Laugardagur 20.8.2011 - 16:30 - FB ummæli ()

Félagafrelsi (20. gr.)

Í 20. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er félagafrelsi lítið breytt frá gildandi stjórnarskrá. Áfram er sérstaklega áréttuð tilvist hinna mikilvægu félaga – stjórnmálafélaga og stéttarfélaga – sem segja má að taki þátt í stjórn landsins og vinnumarkaðarins.

Að minni uppástungu er félagafrelsi nú aðgreint frá fundafrelsi, sem er í sama ákvæði í gildandi stjórnarskrá.

Tryggt er bæði svonefnt „jákvætt“ félagafrelsi – til þess að stofna félög og vera í þeim – og það sem kallað er „neikvætt“ félagafrelsi – rétturinn til þess að standa utan félaga.

Jákvætt félagafrelsi

Hinn jákvæði hluti félagafrelsisins virðist nú fortakslausari en áður – eftir að svohljóðandi ákvæði var fellt brott úr stjórnarskrá á eftir banni við því að leysa félag upp „með ráðstöfun stjórnvalds.“

Banna má þó um sinn starfsemi félags sem talið er hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Þrátt fyrir brottfallið, sem ég var mótfallinn – m.a. með vísan til Hells Angels og annarra glæpasamtaka, sem ég teldi rétt að unnt væri að slíta með dómsmáli – kann að vera að gagnályktun frá 2. málslið 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins um bann við upplausn félags af hálfu stjórnvalda leiði til þess að áfram megi slíta félagi með dómi eins og ég tel mikilvæga varúðarráðstöfun þó að henni hafi aldrei verið beitt hérlendis svo ég viti til.

Neikvætt félagafrelsi

Réttur til þess að standa utan félaga er óbreyttur; áfram verður heimilt að skylda menn til aðildar að félagi að þremur skilyrðum uppfylltum:

  1. Skylduaðild sé vegna réttinda annarra eða almannahagsmuna.
  2. Hlutverk félags sé ákveðið í lögum.
  3. Skylduaðild teljist nauðsynleg í þessu skyni.

M.ö.o. verða menn áfram skyldugir til þess að vera í húsfélögum og veiðifélögum – en ekki Rotary.

Ákvæðið hljóðar svo:

Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 19.8.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Kirkjuskipan (19. gr.)

Í 19. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er lögð til meginbreyting á lagalegri stöðu þjóðkirkjunnar – en engin breyting er lögð til í raun á stöðu hennar frá gildandi stjórnarskrá.

Í frumvarpinu segir:

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Frábær lausn á markmiðum flestra

Með þessu er, sem sagt, ekki tekinn af sá réttur sem síðari málsgreinin og gildandi stjórnarskrá tryggir – að þjóðin eigi síðasta orðið um breytingar á þjóðkirkjunni eða afnám hennar; þetta eru margir þjóðkirkjumenn afar ánægðir með – og ég þar á meðal enda var ég virkur í að leita þessarar lausnar.

Um leið er fallist á flestar kröfur þeirra sem vilja afnema lagaleg forréttindi þjóðkirkjunnar því að með ákvæðinu er orðið „þjóðkirkja“ numið úr stjórnarskrá – svo og skylda ríkisins til þess að styðja hana og vernda. Þetta eru stórtíðindi.

Frumkvæðisréttur kjósenda

Við í stjórnlagaráði höfðum í huga áhyggjur síðarnefnda hópsins um að Alþingi myndi enn sem áður heykjast á að leggja til breytingar; við því er séð í 66. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs þar sem tryggður er frumkvæðisréttur 2% kjósenda og bindandi frumkvæðisréttur 10% kjósenda að nýrri löggjöf – t.d. um kirkjuskipan eða afnám hennar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Fimmtudagur 18.8.2011 - 12:00 - FB ummæli ()

Trúfrelsi (18. gr.)

Í 18. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna töluverðar orðalagsbreytingar – en fremur lítið er um efnisbreytingar frá gildandi stjórnarskrá; í frumvarpinu segir:

Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.

Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Segja má að jákvæða trúfélagafrelsið – til þess að stofna trúfélög eins og í gildandi stjórnarskrá – sé undirskilið, sbr. og 20. gr. sem ég skrifa um á laugardag. Fellt er brott ákvæði stjórnarskrár um að ekki megi kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu en  ákvæði 3. mgr. um takmarkanir við frelsi „til að rækja trú eða sannfæringu“ koma í staðinn og er þá litið til mannréttindahefðar Evrópu. Þá er fellt brott stjórnarskrárákvæði um að hvorki réttur né skylda borgaranna eigi að skerðast vegna trúarbragða sinna en telja má að það felist í breyttu ákvæði. Enn fremur er fellt brott bann við greiðsluskyldu til trúfélags sem maður á ekki aðild að; telja verður að þetta felist í breyttu ákvæði. Loks er felld brott skylda um greiðslu til Háskóla Íslands ef menn standa utan trúfélaga – sem breyta mátti raunar með lögum.

Hvað viðbætur varðar má helst nefna að lífsskoðun virðist nú lögð að jöfnu við trúarskoðun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 17.8.2011 - 16:00 - FB ummæli ()

Frelsi menningar og mennta (17. gr.)

Í 17. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er merkilegt nýmæli miðað við gildandi stjórnarskrá, sem er að stofni til frá 1874:

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

Með þessu er sú skylda lögð á Alþingitryggja að kostun – t.d. af hálfu einkaaðila með ríka hagsmuni af þjóðfélagsmálum – á rannsóknar- og kennslustöðum við háskóla, stuðningur við rannsóknir og styrkir til listamanna skerði ekki frelsi þeirra. Fagna ég þessu enda sjáum við – bæði fyrir og eftir hrun – gróf dæmi um að brýn þörf er á þessu.

Efist einhver má ræða það í athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Þriðjudagur 16.8.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Frelsi fjölmiðla (16. gr.)

Í 16. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er enn eitt nýmælið miðað við lýðveldisstjórnarskrána – sem að stofni til er 137 ára gömul:

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Í þessu felst að Alþingi ber að setja lög (sem raunar voru sett í vor að nokkru marki, lög um fjölmiðla) sem tryggja allt þetta:

  • Frelsi fjölmiðla.
  • Ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla.
  • Gegnsætt eignarhald fjölmiðla.
  • Vernd blaðamanna.
  • Vernd heimildarmanna
  • Vernd uppljóstrara.

Þá verður nú gaman að lifa.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Mánudagur 15.8.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Upplýsingaréttur (15. gr.)

Umfjöllun um grein dagsins – 15. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs – verður heldur fáorð enda eru bæði tölvan og ég hálf eftir okkur eftir nokkuð ítarlegt og venju fremur fræðilegt blogg gærdagsins um 14. gr. – en vonandi samt á mannamáli – um grundvallarregluna um tjáningarfrelsi og nýmæli sem þar er að finna, svo og þær fáu breytingar sem þar eru frá gildandi stjórnarskrá.

Regla 15. gr. hljóðar svo:

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir fjölmiðla og aðra sem vilja gegnsæi og aðhald. Einnig leggur þetta töluverðar kvaðir á opinbera aðila – en sem starfsmaður í opinberri stofnun taldi ég ekki annmarka á ákvæðinu. Deila má hins vegar um hve nákvæmar stjórnarskrárreglur skuli vera.

Spyrjið endilega ef greinin vekur spurningar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Sunnudagur 14.8.2011 - 22:11 - FB ummæli ()

Skoðana- og tjáningarfrelsi (14. gr.)

Af fjórum málsgreinum í eftirfarandi tjáningarfrelsisgrein í 14. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs felur sú þriðja í sér eina verulega nýmælið frá gildandi stjórnarskrá:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.

Formlegt (fyrirfram) tjáningarfrelsi óskert…

Mikilvægast er að formlegt tjáningarfrelsi er óskert frá því sem felst í gildandi stjórnarskrá; í formlegu tjáningarfrelsi felst bann við fyrirfram tálmunum, svo sem ritskoðun, og öðrum ráðstöfunum, sem áskilja að stjórnvöld samþykki fyrirfram einhverja tjáningu. Er þá byggt á stjórnarskránni frá 1874 (með smávægilegri efnislegri áréttingu 1995) – eins og íslenskir dómstólar hafa yfirleitt túlkað hana alveg frá 1943 er lagaáskilnaður um samþykki ráðherra fyrir tiltekinni stafsetningu fornrita var af meirihluta (2:1) Hæstaréttar talin óheimil fyrirfram tálmun á hinu formlega tjáningarfrelsi.

… en efnislegt (eftirá) tjáningar“frelsi“ vitaskuld ekki óheft

Hér sem endranær og víðast hvar ef ekki alls staðar á byggðu bóli eru hins vegar auðvitað settar skorður við efnislegu tjáningarfrelsi – þ.e. að dæma má menn eftirá fyrir meiðyrði eða annað sem skerðir rétt annarra eða aðra hagsmuni sem taldir eru upp í 2. málslið 2. mgr. 14. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins; sem dæmi má nefna að stjórnarskráin hefur verið af Hæstarétti verið talin heimila bann við áfengisauglýsingum, telji löggjafinn þau uppfylla skilyrði gildandi stjórnarskrár um vernd heilsu (sbr. og nú skilyrði frumvarpsins um vernd barna).

Meiri barnavernd og meira frjálslyndi

M.ö.o. eru ákvæði 1., 2. og 4. mgr. 14. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins efnislega óbreytt frá gildandi stjórnarskrá – þó að uppröðunin sé önnur – að því frátöldu að heimildir til skerðingar á tjáningarfrelsi verða nú ekki lengur grundvallaðar á „allsherjarreglu“ eða „siðgæði manna“ en í stað þeirra hugtaka er vernd barna nú nefnd sérstaklega (auk heilsu sem áður). Má að mínu mati búast við því að af þessu leiði breytta löggjöf – og eftir atvikum dómaframkvæmd – á sviði kynferðis- og áfengismála, þ.e. að auðveldara verði að réttlæta takmarkanir í þágu barna, svo sem gegn grófu ofbeldi, grófu klámi eða bann við áfengisauglýsingum sem eru líklegar til þess að ná til barna. Á hinn bóginn verður væntanlega erfiðara fyrir löggjafann að leggja bann – sem dómstólar samþykki – við kynferðislegu efni og e.t.v. bann við áfengisauglýsingum sem aðeins beinast að fullorðnum – nema heilsuvernd geti réttlæt slíkt.

Líka mér þessar breytingar mjög vel – þ.e. aukin forsjárhyggja í þágu barnaverndar en aukið frjálslyndi á öðrum sviðum, þar sem umdeilanlegir mælikvarðar svo sem „siðgæði manna“ og „allsherjarregla“, sem lengi hafa verið of- og jafnvel misnotaðir til að stýra hegðun og afstöðu fullorðins fólks, eru nú úr sögunni að þessu leyti.

Enn fremur leysir hið almennara hugtak „öryggi“ svolítið ráðstjórnarlegt hugtak, „öryggi ríkisins“, af hólmi og er það vel – auk þess sem öryggi einstaklinga getur t.d. fallið undir það en ekki gildandi stjórnarskrá; studdi ég allar þessar breytingar með ráðum og dáð er þær voru til umfjöllunar í mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs undir styrkri stjórn Silju Báru Ómarsdóttur formanns.

Auk neikvæðra frelsisréttinda – jákvæð athafnaskylda á ríkið

Loks vil ég benda á að í áðurnefndu nýmæli í fyrri málslið 3. mgr. stjórnarskrárfrumvarps um að stjórnvöld skuli „tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu“ felst það mat stjórnlagaráðs að ekki sé nóg að banna með „neikvæðum“ hætti íhlutun handhafa ríkisvalds í tjáningarfrelsi – sem hefur verið kjarni þessara frelsisréttinda í margar aldir, þ.e.a.s. hvað ríkið má ekki gera. Í þessu felst viðbót um „jákvæða“ skyldu til athafna – þ.e.a.s. hvað ríkinu er skylt að gera.

Með því er viðurkennt að formlegt og efnislegt „neikvætt“ tjáningarfrelsi er ekki lengur nægilegt þegar stórir og sterkir hagsmunaaðilar geta drottnað yfir umræðu og stjórnað henni, sbr. og fyrri pistla mína um 5. gr. og 9. gr. frumvarpsins.

Lýðræðisalda auðvelduð en ekki takmörkuð

Í síðari málslið 3. mgr. um að óheimilt sé „að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi“ felst vitaskuld ekki skylda á hendur ríkinu að tryggja fullkominn netaðgang á Hornströndum hvenær sem er eins og (mis)skilja mátti að fyrra orðalag ákvæðisins í áfrangaskjali fæli í sér. Aðeins er verið að árétta að þessi mikilvæga forsenda tjáningar-, upplýsinga-, fjölmiðla- og lýðfrelsis verði ekki takmörkuð nema með sömu ströngu skilyrðum og eiga við um skerðingu tjáningarfrelsis; væntanlega er rétt að horfa frekar til formlega tjáningarfrelsisins fremur en hins efnislega í því efni en þar þurfa dómstólar, sem samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpi þessu eiga að vera sjálfstæðari en nú, að útfæra mörkin nánar.

Fyrirvarinn um úrlausn dómara og sömu efnisskilyrði var af minni hálfu – er ég rökstuddi breytingu á áfangaskjalinu að þessu leyti – meintur til þess að takmarka t.d. rétt gæsluvarðhaldsfanga eða dæmds barnaníðings til óhefts netaðgangs. Hugsun stjórnlagaráðs var hins vegar að lýðræðisstraumar yrðu ekki skertir – heldur efldir – með þessu ákvæði og horfðum við þar m.a. til lýðræðisöldu almennings í einræðisríkjum arabaríkjanna frá upphafi þessa árs.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Laugardagur 13.8.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Eignarréttur (13. gr.)

Þó að stjórnlagaráð hafi að margra mati – réttilega að mínum dómi – verið talið nokkuð vinstra megin við miðju, og e.t.v. heldur meira til vinstri en meðaltal þjóðarinnar – leggur ráðið vitaskuld ekki til breytingar á því að eignarrétturinn sé friðhelgur; vona ég að enginn hafi óttast svo róttækar breytingartillögur.

Eignarréttarákvæðið hefur í yfir 100 ár – m.a. í framkvæmd af hálfu dómstóla – verið eitt sterkasta mannréttindaákvæðið í stjórnarskránni, sem – eins og kunnugt er – er að stofni til óbreytt frá 1874.

Eignarrétturinn er friðhelgur

M.ö.o. leggur stjórnlagaráð til að 1. mgr. 13. gr. sé orðrétt óbreytt frá gildandi stjórnarskrá:

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Til gamans má þess geta að í 50. gr. stjórnarskrár Kristjáns konungs IX., er hann færði okkur á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874, hljóðar ákvæðið orðrétt alveg eins; aðeins greinarmerki og stafsetning er lítið breytt:

Eignarrjetturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagaboð og komi fullt verð fyrir.

Nýmælin felast í 2. mgr.

Heimild til mismununar gagnvart útlendingum felld brott

Annars vegar er fellt á brott ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem heimilar löggjafanum að takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignarréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi; sjálfur hafði ég ekki sterkar skoðanir á þessu og lagðist því ekki gegn brottfallinu þegar ágæt frjálslyndisrök komu fram um að það væri óþarft og óréttlátt – enda þótt ég sé raunar nokkuð íhaldssamur að þessu leyti og hafi ekki verið mótfallinn þessu ákvæði, m.a. vegna aukinnar Evrópusamvinnu og ríkra viðhorfa um að greina á milli fasteignarréttinda a.m.k. annars vegar og annarra eigna hins vegar.

Fyrir vikið gildir hin almenna jafnræðisregla fullum fetum nú um eignarréttindi og aðild að þeim – án þessa gamla fyrirvara.

Rétti fylgja skyldur

Hins vegar er bætt við ákvæði sem ég hvatti mjög til, svohljóðandi í nýrri 2. mgr.:

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

Síðari liðurinn um að takmarkanir megi setja með lögum við eignarrétti er í samræmi við

  • lagaframkvæmd,
  • úrlausnir dómstóla og
  • kenningar fræðimanna

áratugum saman, hérlendis sem erlendis. Í síðari lið 2. mgr. felst því aðeins árétting á gildandi reglum.

Meta ber eignarrétt í þjóðfélagslegu samhengi

Nýmælið – sem ég er mjög ánægður með – felst í fyrri lið 2. mgr.; í því felst staðhæfing stjórnarskrárgjafans, verði frumvarp þetta að stjórnarskrá, um að rétti til eignar fylgi ávallt náttúrulegar skyldur. Fyrirmyndin var þýsk – eins og í fleiri tilvikum – um að eignarrétti fylgi skyldur; raunar var á síðustu metrunum samþykkt breytingarillaga um að fella brott annað ákvæði úr áfangaskjali af þýskum uppruna um að nýting eignarréttar skyldi ekki ganga gegn almannahag (en í þýsku stjórnarskránni segir reyndar beinlínis að hann eigi að þjóna almannahag).

Þetta ákvæði um tengingu á milli réttinda og skyldna tel ég að verði mikilvæg og raunhæf leiðbeining til löggjafans – og eftir atvikum til dómstóla – um að eignarréttur sé ekki einhliða og óskilyrtur heldur verði að meta hann í þjóðfélagslegu samhengi; t.d. er það undarlegt að einu eignirnar sem hafa ekki lækkað eftir hrun – heldur beinlínis hækkað – eru verðtryggð skuldabréf!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Föstudagur 12.8.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Réttur barna (12. gr.)

Í 12. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.

Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Fyrri hlutinn óbreyttur

Fyrsta málsgrein er  samhljóða gildandi stjórnarskrá um vernd og umönnun barna í samræmi við velferð þeirra. Önnur málsgrein er óumdeilanlega gildandi regla í barnarétti síðustu ár og jafnvel áratugi – en auðvitað háð mati og tíðaranda hverju sinni hvað sé barni fyrir bestu; í þessum tveimur ákvæðum felst því annars vegar engin efnisbreyting og hins vegar lítil efnisleg breyting – önnur en sú að færa meginreglu laga inn í stjórnarskrá.

Hvað felur andmælaréttur barns í sér?

Þriðja málsgrein felur í sér umdeilanlegri breytingu – þó að ég hafi verið henni hlynntur; hún felur í sér margar breytur:

  • Barni ((0-18 ára)
  • skal tryggður réttur (ótvíræð skylda)
  • til að tjá skoðanir sínar (nokkuð skýrt inntak)
  • í öllum málum sem það varðar (mjög viðtækt svið) og
  • skal (aftur ótvíræð skylda)
  • tekið réttmætt tillit (en hér er skýr fyrirvari um að ekki skuli endilega taka fullt mark á afstöðu barns heldur aðeins „réttmætt tillit“)
  • til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska (árétting á fyrirvaranum um að „réttmæt tillit“ skoðist ekki aðeins í samhengi við aðstæður aðrar heldur einnig aldur barns og þroska).

Breytingin er minni en sumir halda enda er þegar í barnalögum regla um að taka beri tillit til skoðana barna eftir aldri og þroska – og því meira eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Sú lagaskylda er ekki lengur bundin tilteknum aldri, heldur þroska og aðstæðum; sjálfum finnst mér sjálfsagt að víkka regluna út yfir önnur svið og jafnvel til yngri aldurshópa – með þeim fyrirvörum sem að ofan greinir.

Andmælaréttur barna á ekki aðeins við um foreldra – heldur allt þjóðfélagið

Stóra breytingin samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs felst í því að nú ber ekki aðeins foreldrum lagaskylda að taka tillit til barna og afstöðu þeirra heldur hvílir sú skylda framvegis, verði tillaga stjórnlagaráðs að stjórnarskrá, á fleiri aðilum, sem ákvarðanir taka um hagsmuni barna – þjóðfélaginu öllu!

Fer vel á því enda eru í mörgum af hinum 76 sveitarfélögum landsins starfandi ungmennaráð; fulltrúar þeirra lögðu gott til í stjórnlagaráðsvinnunni eins og lesa  má um hér.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 11.8.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Friðhelgi einkalífs (11. gr.)

Ákvæði nýja stjórnarskrárfrumvarpsins um friðhelgi einkalífs markar ekki nýmæli – eins og sumir gagnrýnendur, sem virðast ekki hafa kynnt sér ákvæði gildandi stjórnarskrár, gætu haldið – en auðvitað er hægt að hafa þá skoðun að gildandi ákvæðum eigi að breyta – sem við í stjórnlagaráði gerum sem sagt ekki tillögu um.

Óbreytt er, efnislega, að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð – en þó að orðalagi sé breytt í 1. mgr. er efni friðhelgisákvæðisins óbreytt að þessu leyti.

Aukin vernd gegn kynferðis- og heimilisofbeldi eina efnisbreytingin

Hins vegar kann af 10. gr., sem ég skrifaði um í gær, að leiða minni formlega vernd gagnvart friðhelgi heimilis – í þeim tilgangi að veita mannhelgi meiri efnislega vernd, svo sem gegn kynferðisofbeldi innan heimilis. Efast ég um að margir andmæli þeirri tillögu stjórnlagaráðs.

Virðum lagahefð – sem gefist hefur vel

Orðalag 2. og 3. mgr. er nákvæmlega hið sama í 11. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins og í 71. gr. stjórnarskrárinnar; umræðan ætti því e.t.v. að þessu leyti að snúast um það hvort friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sé ofvernduð eða ekki nægilega vernduð – frekar en að gefið sé til kynna að stjórnlagaráð sé að leggja til stórkostlegar takmarkanir á þeirri friðhelgi enda virtum við í stjórnlagaráði gjarnan norræna, evrópska og íslenska lagahefð, svo fremi að hún hefði gefist vel að okkar mati.

Ákvæðin orðrétt

Ákvæði 11. gr. er svohljóðandi:

Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Til samanburðar hljóðar 71. gr. gildandi stjórnarskrár svo nú:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimijld. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur