Simon Wren-Lewis, prófessor í hagfræði við Oxford háskóla í Englandi, útskýrir á skýran hátt hvernig niðurskurður opinberra útgjalda magnar kreppuvandann sem við er að glíma víðast hvar á Vesturlöndum. Boðskapur hans á einnig við um okkur hér á Ísalandi.
Niðurskurður í kreppuástandi býr til vítahring versnandi ástands. Forsendan er sú að ríkisstjórn hafi áhyggjur af halla á fjárlögum og opinberum skuldum vegna kreppunnar. Svona þróast ástandið þegar meðalið við kreppusóttinni er aukinn niðurskurður:
1. Ríkisstjórn grípur til niðurskurðar opinberra útgjalda til að fjárfestar og matsfyrirtæki fái aukið traust á viðkomandi hagkerfi – í þeirri von að hagvaxtareflandi fjárfesting aukist
2. Niðurskurðurinn dregur hins vegar úr eftirspurn, sem hægir á hagvexti eða beinlínis leiðir til samdráttar í þjóðarbúskapnum.
3. Tekjur ríkisins dragast þá saman vegna minni hagvaxtar og halli á ríkisbúskapnum eykst – í stað þess að minnka eins og vonast var til
4. Vegna versnandi afkomu og minni hagvaxtar lækka matsfyrirtækin þá lánshæfismat viðkomandi hagkerfis
5. Þá segir fjármálaráðherra viðkomandi lands að óttinn hafi verið staðfestur – og því verði nú að grípa til enn frekari niðurskurðar
6. … og vítahringur samdráttar og verri afkomu ríkisins magnast þar með áfram… Vandinn eykst!
Þetta er reynslan af niðurskurðaraðgerðum sem gripið var til í Bretlandi. Einnig á Spáni, eftir að hægri stjórn tók við völdum þar í desember 2011. Kreppan á Spáni, sem var slæm fyrir, dýpkaði og atvinnuleysi jókst í allra hæstu hæðir eftir að nýja ríkisstjórnin greip til niðurskurðaraðgerða.
Nú er það sama að gerast í Hollandi. Raunar er það alltof víðtæk trú á niðurskurðaraðgerðir í miðri kreppunni sem hefur viðhaldið slöku efnahagsástandi í Evrópu á síðustu misserum og seinkað upprisu álfunnar úr ládeyðu kreppunnar (sjá hér).
Niðurskurðarleiðin er nefnilega röng stefna í kreppuárferði. Menn eiga þá að beita ríkisvaldinu til að örva hagkerfið og greiða svo niður skuldir á uppsveiflunni, eins og kenning John Maynard Keynes og söguleg reynsla hafa kennt okkur.
Þetta gildir líka á Íslandi. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður sleppt lausum frjálshyggjumönnum í eigin röðum (einkum Sjálfstæðismönnum) og öðrum áhugamönnum um niðurskurð opinberra útgjalda. Hættan er sú, að með auknum niðurskurði dragi úr hagvexti og það kemur svo fram í verri afkomu ríkisbúskaparins á næstu árum – þ.e. magnar skuldavanda hins opinbera.
Það var misráðið hjá núverandi ríkisstjórn að blása af fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Það var góð áætlun um örvun hagvaxtar og nýsköpunar, sem var fjármögnuð á skynsaman hátt. Hún hefði skilað góðri örvun og uppbyggingu.
Ef efnahagsbati lætur á sér standa á næsta ári þá verður það væntanlega vegna ónógrar eftirspurnar – í kjölfar aukins niðurskurðar.
Alvöru kaupmáttaraukning í komandi kjarasamningum gæti þó bætt úr og örvað eftirspurn.
Síðasti pistill: Góð aðgerð – en hefði mátt vera stærri
Fyrri pistlar