Það hefur verið einkennilegt að fylgjast með upplýsingagjöf Orkuveitunnar vegna tjónsins á höfuðstöðvum OR að Bæjarhálsi 1.
Föstudaginn 25. ágúst sl. er eingöngu talað um myglu og raka sem uppgötvaðist í september 2015.
Eftir að fyrrverandi forstjóri OR mætir í viðtal á RÚV laugardaginn 26. ágúst og segir frá leka 2009 er sagt frá því í fréttum RÚV sunnudaginn 27. ágúst að í skriflegu svari OR við fyrirspurn fréttastofu vegna ummæla fyrrverandi forstjóra sé ítrekað að fyrst hafi tekið að bera á raka og myglu í húsnæðinu haustið 2015.
Í fréttum RÚV mánudaginn 28. ágúst upplýsir OR svo að fyrst hafi verið vart við leka árið 2004, þakið hafi lekið 2009 og aftur 2014 og skemmdir vegna myglu hafi fundust árið 2015.
Fimmtudaginn 31. ágúst er lögð fram tillaga Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði og sama dag setur OR inn á heimasíðu OR frumskoðun og mat Eflu frá því í maí 2009 um skemmdir á klæðningu og gluggum.
Í skýrslu Eflu frá 2009 segir í kaflanum um niðurstöður og næstu skref: „Hvað varðar flögnun á málningu gluggalista er augljóst að um galla er að ræða. Óvenjulegt er að kítti sé notað með glerlistum í álgluggum sem þessum, leita þarf að ástæðum þess að þetta var gert. Hvað varðar los í vatnsbrettum, klæðningu og áfellum á þakköntum telur höfundur allar líkur á að um sé að ræða hönnunargalla. Fara þarf þó yfir frekari hönnunargögn en nú liggja fyrir og útreikninga til staðfestingar. Í framhaldi af því þarf að meta til hvaða aðgerða þarf að grípa til að tryggja festiþol vatnsbretta, klæðningar og áfella. Ganga þarf til viðræðna um úrbætur við verktaka og efnissala vegna ofannefndra skemmda.“
Eftir að hafa lesið skýrslu Eflu frá því í maí 2009 er ljóst að OR þarf að svara því hvort það hafi verið kannað hvort rigningarvatn væri farið að komast í gegnum veðurhlíf útveggjar að byggingarefnum miðað við það að vatnsbretti, klæðning og áfellur á þakköntum voru farnar að losna frá og hvort kröfur hafi verið gerðar á þessa aðila sem Efla bendir á að þurfi að gera. Ef þetta hefur ekki verið kannað þá vantar upplýsingar um það af hverju það var ekki gert.
Á fundi borgarráðs í dag lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram fyrirspurn um eftirfarandi atriði:
- Óskað er eftir upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur um það hvernig brugðist var við þeim atriðum sem fram koma í niðurstöðu Eflu verkfræðistofu maí 2009, skemmdir á klæðningu og gluggum vesturhúss, frumskoðun og mat, en mat Eflu var birt á heimasíðu OR 31. ágúst sl.
- Óskað er eftir upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur um nákvæma sundurliðun viðhalds- og framkvæmdarkostnaðar vegna húseigna á Bæjarhálsi á árunum 2007-2014, þ.e. í hvaða viðhald eða framkvæmdir var farið nákvæmlega hvert þessara ára og á hvaða húsi og hvernig kostnaður vegna hvers verkþáttar skiptist, en upplýsingar um heildarkostnað hvers árs voru birtar á heimasíðu OR 31. ágúst sl.
Hér er tillaga Framsóknar og flugvallarvina og greinargerð sem lögð var fram á fundi borgarráðs 31. ágúst sl., sem rædd var í borgarstjórn 5. september sl.
http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2017/09/01/tillaga-um-uttekt-a-or-husinu/
Hér er skýrsla Eflu frá maí 2009:
https://www.or.is/sites/or.is/files/skyrsla_eflu_vegna_skemmda_a_klaedningu_og_gluggum_fra_2009.pdf