Þriðjudagur 31.5.2016 - 15:51 - FB ummæli ()

Áfram Ísland

Ég get tæplega kosið Guðna Th Jóhannesson, þótt hann sé eflaust hinn mætasti maður, því hann stóð ekki með Íslandi Icesave-deilunni. Ummæli hans í myndbandinu eru af sömu rót runnin, hann lítur að því er virðist niður á sína eigin þjóð. Er ekki nauðsynlegt að forsetinn haldi með Íslandi?

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.5.2016 - 17:15 - FB ummæli ()

Fræ ótta og skelfingar

Ýmsir fræðimenn bundust samtökum um að dreifa fræjum ótta og skelfingar á Íslandi þegar útlit var fyrir að Alþingi myndi ekki samþykkja hinn frábæra Icesave-samning Kúbuvinarins Svavars Gestssonar. Gildir limir samtakanna voru:

  • Gylfi Magnússon sem sagði að Ísland yrði eins og Kúba norðursins.
  • Þórólfur Matthíasson sem sagði að Ísland lenti á sama stalli og Kúba og Norður-Kórea.
  • Guðni Th. Jóhannesson sem sagði að Ísland yrði jafn einangrað og Norður-Kórea eða Myanmar.
UmmæliGuðna2

„En augljóslega, ef Ísland ætlar að segja, við ætlum ekki að samþykkja þetta, þá myndi það gera okkur álíka einangruð og lönd eins og Norður-Kórea eða Myanmar. Þetta snýst ekki bara um Evrópusambandsaðild.“ – Guðni Th. Jóhannesson í Grapevine í júní 2009.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram í aðdraganda forsetakosninganna. Ég fyrir mitt leyti, sem var á móti Icesave-samningnum í öllum útgáfum hans, get ekki með góðri samvisku kosið mann sem brást landi sínu og þjóð jafn hrapallega og raun ber vitni.

icesaveheimsendir2

Þessi bolur var hannaður þegar samtök fræðimanna stráðu fræjum ótta og skelfingar á Íslandi. Svei mér þá ef ég á hann ekki í stærð Icesave-Guðna.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.5.2016 - 19:52 - FB ummæli ()

Hver laug að Time?

Erlendir blaðamenn sem segja fréttir af atburðum og framvindu mála á Íslandi geta fæstir kynnt sér málin á eigin spýtur af þeirri einföldu ástæðu að þeir tala ekki málið. Þeir þurfa að treysta á innlenda aðila um upplýsingar; innlenda aðila sem hafa þarf varann á í mörgum tilvikum.

David að kenna

Þetta dúkkaði upp á Facebook þegar Davíð kynnti framboð sitt til embættis forseta Íslands.

Heimild höfundar þessarar dellu gekk að öllum líkindum til að ná sér niður á pólitískum andstæðingi. Hún var eflaust sigri hrósandi þegar hún las þetta, en hún gerði sér væntanlega ekki grein fyrir — og gerir trúlega ekki enn — að með þessu var hún einnig að vega að orðspori eigin þjóðar. Míga í bælið sitt.

Það er vitaskuld kostulegt að einhverjum skuli detta allsgáðum í hug að Davíð Oddsson beri á einhvern hátt ábyrgð á fjármálakrísunni 2007-2009. Það segir meira um andstæðinga hans en hann sjálfan.

Í textanum er fullyrt að hann hafi einkavætt þrjá banka og röng ályktun dregin að það hafi valdið hruninu á Íslandi. Sannleikurinn er sá að Íslandsbanki, bankinn sem hét Glitnir við fall hans, var alla tíð einkabanki. Hann var stofnaður 1990 með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans og Iðnaðarbankans. Þess má til gamans geta að eigandi Glitnis var með þúsund milljarða skuldahala á eftir sér við fall hans. Hverjum var það um að kenna öðrum en honum sjálfum?

Mér finnst mikilvægt að svona vitleysa sé leiðrétt. Ekki bara í aðdraganda forsetakosninganna, heldur yfirleitt.

Eftir stendur spurningin: Hver laug að Time? Það er bolur í verðlaun.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.5.2016 - 20:04 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin X – Litgreining

Í óformlegri litgreiningu á afstöðu alþingismanna til bjórs frá u.þ.b. 1932 til 1988 kemur í ljós að bláir eru í afgerandi meirihluta með bjór, appelsínugulir eru í rúmum og bleikir í tæpum.

Rauðu kallarnir eru í afgerandi meirihluta á móti bjór, en grænir í tæpum.

Það kemur ekki á óvart að rauðu kallarnir eru hvað harðastir á móti bjórnum. Mestu vitringarnir — vitringar vitringanna og snillingar snillinganna — eru meðal þeirra rauðu. Forsjónin virðist hafa gætt flesta þeirra brennandi áhuga og stálvilja til að hugsa fyrir aðra. En hafa þeir getuna? Það er stóra spurningin.

BjortaflaÞetta súlurit sýnir svo ekki verður um villst að ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli og óendanlega framsýni var síst að finna meðal blárra kalla. Þeir virtust vera mest utan við sig þegar kom að því að hugsa fyrir annað fullorðið, sjálfráða fólk. Þeir vissu minnst hvað mér var fyrir bestu og virðast hafa ætlast til þess að ég finndi útúr því sjálfur. Hvílík ósvífni!

Bjórunnendur á Íslandi ættu að lyfta krús næst þegar þeir fara á krána og skála fyrir aumingjaskap bláu kallanna, því án þessa einstaka afglapaháttar væri bjór trúlega enn ólöglegur. Innlendir bjórframleiðendur geta sömuleiðis lyft krús í þakklætisskyni við þá bláu. Þær eru ófáar milljónirnar í beinhörðum gjaldeyri sem bjórinn hefur skilað hagkerfinu síðan hann var leyfður. Áhugafólk um bætta drykkjusiði landans geta líka lyft glasi. Þeir hafa batnað. Áhyggjufólk um drykkju ungmenna geta andað léttar. Drykkja unglinga og barna hefur minnkað stórkostlega.

Villuráfandi kjósendur geta stuðst við þessa litgreiningu þegar þeir velja sér flokk til að merkja við á kjörseðlinum í næstu kosningum. Þeir sem vilja láta hugsa fyrir sig í stóru sem smáu, ættu að kjósa rauða eða græna kalla, en þeir sem vilja bera ábyrgð á sér og sínum ættu að kjósa appelsínugula eða bláa.

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.5.2016 - 23:14 - FB ummæli ()

Davíð og rugludallarnir

Erlendir blaðamenn hafa í mörg ár tuggið upp eftir innlendum rugludöllum að bankahrunið á Íslandi og víðar sé Davíð Oddssyni að kenna. Gott dæmi er grein Michaels Lewis „Wall Street on the tundra“ í greinasafni hans Boomerang. Fáir ef nokkrir „Íslandsvinir“ hafa verið dregnir meira á asnaeyrunum en hann.

DoAdKenna

Einhverjum verðum við að kenna um þetta alltsaman, jafnvel þótt hann hafi varað við — er það ekki?

Sannleikurinn er sá að Davíð var eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Í 6. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis eru nefndir fjölmargir fundir hans með ráðherrum þar sem hann varaði við útþenslu bankanna. En hann sagði líka ýmislegt opinberlega þótt hann yrði að fara varlega (vegna þess að bankar eru byggðir á trausti og skortur á því fellir hvaða banka sem er, sama hve stór og sterkur hann er). Strax á fyrsta ársfundi sínum sem seðlabankastjóri vorið 2006 sagði hann: „Hægja þarf á vexti útlána eins og lofað hefur verið.“

Á ársfundi Seðlabanks vorið 2008 varaði Davíð við óhóflegri bjartsýni um framvindu næstu mánaða og sagði: „Hafi menn ekki þegar tekið sér tak er ekki lengur neins að bíða. Leita þarf allra leiða til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækjanna, ekki síst fjármálafyrirtækjanna og samhliða þarf að skoða markaðsmódelin rækilega upp á nýtt.“ Hann bætti við: „Þótt ýkt bölsýni sé auðvitað til óþurftar er jafn vont eða verra að gylla stöðuna fyrir sjálfum sér og almenningi og gefa til kynna að einhvers konar töfraleið sé til út úr þessum vanda. “Að ljúga að öðrum er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér hvers manns bani”, sagði þar.“

Það er mikilvægt að benda á þetta í aðdraganda forsetakosninganna.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.5.2016 - 01:07 - FB ummæli ()

Skautað á Austurvelli 1940

Þessa skemmtilegu ljósmynd frá 1940 rakst ég á í myndalbúmi frænda míns, Duane Champlain. Faðir hans Daniel Dolph Champlain (1916-1989) gegndi herþjónustu á Íslandi á stríðsárunum. Hann kynntist móðursystur minni Áróru Björnsdóttur Hjartar (1922-2009) vil ég trúa á Borginni og felldu þau hugi saman. Þau eignuðust tvö börn, áðurnefndan Duane (1944) og Deborah (1948-1997). Daniel skaðbrenndist á andliti og höndum þegar hann brotlenti flugvél sinni á Reykjavíkurflugvelli 29. apríl 1942.
Austurvollur1940

Það er ánægjulegt að sjá hve mikið líf og fjör er á myndinni. Engu er líkara en að hljómsveit leiki undir skautadansinum. Þrýstið á myndina til að sjá hana í fullri stærð. Því miður er upprunalega myndin ekki mjög skýr.

Flokkar: Dægurmál · Íþróttir · Lífstíll · Menning og listir

Þriðjudagur 24.5.2016 - 00:25 - FB ummæli ()

Hver laug að Lewis?

Þegar ég las grein hins frábæra rithöfundar Michaels Lewis (Big Short, Moneyball) um bankahrunið á Íslandi „Wall Street on the tundra“ í greinasafninu Boomerang kom mér ýmislegt spánskt fyrir sjónir. Að sumu hló ég, eins og því bulli að á hverju ári drepist Íslendingur í sturtu vegna þess að kalda vatnið er tekið af vegna gatnaframkvæmda, en yfir öðru skellti ég bókstaflega uppúr. Engu var líkara en vesalings maðurinn hefði lent í klónum á rugludalli með lygaáráttu á háu stigi. Davíð Oddsson var til dæmis sagður vera ljóðskáld að mennt. Ekki var einu orði vikið að lögfræðimenntun hans. Er nema von að íslensku bankarnir féllu? Seðlabankastjórinn var ljóðskáld sem vildi helst ekki gera neitt annað en semja ljóð. Hvernig gat annað verið en hrunið væri Davíð að kenna? Hann er ljóðskáld!

HverLaugAdLewis

Það er svo sem ekkert við því að segja að einn og einn vesalingur á Íslandi ljúgi að erlendum blaðamönnum og geri þá og sjálfa sig að athlægi um leið, en eftir að Davíð Oddsson bauð sig fram til forsetaembættisins rifjaðist þetta upp fyrir mér. Sá sem laug að Lewis er án efa að láta ljós sitt skína í kosningabaráttunni nú og fer eflaust ekki minna frjálslega með sannleikann og þá. Svona rugludalla þarf að afhjúpa. Þeir eru ekki einungis sjálfum sér til minnkunar, heldur eru þeir landi sínu og þjóð til minnkunar.

Sá sem getur bent á viðkomandi aðila og fært sönnur fyrir máli sínu fær þennan frábæra sérhannaða bol í verðlaun. Bolurinn verður framleiddur í tveimur árituðum eintökum. Í fyrsta lagi á vinningshafann og í öðru lagi á bullukollinn með mynd af honum sjálfum. (Ath. af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að framleiða bolinn stærri en XXXXXXXXXL.)

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 18.5.2016 - 00:08 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin IX – Bjór

Á vorþinginu 1988 dúkkaði enn upp frumvarp um að leyfa bjór, nú undir forystu Ólafs G. Einarssonar. Andstæðingar bjórsins reru orðið gegn straumnum því samkvæmt skoðanakönnunum vildi yfir helmingur landsmanna nú sjálfur getað sagt „nei takk“ við bjór rétt eins og honum var treyst til að segja „nei takk“ við léttvínsglasi og „nei takk“ við vodkastaupi.

FelogMotmaela1988Sem betur fer var andstaðan mjög hörð. Óverðskuldaður skotspónn nóbelsskáldsins okkar, kvenfélögin, voru sem fyrr áberandi meðal þeirra sem vissu best hvað öðrum er fyrir bestu. Kvenfélag Gnúpverjahrepps skoraði til dæmis á Alþingi að hafna frumvarpinu. „Félagskonur óttast að við innflutning á bjór aukist mjög drykkja almennt, auk þess sem innflutningur til landsins sé nógur fyrir“ sagði í tilkynningu. Fjölmargir læknar voru á sömu skoðun. Margir þeirra voru á kafi í áfengisbölinu og litu á bjórinn sem óþarfa viðbót við það böl og höfðu ýmsar tölulegar staðreyndir (aukin drykkja, meiri eymd osfrv.) tiltækar máli sínu til stuðnings. Á meðal þeirra voru Þórarinn Tyrfingsson, Tómas Helgason, Jóhannes Bergsveinsson og Guðsteinn Þengilsson.

Á Alþingi Íslendinga voru sem betur fer nokkrir andlegir þungavigtarmenn sem vildu segja „nei takk“ við bjór á línuna. Þeir sáu ekki frekar en aðrir snillingar og vitringar ástæðu til að treysta hverjum og einum sjálfráða Íslendingi fyrir því. Eins og við var að búast fór Ólafur G. Einarsson með sömu rulluna og aðrir flytjendur bjórfrumvarpa: 1. bæta drykkjumenninguna. 2. styðja við íslenskan iðnað, 3. afla ríkinu tekna, 4. minnka ólöglegan innflutning og brugg og 5. samræma áfengislöggjöfina. Bla, bla, bla.

TveirMennSteingrSverrirSverrir Hermannsson var einn þeirra þingmanna sem þó höfðu farið til útlanda og séð með eigin augum hvað bjórinn lék Dani grátt. Hann vildi ekki gefa bjórnum kost á að leika Íslendinga grátt. Fyrr frysi í helvíti. Í þrumandi þingræðum sagði hann meðal annars að „sala og almennur aðgangur að bjór mundi þýða að unglingar mundu í stórauknum mæli neyta áfengis.“ Og: „Næstum því í öllum tilvikum er það svo að til ofneyslu áfengis megi rekja áframhaldandi neyslu vímuefna, annarra og stórhættulegra, vegna þess að alkóhólið er að sínu leyti ekki mjög háskasamlegt eitur. En það leiðir til þess arna. Og bjórinn er undanfari allrar frekari áfengisneyslu.“ Og: „En það er niðurstaða vísindalegrar rannsóknar að þetta er lúmskasta áfengið, þetta er lúmskasta tegund áfengis sem á borð er borin.“

Ef til vill var skemmtilegasti hluti bjórumræðu Sverris ummæli hans um einn stuðningsmanna frumvarpsins, Guðrúnu Helgadóttur, en hann uppnefndi hana ölkyrju: „Ölkyrja er myndað eins og valkyrja. Valkyrja er kona orustunnar, sú sem kýs sér val. Ölkyrja er þess vegna kona ölsins, sú sem kýs sér ölið.“ Sverrir lét ekki aftra sér eins og svo margir andstæðingar bjórsins að nota skotheld tilfinningarök.

AlthingismennBanner9Að lokum gerði Sverrir orð Bismarks að sínum og sagði: „Ef þetta mál á að ganga fram, þá er það verra en glæpur. Það er heimska.“ Sagan ein getur dæmt um það hvort fullyrðingar Sverris Hermannssonar stóðust.

Eins og Sverrir hafði Steingrímur J. Sigfússon líka komið til útlanda, nánar tiltekið Svíþjóðar með blakliði og séð með eigin augum ástandið þar. Ekki leist honum vel á. En Steingrímur hugsar í lausnum, það má hann eiga: „En það sem mundi valda straumhvörfum og hafa í för með sér stórfelldar breytingar á áfengisneyslunni og neysluforminu hér á landi yrði ef hér yrðu leyfðar ölstofur eða krár á öðru hverju götuhorni þar sem áfengi væri afgreitt án þess að menn þyrftu t.d. að kaupa sér mat eða með öðrum hætti að dvelja þar lengur við.“

Þetta var vitaskuld mikilvægt atriði að hafa í huga, einkum fyrir þingmenn, að ef öl skyldi verða leyft að skikka þá menn með lögum til að borða mat með því. Að vísu er ákveðin hætta á að slíkt fyrirkomulag færi gegn lýðheilsustefnu ríkisins sem miðar að því að forða þjóðinni frá offitufaraldrinum. Til að vega upp á móti því ef svo ólíklega vildi til að bjórinn yrði leyfður mætti setja í lög að með hverjum seldum bjór yrði að fylgja til dæmis ein skál af hollustu, til dæmis hafragraut, og ein matskeið af þorskalýsi (eða þrjár bragðbættar lýsispillur). Það mætti gera út eftirlitsmenn á vegum ríkisins sem fylgdust með því á ölstofum að enginn svikist um að borða grautinn og taka lýsið ef hann pantaði kollu. Hvað sem þessum vangaveltum líður þá vekur það óneitanlega upp spurninguna hversu mikið vit þingmenn eiga yfirleitt að hafa fyrir þjóðinni. Verður ekki einhversstaðar að draga mörkin? Steingrímur J. Sigfússon vissi það. Hann vildi ekki daga nein mörk. Það er þægileg tilhugsun að einhver skuli vera svona fórnfús, góðviljaður og gáfaður að geta hugsað fyrir heila þjóð niður í smæstu smáatriði.

AlthingismennBanner8Steingrímur skammaðist sín ekkert fyrir að vilja hugsa fyrir aðra, en ýmsir vanstilltir kjánar höfðu á orði að það væri ekki hans hlutverk. „Hvað eru menn yfirleitt að gera á Alþingi?“ spurði Steingrímur þessa sömu kjána. „Með næstum því hverri einustu ákvörðun sinni hér eru menn að hafa vit fyrir þjóðinni í vissum skilningi þess orðs. Menn eru að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og störf og umhverfi fólksins í landinu næstum því ævinlega — eða eru menn ekki að hafa vit fyrir þjóðinni þegar þeir t.d. taka ákveðnar ákvarðanir eins og er verið að ræða uppi í Efri deild um ráðstafanir á skattfé hennar? Auðvitað. Þetta er furðulegur málflutningur og barnalegur.“

Steingrímur var ennfremur með snjalla lausn í anda bannáranna á bjórlekanum til landsins með flugliðum og farmönnum: „Ég treysti mér ekki til að standa að því að leyfa áfengt öl á Íslandi með þeim hætti sem hér er flutt tillaga um og er þess í stað reiðubúinn að taka þátt í að afnema þann ólöglega innflutning sem ég tel að eigi sér stað inn í landið á grundvelli hæpinna reglugerðarákvæða sem að mínu mati fá ekki staðist í anda áfengislaganna. Væru þá allir jafnir fyrir lögum og málið stæði þá þannig að annaðhvort hefðum við hér á Íslandi áfengt öl eða ekki.“

Greidd voru atkvæði um bjórfrumvarpið á Alþingi 10. maí 1988. Voru Karl Steinar Guðnason, Egill Jónsson, Guðrún Agnarsdóttir, Jón Helgason, Margrét Frímannsdóttir, Skúli AlexanderssonÞorvaldur Garðar Kristjánsson og Svavar Gestsson á móti.

Ef þeir hefðu ekki verið farnir heim að sofa (atkvæðagreiðslan fór fram upp úr miðnætti) hefðu þessir þingmenn greitt atkvæði gegn frumvarpinu, en þeir greiddu atkvæði gegn því í þriðju umræðu: Steingrímur J. SigfússonAðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Albert Guðmundsson, Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Birgir Dýrfjörð, Friðjón Þórðarson, Geir Gunnarsson, Hreggviður Jónsson, Jón Sigurðsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Óli Þ. Guðbjartsson, Páll Pétursson, Ragnhildur HelgadóttirSverrir Hermannsson, Þórhildur Þorleifsdóttir og  Stefán Valgeirsson. Stefán gerði grein fyrir atkvæði sínu með ferskeytlu:

Vímulaus æska,
sú von deyr ei.
Ég vil ekki bjórinn.
Ég segi nei.

TveirMennStefanSvavarEftirtaldir þingmenn geta ekki talist til þeirra sem fengu vit til að hafa botnlaust vit fyrir öðrum: Danfríður Skarphéðinsdóttir, Eiður Guðnason, Jón Magnússon, Guðmundur Ágústsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Jóhann Einvarðsson, Júlíus Sólnes, Karvel Pálmason, Salome Þorkelsdóttir, Stefán Guðmundsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Þessir þingmenn höfðu áður samþykkt frumvarpið í þriðju umræðu og þar með staðfest snillingsleysi sitt: Birgir ísleifur Gunnarsson, Einar Kr. Guðfinnsson, Eggert Haukdal, Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde, Guðmundur Bjarnason, Guðmundur G. Þórarinsson, Guðni Ágústsson, Guðrún Helgadóttir, Hjörleifur Guttormsson, Ingi Björn Albertsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Jón Kristjánsson, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Matthías Á. Mathiesen, Ólafur G. Einarsson, Pálmi Jónsson, Ragnar Arnalds, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur Hermannsson og Þorsteinn Pálsson.

BjorfrumvarpSamthINottFrumvarpið var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 8. Bjórinn var leyfður aftur eftir 75 ára bann. Svavar Gestsson sagði þegar niðurstaðan var ljós: „[Þetta er] dapurleg lífsreynsla fyrir mig, bæði sem foreldri og þingmann og ég tel að mikið óhappaskref hafi verið tekið hér.“

Bjórinn hefur verið seldur löglega í ríkiseinkasölum á Íslandi síðan 1. mars 1989.

Snillingsprófið – lokaspurning

Telur þú að það eigi að banna bjórinn aftur?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „nei“ ertu á villigötum. Það svar er rangt og hafir þú svarað rangt hingað til, er vonin úti. Þú fékkst ekki vöggugjöfina góðu. Þú mátt þakka fyrir að vita hvað þér er fyrir bestu og hugsanlega börnunum þínum, en þú hefur enga hugmynd um hvað öðru fullorðnu og sjálfráða fólki er fyrir bestu.

Ef svarið er „já“ ertu búinn að gulltryggja að þú ert meðal þeirra sem fengu óendanlega djúphylgi, botnlausa framsýni og ofurmannlega dómgreind í vöggugjöf. Þú svaraðir rétt. Þú veist manna best hvað öðrum er fyrir bestu, betur en þeim sjálfum. Þú ættir að vera einræðisherra Íslands þú ert svo klár.

Og sagan sýnir að vöggugjafarnir höfðu rétt fyrir sér með bjórinn — ekki satt?

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.3.2016 - 02:02 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin VIII – Hvítasta blóðkornið

Frumvörp um að leyfa bjór birtust eins og meinvörp á Alþingi á níunda áratugnum. Ónæmiskerfið stóðst sýkinguna 1984, en eitthvað var á seiði því varnarmátturinn fór þverrandi. Var þjóðarlíkaminn að helsýkjast eða voru þetta vaxtarverkir á þroskabrautinni? Vaxtarverkir ef eitthvað var að marka þá sem vildu treysta hverjum og einum fyrir sjálfum sér, en helsýkjast ef eitthvað var að marka spekinga og vitringa, ekki síst meðal lækna og vísindamana. Til dæmis sagði Þorkell Jóhannesson prófessor í lyfjafræði að það væri „óskhyggja að draga megi úr neyslu annars áfengis með áfengum bjór“ og Pétur Pétursson læknir sagði það sannfæringu sína að áfengt öl myndi auka áfengisneyslu ungmenna og dagdrykkju þjóðarinnar.

AlthingismennBanner6b1985 endurlagði Jón Baldvin Hannibalsson ásamt Guðrúnu Helgadóttur, Friðriki Sophussyni, Ellerti B. Schram og Guðmundi Einarssyni  fram bjórfrumvarpið frá þinginu áður. Í þetta sinn brugðust hvítu blóðkornin algerlega í neðri deildinni vegna þess að það komst alla leið í atkvæðagreiðslu.

Þessir afvegaleiddu þingmenn vildu samþykkja frumvarpið auk Jóns Baldvins og meðflutningsmanna hans: Stefán GuðmundssonSteingrímur HermannssonGuðmundur H. GarðarssonÞorsteinn PálssonEggert HaukdalGuðmundur BjarnasonGunnar G. SchramHalldór ÁsgrímssonHalldór BlöndalHjörleifur GuttormssonJóhanna SigurðardóttirKarvel PálmasonKristín HalldórsdóttirEinar K. GuðfinnssonÓlafur G. EinarssonPálmi JónssonGeir HallgrímssonKristín H. TryggvadóttirKristín S. Kvaran og Bragi Mikaelsson.

AlthingismennBanner7Þessir fyrirmyndarþingmenn voru á móti: Stefán ValgeirssonSteingrímur J. SigfússonSvavar GestssonSverrir HermannsonÞórarinn SigurjónssonAlexander StefánssonFriðjón ÞórðarsonGarðar SigurðssonGeir GunnarssonGuðmundur J. GuðmundssonGuðrún AgnarsdóttirÓlafur Þ. ÞórðarsonPáll Pétursson og Ingvar Gíslason.

BjorinnFelldurMeirihlutinn var afgerandi: 25 með, 14 á móti. Svo fór þó að lokum að stungið var á meininu. Frumvarpið varð ekki að lögum. Guðrún Helgadóttir taldi að þingmenn stjórnuðust af hræðslu við kjósendur, en til stóð á tímabili að láta þjóðina sjálfa kjósa um bjórinn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því var einnig hafnað sem eðlilegt var. Þjóðin var engan veginn í stakk búinn að taka ákvörðun um það sjálf hvort hún vildi að bjór yrði löglegur valkostur. Treysta þjóðinni? Uss, nei.

Snillingsprófið – fimmta spurning

Er bjórlaust Ísland betra land?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „nei“ ertu sjúkdómseinkenni, ekki plástur.

Ef svarið er „já“ hefurðu enn og aftur staðfest að þú ert hvítasta blóðkornið í þjóðarlíkamanum.

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.3.2016 - 17:06 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin VII – Arsenik

Meðan bjórinn var bannaður með lögum var glæpur að brugga hann, glæpur að kaupa hann, gæpur að halda á flöskunni, glæpur að færa stútinn að vörunum, glæpur að súpa á honum og glæpur að kyngja honum. Hver einasti maður sem það gerði var sannkallaður glæpamaður, brotlegur við lögin í landinu. Á hinn bóginn var viskí á klaka algengur og sjálfsagður drykkur í glösum landsmanna. Sömuleiðis romm í kók. En bjórinn — maður minn! Bjórinn var vondi kallinn, grimmur djöfull með svartan hatt, andstæðingur heilbrigðis og góðra lífshátta sem brá fæti fyrir veikgeðja einstaklinga á hverju götuhorni. Löggjafinn var kórstjórinn sem sló tóninn í þessum yndislega baráttusöng og samfélagið söng með. Söngurinn var lengi vel kyrjaður af mikilli innlifun og sannfæringu. Bjórinn var jafnvel verri en arsenik!

JM&HKL

1984 lagði ungur varaþingmaður, Jón Magnússon, fram enn eitt frumvarpið (gat nú verið!) á Alþingi um að leyfa bjór ásamt nafna sínum Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þegar þetta var, var baráttusöngurinn um grimma djöfulinn með svarta hattinn af einhverjum óskiljanlegum ástæðum orðinn máttlausari og minna sannfærandi. Sem betur fer heyrðist þó enn hátt í útvöldu snillingunum sem eins og fyrr vissu best hvað öðrum er fyrir bestu, betur en þeim sjálfum, og höfðu bæði vald og aðstöðu til að koma fram vilja sínum.

Í framsöguræðunni vitnaði Jón Magnússon í sögu eftir Halldór Laxness. Sagan, eða öllu heldur fimmaurabrandarinn, birtist í Guðsgjafaþulu. Það var verið að afferma bát á Djúpuvík. Grunur lék á og almannarómur taldi að smyglvarningur, meðal annars bjór, væri í bátnum. Í tunnu sem skipað var upp var efni sem tveir verkamenn héldu að væri bjór í föstu formi. Mennirnir neyttu efnisins og dóu báðir. Í fréttum Ríkisútvarpsins var sagt að mennirnir hefðu orðið bráðkvaddir af bjór á ritstjórnarskrifstofu verkamannablaðsins Norðurhjarans á Djúpuvík. Um misskilning var að ræða þar eð efnið sem talið var bjór í föstu formi var í raun arsenik. Ritstjórinn sendi leiðréttingu til Ríkisútvarpsins, en áður en leiðréttingin kom fram barst blaðinu skeyti frá Landssambandi kvenfélaga í sveitum gegn bjórflutningi til Íslands. Í skeytinu sagði:

Hr. ritstjóri,
sakir voveiflegrar morgunfréttar í­ útvarpinu í­ dag, þess efnis að tveir verkamenn hafi orðið bráðkvaddir af bjór á ritstjórnarskrifstofu verkamannablaðsins Norðurhjarans á Djúpví­k í­ morgun, leyfum vér oss að láta í­ ljós skelfí­ngu vora útaf lí­fshættulegum drukk sem ógnar eiginmönnum vorum og sonum. Vér treystum yður að gefa í­ blaði yðar fullnægjandi skýringar á þessu voðalega atviki. Vér krefjumst þess í­ nafni heilsu og velferðar í­slensku þjóðarinnar að þessum óttalega vökva verði helt niður í­ niðurhellí­ngarstöðinni á Akureyri.

Undir skeytið rituðu 25 konur.

Ritstjórinn sendi Kvenfélagasambandinu svarskeyti með leiðréttingu:

Háttvirtu frúr:
Það var ekki bjór, heldur arsenik.

Virðingarfyllst, ritstjóri Norðurhjarans, Djúpví­k.

Svar barst frá Kvenfélagasambandinu:

Til herra ritstjóra blaðsins Norðurhjara, Djúpví­k.
Guði sé lof það var bara arsenik.

Stjórnin.

(Guðsgjafaþula, bls. 259-26, útg. Helgafell 1972.)

Hvað frumvarp Jónanna áhrærir þá urðu örlög þess þau sömu og allra sem á undan komu. Það var svæft í nefnd. Bjórandstæðingar fögnuðu enn einum varnarsigrinum.

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur