Í hinni snjöllu Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, sem ríkisstjórnin samþykkti í vor með liðsinni Guðmundar Steingrímssonar, er boðuð bylting í íslenskum vísindum og tækniþróun – strax á árinu 2013.
Áætlunin byggir á fjármögnun með sölu eignahluta ríkisins í bönkunum og arðgreiðslum frá þeim, auk tekna af hinu nýja veiðigjaldi sem var samþykkt á Alþingi fyrir skömmu.
Þó slegið hafi verið af veiðigjaldinu á lokametrunum, til að friða pólitíska fulltrúa útvegsmanna (Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn), þá er fjármögnun nú að mestu tryggð.
Áformin gera ráð fyrir tvöföldun fjármagns í samkeppnissjóðum vísinda- og tæknisamfélagsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði Rannís. TVÖFÖLDUN!
Í hvorn þessara sjóða verða lagðar aukalega 750 milljónir króna og að auki verða settar 500 milljónir í markáætlanir til skilgreindra átaksverkefna í nýsköpun. Alls 2 milljarðar á ári. Átakið hefst strax á næsta ári.
Ríkisstjórnin byggir þessi áform að hluta á stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs og er þetta hluti af aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þekkingarhagkerfið. Auk þess er lagt mikið fé til samgöngumála, í sóknaráætlanir landshlutanna og önnur atvinnuskapandi verkefni.
Í Vísinda- og tækniráði hefur menn dreymt um að auka fé í samkeppnissjóðum um langt árabil. Enginn þar átti þó von á tvöföldun núna eða á næstunni!
Við höfum ekki séð jafn myndarlegt átak í þágu vísinda og tækni á Íslandi fyrr. Ekkert slíkt gerðist í “góðæri” bóluhagkerfisins. Þetta eru því mikil tíðindi.
Nú er mikilvægt að vísinda-, tækni- og nýsköpunarsamfélagið taki fast í árarnar og leggi sitt af mörkum til öflugrar framþróunar þekkingarhagkerfisins á Íslandi.
Þessi stefnumörkun er í anda þess sem Svíar og Finnar gerðu eftir fjármálakreppur sínar upp úr 1990. Vonandi skilar þetta góðum árangri hér eins og var hjá þessum frændum okkar.
Fyrri pistlar