Á fundi borgarráðs í dag var tekin fyrir eftirfarandi tillaga Framsóknar og flugvallarvina frá 3. september sl.:
„Í nýrri skýrslu fjármálaskrifstofu segir um rekstrarniðurstöðu A-hluta að hann kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar. Því leggja Framsókn og flugvallarvinir fram þá tillögu að borgarráð fái aðstoð utanaðkomandi rekstrarsérfræðinga frá viðurkenndri endurskoðunarskrifstofu til að takast á við fjárhagsvanda borgarinnar sem skal vera borgarráði til ráðgjafar í þeirri vinnu sem framundan er til að ná fram sparnaði og hagræðingu til að snúa við hallarekstri borgarinnar.“
Á fundinum í dag lagði borgarstjóri til að borgarráð samþykkti svohljóðandi breytingartillögu:
„Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Ágúst Þorbjörnsson rekstrarráðgjafa hjá Framsækni. Hann mun vera borgarstjóra, fagsviðum, miðlægri stjórnsýslu, stýrihóp Reykjavíkurborgar um hagræðingaraðgerðir og hagræðinganefndum til ráðgjafar um mögulegar hagræðingarleiðir í rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar.“
Var tillagan samþykkt og lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram eftirfarandi bókun:
„Við fögnum því að borgarráð hafi loks samþykkt að ráða rekstrarráðgjafa á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina en gerum athugasemdir við að tillagan sé fyrst nú tæpum þremur mánuðum eftir að hún var lögð fram tekin til afgreiðslu. Slíkan ráðgjafa hefði átt að ráða fyrr, til að aðstoða við gerð fjárhagsáætlunar þ.e. hvernig hægt væri að hagræða í rekstri borgarinnar, en ekki 5 dögum áður en seinni umræðan um fjárhagsáætlun 2016 fer fram. Hins vegar er fagnað að um varanlegt verkefni er að ræða.“