Ástandið í húsnæðismálum í Reykjavík er mjög slæmt. Það vantar nokkur þúsund íbúðir inn á markaðinn. Meirihlutinn í borgarstjórn, þ.e. Vinstri græn, Samfylkingin, Píratar og Björt framtíð, eiga stóran þátt í því vegna einstrengislegrar þéttingar- og lóðaskortsstefnu sem hefur aukið verulega húsnæðisvandann í Reykjavík og búið til skort sem hefur leitt til hækkunar fasteignaverðs. Það er nefnilega ekki hægt níu árum eftir hrun að kenna hruninu eingöngu um heldur stefnu þessara fjögurra flokka.
Vegna íbúðaskortsins í Reykjavík sem rekja má af stærstum hluta til stefnu þessara flokka hefur fasteignaverð hækkað gríðarlega sem gerir ungu fólki nær ókleift að kaupa eigið húsnæði. Það þarf ekki mikla rökhyggju til að átta sig á því að aukið framboð íbúða var og er það eina sem raunverulega leysir vandann. Til að svo hefði mátt vera síðustu árin hefði meirihlutinn þurft að úthluta lóðum og víkja frá þéttingarstefnu sinni. Í stað þess var tímann látinn líða, öðrum kennt um og þulið í sífellu allt það sem á að byggja næsta áratuginn.
Uppbygging hefur gengið hægt enda tekur lengri tíma að byggja á þéttingarreitum eins og byggingaraðilar hafa ítrekað bent á og eftirspurnin er langt umfram framboð. Lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðis á þéttingarreitum hefur leitt af sér hærra húsnæðisverð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.
Lóðaframboð borgarinnar á fjölbýlishúsalóðum var skammarlega lítið á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins í borgarstjórn, þ.e. frá 1. júní 2014 til 1. júní 2017. Á þessu þriggja ára tímabili var einungis úthlutað lóðum fyrir 14 fjölbýlishús með fleiri en fimm íbúðum, þar af var lóðum undir 8 af þessum 14 húsum úthlutað á tímabilinu mars til maí 2017. Lóð undir eitt slíkt hús var úthlutað 2014, eitt slíkt hús 2015 og fjögur slík hús 2016. Enn er því langt í land að þessi hús verða tilbúin enda er ekki byrjað að byggja megnið af þeim.
Meirihluti borgarstjórnar tók afstöðu með fjármagnseigendum en ekki almenningi með einstrengislegri þéttingar- og lóðaskortsstefnu sem lýsir sér í því að nær eingöngu yrði skipulagt og byggt á lóðum sem hafa verið í höndum annarra aðila en borgarinnar í mörg ár og með því að úthluta alltof fáum fjölbýlishúsalóðum. Eins og öllum átti að vera ljóst var nauðsynlegt að fara blandaða leið en ekki einblína eingöngu á þéttingu byggðar. Staðan í dag væri allt önnur ef það hefði verið gert. Nú er látið að því liggja af fulltrúum þeirra flokka sem mynda meirihlutann í borgarstjórn að ástæðan fyrir þessum mikla húsnæðisvanda sé sú að ríkið hafi ekki afhent borginni lóðir. Það er fyrirsláttur enda á borgin nægt land til að byggja á. Það hentaði hins vegar ekki einstrengislegra þéttingarstefnu meirihlutans í borginni.