Á föstudaginn fengu foreldrar leikskólabarna á Mýri bréf frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar um að verið væri að skoða framtíð leikskólans bæði út frá því að leikskólastjóri láti af störfum í sumar og „ekki síður út frá því að börnum er að fækka í Vesturbænum.“ Bent er á að staðan á Mýri sé þannig að næsta haust sé útilit fyrir að þar verði einungis 30 börn og því sé ljóst að sú staða skapi óvissu um framtíð þjónustunnar á Mýri.
Í bréfinu er bent á að leikskólinn Ós við Bergþórugötu í Reykjavík sé að leita að húsnæði fyrir starfsemi sína, en hann er sjálfstætt starfandi leikskóli og rekinn af foreldrum barna sem dvelja þar hverju sinni. Ós vilji stækka starfsemina og fara í rýmra húsnæði en þau hafa í dag.
Í bréfinu til foreldra er bent á að viðræður hafi staðið yfir á milli skóla- og frístundasviðs og forsvarsmanna Óss síðustu daga um að Ós taki að sér rekstur leikskólans Mýrar, til að tryggja áframhaldandi leikskólaþjónustu í húsinu en ekki sé komin niðurstaða í þær viðræður. Ef niðurstaðan verði sú liggi fyrir að foreldrum barna í leikskólanum Mýri býðst að hafa börn sín áfram í leikskólanum kjósi þeir það en einnig stendur til boða val um aðra leikskóla í hverfinu.
Bréf skóla og frístundasviðs til foreldra barnanna er dagsett 29. apríl sl. en tveimur dögum áður var fundur í skóla- og frístundaráði en á þeim fundi var málið ekki til umfjöllunar! Vegna ábendinga um að börnum væri að fækka í hverfinu og loka ætti deildum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram eftirfarandi fyrirspurn á fundi skóla- og frístundaráðs 27. apríl sl.:
Fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina hafa borist ábendingar um að mögulega verði mikil fækkun í ákveðnum árgöngum leikskóladeilda í Vesturbænum nú í haust því útlit sé fyrir að rúmlega fimmtíu pláss séu að losna í þremur leikskólum í Vesturbænum. Foreldrar hafa lýst áhyggjum varðandi hvort deildum verði hugsanlega lokað og starfsfólki sagt upp störfum. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir upplýsingum um hvort til standi að loka þar deildum vegna barnaskorts á viðeigandi aldri eða hvort til standi að nýta plássin fyrir börn á öðrum aldri og eða bjóða jafnvel börnum úr öðrum hverfum leikskólavistun þar.