Þriðjudagur 12.09.2017 - 13:06 - FB ummæli ()

Tjónið á leiguhúsnæði Orkuveitunnar

Ljóst er að tjónið á húsi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) er gríðarlegt og enn er mörgum spurningum ósvarað. Nauðsynlegt er að upplýst verði hvernig brugðist var við skemmdum á húsinu frá byggingu þess, hvort hagsmuna eigenda OR hafi verið gætt þannig að hvorki var ástæða til að skoða og meta galla á húsinu fyrr eða hugsanlegan bótarétt og fyrningu. Þá þarf að kanna hvort tjónið hafi verið aukið með tómlæti og eigin sök með því að grípa ekki til aðgerða og úrbóta fyrr.

Upplýsingagjöf OR 
Það hefur verið furðulegt að fylgjast með upplýsingagjöf OR vegna málsins.Fyrst var látið líta svo út að grunsemdir um skemmdir á húsinu hefðu fyrst vaknað haustið 2015 þegar raki og mygla uppgötvaðist.

Föstudaginn 25. ágúst sl. tilkynnir OR að búið væri að eyða 460 milljónum í tilraunaviðgerðir vegna raka og myglu sem uppgötvaðist í september 2015 og það muni kosta 2-3 milljarða í viðbót að laga skemmdirnar.

Eftir að fyrrverandi forstjóri OR mætir í viðtal á RÚV laugardaginn 26. ágúst sl. og segir frá leka 2009 er sagt frá því í fréttum RÚV sunnudaginn 27. ágúst sl. að í skriflegu svari OR við fyrirspurn fréttastofu vegna ummæla hans sé ítrekað að fyrst hafi tekið að bera á raka og myglu í húsnæðinu haustið 2015.

Í fréttum RÚV mánudaginn 28. ágúst sl. viðurkennir OR svo, að fyrst hafi verið vart við leka árið 2004, þakið hafi lekið 2009 og aftur 2014 og skemmdir vegna myglu hafi fundust árið 2015. Ekkert er minnst á að klæðning, áfellur á þakköntum og vatnsbretti hafi verið farin að losna sex árum áður.

Tilllaga Framsóknar og flugvallarvina 31. ágúst sl.
Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa sérstaka úttektarnefnd sem hefur það hlutverk að yfirfara viðbrögð og aðgerðir vegna skemmda á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Skoðað verði hvernig brugðist hefur verið við skemmdum á húsi OR að Bæjarhálsi 1 sem upp hafi komið frá byggingu hússins fram til september 2015 þegar raki og mygla uppgötvaðist.  Kannað verði hvort hagsmuna OR og eigenda þess hafi verið gætt í hvívetna þannig að hvorki hafi verið ástæða til að skoða og meta galla í húsinu fyrr en leki og raki uppgötvaðist í september 2015 né að metinn yrði hugsanlegur bótaréttur eða fyrning. Sérstaklega verði skoðað hvernig brugðist var við leka sem uppgötvaðist 2004 og 2009, hvað viðgerðir hafi farið fram, hvort ástandsúttekt hafi verið gerð og orsökin fundin og hvort talið hafi verið að þær viðgerðir sem fram fóru hafi verið að fullnægjandi þannig að engar vísbendingar væru um frekari leka eða skemmdir fyrr en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015. Hvort skoðað hafi verið eða kröfur gerðar á þá aðila sem komu að byggingu hússins eða framleiddu eða seldu efni til byggingar hússins svo sem byggingaraðila, byggingarstjóra, aðalhönnuð, burðarþolshönnuð, tryggingarfélög, eftirlitsaðila, framleiðanda eða seljenda. Hvort  lagaleg staða og hugsanlegur bótaréttur hafi verið kannaður vegna galla á húsinu fram til ársins 2015 m.a. með tilliti til tómlætis eða fyrningar. Er sérstaklega óskað eftir að rætt verði við þá aðila sem unnu hjá OR fram til ársloka 2011 og sáu um fasteignir OR og viðhald þeirra.

Skýrsla Eflu 2009  
Sama dag og Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillöguna í borgarráði var frumskoðun og mat Eflu frá maí 2009 um skemmdir á klæðningu og gluggum sett inn á heimasíðu OR. Í skýrslunni kemur m.a. fram að Efla telur að líkur séu á að um hönnunargalla sé að ræða, meta þurfi til hvaða aðgerða þurfi að grípa og ganga til viðræðna um úrbætur við verktaka og efnissala.

OR þarf að svara því hvernig brugðist var við skýrslunni að vatnsbretti, klæðning og áfellur á þakköntum væru farnar að losna frá, þ.e. hvort kannað var hvort rigningarvatn væri farið að komast í gegnum veðurhlíf útveggjar að byggingarefnum og hvort kröfur voru gerðar á þá aðila sem Efla bendir á að þurfi að gera. Ef það hefur ekki verið gert þá vantar upplýsingar um það af hverju ekki.

Framsókn og flugvallarvinir hafa óskað eftir upplýsingum um hvernig brugðist var við þeim atriðum sem fram koma í niðurstöðum skýrslunnar frá 2009 og nákvæmri sundurliðun á viðhalds- og framkvæmdarkostnaði.

Sala á fasteignum OR
Á árinu 2013 seldi OR fasteignirnar að Bæjarhálsi 1 á 5,1 milljarð. Í kaupsamningnum kemur fram að OR leigi fasteignirnar og hafi kauprétt af þeim. Í kaupsamningnum er tekið fram að samhliða honum geri aðilar leigusamning um hinar seldu eignir og teljist hann hluti af kaupsamningnum.

Í leigusamningum kemur fram að OR sjái um allan kostnað vegna viðhalds og endurbætur á fasteignunum sem og allan rekstrarkostnað hverju nafni sem hann nefnis svo sem öll opinber gjöld, skatta og þjónustugjöld þ. á m. fasteignaskatta, lóðarleigu, brunaiðgjöld og húseigendatryggingu.

Salan var hluti af hagræðingaráætlun OR „Planinu“ sem m.a. gekk út á að hækka orkuveitureikninga heimilanna, selja eignir, minnka viðhald og fækka starfsfólki.

Þessi kaupsamningur ber það hins vegar með sér að vera málamyndagerningur, þ.e. að frekar sé um að ræða lánasamning en kaupsamning, gerður í því skyni að fegra bókhaldið.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. september 2017)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur