Tilraunir með göngugötur í miðborginni hafa staðið yfir síðustu sumur og hefur ánægja borgarbúa með þær aukist ár frá ári, samkvæmt könnunum sem Capacent hefur gert. Nú stendur til að loka ákveðnum götum til frambúðar í 5 mánuði á ári eða frá 1. maí til 1. október.
Í skoðanakönnun sem Gallup gerði meðal félagsmanna í Miðborginni okkar síðastliðið vor voru 59,8% aðspurðra andvígir því að lengja tímabil sumargatna á Laugavegi og Skólavörðustíg í 5 mánuði frá 1. maí til 1. október.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. nóvember sl. samþykkti meirihlutinn tillögu um að loka tilteknum götum fyrir bílaumferð í 5 mánuði á ári til frambúðar, þ.e. frá 1. maí til 1. október. Um er að ræða lokun á Pósthússtræti við Kirkjustræti, Hafnarstræti að austanverðu frá Pósthússtræti, Laugavegi við Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtsstrætis og Skólavörðustíg við Bergstaðastræti. Göturnar verða þó opnar fyrir vöruafgreiðslu virka daga milli kl. 07:00 og 11:00 og tekið verður tillit til þess að fatlaðir komist leiða sinna.
Skoðanakönnun; hlynnt sumargötum, andvíg 5 mánaða lokun
Í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar í apríl síðastliðnum þar sem kannað var viðhorf félagsmanna til sumargatna voru 58,3% hlynntir sumargötum á Laugavegi og Skólavörðustíg miðað við reynslu undanfarinna ára þar sem lokað væri fyrir bílaumferð frá kl. 12 yfir sumarmánuðina en 38,9 voru því andvígir. Þá voru 39,4% hlynntir lokunum alla daga óháð veðri en 35,8% þegar þurrt væri og hiti yfir 10°.
Það voru hins vegar 59,8% andvígir því að lengja tímabilið í 5 mánuði þannig að það myndi hefjast 1. maí og ljúka 1. október en 34,6% voru því hlynntir. Fjöldi svara í könnuninn var 109 og svarhlufallið 41,4%.
Lítil stemning fyrir samráði
Ljóst er að þótt ánægja með göngugötur í miðborginni hafi aukist ár frá ári þá verður ekki ráðið af þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að fólk sé almennt tilbúið til þess að loka götum í 5 mánuði á ári. Því til stuðnings er vísað til framangreindrar skoðanakönnunar en samkvæmt henni eru 58,3% hlynntir sumargötum en 59,8% eru andvígir því að lengja tímabilið í 5 mánuði. Vegna þessa samráðsleysis við borgarbúa og hagsmunaaðila greiddi minnihlutinn atkvæði gegn tillögunni.
Meirihlutinn í umhverfis- og skipulagsráði telur hins vegar að miðað við niðurstöður kannana þ. á m. niðurstöðu könnunar þar sem fram kom að 59,8% aðspurðra félagsmanna í Miðborginni okkar séu því andvígir þá séu borgarbúar sáttir og því þurfi ekkert samráð til að loka umræddum götum í 5 mánuði á ári til frambúðar. Meirihlutinn virðist nefnilega ekki átta sig á því að ánægja með göngugötur á sumrin annars vegar og lokun gatna í 5 mánuði á ári hins vegar er ekki alveg það sama í hugum fólks eins og bersýnilega kom í ljós í skoðanakönnunni sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar.
Nýr kafli í samráði, ekki núna heldur bara seinna
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var einnig ákveðið að skoða lokun gatna á öðrum tímum t.d. fyrir jól, í tengslum við Hönnunarmars og um helgar frá miðjum mars. Meirihlutinn er tilbúinn til samráðs áður en ákvörðun verður tekin um slíkt, og því ber að fagna, en í bókun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna segir í því sambandi: „Nú hefst nýr kafli í samráði við borgarbúa þar sem leitað verður skoðunar á því hvort auka beri við það svæði sem gert er aðgengilegra gangandi og hvort opna beri götur fyrir gangandi á öðrum tímum en þegar hefur verið reynt.“
Hvað vilt þú?
Málinu er þó ekki lokið innan borgarinnar því næst verður það tekið til afgreiðslu í borgarráði. Svo spurning mín til þín er: Ert þú sátt/sáttur við að þessum götum verði lokað í 5 mánuði á ári frá 1. maí til 1. október? Endilega láttu okkur borgarfulltrúa heyra skoðun þína áður en endanleg ákvörðun er tekin.