Miðvikudagur 20.4.2011 - 20:25 - Lokað fyrir ummæli

Samráð um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Stjórnarskrá er ætlað að standa lítið breytt eða óbreytt í mörg ár eða áratugi – þó að helst til langt hafi að mínu mati liðið á milli þess að hún hafi verið endurskoðuð hérlendis og grundvallar skiptingu valdþátta raunar sáralítið breytt frá 1874 eins og ég hef skrifað um.

 

Samráð stuðlar að sátt

Þjóðin öll þarf að vera sem sáttust við stjórnarskrána, þ. á m. frjáls hugsjónasamtök, svo sem Stjórnarskrárfélagið. Auk þess þurfa hagsmunaaðilar að búa við stjórnarskrána og virða. Þess vegna vil ég sem fulltrúi í stjórnlagaráði hafa sem mest samráð við sem flesta um framtíðar stjórnarskrá landsins en Alþingi hefur framselt stjórnlagaráði vald sitt til þess að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá í ljósi þess að þinginu hefur ekki tekist að gera heildstæðar breytingar á henni eins og staðið hefur til frá stofnun lýðveldis 1944.

 

Samráð í starfsreglum

Í samræmi við þetta samþykkti stjórnlagaráð fyrir réttri viku starfsreglur þar sem segir:

Umsagnir og erindi.

Koma má erindum á framfæri við Stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð, nefndir og starfshópar geta óskað umsagna um mál frá aðilum utan ráðsins og boðið gestum á fundi. Stjórnin getur sett reglur um þessi atriði.

 

Enn á eftir að koma í ljós hvernig ráðið og nefndir nýta þetta ákvæði til þess að bjóða gestum – svo sem hugsjónasamtökum, hagsmunaaðilum og sérfræðingum – á opna fundi.

 

Frekara samráð

 Hvað sem því líður vil ég eftir föngum eiga fundi með þeim, sem þess óska, enda verði slíkir fundi opnir- a.m.k.  í þeim skilningi að fært sé til bókar að þeir hafi átt sér stað enda varhugavert að eiga leynifundi með hagsmunaaðilum eða öðrum um slík mál. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir að öllum ráðsfulltrúum, sem þess óska, bjóðist tækifæri til þess að vera með á slíkum fundum og æskilegt að aldrei sé um 2ja manna tal að ræða.

 

Með jafnræði að leiðarljósi

Slíkir fundir eru annars vegar ætlaðir til þess að víkka sjóndeildarhring ráðsfulltrúa því betur sjá augu en auga. Hugsa ég fundina helst til þess að heyra viðhorf annarra áður en vinna okkar í stjórnlagaráði við að leggja til breytingar á stjórnarskránni fer á fullt. Fundir sem þessir eru auk þess til þess fallnir að stuðla að jafnræði þannig að allir eigi jafn góðan aðgang að mér sem fulltrúa í stjórnlagaráði.

 

Þeir sem hafa áhuga á fundi eru hvattir til þess að hafa samband.

 

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 19.4.2011 - 23:30 - Lokað fyrir ummæli

Málefni nefnda stjórnlagaráðs

Í dag var málefnum eftir töluverða yfirlegu skipt á milli verkefnanefnda í stjórnlagaráði; þær eru þrjár og fjalla um eftirfarandi – undir stjórn eftirfarandi formanna sem einnig voru kjörnir í dag og sitja í stjórn ásamt formanni og varaformanni.

Gaman er að sjá að konur mynda meirihluta stjórnar.

Verkefnanefnd A

  • Grunngildi, ríkisborgararéttur og þjóðtunga
  • Uppbygging og kaflaskipan stjórnarskrárinnar
  • Náttúruauðlindir og umhverfismál
  • Mannréttindi (þ.á m. þjóðkirkjan)

Formaður var kjörin Silja Bára Ómarsdóttir.

Verkefnanefnd B

  • Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar
  • Hlutverk og staða forseta Íslands
  • Hlutverk og störf Alþingis (hlutverk, skipulag og starfshættir; seta ráðherra á þingi; fjárstjórnarvald; eftirlit með framkvæmdarvaldinu)
  • Ríkisstjórn, störf forseta og ráðherra og verkefni framkvæmdarvalds
  • Staða sveitarfélaga

Formaður var kjörin Katrín Fjeldsted.

Verkefnanefnd C

  • Stjórnlagaráð
  • Lýðræðisleg þátttaka almennings (þ.á m. stjórnarskrárbreytingar)
  • Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds
  • Alþingiskosningar, kjördæmaskipan og alþingismenn
  • Samningar við önnur ríki og utanríkismál

Formaður var kjörinn Pawel Bartoszek.

Sjálfur vil ég sitja í verkefnanefnd B enda er þar fjallað um þau málefni sem mér eru hugleiknust af mörgum mikilvægum málum og áhugaverðum en meðal þess er aukin valddreifing – m.a. með því að draga úr miðstjórnarvaldi ríkisins með því að flytja hluta fjárstjórnarvalds til sterkari og stærri sveitarfélaga eins og ég hef skrifað um áður.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 21:47 - Lokað fyrir ummæli

Endurskoðun stjórnarskrárinnar stendur yfir

Á morgun er mikilvægur fundur í stjórnlagaráði þar sem ákveðið verður hvernig verkefni við endurskoðun stjórnarskrárinnar skiptast á milli nefnda þannig að formleg og skipulögð málefnavinna geti hafist eftir 3ja daga óformlegar umræður í starfshópum. Þá verða kosnir nefndarformenn og fulltrúum verður skipt á milli nefnda. Loks verða lögð fram erindi til stjórnlagaráðs en eins og ég fjallaði um í gær getur almenningur með margvíslegum hætti fylgst með og haft áhrif á störf okkar við endurskoðun stjórnarskrárinnar – m.a. með því að mæta á fundi stjórnlagaráðs eða fylgjast með þeim á netinu, senda erindi eða óska eftir fundi með ráðsfulltrúum. Hvet ég alla áhugasama til þess að nýta sér þau tækifæri – gjarnan eftir að hafa kynnt sér skýrslu stjórnlaganefndar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Sunnudagur 17.4.2011 - 23:59 - Lokað fyrir ummæli

Þú hefur áhrif

Fyrsta verk mitt eftir að stjórnlagaráð setti sér starfsreglur í vikunni var að svara ítölskum blaðamanni sem spurði stjórnlagaráðsfulltrúa m.a. eitthvað á þessa leið:

Hvernig getur íslenskur almenningur tekið þátt í starfi stjórnlagaráðs?

Margþættar leiðir fyrir áhrif almennings

Mér til ánægju sá ég við yfirferð yfir umgjörð ráðsins samkvæmt þingsályktun og umræddum starfsreglum að almenningur getur fylgst með störfum stjórnlagaráðs, tekið þátt í stjórnlagaumbótum og haft áhrif á sex vegu, þ.e. með því að:

  1. senda stjórnlagaráði skrifleg erindi og umsagnir;
  2. hlusta á upptökur af fundum stjórnlagaráðs og eftir atvikum verkefnanefnda – hvort sem er með því að mæta á opna fundi, hlusta á þá á netinu í beinni eða upptökur síðar;
  3. tjá sig undir nafni á opinberum vef stjórnlagaráðs um drög og tillögur að nýjum stjórnarskrárákvæðum;
  4. óskað eftir fundi með stjórnlagaráði, nefndum eða starfshópum;
  5. með því að taka þátt í þjóðaratkvæði sem gert var ráð fyrir við meðferð þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs að gæti átt sér stað áður en Alþingi tekur tillögu stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár til afgreiðslu.

Væntanlega getur rödd almennings í sjötta lagi einnig heyrst áður en stjórnlagaráð lýkur störfum með því að gerð verði skoðanakönnun á viðhorfum kjósenda til meginatriða í væntanlegum tillögum ráðsins til þjóðar og þings.

Einvirk og gagnvirk áhrif

Fyrstu tveir liðirnir eru einvirkir þar sem almenningur sendir stjórnlagaráði erindi annars vegar og hlustar á ráðsfundi hins vegar. Næstu tveir liðir eru hins vegar gagnvirkir þar sem þeir bjóða upp á samtal og svör. Síðustu tveir liðirnir – þegar líður að lokum stjórnlagaumbóta – eru formlegri og geta haft töluverð áhrif á valkosti stjórnlagaráðs annars vegar og mat Alþingis hins vegar – sem fer enn með hið formlega vald til þess að breyta stjórnarskránni. Þess vegna vil ég hvetja alla áhugasama til þess að fylgjast með og beita sér gagnvart stjórnlagaráði enda er ekki víst að slíkt tækifæri til þess að móta grundvöll íslenskrar stjórnskipunar bjóðist aftur í bráð.

Mun ég fljótlega gera frekari grein fyrir hvernig ég vil leitast frekar við að ná til almennings og hlusta á ólík viðhorf við þetta mikilvæga starf.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Laugardagur 16.4.2011 - 22:00 - Lokað fyrir ummæli

Lög unga fólksins

Í dag sótti ég kynningu á niðurstöðum Stjórnlaga unga fólksins í Iðnó og hafði af því bæði gagn og gaman – m.a. sem ráðsmaður. Þar voru einnig 8 félaga minna úr stjórnlagaráði, sem nýtekið er til starfa; fannst mér gott að rúmlega þriðjungur ráðsins vildi heyra viðhorf unga fólksins áður en stjórnlagaráð hefst handa við að leggja til breytingar á stjórnarskránni en efnisumræður okkar hófust einmitt í gær en fundi ráðsins má sjá á netinu.

Samráð við allan almenning

Auk þess hef ég lagt óformlega til að fulltrúar Stjórnlaga unga fólksins komi á fund stjórnlagaráðs eða fulltrúa þess og geri grein fyrir niðurstöðum sínum um stjórnarskrá framtíðarinnar. Þá hef ég spurnir af því að skriflegar niðurstöður unga fólksins verði unnar og birtar fyrir okkur í stjórnlagaráði í næsta mánuði.

Í síðari pistli vil ég gera grein fyrir öðrum möguleikum fyrir almenning til þess að fylgjast með störfum stjórnlagaráðs og hafa áhrif.

Frumlegar lausnir

Ánægja mín var ekki aðeins vegna þess að ég – eins og nokkrir félagar mínir, sem ég heyrði í – var að miklu leyti sammála áherslum unga fólksins. Ég var ekki síður ánægður með frumlegar tillögur unga fólksins varðandi vandamál sem ég hafði ekki áttað mig á og lausnir á vandamálum, sem ég hafði hugleitt, en ekki fundið lausn á. Þá fannst mér kynning á niðurstöðum þeirra benda til þess að unga fólkið væri skynsamt og vildi ekki hlaupa eftir dægurvandamálum heldur halda í það, sem gott er, og bæta það.

Formlegt samráð við ungt fólk

Titillinn – (stjórn)lög unga fólksins – er heldur ekki bara orðaleikur út frá dægurlagaþætti RÚV þegar ég var táningur fyrir aldarfjórðungi – heldur vísar heitið til þess að við sem eldri erum eigum aðeins eftir að búa við nýja stjórnarskrá í nokkra áratugi eða ár, eftir atvikum, en börnin okkar og barnabörn munu búa við stjórnarskrána í marga áratugi. Þess vegna fannst mér ein besta hugmyndin af mörgum góðum þegar niðurstöður unga fólksins voru kynntar í dag að formlega yrði leitað samráðs við einhvers konar lýðræðislegt ráð ungmenna Íslands, sem ekki hefðu kosningarétt, um málefni sem varða þau sérstaklega. Mér líst sérlega vel á þessa hugmynd og mun hugleiða að bæta henni í tillögu sem ég hef gert um jafnræði þegar haft er samráð við hagsmunaaðila.

***

Ég vek sérstaka athygli á myndböndum um stjórnarskrána á vef Stjórnlaga unga fólksins, sem bæði eru stutt og greinargóð skýring á gildandi stjórnarskrá og gagnast bæði börnum og fullorðnum enda er lögfræðin að baki útskýrð bæði rétt og vel fyrir ólöglærða.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Föstudagur 15.4.2011 - 22:42 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnlagaráð fólksins tekið til starfa

Daginn eftir að nýskipað stjórnlagaráð var sett um miðja síðustu viku voru kjörin formaður, Salvör Nordal, og varaformaður, Ari Teitsson. Innan viku hafði stjórnlagaráð þegar sett sér starfsreglur og ákveðið hvernig hefja skyldi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar eins og Alþingi hafði falið okkur. Í morgun hófst svo efnisumræða í starfshópum sem starfa til bráðabirgða þar til í næstu viku er málefni, sem taka á til skoðunar, verða ákveðin svo og fjöldi og verkaskipting nefnda í starfinu sem fer í hönd þar til í júnílok að óbreyttu.

Vona ég að þessi skilvirku vinnubrögð stjórnlagaráðs – sem horfa má á og hlýða á vef stjórnlagaráðs – veki réttmætt traust þjóðarinnar til þess að við ráðsmenn og ráðskonur munum gera okkar besta til þess að sinna því mikilvæga hlutverki sem Alþingi hefur framselt okkur að þessu sinni.

***

Nú hef ég aftur regluleg skrif hér á Eyjunni sem ráðsmaður – auk óreglulegra Pressupistla – en hér birti ég einmitt í október og nóvember sl. á fimmta tug pistla um gildandi stjórnarskrá og stjórnlagaumbætur sem ég lagði áherslu á í aðdraganda þjóðkjörs til stjórnlagaþings.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Mánudagur 6.12.2010 - 12:30 - FB ummæli ()

Farinn

Um leið og ég þakka fyrir lesturinn á Eyjupistlum mínum á árinu og málefnalegar athugasemdir vil ég kveðja Eyjuna með þakklæti á þessum tímamótum; ég mun framvegis skrifa á Pressunni og hef þegar birt fyrsta pistilinn á nýjum vettvangi:

Pistlar mínir verða áfram aðgengilegir hér:

http://blog.eyjan.is/gislit/

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Þriðjudagur 30.11.2010 - 23:55 - FB ummæli ()

Þakklátur og hrærður

Nú þegar fullveldisdagurinn – mesti hátíðisdagur Íslandssögunnar í mínum huga – er að ganga í garð vil ég þakka kjósendum af öllu landinu fyrir það mikla traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig sem einn 25 fulltrúa á fyrsta stjórnlagaþing Íslendinga – nema Þjóðfundurinn 1851 sé talinn með; þegar stjórnlagaþingið kemur saman snemma árs 2011 eru einmitt 160 ár liðin frá þeim endasleppa fundi og raunar 200 ár fá fæðingu frelsishetju vorrar, Jóns Sigurðssonar – sem mótmælti einmitt á Þjóðfundinum gerræði stjórnvalda þess tíma þannig að þingfulltrúar tóku undir einum rómi:

Vér mótmælum allir.

Um leið þakka ég yfir 500 meðframbjóðendum mínum drengilega og málefnalega kosningaumræðu og óska hinum 24 nýkjörnu stjórnlagaþingmönnum hjartanlega til hamingju – með von um djúpt og gott samstarf að því að skapa sátt um ný grundvallarlög fyrir Ísland.

Hér má sjá yfirlit yfir þá rúmlega 40 pistla sem ég birti í þær 6 vikur sem aðdragandi þessara sögulegu kosninga varði fyrir mér – sem frambjóðanda – enda þótt 2 ár og 2 dagar séu nú liðnir frá því að ég stakk fyrst upp á að boðað yrði til stjórnlagaþings í kjölfar kerfishruns.

Stjórnlagadómstóll og aukið jafnræði hagsmuna og milli héraða og miðstjórnar

Þar má lesa um helstu stefnumál mín en þau þrjú sem ég lagði að lokum megináherslu á voru:

  1. Stjórnlagadómstóll.
  2. Jafnræði við samráð ríkisvaldsins við hagsmunaaðila.
  3. Jafnari skiptiing valda milli miðstjórnarvalds ríkisins og valdheimilda í héraði.

Ég er þakklátur og hrærður – og mun fljótlega láta heyra frá mér frekar – á öðrum vettvangi – og ekki síður leitast við að halda áfram að leita viðhorfa annarra og hlusta á kjósendur og aðra stjórnlagaþingfulltrúa.

***

Hér má svo hlusta á viðtal RÚV við mig vikuna fyrir stjórnlagakjörið.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Laugardagur 27.11.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Ertu efins? – Listi 44ja stjórnlagapistla

Nú þegar kjördagur er runninn upp – vona ég að sem flestir kjósi.

Ég býð mig fram (nr. 3249) og hef undanfarnar sex vikur lagt mitt af mörkum til málefnalegrar umræðu um þetta hugðarefni mitt undanfarin 20 ár – þ.e. gildandi stjórnarskrá, væntanlegt stjórnlagaþing og helstu úrbótatillögur; ég vek athygli á því að á morgun, 28. nóvember 2010, eru einmitt 2 ár liðin frá því að ég lagði fyrst til þennan nýja vettvang: stjórnlagaþing fólksins til þess að endurmeta stjórnskipan okkar eftir hrunið.

Hér er listinn yfir yfir 40 pistla, þ.m.t. fimm gestapistla:

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Föstudagur 26.11.2010 - 18:40 - FB ummæli ()

Láttu þjóðkirkjumálið ekki ráða afstöðu þinni

Sjá má að margir frambjóðendur til stjórnlagaþings – og jafnvel kjósendur og einstaka fjölmiðlar – telja að staða þjóðkirkjunnar verði meginefni stjórnlagaþings – sem við kjósum til nk. laugardag, 27. nóvember. Ég tel hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að ráða þjóðkirkjumálinu til lykta á stjórnlagaþingi. Að mínu mati er réttara að fulltrúar á stjórnlagaþingi einbeiti sér að því, sem aðeins er unnt að breyta með endurskoðun á stjórnarskránni – svo sem því hvort og hvernig völd skiptist milli æðstu handhafa ríkisvalds: Alþingis, dómstóla, forseta og ríkisstjórnar – svo og sveitarfélaga sem ég vil gjarnan efla, sbr. daglega Eyjupistla mína.

Engin þörf er á að eyða tíma stjórnlagaþings í deilur um þjóðkirkjuna þar eð leysa má úr ágreiningi um stöðu hennar á einfaldan hátt, þ.e. með lögum frá Alþingi – sem kjósendur þurfa svo að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þá málsmeðferð er skýrt kveðið á í 2. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessari afstöðu til málsmeðferðar tek ég hvorki undir málstað stuðningsmanna óbreytts ástands né kröfur þeirra sem vilja nota stjórnlagaþing til þess að skilja fljótt á milli ríkis og kirkju.

Um tillögu mína – og persónulega afstöðu – má lesa í ítarlegra máli á Eyjunni: http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/02/adskilnadur-rikis-og-kirkju/

Báðir hóparnir eru á villigötum að mínu mati þar eð stjórnarskráin leysir á lýðræðislegan hátt úr málinu með skýrri og lýðræðislegri málsmeðferð. Ég hvet kjósendur því til þess að láta afstöðu sína eða frambjóðenda til þjóðkirkjunnar ekki ráða atkvæði sínu nk. laugardag – enda höfum við um nóg annað að deila nú um stundir – svo sem ESB, Icesave, skuldavanda heimilanna, efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og sjálft stjórnlagaþingið.

Gísli Tryggvason,

frambjóðandi 3249 til stjórnlagaþings.

(grein mín í Morgunblaðinu í dag)

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur