Fimmtudagur 27.5.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Lögmál eða landslög?

Bresk lagahefð er mörgum fyrirmynd – að mínu mati með nokkrum rétti; þar er rætt um Rule of law. Í slíkri stjórnskipan er málum skipað með lögum – en hvorki með tilskipunum forseta (eins og t.d. í Rússlandi lengi vel), geðþótta stjórnmálaforingja (svo sem í ónefndum einræðisríkjum nær og fjær, fyrr og síðar) eða trúarsetningum æðstupresta (t.d. í Íran). Síður er til fyrirmyndar löggjöf sem blandar beinlínis saman lögum og trú eða gildismati – pólitík.

Í byrjun vikunnar sagði fréttastöð BBC frá því að stjórnlagadómstóll – nokkuð sem okkur skortir enn – í Kenya hefði lagt skorður við því að lögum og trú (sharia-lögum eða múslimskri trú) mætti blanda saman í dómstólakerfi landsins.

Höfum við náð sama þroskastigi og þetta afríska menningarríki?

Hvort ræður flokkspólitískt mat eða lagareglur?

Þetta kom mér í hug þegar ég rifjaði upp að lög (sem voru sett um það leyti sem ég var að hefja laganám fyrir um 20 árum) um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hérlendis væru ekki bara enn við lýði – heldur væri flokkspólitískri nefnd ennþá falið að meta – þ.e. ýmist að fylgjast með eða gefa ráð um – hvort skilyrðum laganna um erlendar fjárfestingar væri fullnægt. Þar segir í 1. mgr. 12. gr.:

Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt, sbr. ákvæði 5. gr. Jafnframt skal hún vera ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Ráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.

Þrátt fyrir stjórnarskrána er sem sagt háð flokkspólitísku mati – ekki bundið lögum – hvort tiltekinn aðili megi fjárfesta hérlendis; þetta stenst að mínu mati ekki stjórnarskrárregluna um atvinnufrelsi – en aðalatriðið er hver á að meta hvort lagaskilyrðum sé fullnægt?

Frjálslyndi eða takmörkun á eignarhaldi útlendinga – hver á að meta?

Þetta kom að vísu fram um daginn fyrst þegar MAGMA-málið komst í fréttir en náði frekari styrk í vikunni. Það sem ég er hissa á er ekki álitamálið – sem er þetta:

Eiga erlendir aðilar (einstaklingar með ríkisfang í öðrum ríkjum en smáríkinu Íslandi eða lögaðilar sem skráðir eru í öðrum ríkjum en Íslandi) að

  • geta eignast og fá að eiga í hlut íslenskum fyrirtækjum (lögaðilum sem hafa skráningu hérlendis) og – ef svo er –
  • hve stóran hlut?

Ég ætlaði ekki að skrifa um efnisatriði enda hef ég ekki fullmótaða skoðun á þeim – þrátt fyrir allt – en hallast þó í frjálslyndisátt.

Ég vil tjá mig um formsatriðið – sem kom mér á óvart. Ég trúði því ekki fyrr en ég tók á að lagaskipan væri (enn) svo óljós hér á landi – eftir um 15 ára aukaaðild að ESB, samkvæmt EES-samningi, og nær 2o árum eftir að umrædd lög voru sett – að nefnd ætti að meta hvort erlend fjárfesting stæðist; þessi nefnd er arfleifð frá fyrri tíð – skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka. Það að nefndin er samkvæmt lögunum aðeins „til ráðuneytis“ eða eigi að „fylgjast með“ er annað hvort rök fyrir því að ekki sé hlustað á hana eða að það sé í vali viðkomandi ráðherra að fara að ráðum hennar því ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar.

Lög eða trú?

Ég vil vera hreinskiptinn og líkja þessu við sharia-dómstól; hérlendis höfum við – formlega og að mestu í raun – búið við það í rúm 135 ár (og líklega lengur að nokkru marki), frá því að tiltölulega frjálslyndur danskur konungur færði okkur einhliða stjórnarskrá í anda danska stjórnlagaþingsins 1848-9 – að dómarar eigi að dæma eftir lögunum.

Þó að hér sé ekki um dómstól að ræða – heldur sem betur fer hverfandi fyrirbæri stjórn(málaflokka)skipaðrar nefndar – eiga sömu lögmál við þegar meta skal af hálfu stjórnvalda hvort lög eru uppfyllt.

Fyrir því eru ótalmörg fordæmi að dómstólar á Íslandi undanfarna öld a.m.k. treysta sér vel til þess að endurmeta lögmæti – og í seinni tíð réttmæti – úrskurða sem lúta að öðru en svonefndu frjálsu mati; m.ö.o. er matskennt hvaða einkunn maður fær á prófi og að einhverju leyti hver af 10 umsækjendum skuli hljóta eitt starf sem er í boði – og auglýst. Þar er reglan (en reyndar oft brotin) að matið á að vera málefnalegt, faglegt.

Hitt getur ekki verið matskennt samkvæmt okkar lögskipan, sbr. t.d. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, hvort – eða að hvaða marki – heimilt er að fjárfesta í íslenskum atvinnuvegi; annað hvort er það bannað eða heimilt eða eitthvað þar á milli – t.d. upp að einhverju marki. Okkar stjórnskipan leyfir ekki að lög segi að svo mikilvægt atriði sem atvinnufrelsi og eignarhald á auðlindum sé pólitískt matsatriði flokksfulltrúa í nefnd úti í bæ – sem klofnar svo 3:2 þegar loks á reynir.

Samkvæmt því eiga bæði

  • frjálslyndir borgarar eins og ég,
  • erlendir – og innlendir – fjárfestar og
  • íslenskir fullveldissinnar

að geta treyst því að lögin séu skýr.

Svo að annað dæmi sé tekið getum við ekki sætt okkur við samkvæmt okkar stjórnskipan að það eigi að vera matsatriði 2ja presta hvort ég megi giftast heitkonu minni eða hvort þú megir skilja við eiginmann þinn. Lögin ríkja.

Guðslög?

Sú var tíðin að þau lög sem giltu í landinu voru stundum aukaatriði – en aðalatriði var vilji sitjandi forsætisráðherra; sá tími er liðinn – var reyndar aldrei að réttum lögum.

Kjarninn er sennilega að samkvæmt umræddum lögum og stjórnarskrá hefur ráðherra framkvæmdarvald – en atvinnufrelsi má, sem sagt aðeins takmarka með lögum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Sunnudagur 23.5.2010 - 20:55 - FB ummæli ()

Sammála Birnu bankastjóra – eða þannig

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt – eins og að vera sammála bankastjóra. Í fréttum hljóðvarps RÚV í dag var birt viðtal við einn slíkan og samkvæmt fréttavef RÚV var þetta megininntakið:

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að verði niðurstaða hæstaréttar [sic!] um lögmæti myntkörfulána ólík eftir því hvaða eignaleigufyrirtæki eigi í hlut, hljóti ríkisstjórnin að þurfa að setja lög um lánin.

Forsendubrestur o.fl.

Forsendur bankastjórans eru svipaðar og mínar, heyrist mér:

  1. Að gengisbundin lán séu líklega ólögmæt (bæði samkvæmt lögum, svo og reglum um svonefndan forsendubrest og einnig vegna fjölmargra annarra lagasjónarmiða).
  2. Að skilmálar, aðstæður, staða aðila og jafnvel forsendur í mismunandi lánasamningum séu að líkindum mismunandi svo að niðurstöður dómstóla geti orðið ólíkar eftir atvikum.
  3. Að þetta kalli á íhlutun af hálfu handhafa löggjafarvalds.

Reyndar má segja að þarna sé bankastjórinn, loksins, frekar að taka undir með mér o.fl. aðilum (ekki síst Hagsmunasamtökum heimilanna) sem hafa frá upphafi – fyrst sama kvöld og neyðarlögin voru sett – lagt fram tillögur um heildstæða lausn á skuldavanda neytenda í kjölfar bankahruns. M.ö.o. eru  nær 19 mánuðir síðan ég nefndi fyrst hugmynd mína sem talsmaður neytenda um gerðardóm til þess að færa niður með samræmdum hætti lánaskuldbindingar neytenda í kjölfar þess að lánakröfur samkvæmt samningum banka og annarra við neytendur yrðu teknar eignarnámi; þetta gerði ég á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis 3. nóvember 2008 – réttum fjórum vikum eftir að neyðarlögin voru sett.

Nú er liðið meira en ár síðan ég lagði þetta formlega til í embættisnafni

Skaðlegt tómlæti

Tillagan hefur verið kynnt tugum aðila með fundum og glærum – öllum sem þegið hafa slíkt boð eða óskað eftir því að eigin frumkvæði; nú síðast fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Margir hafa tekið undir með mér en stjórnvöld virðast enn horfa fram hjá lagasjónarmiðum sem þessum og einblína á að þeir sem geti greitt (óréttmætar) kröfur eigi að greiða.

Fyrir utan þann gríðarlega skaða sem neytendur og aðrir hafa beðið af tómlæti stjórnvalda í þessu efni er ljóst að síðbúnar en loks væntanlegar niðurstöður dómstóla um fyrstu málin (en ennþá á eftir að reyna á verðtryggð lán o.fl.) munu leiða til mikillar óvissu og óánægju ef þær verða mismunandi eftir atvikum eins og að ofan er lýst. Kjarni málsins nú er sú spá okkar Birnu Einarsdóttur bankastjóra – að erfitt verður fyrir neytendur og þjóðfélagið almennt að sætta sig við margar mismunandi niðurstöður eftir því hvernig skilmálar eru orðaðir, hvaða aðstæður voru við samningsgerð eða síðar, hver staða aðila og jafnvel hvernig forsendur voru lagðar til grundvallar mismunandi lánasamningum.

Hitt er því miður líklegt að erfiðara er nú að setja slík neyðarlög eins og ég lagði til fyrir nær 19 mánuðum síðan og áréttaði formlega eftir þingkosningar í lok apríl í fyrra.

Á fréttavef RÚV segir svo:

Misræmi hefur verið í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur en dómstóllinn hefur úrskurðað í tveimur málum um lögmæti myntkörfulána. Dómstóllinn dæmdi eignaleigufyrirtækinu SP Fjármögnun í hag í desember en í febrúar féll dómur öðru eignaleigufyrirtæki, Lýsingu, í óhag. Hæstiréttur hefur nú bæði málin til meðferðar og er búist við dómi í lok júní. Birna segir að verði niðurstaða hæstaréttar mismunandi eftir því hvort eignaleigufyrirtækið á í hlut hljóti ríkið að þurfa að grípa til aðgerða. Hún segir að margir viðskiptavina bankans bíði niðurstöðu hæstaréttar, einkum heimilin.

Við þetta er að bæta að þriðji dómurinn féll fyrir nokkrum vikum – lántakanda í hag (en sá var ekki einu sinni neytandi).

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.5.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Óþarfa farsi um skiptingu Stjórnarráðs

Margir hafa orðið til þess að tjá sig um viðbrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum um endurskipulagningu ráðuneyta – nú síðast, menntamálaráðherra og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs – í skemmtilegu og fróðlegu viðtali. Flestir, sem ég hef heyrt tjá sig um fækkun ráðuneyta og sameiningu málefna atvinnuveganna í eitt ráðuneyti, virðast hlynntir slíku. Ég hef lengi verið hallur undir hvort tveggja – eins og ég hef lagt til í stefnumörkun.

Hvort, hvernig – eða hver!

Þetta – hvort skipta eigi verkum milli ráðherra með nýjum hætti og hvernig sú breytta skipan eigi að vera – er þó ekki það sem ég furða mig á. Það sem ég undrast er að sá misskilningur sé enn uppi (sem er jafngamall mér og lögum um Stjórnarráðið frá 1969) að löggjafinn – Alþingi – eigi að skipta verkum með æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, ráðherrum; þetta er að mínu mati alrangt og stangast á við

  • skýr orð stjórnarskrárinnar um að forsetinn, þ.e. forsætisráðherra, skipti störfum með ráðherrum,
  • óslitna stjórnskipunarframkvæmd í ríkjum með sambærilega stjórnskipan, einkum Danmörku – þaðan sem fyrirmynd íslensku stjórnarskrárinnar kemur og
  • langa stjórnskipunarhefð á Íslandi – einkum frá 1917, þegar innlendir ráðherrar urðu í fyrsta skipti fleiri en einn, og þar til 1969, þegar löggjafanum var leyft að hlutast til um verkaskiptingu ríkisstjórnar með fyrrnefndum lögum.

Ég veit að til þess bærir og færir lögfræðingar þekkja þessa reglu, m.a. út frá úttekt sem ég gerði á þessum reglum fyrir um 15 árum er ég nam lög við lagadeild Háskóla Íslands; mér vitanlega hafa engir andmælt þessari nálgun.

Sjálfstætt ákvörðunarvald handhafa framkvæmdarvalds

Samkvæmt framangreindu ákveður forsætisráðherra einn stjórnskipulega (en vitaskuld í samræmi við stjórnarsáttmála eða annan pólitískan veruleika) verkaskiptingu milli ráðherra sinna og skrifar forseti undir þá ákvörðun eins og aðrar pólitískar ákvarðanir sem hann er ekki sjálfbær um.

Alþingi getur ekki tekið þetta vald til verkaskiptingar innan ríkisstjórnar af henni enda er þetta eitt af þeim atriðum sem stjórnarskráin felur æðstu handhöfum framkvæmdarvalds en ekki löggjafanum. Sem dæmi um önnur atriði sem stjórnarskrárgjafinn hefur ákveðið að fela æðstu handhöfum framkvæmdarvalds eru þingrof (forsætisráðherra) og náðun (dómsmálaráðherra); löggjafinn getur ekki hlutast til um framkvæmd þeirra atriða – a.m.k. ekki tekið þau af ráðherrum eins og nú virðist misskilið í Stjórnarráðinu.

Þann rúmlega 40 ára (ó)sið að láta löggjafann hlutast til um málefnaskiptingu innan Stjórnarráðsins (í stað þess að löggjafinn einbeiti sér að hvaða reglur gildi en ekki hver framkvæmi þær) má samræma þeirri lögskýringu, sem hér er rökstudd, með því að segja að meðan ríkisstjórn sætti sig við slík afskipti þingsins geti það sett lagareglur um málefnaskiptingu; um leið og æðsti pólitíski handhafi framkvæmdarvalds (forsætisráðherra) sé ósammála geti hann tekið það vald, sem hann hefur samkvæmt stjórnarskrá, aftur í sínar hendur. Um þetta eru dæmi úr nýlegri danskri stjórnskipunarsögu; skömmu eftir að danska þjóðþingið samþykkti lög um að tiltekinn ráðherra færi með málaflokk ákvað forsætisráðherra að flytja málaflokkinn til annars ráðherra.

Stjórnarskráin ákveður verkaskiptinguna

Önnur atriði eru samkvæmt stjórnarskrá falin dómsvaldinu einu eins og frægt er orðið. Það sem ekki er falið handhöfum framkvæmdarvalds eða dómsvalds fellur líklega í skaut handhafa löggjafarvalds.

Styðst einnig við önnur stjórnvísindi

Þessa skýru lögfræðireglu – að forsætisráðherra en ekki löggjafarþingið ákveði verkaskiptingu ráðherra sinna – má ekki aðeins styðja við framangreind lagarök um textaskýringu, samanburðarskýringu og stjórnskipunarvenju heldur einnig þá almennu reglu í stjórnvísindum að þeir sem framkvæma reglur – t.d. framkvæmdarstjórn hlutafélags – eigi að hafa nokkurt sjálfdæmi um hvernig þeir skipta með sér verkum; stjórn hlutafélags eða löggjafi er hins vegar einráður um hvaða reglur gildi.

Reyndar heldur varaformaður VG því – að mínu mati ranglega – fram í nefndu viðtali að breyting á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins krefjist lagabreytinga; því skrifa ég þennan pistil – m.a. til þess að leiðrétta þennan misskilning á hæsta stigi. Bendir ráðherrann reyndar á í viðtalinu að annað kerfi sé viðhaft víðast hvar í Evrópu og segist beinlínis aðhyllast það – að ríkisstjórnin skipti sjálf með sér verkum. Ég er sammála – og hvet ríkisstjórnina til þess að nýta sér stjórnarskrárbundið vald sitt.

Forsætisráðherra ákveður verkaskiptingu

M.ö.o. er í mínum huga ljóst að forsætisráðherra gæti, t.d. í dag, ákveðið að setja málefni allra atvinnuvega undir einn ráðherra – án þess að blanda Alþingi inn í þá ákvörðun. Um það myndi ráðherrann vitaskuld hafa samráð við sína samherja og sitt pólitíska bakland (enda ávallt háður því að Alþingi styðji hann eða þoli í embætti). Þá væri hugsanlegt að ríkisstjórn myndi ráðfæra sig eftir atvikum við aðra aðila – en það er stjórnmálafræði; valdið er forsætisráðherra.

Næsta ríkisstjórn gæti síðan á einni nóttu breytt þessari skipan – enda varðar hún hagsmunaaðila (t.d. starfsmenn, fjölmiðla, almenning og hagsmunasamtök) síður en þær reglur sem gilda.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 13.5.2010 - 21:40 - FB ummæli ()

Ólíklegt að 9-menningar verði dæmdir

Verða 9-menningarnir dæmdir til refsingar fyrir árás á Alþingi? Ég ætla að reyna að spá fyrir um það, fyrst og fremst með lagarökum. Þessi umfjöllun felur því engan veginn í sér afstöðu í þeirri pólitísku deilu sem nú ríkir milli borgaralega sinnaðs fólks um nauðsyn þess að halda uppi lögum og reglu annars vegar og róttæks fólks hins vegar um heimild – og jafnvel skyldu – fólks til þess að sýna borgaralega óhlýðni. Ég tek fram að þó að ég sé löglærður og hafi sinnt stjórnskipunarrétti vel er ég ekki sérfræðingur í refsirétti.

Það ákvæði almennra hegningarlaga frá 1940 sem ákært hefur verið fyrir nú hljóðar svo:

Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

Mikilvæg refsivernd fyrir sjálfstæðið

Ákvæðið er enn eldra að stofni til og varðar vitaskuld fullveldi ríkisins þar sem Alþingi fer sem (ein) valdamesta stofnun ríkisins á endanum með mikilvægasta valdið í sjálfstæðu íslensku ríki. Því er að mínu mati erfitt að efast um réttmæti þess að slíkt ákvæði sé fyrir hendi – sem tryggir þjóðkjörnum fulltrúum og þingi þeirra refsivernd og stuðlar þar með að öryggi þeirra og sjálfstæði þings og þjóðar. Ég hef ekki náð að fletta því upp hvort þessu ákvæði var beitt vegna óeirða á Austurvelli 1949 við samþykkt Alþingis við inngöngu íslenska ríkisins í NATÓ eins og mig minnir.

Réttmæt ákæra nú?

Annað mál er hvort beiting þessa ákvæðis nú er réttmæt enda eiga dómstólar eftir að taka afstöðu til ákæru setts ríkissaksóknara gegn níu einstaklingum sem eru sakaðir um að brjóta gegn þessu ákvæði.

Í því sambandi vil ég nefna fjögur atriði – tvö sem varða fyrst og fremst staðreyndir (faktum) og tvö sem varða einkum lagaatriði (jus):

  1. Vanhæfi: Ég er hissa á að ekki sjáist af opinberri umfjöllun hvort farið hafi fram sjálfstætt mat setts ríkissaksóknara á því hvort tilefni hafi verið til ákæru – eftir að skipaður ríkissaksóknari afturkallaði fyrri ákæru í kjölfar þess að hann áttaði sig á vanhæfi sínu vegna vensla við einn brotaþola í hópi þingvarða. Ekki er útilokað að þetta atriði hafi lögfylgjur ef verjendur halda rétt á málum og dómari metur vanhæfisreglur og rannsóknarskyldur eins og ég.
  2. Árás: Málin geta farið á ólíka vegu eftir aðstæðum – t.d. eftir því hvert var stig ofbeldis sem hver og einn hinna ákærðu beitti sannanlega gagnvart þingvörðum og athæfi þeirra að öðru leyti. Þetta atriði tengist því meginatriði að athæfi uppfyllir ekki skilyrði hegningarlagaákvæðisins nema geta talist árás á Alþingi; varla er nóg að mínu mati að ráðast á þingvörð eða jafnvel þingverði eða alþingishúsið.
  3. Sjálfræði í hættu. Þó að ég hafi ekki átt þess kost að kynna mér málskjöl í yfirstandandi máli hef ég ágæta mynd úr fjölmiðlaumfjöllun frá því í janúar 2009 og af eigin upplifun. Að því sögðu efast ég um að athæfi nokkurra einstaklinga úr stærri hópi – sem vissulega gerði einhvers konar aðsúg að alþingishúsinu og á tímabili nokkuð freka atlögu að lögregluliði sem varði húsið – uppfylli síðari kröfu refsiákvæðisins um að árás (jafnvel þótt hún væri talin til staðar) leiði til þess að Alþingi „eða sjálfræði þess [sé] hætta búin“.
  4. Eins árs lágmarksfangelsi: Lögfræði snýst ekki aðeins um staðreyndir (faktum) og lagatúlkun (jus). Mjög fátítt er að íslensk lög leggi lágmarksrefsingu (gólf) við tilteknu athæfi. Yfirleitt er látið við það sitja í almennum hegningarlögum og svonefndum sérrefsilögum að tilgreina það sem oft er kallað refsirammi (þak); til samanburðar nefni ég tvö af fáum undantekningartilvikum sem eru morð (5 ára lágmarksrefsing) og nauðgun (1 árs lágmarksrefsing). Ég vek athygli lesenda á að sama orðalag er notað í öllum þessum ákvæðum (100., 194. og 211. gr.): „ekki skemur en“ – sem þýðir að dómara er beinlínis óheimilt að sakfella fyrir brot nema að dæma í tilgreinda lágmarksrefsingu; hana má vitaskuld skilorðsbinda eftir atvikum og lagarökum. Ég tel hins vegar nær útilokað – a.m.k. afar ólíklegt – að nokkur dómari treysti sér til þess að dæma einstakling í eins árs fangelsi (jafnvel skilorðsbundið) fyrir það athæfi sem ákært er fyrir – einkum í ljósi aðstæðna hérlendis undanfarið og nú sem vitaskuld geta haft áhrif á dómara sem aðra. Horfi ég þá m.a. til bandarískrar lögfræði þar sem lögbundnar lágmarksrefsingar eru stundum taldar draga úr líkum á að sakfellt sé fyrir glæpi ef einhver vafi ríkir á sönnun eða heimfærslu til lagaákvæða.

Samkvæmt framangreindu tel ég mjög ólíklegt að þeir einstaklingar, sem ákærðir eru fyrir brot gegn 100. gr. alm. hgl. verði sakfelldir fyrir dómi.

Mat á því hvort ákæra beri fyrir verknað

Af ofangreindu leiðir óhjákvæmilega að ég er fremur hissa á þeim ákærum sem fram eru komnar í málinu; ég hefði talið nærtækt að saksóknarar ríkisins – skipaður sem settur – hefðu látið málið niður falla á grundvelli eftirfarandi ákvæðis í lögum um meðferð sakamála:

Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi […]

Hver ákveður hvort brot er kært, rannsakað og ákært fyrir?

Hitt efast ég síður um að skrifstofustjóri Alþingis sé bær til þess að kæra meint brot til lögreglu eða handhafa ákæruvalds; í því sambandi horfi ég ekki fyrst og fremst á stöðu hans gagnvart forseta eða forsætisnefnd Alþingis heldur til þeirrar lagareglu að brot sem þetta er svo alvarlegt að hver sem er (ekki bara fulltrúi þess sem brotið er gegn) getur kært það – og í raun ætti lögregla og handhafi ákæruvalds að meta sjálfstætt og óháð því hvort athæfi er kært hvort tilefni er til rannsóknar og ákæru.

Svo er um flest brot önnur en minniháttar líkamsárásir og eignaspjöll þar sem sá, sem brotið er gegn, getur komið í veg fyrir opinbera rannsókn með því að kæra ekki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.5.2010 - 22:38 - FB ummæli ()

Verðtrygging á sakabekknum

Nú í fyrramálið verð ég auk Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og fulltrúum frá Hagsmunasamtökum heimilanna í yfirheyrslu hjá viðskiptanefnd Alþingis; við erum þó ekki á sakamannabekknum – heldur er það sjálf verðtryggingin.

Þið getið horft á þetta á beinni útsendingu hér (www.althingi.is) kl. 9:30 í fyrramálið. Sjá nánar hér: http://www.talsmadur.is/Pages/55?NewsID=1240

***

Hér er dagskráin á vef Alþingis:

http://www.althingi.is/vefur/nefndadagskra.html?nfaerslunr=8870

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.5.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Ráðum aðeins þá sem við þekkjum

Til hvers er verið að auglýsa störf? Af hverju eru ekki strax ráðnir þeir hæfustu, t.d. það fólk sem ráðafólk þekkir, hefur unnið með og treystir?

Undanfarið hefur að gefnu tilefni verið rætt um ráðningar – bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar og núverandi. Koma þar bæði til áfellisdómar löglegra dómstóla og gagnrýni fjölmiðla – og almennings. Ýmist er deilt á efnislegt mat – sem ég hef heilmikið að segja um – eða það grundvallaratriði að auglýst sé þegar starf er laust. Ég hef skrifað langa fræðiritgerð um hið fyrrnefnda – en ætla hér aðeins að árétta grundvallaratriði um hið síðarnefnda.

Er ekki aðalatriðið að auglýsingaskylda er ekki forsjárhyggja? Nei; meginatriðið er að auglýsingaskylda byggir á því að þjónar almennings þjóni almenningi og lögunum fremur en ráðafólki og hagsmunum. Auglýsingaskylda snýst um jafnræði og hæfni. Satt að segja hélt ég að það væri yfirlýst stjórnarstefna.

Enginn á vaktinni?

M.ö.o. sakna ég þess að enginn beiti sér – nema fjölmiðlar tilviljunarkennt – eins og þörf er á og hefð fyrir (a.m.k. í þau 7 ár sem ég var framkvæmarstjóri Bandalags háskólamanna) – gegn endalausum ráðningum í opinber störf án auglýsingar sem að mínu mati var gott dæmi um þá spillingu sem tíðkaðist; sú spilling var ekki viðurkennd.

Enn tíðkast slík spilling. Auglýsingalausar og pólitískar ráðningar var eitt af því sem ég ræddi við nefnd á vegum GRECO, líklega í kringum 2003, sem dæmi um íslenska spillingu. Áréttaði ég þetta við lykilblaðamann á þessu sviði í gær á förnum vegi.

Lausnir til framtíðar

Eins og ég var óþreytandi að benda á – bæði innan BHM, í fjölmiðlum og fræðilegri umfjöllun – er auglýsingaskylda mikilvæg af tveimur ástæðum a.m.k.:

1. Auglýsingaskylda stuðlar að jafnræði – og tískuorðinu gagnsæi einnig. Allir sem kost eiga, eru hæfir og áhuga hafa, geta sótt um starf eða embætti á vegum hins opinbera. Þeir eiga að geta treyst á málefnalegt mat við ákvörðun um val. Gilda svo skýrar og ótrúlega auðskiljanlegar reglur um samanburð milli aðila við mat á því hver er hæfastur meðal hæfra. Gidlir þar hver er hæfastur í opinbera þjónustu en ekki flokkslega.

2.Auglýsingaskylda leiðir til þess að „pottur“ umsækjenda stækkar og vinnuveitandi (í þessu tilviki oftast við, skattgreiðendur) fær frekar hæfasta, tiltæka umsækjandann.

Stöndum vörð um jafnræði og hæfni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.5.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Kjarakerfi embættismanna

Ekki ræði ég að sinni launalækkun/launalækkun og ósamræmi í lagatexta sem RÚV hefur bent á – en í stjórnarskránni segir:

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

Ég þekki vel gildandi lög – einkum úr fyrra starfi hjá BHM – og tel mig vita hvernig kerfið – og ætti að vera; ætla ég að einblína á hið síðarnefnda en skorast ekki undan umræðu um hið fyrra. Rök mín eru m.a. – en ekki eingöngu – tilvitnuð stjórnskipunarregla frá 1995 sem alltof fáir þekkja úr stjórnarskránni – sem gildir um alla sem vinna fyrir aðra, þ.m.t. ríkið (ekki bara innan ASÍ).

Tvískipt – ekki margskipt – kerfi er framtíðin

Svona á kerfið að mínu mati að vera:

  1. Allir sem eru í stéttarfélögum (sem flestir) eiga að fá laun samkvæmt kjarasamningum; sú leið uppfyllir berum orðum skyldu áðurtilvitnaðs stjórnarskrárákvæðis.
  2. Í undantekningartilvikum (sem eru mun færri en þið haldið) eiga embættismenn að fá laun samkvæmt einhliða en fyrirfram ákvörðun sjálfstæðs kjararáðs – sem þeir geta gengið að (fyrirfram) eða hafnað. Það á við þegar samningsréttur og verkfallsréttur er ekki raunhæfur. Ekki gengur að mínu mati að sérstjórnir (t.d. bankaráð) bæti einhverju við hina almennu og matskenndu ákvörðun.

Í því sambandi ber að líta á að kjör (laun, hlunnindi og annað) fyrir opinber störf eru gjarnan samkvæmt hefð ákveðin einhliða – að vísu af sjálfstæðum aðila á borð við kjaranefnd og Kjaradóm áður og kjararáð nú; þá á það að vera samkvæmt almennum stjórnsýslureglum – sem reyndar skortir oft á. Ef ríkið segir að embættismaður eigi „aðeins“ að fá 1 millj. kr. í laun á mánuði felst í því tilboð sem hann getur samþykkt (=samningur) eða hafnað. Flóknara er ef launin eru lækkuð eftirá – en ég geri ráð fyrir að embættismenn á borð við væntanlegan hugsanlegan seðlabankastjóra hafi vitað eins og ég og þú af fréttum af stjórnarstefnu núverandi ríkisstjórnar um launaskipulag æðstu embættismanna.

Kerfið var fráleitt

Svona var kerfið, margskipt, ógagnsætt og ósanngjarnt að mínu mati:

  1. Flestir fengu laun samkvæmt kjarasamningum (taxtalaun) – gjarnan innan BSRB.
  2. Mjög margir fengu laun samkvæmt töxtum kjarasamninga að viðbættum persónulegum, stöðluðum eða hópbundnum „yfirborgunum“ – gjarnan innan BHM, einkum viðskipta- og lögfræðingar. (Í því fólst ekki aðeins möguleiki á heldur einnig raunveruleg staðreynd um kjaralega mismunun, sem að mínu mati hafði mikla kynbundnar forsendur innifaldar.)
  3. Einstaka aðilar fengu „ráðherraröðun“ og veit ég vart hvað í því fólst, efnislega né formlega! Ljóst var þó að það virkaði sem spilling og gagnsætt var það ekki.
  4. Flestir forstöðumenn (embættismenn) fengu laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar og Kjaradóms, þ.m.t. þóknun fyrir fasta yfirvinnu (enda fæstir sem vinna bara frá 9-17).
  5. Einstaka forstöðumenn fengu sérsamninga – langt yfir milljón kr. á mánuði – við stjórn sinnar stofnunar; meðal þeirra voru forstjóri Fjármálaeftirlits, Íbúðarlánasjóðs, Samkeppniseftirlits og Seðlabankastjóri.

***

Að gefnu tilefni tek ég fram að mín kjör falla undir kjararáð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.5.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

J’accuse!

Eitt meginatriði er ég – eftir mikla umhugsun og lestur á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis – ósammála nefndinni um. Ég tel að þáverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, beri meiri ábyrgð en þar er talið og sé fremur sek um vanrækslu en þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson – sem um leið var ráðherra neytendamála. Hann sýndi þann manndóm um leið og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar voru kunnar að verða fyrstur þeirra, sem eiga í hlut, til að leggja til að Landsdómur yrði kallaður saman eins og ég hef lengi talið rétt – og búist við.

Ég byggi þetta álit mitt fyrst og fremst á lagalegum sjónarmiðum – en ekki stjórnmálafræðilegum sem einnig hafa verið tilfærð þessu sjónarmiði til stuðnings. Ég tek fram að almennt er ég ekki refsiglaður maður og á ekkert sökótt við hlutaðeigandi persónulega.

Ég set hér fram mína skoðun m.a. til að sefa hug almennings – sem samkvæmt okkar eigin fjölmiðli

  • telur í nær 90% tilvika að ráðamenn eigi að sækja til saka en
  • innan við 20% trúa því að það verði gert.

Þar er breið og djúp gjá milli réttarvitundar og væntinga sem ég vil brúa.

Lesendur geta kosið að lesa þennan pistil þáverandi viðskiptaráðherra til varnar eða málsbóta ellegar þáverandi utanríkisráðherra til íþyngingar; hvað sem því líður tel ég af eftirgreindum ástæðum rétt að Alþingi ákæri ekki aðeins þá þrjá ráðherra, sem nefndir eru í skýrslunni, heldur einnig aðra ráðherra, sem eiga í hlut, fyrir Landsdómi. Nefni ég sérstaklega þáverandi utanríkisráðherra.

Aðrir fræðimenn sammála

Eins og hér kemur fram tekur Þórður Bogason hrl., framsögumaður á málþingi Háskóla Íslands um lagalegar afleiðingar hrunsins í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sl. miðvikudag, undir ábendingu mína á málþinginu með þeim orðum að með skýrslunni séu

Aðrir ráðherrar ekki sloppnir

– eins og í svari sínu við fyrirspurn minni. Þar rökstuddi ég að þáverandi utanríkisráðherra slyppi helst til vel frá skýrsludóminum. Þórður áréttaði réttilega í erindi sínu að þingnefnd, skipuð 9 fulltrúum allra flokka, bæri að meta sjálfstætt hvort ákæra bæri ráðherra á grundelli stjórnarskrár og laga um ráðherraábyrgð.

Virkur gerandi í að brjóta mikilvæga stjórnarskrárbundna skyldu

Benti ég á eftirfarandi meginatriði í munnlegri athugasemd á málþinginu:

  1. Þáverandi utanríkisráðherra var virkur gerandi (og jafnvel aðalgerandi stöðu sinnar vegna) í því að halda skipuðum viðskiptaráðherra nánast alveg – og að því er virðist skipulega – utan við fundi og aðra upplýsingagjöf um þær aðvaranir, upplýsingar og alvarlegu ógnir sem steðjuðu að íslensku samfélagi.
  2. Hitt atriðið, sem Þórður vék einnig að í framsögu sinni, lýtur að þeirri skyldu (ekki valkvæðu heimild) – sem fyrst og fremst hvíldi á þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde – en einnig hinum leiðtoga stjórnarsamstarfsins, þáverandi utanríkisráðherra – samkvæmt stjórnarskránni að halda ráðherrafundi, þ.e. ríkisstjórnarfundi, um nýmæli í lögum

og um mikilvæg stjórnarmálefni.

Hvað, spyr ég, hefur í rúmlega 100 ára sögu innlendra ráðherra verið mikilvægara en sá aðsteðjandi vandi sem fulltrúar Seðlabanka Íslands upplýstu þáverandi forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra um hinn 7. febrúar 2008? Þáverandi viðskiptaráðherra frétti samkvæmt skýrslunni ekki sérstaklega um málið nema í eitt skipti og þá (sem hver annar þingmaður) á þingflokksfundi Samfylkingarinnar hinn 11. febrúar 2008 – og svo ekki söguna meir samkvæmt skýrslunni. Reyndar hefði þáverandi viðskiptaráðherra þá haft rétt – og jafnvel skyldu – til þess að óska samkvæmt stjórnarskránni eftir ríkisstjórnarfundi til þess að „bera þar upp mál.“

Þetta læt ég til mín taka þar sem ég hafði, og hef enn – m.a. sem lögskipaður talsmaður neytenda er heyrði stjórnarfarslega undir nefndan ráðherra neytendamála – megnið af árinu verulegar áhyggjur af ástandi mála eins og ég lét iðulega í ljós, m.a. á neytendabloggi mínu eins og t.a.m. má lesa um hér, rétt fyrir hrunið, með viðeigandi tenglum með aðvörunar- og spurnarorðum löngu áður.

Áður bent á í embættisnafni sem rök fyrir bótaábyrgð

Ég vek athygli á að ég benti þegar fyrir ári í formlegri tillögu til stjórnvalda um niðurfærslu neytendalána á þetta vanrækslusjónarmið í embættisnafni:

Bótaábyrgð hins opinbera. Loks má halda því fram að stjórnvöld hafi hugsanlega bakað sér bótaábyrgð vegna ónógs eða gallaðs eftirlits á fjármálastarfsemi og ónógs eða árangurslítils aðhalds í efnahagsstjórn. Er þá m.a. horft til upplýsinga sem stjórnvöld bjuggu yfir en neytendur ekki. Er þá einkum litið til aðgerða og eftir atvikum aðgerðarleysis Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og hlutaðeigandi ráðherra. Einnig tel ég rétt að líta til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið að viðskiptaráðherra hafi meðvitað verið haldið fyrir utan upplýsingar sem aðrir ráðherrar og einkum Seðlabanki Íslands bjuggu yfir. Athuga verður að nú eru bankar undir stjórn hins opinbera. Þá voru ítrekað gefnar upplýsingar um að fjármálakerfið væri stöðugt – sem reyndist rangt og jók á gengishrun að öllum líkindum og jók þar með skuldavanda neytenda, bæði í verðtryggðum lánum og gengistryggðum. Þó að réttmætt kunni að hafa verið að opinbera þær upplýsingar ekki er ljóst að aðgerðir og aðgerðarleysi í kjölfarið geta falið í sér rök fyrir bótaábyrgð hins opinbera.

Með hvaða röksemdum?

Rök mín fyrir því að Alþingi beri að láta einnig reyna á lagalega ábyrgð þáverandi utanríkisráðherra – og um leið nokkrar varnarástæður eða málsbætur fyrir þáverandi viðskiptaráðherra – eru í meginatriðum eftirfarandi:

  1. Þáverandi utanríkisráðherra hélt – að því er virðist skipulega – þeim ráðherra, sem samkvæmt stjórnarskrá og lögum bar meginábyrgð á að hafa yfirsýn og eftirlit með þeim málaflokkum sem hruninu tengdust, með virkum hætti utan við fundi og upplýsingar um málið. Með því var ekki aðeins brotið gegn þáverandi viðskiptaráðherra og stjórnskipan landsins heldur ekki síður borgurum þess, svo sem neytendum, sem eiga að njóta verndar.
  2. Enda þótt forsætisráðherra sé stjórnskipulega formlegur verkstjóri ríkisstjórnar eru formenn stjórnarflokka í samsteypustjórn (sem er langalgengasta ríkisstjórnarformið) samkvæmt langri stjórn(skipun)arhefð hérlendis lykilaðilar í verkstjórn: leggja þeir áherslur í stjórnarmálefnum – en viðurkennt er að stjórnskipunarréttur hefur öðrum þræði pólitískt eðli og byggist mjög á hefðum og framkvæmd að því leyti sem settra ákvæða nýtur ekki við.
  3. Vanrækt var að fjalla um aðsteðjandi vanda á ríkisstjórnarfundum í tæka tíð eins og skylt var skv. 17. gr. stjórnarskrárinnar um margra mánaða skeið en þar var þáverandi utanríkisráðherra a.m.k. meðábyrgur að lögum með þeirri vitneskju sem hún bjó yfir og í krafti þeirrar stöðu sem hún hafði sem annar leiðtogi samsteypustjórnar.
  4. Sjónarmið um svonefnda skuggastjórnendur af sviði viðskiptaréttar leiða til þess að saknæmt geti verið hið minnsta að réttur (ábyrgur, lögskipaður) aðili fari í raun ekki með stjórn mála sem honum ber samkvæmt lögum.
  5. Lög um ráðherraábyrgð gera ráð fyrir meðábyrgð annarra ráðherra en þeirra, sem mál heyrir stjórnarfarslega undir, sbr. 5. gr. laga um ráðherraábyrgð:  „Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.“ Varla getur það firrt þáverandi utanríkisráðherra ábyrgð að láta hjá líða að upplýsa viðskiptaráðherra eða sleppa því að halda „ráðherrafund“ (þ.e. ríkisstjórnarfund) um mál sem skylt var, sbr. 2. tl. hér að ofan.
  6. Nefndin virðist líta fram hjá meðábyrgð annarra ráðherra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð með ofuráherslu á að ríkisstjórn sé ekki fjölskipað stjórnvald; það er rétt – en breytir ekki stjórnarskrárbundinni skyldu til samráðs ráðherra og lögbundinni meðábyrgð sem vitnað er til hér að ofan í 5. tl.
  7. Ekkert í lögum um rannsóknarnefndina varðandi „mistök eða vanrækslu […] og hverjir kunni að bera ábyrgð á því“ undanskilur meðábyrgð – hvorki „passiva“ né „aktiva“ eins og hér er rökstutt að sé fyrir hendi.
  8. Önnur lögskýring en hér er rökstudd bendir til þess að rannsóknarnefnd Alþingis beiti sömu þröngu lögskýringu („lagahyggju“) og nefndin bendir réttilega á að eftirlitsaðilar á borð við Fjármálaeftirlitið hafi gerst sekir um.
  9. Enn fremur vil ég benda á það frávik sem talið er gilda í lagaframkvæmd varðandi handhöfn ákæruvalds að þegar embættismenn, t.d. lögreglumenn, eigi í hlut eigi að ákæra ef möguleiki sé á sakfellingu meðan meginreglan er að ekki skuli ákæra (borgara) ef ekki eru meiri líkur en minni á sakfellingu. Þetta sjónarmið ríkir til þess að fyrirbyggja vantraust þess efnis að valdhafar og fulltrúar þeirra njóti sérmeðferðar og að betra sé að dómstólar sýkni en að handhafar ákæruvalds felli niður mál á fyrri stigum. Ég tel ótvírætt að sama sjónarmið eigi við hér – enda þótt vitaskuld reyni ekki oft á það í 106 ára sögu ráðherraræðis Íslendinga.
  10. Að lokum tel ég að hegðun þáverandi utanríkisráðherra hafi falið í sér aðför gegn stjórnarskrárvarinni skipan ríkisins, sbr. einkum 15. gr. stjskr. um skiptingu starfa meðal ráðherra og 16. og 17. gr. stjskr. um að „mikilvægar stjórnarráðstafanir“ og „mikilvæg stjórnarmálefni“ skuli ræða í ríkisstjórn.

Mótrök og andsvör

Nefndinni til varnar má segja að henni var falið með lögum að

leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Á hinn bóginn ber að nefna eftirfarandi:

  • Ég hef þegar bent á að þáverandi utanríkisráðherra gerði þáverandi viðskiptaráðherra ókleift – eða a.m.k. illkleift – að sinna ábyrgð sinni (m.a. gagnvart mér og þér) um „framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi“ og aðalspurningin til nefndarinnar var einmitt samkvæmt tilvitnuðum lagatexta í 1. gr. laga um nefndina „hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“
  • Þá virðist gleymast að lögskipað hlutverk nefndarinnar var einnig að leita

sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Sniðganga er vanræksla og meðábyrgð er ein tegund ábyrgðar

Er útilokað að sannleikurinn felist öðrum þræði í þeirri skuggastjórnun og sniðgöngu sem þáverandi utanríkisráðherra var aðalleikari í? Nei; Landsdómur verður að skera úr – enda er meðábyrgð ekki undanskilin í ábyrgð.

Fyrr náum við ekki endurreisn en við tökumst á við allar meinsemdir og ákærum alla sem við á. Þar geta þeir, sem hér og víðar eru bornir sökum, einnig varið hendur sínar með réttum hætti – eins og þáverandi viðskiptaráðherra benti þegar á 12. apríl sl.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.4.2010 - 21:53 - FB ummæli ()

Glerþak og fallhleri: fyrir konur

Að gefnu tilefni má ég til að endurbirta grein mína frá júlí 2003:

„Fallhlerinn

[Útdráttur mbl.]  STUNDUM er rætt um „glerþakið“ sem konur rekast í þegar þær vilja komast til (frekari) áhrifa á vinnustöðum; það er ósýnilegt í þeim skilningi að ekki er einhlítt hver orsökin er fyrir því að konur ná sjaldnar á toppinn.

 

STUNDUM er rætt um „glerþakið“ sem konur rekast í þegar þær vilja komast til (frekari) áhrifa á vinnustöðum; það er ósýnilegt í þeim skilningi að ekki er einhlítt hver orsökin er fyrir því að konur ná sjaldnar á toppinn. Hins vegar er nokkuð óumdeilt að glerþakið er til staðar – jafnvel hjá konum í sjálfstæðum rekstri. Ég tel glerþakið m.a. felast í því að gerðar eru meiri kröfur til kvenna en karla þegar forystufólk er valið.

 

Sjálfsgagnrýni?

Reyndar tel ég að ástæðan – glerþakið – sé ekki bara að aðrir geri meiri kröfur til kvenna heldur geri þær sjálfar meiri kröfur til sín en karlar til sjálfs sín, m.a. hvað varðar traust og (sjálfs)virðingu. Þetta leiðir hugann að því að konur í forystu virðast fremur – eða hraðar – en karlar axla ábyrgð sína þegar kemur að því að víkja úr stöðu. Orsökina má nefna „fallhlera“ því þær konur sem ég hef í huga hurfu skyndilega úr stöðu sinni – en ekki af ósýnilegri ástæðu eins og þegar rætt er um glerþakið. Gallinn er að karlarnir virðast oft sleppa við fallhlerann í sambærilegum aðstæðum.

 

„Enginn ræður sínum næturstað“

Fyrsta dæmið er mál Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem varðar reyndar ekki brotthvarf hennar úr stóli borgarstjóra fyrir hálfu ári enda var það að mínu mati eðlileg niðurstaða. Það sem ég á við er opinber og ítrekuð krafa fjölmiðla og líklega samstarfsflokka Samfylkingar í R-listanum til Ingibjargar Sólrúnar fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 2002 að hún svaraði því afdráttarlaust hvort hún myndi fara í þingframboð síðar eða hvort öruggt væri að hún sæti sem borgarstjóri út kjörtímabilið. Að því leyti er tilvikið frekar dæmi um glerþak en fallhlera. Spurningin – og svarið – hafði að mínu mati veruleg áhrif á niðurstöðu þingkosninga í vor. Kannski var þetta mjög eðlileg spurning – en mér fannst hún afar ósanngjörn og ofítrekuð í ljósi þess að Davíð Oddsson, borgarstjóri til 1991, komst upp með það árið 1990 að svara slíkri spurningu með þessum orðum: „Enginn ræður sínum næturstað.“

Annað dæmið er þegar fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Finna sagði óvænt af sér sama dag og uppvíst varð að hún sagði þjóðþinginu og fjölmiðlum ósatt. Ég tel viðbrögð hennar til fyrirmyndar – hvernig sem þessi sérstaka atburðarás spannst. Vandinn er að eins og flestir áhugamenn um stjórnmál þekkja þá hafa ófáir – karlkyns – ráðherrar og forsetar í lýðræðislöndum komist upp með annað eins – líkt og nýleg dæmi sanna. Mér er það minnisstætt að þegar upp kom áburður um að ráðherra hefði gerst sekur um ósannsögli gagnvart Alþingi voru helstu viðbrögðin þau að haft var eftir lagaprófessor í fréttum að slíkt væri ekki bannað samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.

 

Jafnrétti?

Þriðja dæmið er af Valgerði Bjarnadóttur sem sagði af sér embætti framkvæmdarstýru Jafnréttisstofu með vísan til þess að leikfélag, þar sem hún var formaður, var dæmt – í héraði – fyrir brot á jafnréttislögum. Eins og bent hefur verið á er dómurinn umdeilanlegur þar sem hann virðist setja öll atvinnuleikhús landsins undir einn hatt – þótt sjálfstæð séu. Þyngra á metunum í þessu sambandi er hins vegar að leikfélagið var dæmt fyrir mismunun á grundvelli öfugrar sönnunarbyrði. Óumdeilt er að Valgerður taldist ekki hafa brotið starfsmannalög með þessu; því var ekki unnt að áminna hana fyrir það – hvað þá meira. Þegar ég er dómbær vil ég hins vegar gera ríkar kröfur til stjórnenda og lét ég mér koma í hug að Valgerður yrði hugsanlega að segja af sér embætti – ef og þegar Hæstiréttur staðfesti dóminn. Eðlileg viðbrögð hefðu að mínu mati verið leyfi frá embætti þar til Hæstiréttur hefði dæmt í málinu – en vika leið frá dómi héraðsdóms og þar til afsögnin var ráðin. Nú er hins vegar liðin meira en vika frá því að fram kom opinberlega að Þórólfur Árnason borgarstjóri hefði á sínum tíma sem markaðsstjóri Olíufélagsins undirritað tilboð þess til borgarinnar sem samkvæmt frumathugunarskýrslu Samkeppnisstofnunar var byggt á ólögmætu samráði olíufélaganna. Einnig hefur komið fram að Þórólfur hafi fundað með fulltrúum samkeppnisaðilanna. Skiptir ekki máli að mínu mati þótt hugsanleg sök Þórólfs kunni að vera fyrnd. Haft hefur verið eftir forseta borgarstjórnar að borgarstjóri njóti nú umþóttunartíma um stöðu sína. Þó tel ég augljóst að borgarstjóri þarf ekki síður en forstöðumaður ríkisstofnunar að njóta trausts almennings.

 

Umburðarlyndi í garð karla?

Kannski skiptir ekki máli hvort við spyrjum hvort við séum umburðarlyndari gagnvart körlum eða hvort við orðum það svo að við höfum meiri væntingar í garð kvenna? Ég tel a.m.k. að ósamræmi sé í kröfunum.

 

 

Eftir Gísla Tryggvason

 

MBL 30. júlí 2003

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.4.2010 - 07:00 - FB ummæli ()

Dómaradómur – fyrir almenning?

Mér rennur blóðið til skyldunnar að greina fyrir þá, sem ekki eru lögfræðingar, nýlegan dóm í máli umsækjanda um stöðu héraðsdómara gegn ríkinu og settum dómsmálaráðherra, Árna Mathiesen. Dómurinn er að mati fjölmiðla nokkuð merkilegur – en að mati löglærðra væntanlega augljós hvað varðar niðurstöðu.

Stutta útgáfan er þessi:

Dómurinn er ótvíræður og ótvírætt réttur hvað þessa niðurstöðu varðar. Skipun dómarans var – á mannamáli – kolólögleg. Restin er áhugaverð lögfræðilega.

Lengri útskýringu má lesa hér að neðan.

Hverjir

Þeir sem áttu í hlut voru nokkrir lögfræðingar; fagnefnd þeirra, sem þekkja vel til, var lögum samkvæmt falið að meta hæfi þeirra sem umsækjenda um dómaraembætti – ævilangt í þágu þjóðfélagsins. Með því að löggjafinn skyldar fulltrúa okkar, ráðherra, til þess að fá álit fagmanna áður en hann skipar dómara ævilangt er svonefndu veitingarvaldi skipt milli aðila; valdinu til þess að ákveða hver fái – og hver ekki – stöðu er strax í upphafi (ekki eftirá) skipt milli aðila – af sjálfum löggjafanum; þetta atriði gleymist oft í umræðu ólöglærðra – og jafnvel lögfræðinga.

Á mannamáli þýðir þetta að ráðherrann ræður ekki einn.

Þar við bætist að fagnefndin lætur ekki nægja að skrifa umsagnir um hvern umsækjanda eins og algengast er; hún raðar umsækjendum – og byggist það væntanlega annað hvort á hefð eða reglu. Í fyrra starfi mínu (1998) bannaði ég reyndar slíka röðun þar sem reglur kváðu á um að annar ákvörðunar- eða umsagnaraðili þyrfti sérstaklega að biðja um röðun til þess að  hún væri heimil – en annars yrði hann aðeins að rökstyðja mat sitt á umsækjendum með orðum; byggði ég það á því að með röðun væri veitingarvaldi skipt enn frekar. Ef röðun umsækjenda í hæfnisröð – eða hæfnisflokka eins og í tilviki dómaranna – stenst á annað borð er nánast um að ræða bindandi tillögu að mínu mati. Þá á ráðherrann ekki val á milli flokka. Jafnvel þótt röðun væri ekki heimil leggur rökstuðningur matsnefndar bönd á svigrúm ráðherra.

Hver

Eins og áður segir gleyma sumir lögfræðingar – og margir aðrir – að aðalatriðið er ekki hver ræður heldur hvernig og á hvaða forsendum ákvörðun er tekin; í þessu tilviki er ákvörðunarvaldi hins vegar samkvæmt framansögðu skipt eins og algengt er á sviði dómsmálaráðuneytis (t.d. gjafsóknarmála) – þ.e. nefnd metur hæfi og hæfni en ráðherra velur þann hæfasta meðal hæfra – enda er óumdeild lagaregla hérlendis að skylt sé samkvæmt lögum að ráða þann hæfasta í opinbert embætti eða starf.

Hvernig

Málsmeðferðin er skýr; nefnd metur – og raðar eftir atvikum. Ráðherra velur svo þann hæfasta af þeim hæfu(ustu) – en ekki bara einhvern sem er hæfur; þessi regla hefur áratugum saman verið í gildi hérlendis og var t.d. dæmd 1993 í Hæstarétti. Þá þarf að gæta að andmælarétti og reglu um rökstuðning. Ef ráðherra fellst ekki á mat nefndar á hann að bæta úr rannsókn nefndarinnar – eins og dómarinn áréttar.

Hvað

Dómurinn telur brot á málsmeðferð og einkum efnisreglum (mati) leiða til hárra miskabóta; það er annað tveggja atriða sem ég tel hæpið í annars traustum dómi. Bæturnar eru hærri en dómaframkvæmd styður. Bætur fyrir gróf kynferðisafbrot hafa oft reynst mun lægri. Ég tek fram að ég vildi að bætur væru hærri. Ég býst hins vegar við að Hæstiréttur lækki þær a.m.k.  Þessi ábending er fyrst og fremst lögfræðileg – en ekki vegna þess að ég telji sjálfur 3,5 millj. kr. miskabætur ofrausn.

Þær eru hins vegar – því miður – í algeru ósamræmi við dómafordæmi.

Hvað ekki

Hitt atriðið, sem ég er ósáttur við í dóminum, er að hann hafnar bótum fyrir fjártjón; það er hins vegar í samræmi við dóm Hæstaréttar sem ég flutti í héraði fyrir BHM – og var afar ósáttur við; punktur dómstóla er þessi:

Já; lög voru brotin á þér – en þú getur ekki sannað að það hafi valdið þér fjártjóni – þ.e. að þú hefðir fengið stöðuna, sem þú sóttir um, ef ekki hefði verið brotið á þér.

Í úrdrætti Hæstaréttar í því máli segir:

Fallist var á það með héraðsdómi að málsmeðferð hinna lögbundnu umsagnaraðila hefði verið ábótavant þar sem hjúkrunarráð lét undir höfuð leggjast að óska eftir frekari gögnum um G og taka afstöðu til umsóknar hennar. Þá hefði framkvæmdastjóra stofnunarinnar borið, þegar umsagnir hjúkrunarráðs bárust H, að hlutast til um að senda ráðinu þau gögn sem vantaði og kalla eftir fullnægjandi umsögn um G. Ekki hefði verið rétt að taka ákvörðun um ráðningu í starfið fyrr en fullnægjandi umsögn um alla umsækjendur lágu fyrir. Hins vegar var talið að heilbrigðisstofnunin hefði sýnt nægjanlega fram á að allar umsóknirnar hefðu komið til álita við atkvæðagreiðslu í stjórn stofnunarinnar sem var einungis umsagnaraðili.

Þetta er stærsti annmarkinn á dóminum – eða öllu heldur dómafordæmum Hæstaréttar; ef ekki er sýnt fram á miska er sönnunarbyrði tjónþola og þar með afleiðing fyrir tjónvald háð því að lyfta óhóflegri sönnunarbyrði. Slík dómaframkvæmd er hvorki í hag einstaklinga sem gjalda valdníðslu né allra hinna sem vona að úr rætist.

Hvers vegna

Þetta er meginatriðið – en ekki þau lagatæknilegu atriði sem ég tilgreindi hér að ofan. Fulltrúi ríkisins, settur dómsmálaráðherra í þessu máli, braut samkvæmt skorinorðum dómi gróflega gegn skýrum, vel þekktum, rótgrónum, vel grunduðum reglum sem áttu bæði að tryggja réttaröryggi borgaranna almennt (með stjórnarskrárvörðu sjálfstæði dómstólanna) og sérstaklega (með því að velja umsækjanda sem ekki var sá hæfasti eins og skylt var að lögum). Um leið var brotin svonefnd forsenduregla (um að fremja ekki valdníðslu) og líklega rannsóknarregla (um að leggja traustan grunn að ákvörðun).

M.ö.o. er að mínu mati gott – m.a. fyrir almenning – að sakfelling náðist í þessu grófa valdníðslumáli. Hitt er verra að dómurinn fari á svig við íhaldssama dómaframkvæmd varðandi miskabætur til að bæta fyrir umdeilanlega niðurstöðu varðandi skaðabætur fyrir fjártjón.

Nánar til tekið

Ef lesendur efast um mat mitt vísa ég á dóminn og býð upp á rökræður – helst hér í athugasemdakerfinu – en lesið forsendur endilega fyrst:

Niðurstaða

Í málinu krefst stefnandi miskabóta og viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu gagnvart honum vegna skipunar annars einstaklings í embætti héraðsdómara hinn 20. desember 2007. Í stefnu segir að stefnandi telji að með þeirri embættisveitingu hafi stefndi, Árni, „misbeitt valdi sínu og með ólögmætum hætti gengið framhjá stefnanda“. Þá kemur fram í stefnu að stefnandi telji að stefndu hafi valdið honum tjóni sem þeim beri að bæta eftir almennu skaðabótareglunni. Af þessu er ljóst að tilgreint er í stefnu að grundvöllur málsins af hálfu stefnanda er byggður á almennu skaðabótareglunni. Þá er einnig vísað til 10., 11. og 22. gr. stjórnsýslulaganna, 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, reglugerðar nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. og verklagsreglna við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998.  Í ljósi þessa er hafnað þeirri málsástæðu stefnda, Árna, að ekki sé leitt í ljós á hvaða lagagrunni krafa stefnanda á hendur stefnda, Árna, sé byggð.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er kveðið á um að sérstök dómnefnd eigi að fjalla um umsóknir um embætti héraðsdómara. Þetta ákvæði var nýmæli og í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að megintilgangur ákvæðisins væri að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins. Skipun nefndarinnar var ákveðin svo að Hæstiréttur tilnefndi einn nefndarmann, þ.e. formann. Dómarafélag Íslands tilnefndi annan nefndarmann úr hópi héraðsdómara og Lögmannafélag Íslands tilnefndi þriðja nefndarmanninn úr hópi starfandi lögmanna. Ákvæði þetta var tekið upp í núgildandi dómstólalög, sbr. 12. gr. þeirra laga. Með því að haga samsetningu nefndarinnar á þennan veg er verið að leitast við að þeir aðilar sem best þekkja til starfa dómstólanna komi að málinu. Á nefndinni hvílir sú skylda að setja fram skriflegt rökstutt álit um hæfni hvers umsækjanda og rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telji hæfasta og eftir atvikum að láta koma fram samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni, sbr. 5. gr. reglna nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Þá hafa verið settar verklagsreglur við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara og liggja þær fyrir í málinu.

Ágreiningslaust er í málinu að veitingarvaldið fyrir dómaraembættinu var hjá stefnda, Árna, sem setts dómsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þá var umsögn dómnefndar um umsækjendur ekki bindandi fyrir stefnda, Árna, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 693/1999, en reglur þessar hafa stoð í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Það eru hins vegar skorður settar við ákvörðun ráðherra. Málefnaleg sjónarmið verða að ráða ákvörðuninni og honum ber að fara að lögum, þ.m.t. ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá ber honum að hafa að leiðarljósi þann tilgang sem var með því að setja á stofn dómnefndina og vísað er til hér að framan, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins.

Samkvæmt verklagsreglum sem settar hafa verið við mat á umsóknum um embætti héraðsdómara skv. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 skal m.a. fylgja með umsögn ljósrit af verkefnum í lögfræði, t.d. tímaritsgreinum, stefnum, greinargerðum, álitsgerðum, úrskurðum eða dómum. Kemur þetta einnig fram í 4. mgr. 4. gr. reglna nr. 693/1999 um störf nefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Sá er fékk embættið skilaði engu slíku ritverki með umsögn sinni. Hann var af dómnefndinni metinn hæfur, en stefnandi mjög vel hæfur. Hvorki stefnandi né sá er skipaður var í embættið hreyfðu athugasemdum við áliti dómnefndarinnar. Það athafnaleysi verður ekki skilið á annan veg en að báðir hafi verið sáttir við niðurstöðu dómnefndarinnar.

Í rökstuðningi stefnda, Árna, frá 4. janúar 2008, fyrir embættisveitingunni kemur fram í niðurlagi bréfsins að fjölbreytt reynsla þess sem skipaður var og þekking hans, ekki síst vegna starfa hans sem aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra um rúmlega fjögurra ára skeið, geri það að verkum að hann sé hæfastur umsækjenda. Er þetta sjónarmið ítrekað í svarbréfi stefnda, Árna, til umboðsmanns Alþingis frá 18. mars 2008. Því verður ekki á móti mælt að stefndi, Árni, þekkir vel til starfa aðstoðarmanna ráðherra. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það að hann þekki vel til starfa dómara, enda verður að telja að hvorki menntun né starfsferill hans gefi það til kynna. Þá hefur stefndi, Árni, ekki sýnt fram á það á annan hátt að hann hafi sérstaklega kynnt sér það hvernig starfsreynsla aðstoðarmanns dómsmálaráðherra myndi nýtast í dómarastarfi, en ekki er krafist lögfræðimenntunar í aðstoðarmannsstarfið. Hér er til þess að líta sem að ofan greinir, að dómnefnd samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla er skipuð fulltrúum er best þekkja til starfa dómstólanna, þ.e. fulltrúum héraðsdómara, starfandi lögmanna og með fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands sem formann nefndarinnar. Ekki verður annað ályktað en að dómnefndin hafi í umsögnum sínum lagt mat á það hvernig starf aðstoðarmanns dómsmálaráðherra myndi nýtast í dómarastarfi.

Stefndi hefur ekki í málflutningi sínum tilgreint hvaða sérstök atriði önnur hafi leitt til þess að sá er embættið fékk var talinn hæfastur, heldur bent á heildarmat á honum. Ætla verður að sama heildarmat hafi verið gert af hálfu dómnefndarinnar á öðrum umsækjendum.

Í ljósi þess að stefndi, Árni, taldi umsögn dómnefndarinnar „ógegnsæja, lítt rökstudda og að innra ósamræmis gætti við mat á reynslu umsækjenda af ýmsum störfum“ þá bar honum, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að rannsaka málið frekar. Það gerði hann ekki. Þótt stutt hafi verið til áramóta og jólahátíðin framundan þá réttlætir það ekki að stefndi, Árni, lét hjá líða að fara að stjórnsýslulögum.

Með vísan til þess sem að framan greinir var verulegur annmarki á ákvörðun stefnda, Árna, er hann skipaði í dómaraembættið og að uppfyllt eru skilyrði almennu skaðabótareglunnar um að ákvörðunin hafi verið tekin með saknæmum og ólögmætum hætti.

Þá er að líta til þess, hvort skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Sönnunarbyrðin hvílir á stefnanda. Hann þarf að sýna fram á að honum hafi borið staðan umfram aðra umsækjendur. Sú málsástæða stefnanda, er fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins og mótmælt var af hálfu stefndu, um að hér eigi að snúa sönnunarbyrðinni við, er of seint fram komin og verður ekki tekin til greina, sbr. 5. tl. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Álit dómnefndarinnar var að hún taldi að þrír umsækjendur væru mjög vel hæfir. Þeim var ekki raðað innbyrðis. Ekkert liggur fyrir um að dómsmálaráðherra hefði skipað stefnanda í starfið hefði verið farið að niðurstöðu dómnefndar og einungis litið til þeirra þriggja er taldir voru mjög vel hæfir. Því er ósannað að stefnandi hefði fengið dómaraembættið umfram hina tvo umsækjendurna sem metnir voru mjög vel hæfir. Því hefur ekki verið sýnt fram á skilyrði almennu skaðabótareglunnar um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Með vísan til þessa verður stefndi, Árni, sýknaður af 2. tl. dómkröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna skipunar í embætti héraðsdómara 20. desember 2007. Sama á við um stefnda, íslenska ríkið.

Eðli máls samkvæmt fylgir því álag að sækja um embætti héraðsdómara, leggja verk sín fyrir dómnefnd og fá álit hennar á lífsstarfi sínu. Það að stefndi, Árni, skuli með saknæmum og ólögmætum hætti ganga á svig við niðurstöður lögboðinnar dómnefndar og skipa einstakling, sem flokkaður er tveimur hæfnisflokkum neðar en stefnandi, og með brot af starfsreynslu stefnanda, er ólögmæt meingerð á æru og persónu stefnanda. Stefnda, Árna, ber því með vísan til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að greiða stefnanda miskabætur. Stefndu hafa mótmælt fjárhæð miskabótakröfu stefnanda og vísa til þess að krafan sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Telja verður að mál þetta sé einstakt í sinni röð og að ekki njóti fordæmis. Eins og að framan er rakið fór stefndi, Árni, langt út fyrir heimildir sínar með embættisveitingunni. Í ljósi þessa þykja bætur hæfilega ákveðnar 3.500.000 kr.  Ákvæði 2. mgr. 23. gr. skaðabótalaga eiga ekki við í máli þessu.

Í hnotskurn er málið það að með skipan þess er fékk embættið er gengið þvert gegn vilja löggjafans, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins. Þetta var gert án þess að sá er fékk embættið hafi haft uppi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar. Þá tók það stefnda, Árna, mjög stuttan tíma, að undirbúa veitingu embættisins. Ekki aflaði hann frekari upplýsinga eða gagna. Í ljósi menntunar sinnar og starfsreynslu verður að telja að hann hafi ekki faglega þekkingu á störfum dómstólanna. Við ákvörðun sína byggir hann á því að 4 ára starfsreynsla, sem aðstoðarmaður ráðherra, en lögfræðimenntun er ekki skilyrði fyrir því starfi, upphefji 35 ára starfsreynslu stefnanda sem öll tengist dómstólunum. Þessi háttsemi stefnda, Árna, er órafjarri skyldum hans sem veitingarvaldshafa við skipun í dómaraembætti og eðlilegt að stefnandi höfði mál á hendur ráðherra persónulega. Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum. Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt.

Ákvæði 14. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 svo og lög nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð standa því ekki í vegi að stefnandi geti höfðað einkamál á hendur ráðherra með skaðabótakröfum vegna tjóns eða miska er leiðir af saknæmri og ólögmætri háttsemi ráðherra í starfi sínu.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber stefndu óskipt að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 3.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., samanber 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags. Með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu óskipt að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði. Að öðru leyti eru stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.

Almennt forðast ég að fara í persónugreiningu dómara en fyrir liggur í opinberum heimildum að umræddur dómari starfaði árum saman (frá 1988) við að verja ríkið – m.a. gegn bótakröfum – hjá ríkislögmanni.

Hvað er ég að vilja upp á dekk

Vitaskuld tjái ég mig hér í vikulegum Eyjupistli mínum af málefnalegum ástæðum – enda þótt ekki sé launungarmál að ég fyrirlít frændhygli (d. nepotisme), flokksræði og valdníðslu – sem reyndar stenst heldur ekki lög.

Mér rennur blóðið til skyldunnar þar sem ég

  • hef í um 20 ár haft að atvinnu og áhugamáli að skýra lögin fyrir þeim sem ekki eru háskólamenntaðir í lögfræði;
  • hef sérhæft mig í vinnumarkaðsrétti – sem málið varðar;
  • hef undanfarinn hálfan annan áratug starfað, launað sem ólaunað, sem blaðamaður, baráttumaður fyrir bættri réttarstöðu stúdenta, hagsmunagæsluaðili fyrir háskólamenntað launafólk og talsmaður neytenda, við að tryggja réttarstöðu þeirra sem standa höllum fæti gagnvart sterkari aðilum;
  • starfaði um nokkurra mánaða skeið við að tryggja rétta framkvæmd ráðninga við Háskóla Íslands, frá auglýsingu til ráðningar;
  • hafði sem framkvæmdarstjóri og lögmaður BHM sem meginstarfsskyldu að bregðast við ólögmætum auglýsingum og ráðningum og óréttmætum uppsögnum;
  • skrifaði 1997 kandidatsritgerð um einmitt þetta álitaefni, þ.e. fébótaábyrgð hins opinbera við meðferð opinbers valds.

Þeir sem vilja ræða enn frekar um skilyrði skaðabótaskyldu hins opinbera, vávæni, orsakartengsl o.s.frv. út frá dóminum geta haft samband við höfund hér í athugasemdadálki eða í GSM 897 14 33  eða gislit@ru.is enda fagna ég umræðu um þetta brýna mál.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur