Eins og flestir muna sannaði neyðarbrautin gildi sitt í árslok 2015 en daginn fyrir gamlársdag í fyrra treysti sjúkraflug í hæsta forgangi algjörlega á neyðarbrautina en ekki var hægt að lenda á hinum tveimur brautunum. Í gær var ekki hægt að lenda með sjúkling í Reykjavík þar sem búið er að loka svokallaðri neyðarbraut og hinar tvær flugbrautirnar voru lokaðar vegna veðurs en það hefði verið hægt að lenda á neyðarbrautinni ef ekki væri búið að loka henni. Flogið var með sjúklinginn til Akureyrar.
Rifjum nú aðeins upp áhyggjur fagaðila frá því í sumar eftir að dómur Hæstaréttar féll í svokölluðu neyðarbrautarmáli en eins og kunnugt er snérist dómur Hæstaréttar um að samningar skyldu halda en ekki um flugöryggi. Ef ríkið hefði ætlað að byggja á því hefði það þurft að leggja fram gögn því til stuðnings sem ekki var gert en algengustu sönnunargögn í slíkum málum eru matsgerðir dómkvaddra matsmanna en ríkið aflaði ekki slíks mats.
Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin, sem reyndar fagaðilar bentu ítrekað á, er full ástæða til að minna alþingismenn á orðalag í niðurstöðu héraðsdóms í svokölluðu neyðarbrautarmáli en þar segir: „Í krafti almennra heimilda sinna getur Alþingi einnig, ef því er að skipta, gefið ráðherra fyrirmæli um framkvæmd málefna Reykjavíkurflugvallar, svo og sett sérstök lög um málefni vallarins, þ. á m. um stærð og umfang flugvallarins, eftir atvikum þannig að kveðið sé á um heimildir til eignarnáms vegna ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og forgang laganna gagnvart hvers kyns áætlunum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.“
Áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands
Í Fréttablaðinu 24. júní sl. var birt áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands þar sem þeir mótmæla harðlega lokun flugbrautar 06/24 og taka undir yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 14. júní sl. en félagið lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar dómsins. Harma flugmenn á flugvél Landhelgisgæslunnar að ekkert tillit hafi verið tekið til flugöryggishagsmuna sjúkra-, leitar-, björgunar- og almannavarnaflugs við ákvörðun um lokun brautarinnar og óttast þeir afleiðingarnar af þeirri ráðstöfun þar sem oft á tíðum þurfi að að fara í slík neyðarflug þegar veður séu hvað verst og aðstæður hvað varasamastar því hafi flugöryggi þeirra sem slíkt flug stunda verið skert.
http://www.visir.is/askorun-flugmanna-a-flugvel-landhelgisgaeslu-islands/article/2016160629429
Áhyggjur Mýflugs
Þá hafa fyrirsvarsmenn Mýflugs, sem sinnir nær öllu sjúkraflugi innan Íslands, ítrekað lýst yfir verulegum áhyggjum vegna lokunar brautarinnar. Í umfjöllun um málið á heimasíðunni www.alltumflug.is frá því 15. júní sl. er m.a. notuð eftirfarandi samlíking: „Það hefur stundum verið sagt að sú ráðstöfun að loka braut 06/24 sé eins og að taka loftpúðann og öryggisbeltin úr hverjum einasta bíl í eigu þjóðarinnar því það veit enginn hvenær hann þarf á þessari mikilvægu braut að halda í vályndu veðri þegar líf liggur við.“
Áhyggjur Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna lýsti því strax yfir haustið 2015 að nefndin teldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul væri ekki rétt þar sem hún væri byggð á röngum forsendum og í andstöðu við alþjóða reglur. Rúmum þremur mánuðum eftir niðurstöðu Samgöngustofu eða með bréfi 9. september 2015 til innanríkisráðuneytis gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna athugasemdir um að í skýrslu Eflu um nothæfisstuðul væri hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en í þeim sé að finna nánari skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla tæki ekki til greina sem leiddi til þess að skýrslan innihéldi alvarlegar villur. Taldi Öryggisnefndin skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt væri að áhættumatsskýrsla Isavia byggist á henni við ákvörðunartöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar. Í bréfinu er m.a. bent á að borið hafi að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur. Þá gerir Öryggisnefndin athugasemdir við að áhættumatsskýrslan taki ekki mið af sjúkraflugi. Lýkur Öryggisnefndin bréfi sínu á því að gera alvarlegar athugasemdir við framvindu málsins og bendir á að það sé grundvallaratriði að úrvinnsla sem varði flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti.
Eingöngu tímaspursmál
Á mbl.is í dag er viðtal við Sigurð E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem segir það þó bara tímaspursmál hvenær erfiðara tilfelli kemur upp. Sigurður segir engan í heilbrigðiskerfinu vilja ræða málefni einstakra sjúklinga, en það verði engu að síður að ræða stöðu þessara mála. „Við skildum þetta samkomulag þannig að lokanir flugbrauta ættu ekki að koma til, nema það kæmi eitthvað sambærilegt í staðinn sem myndi tryggja öryggi og skilvirkni í sjúkraflutningum. Nú er búið að taka þetta fyrsta skref og það hefur ekkert sambærilegt komið í staðin,“ segir Sigurður og kveðst ekki vera að leita að blóraböggli. Upp sé hins vegar komin sú staða að það muni koma upp tilfelli þar sem lokun brautarinnar hefur þessi áhrif. „Við höfum ekkert í höndunum, hvorki nýjan flugvöll eða neinar aðrar aðgerðir þar sem komið er til móts við þetta. Það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist og við vitum það flest.“ http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/29/fleiri_tilfelli_muni_koma_upp/
Áhyggjur sérfræðinga í gær og ályktun FMÍ
Í gær lýsti flugstjóri Mýflugs þeirri alvarlegu stöðu sem upp væri komin vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar; „Núna er komið að því að þetta er orðið að veruleika sem er margbúið að vara við en það er enginn sem hlustar“. Þá sendi Flugmálafélag Íslands (FMÍ) frá sér fréttatilkynningu með yfirskriftinni „Sjúkraflug liggur niðri af mannavöldum“. Í fréttatilkynningunni segir m.a. „Stjórn Flugmálafélag Íslands man ekki eftir jafn alvarlegri stöðu í flugsamgöngum innanlands og komið hefur fram í dag. Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka Neyðarbrautinni.“
Hér er að finna samantekt frá því í gær sem sérfræðingar sögðu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar: http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2016/12/28/ord-serfraedinga-um-lokun-neydarbrautarinnar/
Ég tel fulla ástæðu til þess að borgarstjóri og innanríkisráðherra ræði saman um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og margir vöruðu við vegna lokunar svokallaðrar neyðarbrautar og opni brautina hið snarasta fyrir sjúkraflugi meðan unnið er að fullnægjandi lausn. Þá er full ástæða fyrir alþingismenn að láta málið til sín taka. Hér að ofan eru rifjuð upp nokkur varnaðarorð og áhyggjur fagaðila frá því í sumar sem því miður hefur ekki verið hlustað á. Það er algjörlega óviðunandi að ekkert sé gert eða eins og Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir á mbl.is í dag að það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist.