Föstudagur 13.01.2017 - 19:49 - FB ummæli ()

Tillaga um tímabundna opnun neyðarbrautarinnar

Á síðasta borgarstjórnarfundi sem haldinn var 10. janúar sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu um viðræður borgarstjóra og innanríkisráðherra um tímabundna opnun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, eða svokallaðrar neyðarbrautar, fyrir sjúkraflug.

Tillagan:

„Borgarstjórn samþykkir að borgarstjóri ræði við innanríkisráðherra og veiti ríkinu heimild Reykjavíkurborgar til þess að hafa NA-SV flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli opna fyrir sjúkraflug fram á vor.“

Greinargerðin með tillögunni:

„Undanfarna daga hafa ýmsir sérfræðingar lýst yfir áhyggjum sínum af lokun NA-SV flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar sjúkraflugs frá Hornafirði 28. desember sl. þar sem ekki var hægt að lenda í Reykjavík og flogið var með sjúkling til Akureyrar og krafist þess að brautin verði opnuð að nýju. Má þar m.a. nefna stjórn Flugmálafélags Íslands, bæjarstjórn Hornafjarðar og bæjarráð Akureyrar. Framsókn og flugvallarvinir telja því nauðsynlegt, meðan fullnægjandi lausn hefur ekki fundist og í ljósi þeirra áhyggja og krafna sem fram hafa komið frá fagaðilum og sveitarstjórnum, að brautin verði höfð opin fram á vor í neyðartilfellum þegar ekki er hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum á Reykjavíkurflugvelli. Því verði borgarstjóra falið að ræða við innanríkisráðherra og veita ríkinu heimild Reykjavíkurborgar að hafa brautina opna fram á vor óski innanríkisráðherra þess.“

Meirihlutinn í borgarstjórn hafði engan áhuga á tillögunni og lagði fram svohljóðandi breytingartillögu sem meirihlutinn samþykkti:

„Borgarstjórn beinir því til innanríkisráðuneytisins að kanna til hlítar hvort tilefni sé til að opna flugbraut 07/25 á Keflavíkurflugvelli og að afstaða til opnunar brautarinnar verði tekin út frá því mati.“

Minnihlutinn, þ.e. Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur, bókuðu:

„Minnihlutinn í borgarstjórn lýsir furðu sinni yfir því að meirihlutinn í borgarstjórn, þ.e. Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar, treysti sér ekki til að taka tillögu Framsóknar og flugvallarvina til atkvæðagreiðslu og leggi fram nýja tillögu sem meirihlutinn kallar breytingartillögu sem hún er auðvitað ekki. Ljóst er að meirihlutinn vildi ekki samþykkja tillöguna og hefði verið stórmannlegra af honum að hafna henni en standa í svona leikaraskap og þverbrjóta reglur um fundarsköp. Meirihlutinn þykist vilja samráð og samtal en sýnir það ítrekað í verki að svo er ekki. Með því að flytja nýja tillögu um annað efni og kalla hana breytingartillögu er meirihlutinn að fella þá tillögu sem lögð var fram og til umræðu er og snýst um að heimila nýtingu Reykjavíkurflugvallar tímabundið í þágu sjúkraflugs og standa þannig vörð um skyldur sínar sem höfuðborg með öryggi sjúklinga í fyrirrúmi fram að þeim tíma að önnur lausn finnst. Minnihlutinn situr hjá við tillögu meirihlutans sem meirihlutinn kallar breytingartillögu þar sem um allt aðra tillögu er að ræða en þá sem lögð var fram og til umræðu er enda teljum við hana ekki fela í sér lausn á þeirri bráðastöðu sem nú er uppi í tengslum við sjúkraflug til höfuðborgarinnar.“

Flokkar: Flugvöllur

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur