Á facebook í dag hafa komið fram upplýsingar og myndband um það að í morgun hafi NA/SV flugbrautin (06/24) eða svokölluð neyðarbraut verið notuð vegna of mikils hliðarvinds til að hægt væri að lenda á hinum tveimur flugbrautunum.
Á fundi borgarráðs 19. nóvember sl. var lagt fram bréf innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember sl., þar sem mótmælt er rökum Reykjavíkurborgar að innanríkisráðuneytinu f.h. íslenska ríkisins sé skylt að tilkynna lokun NA/SV flugbrautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum. Þá er mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna fyrirhugaðra byggingaráforma á Hlíðarendasvæði mótmælt. Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til mögulegrar málshöfðunar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á kröfum sínum um að brautinni verði lokað og skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll breytt, er tekið fram að telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvíli á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt. Í bókun meirihlutans á fundi borgarráðs var borgarlögmanni falið að höfða mál á hendur ríkinu.
Fullvissa liggur ekki fyrir
Þar sem enn hefur ekki verið sýnt fram á það að hægt sé að loka flugbraut 06/24 þannig að það komi ekki niður á flugöryggi fögnum við í Framsókn og flugvallarvinum því að innanríkisráðherra ætlar ekki að loka flugbrautinni án slíkrar fullvissu. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar þarf að liggja fyrir að lokunin komi ekki niður á flugöryggi. Er það fyrst þegar búið er að vinna ákveðna grunnvinnu sem felst m.a. í því að kanna hvort og þá hvaða afleiðingar og áhrif slík lokun hefur eða gæti haft sem hægt er að taka upplýsta ákvörðun hvort unnt sé að loka brautinni yfir höfuð. Er því órökrétt og óábyrgt að taka flugbraut út af skipulagi, gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir.
Byrjað á öfugum enda
Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum málum þessa meirihluta í borginni er byrjað á öfugum enda. Má í því sambandi vísa til vinnubragða vegna ferðaþjónustu fatlaðra og í Ísraelsmálinu.
Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til lokunar flugbrautarinnar en í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.
Málsmeðferðin í faglegu ferli hjá ráðherra
Innanríkisráðherra hefur yfirumsjón með flugmálum og ber ábyrgð á því að fyllsta flugöryggis sé gætt meðal annars á grundvelli alþjóðlegra reglna. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar er ekki nóg að taka flugbraut út af skipulagi eins og meirihlutinn gerði heldur verður það að liggja fyrir að lokun flugbrautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Slíkt lá hvorki fyrir þegar meirihlutinn ákvað að taka flugbrautina út af skipulagi né liggur það nú fyrir.
Eins og fram kemur í bréfi innanríkisráðherra verður ákvörðun um lokun NA/SV flugbrautarinnar ekki tekin án fullvissu um að lokun brautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Því segir ráðherra að ekki sé á þessu stigi unnt að lýsa yfir hver niðurstaðan verði, en ráðuneytið hafi nú m.a. til skoðunar áhættumat Isavia og niðurstöðu Samgöngustofu um áhrif lokunar flugbrautarinnar.
Þar sem enn hefur ekki verið sýnt fram á það að hægt sé að loka flugbraut 06/24 þannig að það komi ekki niður á flugöryggi er ákvörðun innanríkisráðherra rökrétt og ábyrg.