Stjórnarskrá er ætlað að standa lítið breytt eða óbreytt í mörg ár eða áratugi – þó að helst til langt hafi að mínu mati liðið á milli þess að hún hafi verið endurskoðuð hérlendis og grundvallar skiptingu valdþátta raunar sáralítið breytt frá 1874 eins og ég hef skrifað um.
Samráð stuðlar að sátt
Þjóðin öll þarf að vera sem sáttust við stjórnarskrána, þ. á m. frjáls hugsjónasamtök, svo sem Stjórnarskrárfélagið. Auk þess þurfa hagsmunaaðilar að búa við stjórnarskrána og virða. Þess vegna vil ég sem fulltrúi í stjórnlagaráði hafa sem mest samráð við sem flesta um framtíðar stjórnarskrá landsins en Alþingi hefur framselt stjórnlagaráði vald sitt til þess að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá í ljósi þess að þinginu hefur ekki tekist að gera heildstæðar breytingar á henni eins og staðið hefur til frá stofnun lýðveldis 1944.
Samráð í starfsreglum
Í samræmi við þetta samþykkti stjórnlagaráð fyrir réttri viku starfsreglur þar sem segir:
Umsagnir og erindi.
Koma má erindum á framfæri við Stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð, nefndir og starfshópar geta óskað umsagna um mál frá aðilum utan ráðsins og boðið gestum á fundi. Stjórnin getur sett reglur um þessi atriði.
Enn á eftir að koma í ljós hvernig ráðið og nefndir nýta þetta ákvæði til þess að bjóða gestum – svo sem hugsjónasamtökum, hagsmunaaðilum og sérfræðingum – á opna fundi.
Frekara samráð
Hvað sem því líður vil ég eftir föngum eiga fundi með þeim, sem þess óska, enda verði slíkir fundi opnir- a.m.k. í þeim skilningi að fært sé til bókar að þeir hafi átt sér stað enda varhugavert að eiga leynifundi með hagsmunaaðilum eða öðrum um slík mál. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir að öllum ráðsfulltrúum, sem þess óska, bjóðist tækifæri til þess að vera með á slíkum fundum og æskilegt að aldrei sé um 2ja manna tal að ræða.
Með jafnræði að leiðarljósi
Slíkir fundir eru annars vegar ætlaðir til þess að víkka sjóndeildarhring ráðsfulltrúa því betur sjá augu en auga. Hugsa ég fundina helst til þess að heyra viðhorf annarra áður en vinna okkar í stjórnlagaráði við að leggja til breytingar á stjórnarskránni fer á fullt. Fundir sem þessir eru auk þess til þess fallnir að stuðla að jafnræði þannig að allir eigi jafn góðan aðgang að mér sem fulltrúa í stjórnlagaráði.
Þeir sem hafa áhuga á fundi eru hvattir til þess að hafa samband.