Laugardagur 17.02.2018 - 17:02 - FB ummæli ()

Fjórtán lóðir á þremur árum

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst 2017)

Framsókn og flugvallarvinir hafa allt kjörtímabilið gagnrýnt einstrengingslega þéttingar- og lóðaskortsstefnu meirihlutans í borgarstjórn og vangetu og viljaleysi meirihlutans við að fjölga félagslegum leiguíbúðum. Meirihlutinn hefur ekki viljað víkja frá stefnu sinni þó að neyðarástand ríki í húsnæðismálum bæði á almennum markaði og félagslegum, en umsækjendum á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um 50% á einu og hálfu ári.

Stefna meirihlutans í borgarstjórn undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hefur aukið verulega húsnæðisvandann í Reykjavík og búið til skort sem hefur leitt til hækkunar fasteignaverðs. Fasteignafélögin hafa ráðið ferðinni í borginni á lóðum sem hafa verið í höndum þessara félaga eða banka í mörg ár. Meirihluti borgarstjórnar tók afstöðu með fjármagnseigendum en ekki almenningi með einstrengingslegri þéttingar- og lóðaskortsstefnu sem lýsir sér í því að nær eingöngu yrði skipulagt og byggt á lóðum sem hafa verið í höndum annarra aðila en borgarinnar í mörg ár og með því að úthluta allt of fáum fjölbýlishúsalóðum. Eins og öllum átti að vera ljóst var nauðsynlegt að fara blandaða leið en ekki einblína eingöngu á þéttingu byggðar. Staðan í dag væri allt önnur ef það hefði verið gert og ef það hefði strax í upphafi kjörtímabilsins verið skipulögð meiri byggð í Úlfarsárdal þannig að strax hefði verið hægt að úthluta fjölbýlishúsalóðum þar. Það hefði í raun átt að gerast á síðasta kjörtímabili enda átti öllum að vera það ljóst hvernig ástandið var orðið og yrði næstu árin. Það hentaði hins vegar ekki stefnu meirihlutans í borginni.

Á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins var aðeins úthlutað lóðum fyrir 14 fjölbýlishús með fleiri en fimm búðum, þar af var lóðum fyrir átta af þessum 14 húsum úthlutað nú á tímabilinu mars til maí 2017. Enn er því langt í land að þessi hús verði tilbúin enda er ekki byrjað að byggja megnið af þeim.

Dugleysi meirihlutans í borginni við lóðaúthlutanir hefur skapað mikinn vanda. Uppbygging hefur gengið hægt og eftirspurnin er langt umfram framboð, sem hefur haft í för með sér hærra húsnæðisverð. Lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðis á þéttingarreitum hefur leitt af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.

Þrátt fyrir ástandið hefur borgarstjóri á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins haldið hverja leiksýninguna á fætur annarri með glærusýningum þar sem hann þylur upp fleiri þúsund íbúðir í Reykjavík og lætur mynda sig skrifa undir endalaus lóðavilyrði alveg 10 ár fram í tímann á lóðum sem ekki eru byggingarhæfar. Á sama tíma hefur húsnæðisvandinn aldrei verið meiri í Reykjavík.

Frá því að núverandi meirihluti tók við vorið 2014 var lóð fyrir eitt fjölbýlishús með fleiri en fimm íbúðum úthlutað 2014, einni slíkri lóð var úthlutað 2015, fjórum slíkum lóðum 2016 og á tímabilinu mars til maí á þessu ári var átta lóðum úthlutað. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík í byrjun júní var ekkert af húsunum á þessum lóðum sem var úthlutað á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins komið lengra en byggingarstig 4, sem er fokheldi.

Þetta er nú öll framtakssemi meirihlutans í borginni á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins í einum mesta húsnæðisvanda í Reykjavík í áratugi.

Lóðaúthlutanir fyrstu 3 ár kjörtímabilsins fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum
Úthlutun Lóðaheiti Fjöldi íbúða Byggingarstig, skráð í byrjun júní 2017
20.8.2014 Tryggvagata 13 40 Byggingarstig 3
1.6.2015 Mýrargata 27-31 og Seljavegur 1A og 1B 8 Byggingarstig 2-4
31.3.2016 Árskógar 1-3 52 Byggingarstig 1, íbúðir fyrir eldri borgara
1.9.2016 Skógarvegur 16 22 Byggingarleyfi óútgefið, Búseti
8.9.2016 Suðurlandsbraut 68-70 78 Byggingarstig 2, íbúðir fyrir eldri borgara
22.9.2016 Kambavað 5 6 Byggingarstig 1, sambýli Félagsbústaðir
9.3.1017 Hraunbær 103A 60 íbúðir fyrir eldri borgara
16.3.2017 Móavegur 2-4 120 Bjarg/ASÍ íbúðir
6.4.2017 Vesturbugt 176
4.5.2017 Hallgerðargata 37 Brynja-Hússjóður ÖBÍ
4.5.2017 Jörfagrund 54-60 8
22.5.2017 Keilugrandi 1 78 Búseti
23.5.2017 Urðarbrunnur 33-35 23 Bjarg/ASÍ íbúðir
23.5.2017 Urðarbrunnur 130-134 30 Bjarg/ASÍ íbúðir

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur