélagsvef minna en Hildur Lilliendahl sem frekar myndu beygja sig undir reglur en eiga á hættu að yrði lokað á þá, jafnvel þótt þeir hefðu fjárhagslega burði til að standa í málaferlum.

 

Facebook er opinber umræðuvettvangur

Það skiptir ekki nokkru máli hvort Facebook er einkafyrirtæki eða eitthvað annað; það er samt opinber fjölmiðill. Margt bendir til þess að pólitísk ritskoðun eigi sér stað hjá Facebook, og nei, það er ekki eins og ef Sigurjón bannar gestum að bölva heima hjá sér eða ef Sambíóin henda gestum út ef þeir eru með háreysti. Pólitísk ritskoðun felur nefnilega alltaf í sér mismunun á ómálefnalegum grundvelli og slík mismunun er bönnuð. Hún brýtur meira að segja í bága við mannréttindasáttmála. Fólk getur ekki afsalað sér rétti sínum til að birta pólitísk skilaboð á Facebook, allavega ekki á meðan pólitísk skilaboð hafa ekki verið vandlega skilgreind.

Ég veit ekki hvort netfyrirtæki er lagalega stætt á því að banna fólki að birta skjáskot. Hitt veit ég að Facebook er í dag vettvangur fyrir opinbera umræðu hvort sem Facebookgvuðinn ætlast til þess eður ei. Stöðuuppfærslur og samskipti á veggjum þekktra einstaklinga rata reglulega í fréttir og jafnvel þótt Facebook geti refsað notendum sínum fyrir að birta skjáskot á Facebook-vefnum sjálfum, er ótrúlegt að hægt yrði að lögsækja einhvern fyrir að birta sama efni á öðrum vettvangi ef tilgangurinn væri augljóslega að sýna beina tilvitnun.

 

Mannréttindavillan

Síðustu daga hef ég einnig rekist nokkrum sinnum á rökin; það eru ekki mannréttindi að vera á Facebook og þessvegna á fólk bara að hlýða skilmálum eða hypa sig eitthvert annað.

Ég veit ekki hvort er til fræðiheiti yfir máflutning af þessu taki en ég hef kallað þessi rök „mannréttindavilluna“. Hugmyndin er þessi; ef það er ekki heilagur réttur þinn þá má yfirvaldið bara fara sínu fram. Fleiri dæmi um þessa undarlegu rökvillu: Það eru ekki mannréttindi að hafa aðgang að áfengi, þessvegna á ekki að vera bar á Hrafnistu. Það eru ekki mannréttindi að eiga börn, þessvegna á staðgöngumæðrun að vera ólögleg. Þetta eru svo vond rök að ef ég ætti að útskýra í smáatriðum hvað er athugavert við þau, yrði þessi pistill ekki undir 10.000 orðum. Í bili læt ég nægja að benda á að það hefur enn ekki verið skilgreint sem mannréttindi að hafa aðgang að fæðu. Þar með hlýtur yfirvaldið að mega banna okkur að rækta jörðina, eða hvað?

 

Nauðsyn þess að setja lög um netmiðla

Þótt þess sé ekki getið í mannréttindasáttmálum gegnir aðgangur að samfélagsumræðu mikilvægu hlutverki fyrir lýðræði og upplýsingafrelsi. Stórfyrirtæki reyna stundum að setja tjáningar- og upplýsingafrelsi skorður með alls kyns þvingunaraðgerðum, jafnvel ólöglegum.  Þess er t.d. skemmst að minnast að greiðslukortafyrirtæki neituðu að taka við greiðslum til Wikileaks.

Fleiri þvingunaraðgerðir af pólitískum toga viðgangast; ég veit þess dæmi frá Bretlandi að greiðslur inn á stuðningsreikning Bradley Manning hafa verið stöðvaðar hvað eftir annað enda þótt sami viðskiptavinur hafi ekki lent í vandræðum með neinar aðrar greiðslur. Tilviljun? Við getum víst lítið fullyrt um það en engar skýringar hafa fengist.

 

Þegar valdastrúktúr samfélagsins breytist myndast þörf fyrir nýjar reglur. Reglur sem setja hinum voldugu mörk og skikka þá til að virða réttindi annarra. Löggjafinn hefur komið því svo fyrir að ef fólk skrifar undir samninga um að það afsali sér rétti til launa og hvíldar, eða lofi því að gefa leiguna ekki upp til skatts, hafa slíkir gerningar ekkert lagagildi. Sé það rétt sem margir hafa haldið fram á síðustu dögum að Facebook sé stætt á því að skerða tjáningarfrelsi umfram þær takmarkanir sem lög kveða á um, þar sem notendur hafi undirgengist skilmála fyrirtækisins, þá þarf að setja lög sem gera þá skilmála jafn fráleita og samkomulag hjóna um að eiginmaður megi flengja konu sína.

En það verður kannski ekki gert nema almenningur mótmæli því alræðisvaldi sem þetta fyrirtæki er að reyna að taka sér.

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Lög og réttur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Mánudagur 29.10.2012 - 23:16 - FB ummæli ()

Harpa Hreinsdóttir og eineltið

Ég gerði ákveðin mistök þegar ég birti síðustu færslu. Ég hefði átt að afmá persónukenni í skjáskotinu (og er búin að því núna). Það er nefnilega alveg rétt sem Harpa Hreinsdóttir bendir á í þessari grein, aðgerðir af þessu tagi geta kynt undir persónulegum ofsóknum. Það var vitanlega ekki hugmyndin hjá mér að ofsækja þennan mann, heldur að neita að hlýða skilmálum fb, þegar reglum er framfylgt reglnanna vegna. Ég fékk svo aukinheldur staðfest að maðurinn hefði beðið Hildi persónulega afsökunar, sem vitanlega skiptir miklu máli.

Dæmin um að fólki sé nuddað endalaust upp úr gömlum mistökum eru nógu mörg og gróf til þess að ég hefði átt að hugsa út í það áður en ég ýtti á enter að kannski væri ég að kalla óþarfa hörku yfir mann sem hugsanlega er bara meinlaus vitleysingur. Af nógu er að taka. Jafn ólíkt fólk og Sóley Tómasdóttir og Egill Einarsson (Gillz) eiga það t.d. sameiginlegt að fá bara hreinlega ekki fyrirgefningu fyrir orð sem féllu fyrir mörgum árum. Feminstar nudda Agli ennþá upp úr margra ára gömlum bloggfærslum sem hann baðst þó opinberlega afsökunar á. Askasleikir Sóleyjar  Myndin af Askasleiki sem Sóley birti á blogginu sínu og eldgömul ummæli um að það hefði komið henni á óvart að það væri ekki hræðilegt að ala upp dreng, eru ennþá dregin fram í umræðunni. Hvorttveggja er óþarft.

Ég get hinsvegar ekki tekið undir þá skoðun Hörpu og fleira ágæts fólks að Hildur ætti bara að passa sig á að því að virða skilmála facebook. Fólk ber ábyrgð á ummælum sínum og það alvarlega í þessu máli er ekki það að Hildur hafi brotið notendaskilmála facebook, heldur það að reglum sem er ætlað að vernda höfundarrétt og einkalíf, skuli vera beitt þegar hatursfull skilaboð eru afhjúpuð. Mér finnst nokkuð langt gengið að tala um einelti gagnvart manni sem hegðar sér á þennan hátt.  Í kjölfarið fékk maðurinn hennar Hildar svo símtal með hótun um að eyðileggja bílinn þeirra. Bíllinn er að vísu ekki til en það er samt eðlilegt að fólki bregði við slíkt og það er eðlilegt að bregðast við því.

Notendaskilmálum facebook er ætlað að vernda höfundarrétt og friðhelgi einkalífsins. Þeir eru væntanlega ekki hugsaðir til þess að opna farveg fyrir pólitískar ofsóknir. Sennilega er hægt að finna einhver brot á skilmálum hjá flestum þeirra sem nota facebook oft í viku, og ef nógu margir taka sig saman um að kvarta undan tilteknum einstaklingi, er kreddufesta gagnvart notendaskilmálum stórhættuleg. Það er eðlileg krafa að fólki sé gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en aðgengi þess er skert. Það er sérstaklega ósanngjarnt að hægt sé að úthýsa einstaklingum fyrir að birta skjáskot í ljósi þess að síðum sem er beint gegn tilteknum minnihlutahópum hefur ekki verið lokað þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Stjórnendur facebook virðast þannig bera meiri virðingu fyrir birtingarréttinum en sínum eigin reglum um hatursboðskap. Ég tek fram að ég styð ekki tillögur um lokun facebooksíðna eða annarra netsíðna nema þeim sé beint gegn einstaklingum.

Annað sem hefur vakið athygli mína í dag er að sjá þá djúpu virðingu sem ríkir fyrir rétti stórfyrirtækja á borð við facebook til að setja tjáningarfrelsinu skorður. Margt bendir til þess að facebook og fleiri stór fyrirtæki beiti valdi sínu í pólitískum tilgangi. En það er efni í annan pistil sem ég reikna með að skrifa á næstu dögum.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Mánudagur 29.10.2012 - 13:05 - FB ummæli ()

Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með skrifum mínum að ég er afskaplega ósátt við margt í málflutningi feminista. Þeir sömu hafa heldur ekki komist hjá því að taka eftir því að ég hef mikla andúð á öllum hugmyndum um skerðingu tjáningarfrelsis. Til þess að takast á við hugmyndir sem maður álítur rangar, á maður að nýta sitt eigið málfrelsi til að benda á veikleika í málflutningi andmælenda sinna. Góð samfélagsumræða skapast því aðeins að sem flestar, ólíkar raddir fái að heyrast; án tjáningar- og upplýsingafrelsis er ekkert lýðræði.

Ég er oft ósammála Hildi Lilliendahl en ég virði tjáningarfrelsi hennar. Ég hef stundum verið ósammála þeirri merkingu sem hún leggur í ummæli en ég hef ekki séð hana fara rangt með staðreyndir eða flíka gervirannsóknum. Hvað svo sem manni finnst um skoðanir og baráttuaðferðir Hildar Lilliendahl er málflutningur hennar heiðarlegur og það skiptir máli fyrir kynjaumræðuna.

Hildur hefur nú í fjórða sinn orðið fyrir því að aðgangur hennar að facebook er skertur um tíma. Í þetta sinn er henni bannað að setja inn nýtt efni í heilan mánuð. Hún fékk engar skýringar á þessu en þetta skjáskot var fjarlægt af síðunni og virðist því vera ástæðan fyrir þessari refsiaðgerð.

 

Samkvæmt reglum fb er notendum óheimilt að birta skjáskot af fb nema með sérstöku leyfi. Reglurnar eru væntanlega settar í þeim tilgangi að vernda notendur gegn ýmisskonar misnotkun. Hugmyndin er varla sú að auðvelda pólitískar ofsóknir en með því að refsa þeim sem birta persónulegar árásir af þessu tagi, snúast reglurnar gegn markmiði sínu.

Ég er ekki tilbúin til að sætta mig við að reglur sem settar eru til að stuðla að öryggi fb-notenda verði að farvegi fyrir pólitískar ofsóknir.  Má þá einu gilda hvort það eru mín skoðanasystkini eða aðrir sem verða fyrir þeim, það gæti bitnað á sjálfri mér næst. Ég skrifaði fb þessvegna í gær og vakti athygli á innihaldinu í þessu skjáskoti og fór fram á að tekið yrði tillit til þess hverju fólk væri að pósta og í hvaða tilgangi, fremur en að reglum væri fylgt án tillits til aðstæðna. Ég sendi á nokkur netföng en  svarið sem ég fékk frá þeim öllum var tenglalisti með svörum við algengum spurningum. Ekki er boðið upp á möguleika á að svara þeim pósti.

Ég sendi einnig póst á þessa síðu: http://www.socialnetworkhelpline.com/contact.asp og fékk uppgefið símanúmerið  0911 699 7842. Ég hringdi í það núna áðan og náði sambandi við mann sem sagðist ætla að koma þessari athugasemd til réttra aðila. Ég hvet alla sem láta sig þetta mál varða til að hringja í númerið og vekja athygli á því að fleiri séu ósáttir við þetta.

Ég setti einnig af stað undirskriftasöfnun þar sem ég mótmæli þeirri ákvörðun fb að takmarka möguleika Hildar Lilliendahl á að nota aðganginn sinn.  Ég bið þá sem er annt um tjáningarfrelsið að undirrita hana.

Það er þó ekki nóg að undirrita áskorun, það þarf líka að koma henni til skila og þau svör sem ég hef hingað til fengið frá fb benda til þess að viðtakendur lesi ekki póst. Ég held því að til þess að aðstandendur fb fái skilaboðin sé nauðsynlegt að koma skilaboðum um óánægju með þessa refsiaðgerð og önnur mál af svipuðu tagi í fjölmiðla erlendis. Nú eru nokkur dæmi um íslenska blaðamenn sem hafa þurft að verja ritfrelsi sitt fyrir dómstólum. Íslensk samfélagsumræða fer að miklu leyti fram á facebook og blaðamannastéttin öll ætti að líta á það sem stórt hagsmunamál að geta vitnað til samskipta sem þar fara fram, án þess að eiga refsiaðgerðir yfir höfði sér. Ég fer þess því á leit við blaðamenn og þá ekki síst þá sem hafa persónulega reynslu af þöggunartilburðum, að þeir sjái um að koma fréttum af þessum refsiaðgerðum gegn Hildi í erlenda fjölmiðla.

Ég hef einnig í hyggju að mótmæla ákvörðun fb gagnvart Hildi á annan hátt. Ég ætla mér að birta mynd af þessu umrædda skjáskoti reglulega þannig að það sé alltaf sýnilegt á veggnum mínum á fb,  þar til banninu hefur verið aflétt af Hildi eða ég sjálf útilokuð.  Ég nota fb mjög mikið og get ekki sagt að mér sé sama þótt verði lokað á mig en hér er um stórt hagsmunamál að ræða og ég er tilbúin til að fara þessa leið í von um að vekja athygli stjórnenda fb á nauðsyn þess að endurskoða reglurnar. Ég reikna ekki með að það hafi nein áhrif ef ég geri þetta ein en ef 100 manns eða fleiri tækju upp á því að hafa sömu skjámyndina sýnilega á veggnum sínum dag eftir dag, þá yrði dálítið vandræðalegt fyrir fb að loka á þá alla, a.m.k. ef ástæðan kæmist í hámæli.

Undirskriftasöfnunin er hér

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Fjölmiðlar · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: ,

Sunnudagur 28.10.2012 - 10:06 - FB ummæli ()

Fjölmiðlakafli Kynungabókar

Fyrri pistlar í þessari röð sá nýjasti efst:

Kynungabók og vinnumarkaðurinn
Skólakafli Kynungabókar
Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan
Jafnréttisfræðsla er byggð á pólitískri hugmyndafræði
Kynjafræðin þjónar kennivaldinu
Kennivald kvenhyggjunnar
Hvernig veit ég hvað feministar hugsa? 

Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem  fjallar um kennivald kvenhyggjunnar. Til þess að draga fram þau sjónarhorn á jafnréttismál sem feministar eru að reyna að innleiða í skólakerfið, er tilvalið að skoða Kynungabók, kennslubók skrifaða á forsendum feminisma og mótunarhyggju.

Í þeim köflum Kynungabókar sem ég þegar hef fjallað um vantar sjónarhorn karla. Þeir kaflar eru því ótækir til jafnréttisfræðslu. Fjölmiðlakaflinn einkennist svo af þeirri feminísku heimssýn að konur séu alltaf og allsstaðar fórnarlömb.


Skýringar Kynungabókar á kynjahlutföllum í fjölmiðlum

Í fjölmiðlakafla Kynungabókar er áherslan sem fyrr á staðalmyndir og skarðan hlut kvenna. Því hefur verið haldið fram að karlar séu fleiri í áhrifastöðum og því meira fréttaefni. Bent er á að sú skýring á kynjahallanum haldi ekki vatni, þar sem fjöldi viðmælenda af hvoru kyni endurspegli ekki kynjahlutföll í pólitík. Ekki halli aðeins á konur hvað varðar fjölda viðmælenda og umfjöllun um umsvif og afrek, heldur sé áherslan þar sem konur eru í fyrirrúmi á einkalíf og dægurmenningu.

Það er gott og rétt að fjalla um þennan kynjahalla. Fjölmiðlar ættu að fjalla meira um konur. Af hverju fá t.d. íþróttir kvenna minna vægi en íþróttir karla þrátt fyrir glæsilegan árangur kvennaliða? Ég er hinsvegar ósátt við þær skýringar á kynjahallanum sem Kynungabók býður upp á.

Samkvæmt þeim heimildum sem vísað er til, er hlutfall kvenna í fréttum og fréttatengdu efni hærra í yngri aldurshópum. Fyrsta skýringin sem mér kemur í hug er sú að yngra fólk álíti síður að  konum fari best að halda sig til hlés, auk þess sem hlutfall kvenna í stjórnmálaþátttöku og áhrifastöðum eykst dálítið með hverri kynslóð. Höfundar Kynungabókar draga hinsvegar þá ályktun að yngri konur þyki eftirsóknarverðara fjölmiðlaefni en hinar eldri. Klámvæðingin er ekki nefnd hreint út í þessu sambandi en hér sem annarsstaðar virðist klámvæðingardjöfullinn undirliggjandi; ef konur sjást lítið í fjölmiðlum er það kynbundin mismunun; ef þær sjást þá er það merki um hlutgervingu og æskudýrkun.

 

Og lausnin er að koma konum til valda í fjölmiðlaheiminum

Berlega er gefið til kynna að kynjahallinn stafi beinlínis af fordómum, staðalmyndum og áhugaleysi fjölmiðlafólks á konum. Engin önnur hugsanleg skýring er nefnd. Þau ráð sem eru nefnd til að jafna kynjahlutföllin eru að auka aðgengi kvenna að fjölmiðlum og hlut þeirra í ákvarðanatöku innan fjölmiðlaheimsins, auk þess að vinna gegn staðalmyndum. Á bls 24 er spurt:

Hvaða áhrif telur þú að það geti haft á dagskrá og umfjöllun fréttamiðla ef konur jafnt sem karlar eru í æðstu stjórnunarstöðum?

Þessu hefur þegar verið svarað. Dagskárstjóri Ríkisútvarpsins var til skamms tíma kona. Sigrún Stefánsdóttir var ráðin sem dagskrárstjóri Rásar 2 árið 2005 og frá 2010 var hún dagskrárstjóri yfir Ríkisútvarpinu öllu. Ritstjórar hinna vinsælustu netmiðla sem ala á heimskulegu bulli og staðalmyndum eru konur og það sama á við um glanstímarit. Völd kvenna innan fjölmiðla virðast ekki breyta neinu um hlut kvenna og kynjaímyndir en höfundum Kynungabókar finnst víst óþarft að taka það fram.

Gagnleysi þess fyrir jafnréttishugsjónina að koma konum til valda, endurspeglast víðar en í fjölmiðlaheiminum.  Skemmst er að minnast stóra símaskrármálsins þar sem kvennaveldið hjá ja.is skreytti símaskrána með annáluðum fulltrúa þeirra kynjaímynda sem kvenhyggjuhreyfingin hefur lýst hvað mestri andúð á. Félag kvenna í atvinnurekstri veitti þeim svo sérstaka viðurkenningu fyrir.

Hversvegna í ósköpunum leggur kvenhyggjuhreyfingin svona mikla áherslu á að koma konum til valda þegar reynslan er sú að konur eru körlum ekkert ólíklegri til að hafa fyrst og fremst áhuga á eigin völdum og hagsmunum? Og hvað græðum við á því að mata unglinga á þeirri ranghugmynd að valdapot kvenna þjóni kynjajafnrétti?

 

Bloggheimar

Ég get tekið undir flest af því sem rætt er í kaflanum um dægurmenningu og auglýsingar. Þó vil ég gera eina athugasemd við það hvernig sannleikanum er hagrætt í þágu fórnarlambsvæðingar kvenna.

Í dægurkaflanum er komið inn á bloggmenninguna. Bent á að aðeins tvær konur hafi, einn tiltekinn dag, komist inn á 25 sæta vinsældalista Blogggáttarinnar. Ekki fær ungviðið þó neinar upplýsingar um hversu margar konur birtu bloggfærslu þennan dag og raunar er útilokað að komast að því. Rökrétt ályktun hjá unglingi sem veit ekkert meira um bloggmenninguna er sú að konur birti álíka marga pistla og karlar en lesendur lesi 12-13 pistla eftir karla á móti einum eftir konu.

Ég hef margsinnis skoðað kynjahlutföll á Blogggáttinni. Í hvert einasta sinn hafa karlar birt margfalt fleiri pistla en konur; hlutfall pistla eftir konur fer sjaldan yfir 25% og það er algjör undantekning ef sama konan Bloggar oftar en vikulega að jafnaði (sú undantekning heitir Eva Hauksdóttir og reiknar aldrei með að fá flettingar á óbirt skrif.) Þegar þetta er ritað (upp úr hádegi 27. okt) eru hlutföll þeirra pistla sem sjást á Blogggáttinni (pistla tveggja daga) þannig: 69 pistlar hafa verið birtir, þar af 60 eftir karlmenn, 9 eftir konur.  Því eru 13% birtra pistla eru því eftir konur. Bak við þessa 69 pistla eru 50 pennar, 42 karlar og 8 konur. Konur eru þannig 16% þeirra bloggara sem birtu pistil þennan dag.

Á vinsældalistanum er 21 pistill eftir karla en 4 eftir konur. Konur eiga því 16% þeirra pistla sem fá margar flettingar í gegnum gáttina. Það er 18 pennar  á bak við þá sem ná inn á vinsældalistann, þar af 16 karlar og 2 konur. Af vinsælum bloggurum eru konur því 11%.  Karlar eiga 60 pistla, þar af hafa 21 komist inn á vinsældalistann eða 35%.  Konur eiga 9 pistla, þar af komast 4 inn á vinsældalistann eða 44% birtra pistla eftir konur.

Þetta er enganveginn áreiðanleg niðurstaða þar sem aðeins er um að ræða gögn frá einni gátt á einu tilteknu augnabliki. Þetta er þó sama aðferð og notuð er í Kynungabók og því jafn ábyggileg. Höfundar guðspjallsins nefna þó afkastamun kynjanna ekki einu orði, heldur búa svo um hnútana að rökrétt ályktun nemenda er sú að það sé kvenfyrirlitning en ekki lítil virkni, sem veldur þessum kynjahalla á vinsældum bloggara.

 

Hvað situr eftir?

Sá skilningur sem fjölmiðlakafli Kynungabókar skilur eftir er að mínu mati þessi:

1) Fjölmiðlar leggja óeðlilega litla áherslu á umfjöllun um konur.
2) Umfjöllun um konur er alltof oft lituð af staðalmynd konunnar sem passífrar og yfirborðslegrar veru.
3) Ástæðan fyrir því að konur sjást minna í fjölmiðlum en karlar er sú að þær hafa verri aðgang að fjölmiðlum og konur ráða litlu á fjölmiðum.
4) Til þess að breyta þessu þarf að koma konum í valdastöður.
5) Kynjafordómar ráða því að konur fá minni athygli en karlar í samfélagsumræðu á netinu.

Ég tek undir fyrsta og annað atriðið.

Hið þriðja er helbert bull. Ekkert bendir til þess að konur hafi verri aðgang að fjölmiðlum en karlar. Ef eitthvað er, bendir þátttaka kvenna í samfélagsumræðu til þess að konur hafi að jafnaði minni áhuga á því að hafa áhrif. Konur tjá sig miklu frekar um einkalíf og mál sem tengjast heimili og fjölskyldu, hönnun, útliti og dægurmálum. Vettvangur þeirra er facebook, bleikt.is og álíka miðlar; ekki af því að þær séu útilokaðar frá stjórnmálaumræðu, heldur af því að þær hafa minni áhuga á henni en karlarnir.

Fjórði þátturinn er í besta falli vafasamur og að mínu mati ömurlegt að sjá jafnréttisbaráttu notaða sem rök fyrir því að koma konum í valdastöður. Það er ekkert heiðarlegra en að halda því fram að þingseta Helga Hjörvar skipti sköpum fyrir réttindamál fatlaðra.

Fimmta atriðið er óstjórnleg þvæla. Líklegast er að blaðagreinar og bloggskrif kvenna fá athygli í svipuðu hlutfalli og karla.

Kynjahallinn í fjölmiðlum á sér sennilega að nokkru leyti skýringu í eðlislægum kynjamun. Það er ekki þar með sagt að við ættum ekki að bregðast við honum. E.t.v. væri hægt að auka vægi kvenna með því að framleiða fjölbreyttara fjölmiðaefni með þarfir kvenna í huga og kanna hvort önnur framsetning myndi t.d. auka áhuga kvenna á hefðbundnum „karlasviðum“. Sannleikurinn er sá að konur eru ekki óvinsælli en karlar, heldur hafa þær sig síður í frammi. Ekkert bendir til þess að hægt sé að breyta því með því að fjölga konum í valdastöðum, leita allstaðar að merkjum um kvenfyrirlitningu og fylla höfuð skólabarna af ranghugmyndum um óvinsældir kvenna.

 

Hér eru tveir eldri pistlar þar ég fjalla um mýtuna um slæmt aðgengi kvenna að fjölmiðlum.

Ekki kvenmannsverk
Hver meinar konum að tjá sig?

 

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics