Þriðjudagur 3.12.2013 - 15:01 - FB ummæli ()

Rökvillur niðurskurðar í kreppu

Simon Wren-Lewis, prófessor í hagfræði við Oxford háskóla í Englandi, útskýrir á skýran hátt hvernig niðurskurður opinberra útgjalda magnar kreppuvandann sem við er að glíma víðast hvar á Vesturlöndum. Boðskapur hans á einnig við um okkur hér á Ísalandi.

Niðurskurður í kreppuástandi býr til vítahring versnandi ástands. Forsendan er sú að ríkisstjórn hafi áhyggjur af halla á fjárlögum og opinberum skuldum vegna kreppunnar. Svona þróast ástandið þegar meðalið við kreppusóttinni er aukinn niðurskurður:

1. Ríkisstjórn grípur til niðurskurðar opinberra útgjalda til að fjárfestar og matsfyrirtæki fái aukið traust á viðkomandi hagkerfi – í þeirri von að hagvaxtareflandi fjárfesting aukist

2. Niðurskurðurinn dregur hins vegar úr eftirspurn, sem hægir á hagvexti eða beinlínis leiðir til samdráttar í þjóðarbúskapnum.

3. Tekjur ríkisins dragast þá saman vegna minni hagvaxtar og halli á ríkisbúskapnum eykst – í stað þess að minnka eins og vonast var til

4. Vegna versnandi afkomu og minni hagvaxtar lækka matsfyrirtækin þá lánshæfismat viðkomandi hagkerfis

5. Þá segir fjármálaráðherra viðkomandi lands að óttinn hafi verið staðfestur – og því verði nú að grípa til enn frekari niðurskurðar

6. … og vítahringur samdráttar og verri afkomu ríkisins magnast þar með áfram… Vandinn eykst!

Þetta er reynslan af niðurskurðaraðgerðum sem gripið var til í Bretlandi. Einnig á Spáni, eftir að hægri stjórn tók við völdum þar í desember 2011. Kreppan á Spáni, sem var slæm fyrir, dýpkaði og atvinnuleysi jókst í allra hæstu hæðir eftir að nýja ríkisstjórnin greip til niðurskurðaraðgerða.

Nú er það sama að gerast í Hollandi. Raunar er það alltof víðtæk trú á niðurskurðaraðgerðir í miðri kreppunni sem hefur viðhaldið slöku efnahagsástandi í Evrópu á síðustu misserum og seinkað upprisu álfunnar úr ládeyðu kreppunnar (sjá hér).

Niðurskurðarleiðin er nefnilega röng stefna í kreppuárferði. Menn eiga þá að beita ríkisvaldinu til að örva hagkerfið og greiða svo niður skuldir á uppsveiflunni, eins og kenning John Maynard Keynes og söguleg reynsla hafa kennt okkur.

Þetta gildir líka á Íslandi. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður sleppt lausum frjálshyggjumönnum í eigin röðum (einkum Sjálfstæðismönnum) og öðrum áhugamönnum um niðurskurð opinberra útgjalda. Hættan er sú, að með auknum niðurskurði dragi úr hagvexti og það kemur svo fram í verri afkomu ríkisbúskaparins á næstu árum – þ.e. magnar skuldavanda hins opinbera.

Það var misráðið hjá núverandi ríkisstjórn að blása af fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Það var góð áætlun um örvun hagvaxtar og nýsköpunar, sem var fjármögnuð á skynsaman hátt. Hún hefði skilað góðri örvun og uppbyggingu.

Ef efnahagsbati lætur á sér standa á næsta ári þá verður það væntanlega vegna ónógrar eftirspurnar – í kjölfar aukins niðurskurðar.

Alvöru kaupmáttaraukning í komandi kjarasamningum gæti þó bætt úr og örvað eftirspurn.

 

Síðasti pistill: Góð aðgerð – en hefði mátt vera stærri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.12.2013 - 10:39 - FB ummæli ()

Góð aðgerð – en hefði mátt vera stærri

Þá er áætlun ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu komin fram. Ég tel þetta góða og mikilvæga aðgerð, en æskilegt hefði verið að hafa hana stærri.

Það var loforð Framsóknar sem er rótin að þessum aðgerðum. Um þær þurfti að semja við Sjálfstæðismenn, sem höfðu mikla fyrirvara á öllum hugmyndum um beina lækkun á skuldum heimila og vildu halda upphæðum sem lægstum.

Í staðinn hafði Sjálfstæðisflokkurinn boðið upp á þann möguleika að fólk nýtti sér skattlausa séreignasparnaðinn til niðurgreiðslu á húsnæðisskuldum. Það er ágætur valkostur, en kostar ríkið ekki neitt í viðbótarútgjöldum til skemmri tíma, utan hvað skattafrádrátturinn verður hækkaður úr 4% í 6%. Sparnaðarformið flyst einfaldlega úr séreignasparnaði yfir í lækkun húsnæðisskulda (Jón Steinsson virðist telja að um sé að ræða að fullu viðbótarskattaafslátt við þann sem þegar er veittur, en það er ekki rétt).

Beina skuldalækkunin sem Framsókn barðist fyrir mun nema 80 milljörðum á fjórum árum. Það er minna en rætt hafði verið um en samanlagt munu þessar tvíþættu aðgerðir skila um 150 milljarða lækkun skulda heimilanna á tímabilinu. Væntanlega hefur verið tekist á um þessa 80 milljarða milli stjórnarflokkanna. Framsóknarmenn hafa án efa viljað fá meira í beinar afskriftir.

Sett er hámark á skuldaleiðréttingu til hverrar fjölskyldu (4 m.kr.), eins og ég hafði mælt með fyrir kosningar. Það þýðir að hæst launaða fólkið með miklar skuldir vegna offjárfestingar fær hlutfallslega minna en aðrir.

Hins vegar er dregið frá það sem veitt var í gegnum 110% leiðina. Það tel ég óheppilegt, því þeir sem hennar nutu voru fjölskyldur með hóflegar tekjur og hóflegar eignir sem voru hvað verst staddar. Það fólk er ekki of vel haldið í dag og hefði til viðbótar vel mátt fá fulla leiðréttingu nú í takti við aðra. Til þess hefði þurft um 54 milljarða til viðbótar.

Þetta er því aðgerð sem gagnast millistéttinni mest, eins og forsætisráðherra hefur bent á.

Með lækkun skulda er viðbúið að ríkið spari sér útgjöld til vaxtabóta. Því er mikilvægt að sérstöku vaxtabæturnar verði ekki látnar renna út né lækkaðar heldur framlengdar út tímabilið sem áætlunin um skuldaleiðréttingu stendur.

Þó þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar sé góð er hins vegar miki vafamál hvort hún nær því máli að verða stærsta skuldaleiðrétting sögunnar.

Að meðaltali er talið að skuldir heimilanna muni lækka um 13% vegna þessara tvíþættu aðgerða, sem er um 8,8% af landsframleiðslu. Skuldir heimila lækkuðu hins vegar úr 129% af landsframleiðslu árið 2009 í 108% 2013, eða um 21%-stig. Að auki hækkaði fyrri ríkisstjórn vaxtabætur verulega, sem nemur tugum milljarða á kjörtímabilinu.

Ef ríkisstjórnin sleppir því að draga frá það sem veitt var í 110% leiðinni og hækkar persónuafslátt myndarlega í tengslum við kjarasamninga þá stendur hún með pálmann í höndunum.

Hún mun þá uppskera meira hagvaxtarbúst að auki, sem gerir allt líf hennar auðveldara í framhaldinu.

Þar eð aðeins er verið að setja um 20 milljarða aukalega inn í hagkerfið á ári næstu fjögur árin verða þjóðhagsáhrif aðgerðanna á hagvöxt og einkaneyslu mjög lítil og verðbólguáhrif nær engin. Það eru líka rök fyrir því að beina skuldaniðurfellingin hefði mátt vera stærri.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra  og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, sem aldrei hafa látið deigan síga þrátt fyrir mikinn mótvind, mega nú vel við una. Án þeirra atfylgis væri þessi annars ágæta áætlun ekki að sjá dagsins ljós núna.

 

Síðasti pistill: Páfinn í Róm varar við frjálshyggju

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 29.11.2013 - 15:20 - FB ummæli ()

Páfinn í Róm varar við frjálshyggju

 

Joy of the gospel Francis páfi hefur nýlega sent frá sér mikilvæga hugvekju í bók sem hann kallar Gleðiboðskap guðspjallanna (The Joy of the Gospel).

Þar ítrekar páfinn þá sýn sem hann vill að kirkjan standi fyrir. Í bókinni er auðvitað klassískur boðskapur kristinnar kirkju um kærleika, hjálpræði, réttlæti og samstöðu með þeim sem minna mega sín.

Góðmennska og gleðigjöf guðspjallanna eru í öndvegi.

En Francis páfi slær líka nýja strengi í ranni kaþólsku kirkjunnar og sýnir að hann er með gott jarðsamband. Hann sér hvar illgresið hefur skotið rótum og grafið undan kristilegum gildum og góðu mannlífi.

Páfi bendir sérstaklega á illgresi sem af frjálshyggjunni stafar, svo sem trú á óheftan og siðspillandi markað, peninga og ójöfnuð.

Þannig varar Francis páfi við sjálfselsku, græðgi neyslusamfélagsins og eigingirni sem hann segir grafa undan samúð með öðrum, ekki síst fátækum og útskúfuðum.

Páfinn segir efnahagskerfi nútímans óréttlátt frá rótum, enda byggt á “alræði markaðsafla, þar sem fjármálabrask, víðtæk spilling og skattaundanskot eru allsráðandi”, svo vísað sé orðrétt í rit páfa.

Brauðmylsnukenning frjálshyggjunnar fær einnig beinskeytta afgreiðslu hjá páfa:

“Sumir eru enn að verja brauðmylsnukenninguna („trickle-down theory„), sem gengur út frá því að hagvöxtur muni, fyrir tilstilli óhefts markaðar, færa meira réttlæti og bræðralag öllum til handa, ekki bara þeim ríku. Sú skoðun, sem aldrei hefur verið sönnuð með staðreyndum, endurspeglar einfeldningslega trú á góðsemi þeirra sem hafa völdin í efnahagslífinu og á virkni ríkjandi efnahagsskipanar, sem talin er allt að því heilög”… „Á meðan sitja þeir fátæku og útskúfuðu óbættir hjá garði“, segir páfi.

Þarna tekur páfinn kröftuglega til orða og talar skýrt. Hann varar við frjálshyggjuboðskapnum.

Það vantar ekkert nema að páfi bendi líka á þá lygaflækju sem vúdú-hagfræði Arthurs Laffers er!

Francis páfi ætlar greinilega að marka kristnu kirkjunni skýra sýn og tala máli samúðar, hjálpsemi og góðmennsku. Hann boðar “byltingu góðmennskunar” (“revolution of tenderness”).

Þó páfinn leggi áherslu á að dyr kirkjunnar séu öllum opnar, þá er augljóslega ekki pláss fyrir hugmyndafræði frjálshyggjunnar né áróður Hólmsteina fyrir dimmum boðskap Ayn Rand í þessari framtíðarsýn hans.

Páfinn í Róm hefur vissulega kveðið sér hljóðs á óvenjulegan og tímabæran hátt.

Víst er að boðskapur hans má sín mikils gegn myrkraöflum frjálshyggjunnar á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Þetta boðar því tímamót! Frjálshyggjumenn munu nú væntanlega skríða í felur og láta lítt á sér kræla í framtíðinni.

 

Síðasti pistill: Skuldir ríkja – Ísland í sjötta sæti í Evrópu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.11.2013 - 22:57 - FB ummæli ()

Skuldir ríkja – Ísland í sjötta sæti í Evrópu

Um daginn skrifaði ég um það hvernig Evrópuríkin juku skuldir hins opinbera í kreppunni. Írland átti metið, en Ísland var í öðru sæti.

Hér að neðan má sjá hver skuldastaða evrópskra ríkja var í lok árs 2012.

Skuldir ríkja 2012

Heildarskuldir hins opinbera sem % af landsframleiðslu, árið 2012 ((heildarskuldir ríkisins og sveitarfélaga – Heimild: Eurostat)

 

Ísland er í sjötta sæti, næst Belgíu, Frakklandi og Bretlandi.

Skuldugustu ríkin eru hins vegar Grikkland, Ítalía, Portúgal og Írland, sem öll eru með talsvert meiri skuldir en Ísland. Utan Evrópu eru Japan og Bandaríkin einnig með meiri skuldir en Ísland.

Miðað við það sem gerðist hér fyrir hrun og hrunið sjálft sleppur Ísland betur en búast mátti við, hvað skuldir ríkisins varðar.

Ef íslensku bönkunum hefði verið bjargað með lánsfé, líkt og þeim írsku, hefðu skuldir Íslands orðið mun meiri og erfiðleikarnir stærri.

Raunar sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri, á ráðstefnu í Hörpu í morgun, að Ísland hefði orðið gjaldþrota ef það hefði verið gert.

Ég er því sammála Geir Haarde þegar hann segir að það hafi verið farsælt að bönkunum var ekki bjargað með enn meira lánsfé. Það var raunar ekki framkvæmanlegur valkostur að bjarga þeim, eins og Már Guðmundsson bendir á.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur hins vegar í nýlegum fyrirlestrum og bloggi harmað það, að ekki hafi fengist lánsfé frá Seðlabanka Bandaríkjanna til að bjarga íslensku bönkunum. Ef honum hefði orðið að ósk sinni væri staða Íslands mun verri en hún er í dag.

Raunar reyndi Seðlabanki Íslands undir forystu Davíðs Oddssonar að bjarga Glitni með yfirtöku – en það mistókst.

Erlendir seðlabankastjórar höfðu sem betur fer vit fyrir íslenskum seðlabankastjórum og neituðu þeim um frekari lán. Fyrir vikið er íslenska ríkið nú með minni skuldir en ella hefði orðið. Nóg varð það samt, ekki síst vegna gjaldþrots Seðlabanka Íslands.

Þrátt fyrir sambærilegar hremmingar Íra og Íslendinga fór Seðlabanki Írlands ekki á hausinn, eins og sá íslenski.

Það er ein af mörgum lexíum hrunsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.11.2013 - 12:12 - FB ummæli ()

Svona sigldu Ísland og Írland að hruni

Á morgun fjalla seðlabankamenn Íslands og Írlands um lærdóma af fjármálakreppu landanna. Það verður fróðlegt.

Þetta eru þau tvö vestrænu lönd sem sigldu sér inn í stærstu braskbólur sögunnar á árunum fram að kreppu. Þegar bólan sprakk varð fallið því stórt hjá báðum þjóðum.

Þetta kom fram í gríðarlegri skuldasöfnun beggja þjóðarbúa á bóluárunum. Erlendar skuldir jukust hraðar en í nokkru öðru landi í sögunni, að mati Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff. Þessa þróun má sjá á myndinni hér að neðan.

Slide2

Bólan byrjaði fyrr á Írlandi en hún gekk örar fyrir sig á Íslandi. Í báðum löndunum fóru heildarskuldir þjóðarbúsins upp í svipaðar hæðir. En ef hraði í skuldasöfnun þýðir meiri áhætta, þá var framferðið glannalegra á Íslandi.

Bólan á Írlandi var að mestu leyti húsnæðisbóla, en hér á landi var þetta meira braskbóla fyrirtækjamanna, þó húsnæðisbóla væri einnig hluti heildarmyndarinnar (sjá hér).

Eins og ég sýndi í síðasta pistli, þá enduðu Írar með meiri skuldir hins opinbera en Ísland, einkum vegna þess að bönkunum þar var bjargað.

Stærsta lexían af hruninu í þessum báðum löndum er sú, að óheft frelsi á fjármálamarkaði sem leiðir til óhóflegrar skuldasöfnunar felur í sér gríðarlegar áhættur fyrir þjóðir.

Reglun og aðhald gagnvart fjármálamörkuðum og varkára peningastefnu þarf til að ekki fari illa.

 

Síðasti pistill: Hvaða ríki juku skuldir mest í kreppunni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.11.2013 - 23:26 - FB ummæli ()

Hvaða ríki juku skuldir mest í kreppunni?

Alvanalegt er að skuldir hins opinbera aukast mikið í fjármálakreppum. Það sýna rannsóknir.

Almennt mátti búast við að þau ríki  sem verst héldu á málum sínum á bóluárunum í aðdraganda fjármálakreppunnar myndu enda uppi með mesta skuldaaukningu.

Ísland og Írland voru með stærstu bóluhagkerfin. Þar var ofþenslan mest í aðdraganda kreppunnar og fallið hæst. Þess vegna var við því að búast að skuldir hins opinbera í þessum löndum myndu aukast meira en í öðrum kreppulöndum.

Þannig var það einmitt, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Skuldir írska ríkisins jukust langmest, en Ísland er í öðru sæti. Svo komu Grikkland, Portúgal, Króatía, Bretland og Spánn.

Aukning skulda ríkisins til 2012

Aukning heildarskulda hins opinbera í Evrópu, frá 2005 til 2012 (í prósentustigum). Heimild: Eurostat (Ath! Þetta eru skuldir ríkisins en ekki skuldir heimila eða fyrirtækja.)

 

Raunar hefðu skuldir Íslands átt að aukast mest, því óreiðan og áhætturnar sem hér voru teknar á árunum til 2008 voru meiri en á Írlandi. Skuldir ríkisins urðu hins vegar stærri þar vegna þess að stjórnvöld björguðu bönkunum – og tóku þar með á sig hlutfallslega meiri skuldir en íslenska ríkið.

Skuldir íslenska ríkisins náðu hámarki árið 2011 (tæplega 100% af landsframleiðslu) og lækkuðu í 96% árið 2012. Skuldir Íra eru enn að aukast og eru nú um 117% af landsframleiðslu.

Íslenska ríkið slapp því betur frá skuldafeninu en það írska.

 

Hvað ef íslensku bönkunum hefði verið bjargað?

 

Menn geta velt fyrir sér hvað hefði gerst ef Ísland hefði fengið aðstoð til að bjarga bönkunum, eins og gerðist á Írandi. Ef bandaríski seðlabankinn hefði lánað Davíð Oddssyni risalán eins og um var beðið.

Þá hefðu erlendar skuldir íslenska ríkisins væntanlega orðið mun meiri en á Írlandi – og líklega óviðráðanlegar. Við hefðum orðið fangar mun verri skuldafjötra til langrar framtíðar. Hugsanlega hefðu bankarnir fallið þrátt fyrir slík björgunarlán og lánsféð tapast.

Sem betur fer höfðu erlendir seðlabankastjórar vit fyrir Íslendingum og neituðu að lána þeim til að bjarga íslensku bönkunum. Mat þeirra allra var að þessum bönkum væri ekki bjargandi, enda stærð þeirra um tíföld landsframleiðsla Íslands. Þeir voru hlutfallslega mun stærri en írsku bankarnir.

Það var því lán í óláni að beiðni Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um risalán var hafnað – af öllum sem leitað var til.

 

Síðasti pistill: Frá Eimreiðinni til öfgastefnu Ayn Rand

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.11.2013 - 23:06 - FB ummæli ()

Frá Eimreiðinni til öfgastefnu Ayn Rand

Íslenskir frjálshyggjumenn, sem lengi hafa lotið forystu Hannesar Hólmsteins og Eimreiðarhóps Sjálfstæðisflokksins, neita að draga nokkurn lærdóm af hruninu og hlut frjálshyggjunnar í aðdraganda þess.

Í staðinn brýna þeir sverð og auka róttækni boðskapar síns. Kjörorðið er væntanlega “sókn er besta vörnin”!

Auk þess að vera mikilvirkir í endurskrift sögunnar, þar sem bæði frjálshyggjan og Davíð Oddsson eru hreinsuð af sinni ábyrgð á bólunni og hruninu, þá hafa Eimreiðarmenn sótt á ný mið fyrir öfgaboðskap sinn.

Skáldsögur Ayn Rand eru nýja meðalið. Nokkrir frjálshyggjumenn endurreistu Almenna bókafélagið h.f. til að annast útgáfur þessara áróðursrita, ásamt öðru. Eigendur og stjórnendur Almenna bókafélagsins eru Hannes Hólmsteinn, Baldur Guðlaugsson, Kjartan Gunnarsson og Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í London.

Það hefur vakið furðu margra “venjulegra” Sjálfstæðismanna að frjálshyggjumenn skuli leggjast í útbreiðslu á ritum Ayn Rand, vegna þeirrar ofurmennadýrkunar og auðmannaþjónkunnar sem þar er að finna. Mörgum blöskrar líka trúleysið og harðneskjan sem Ayn Rand boðar.

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn” hafði gjarnan kristilegt siðgæði, samúð og hófsama markaðshyggju í hávegum. Í hinum “nýja Sjálfstæðisflokki” Eimreiðarmanna og Hólmsteina er það óheft markaðshyggja, sjálfselska, græðgi og auðmannadekur sem ráða för.

Bókaútgáfu þessara frjálshyggjumanna ber að skoða í því ljósi, að þeir eru að reyna að færa Sjálfstæðisflokkinn sífellt lengra til hægri öfganna sem mestir tíðkast í Bandaríkjunum. Vúdú-hagfræði Laffers er hluti af þessari vegferð allri.

Spurning er hvort þessi útgáfustarfsemi umræddra frjálshyggjumanna njóti styrkja frá Cato Institute í Bandaríkjunum, eða frá öðrum slíkum áróðursveitum hægri róttæklinga?

Amerískar áróðursveitur eru sagðar dreifa ókeypis allt að 400 þúsund eintökum af bókum Ayn Rand þar í landi á ári hverju.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.11.2013 - 21:03 - FB ummæli ()

Styrmir svaf á vaktinni

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var lengi helsti stjórnmálagreinandi landsins, í krafti stöðu sinnar.

Hann lagði línur fyrir flokkinn og sagði almenningi hvað væri rétt og rangt – og einkum að öllum væri hollast að lúta forystu Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu.

Nú gætir mikils óþols hjá Styrmi vegna slæmrar stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Nýliðið prófkjör flokksins var algert klúður, bæði vegna lítils framboðs af álitlegu fólki almennt og ekki síður vegna lélegs árangurs kvenna, sem margar hverjar voru álitlegustu frambjóðendurnir.

Sú sem fremst var í hópi kvenna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, flýr nú af velli. Þar er skarð fyrir skildi í flokknum, vegna þess að hún var ein af örfáum þar á bæ sem sinnti velferðarmálum af einlægni.

En aftur að Styrmi. Eftir að niðurstaða lá fyrir í Reykjavík kallaði hann strax eftir  umræðu í Sjálfstæðisflokknum um slæma stöðu í Reykjavík. Vildi opinn fund í Valhöll um hvers vegna frambjóðendur flokksins eru lítt boðlegir. Davíð Oddsson kallar prófkjörið „gagnslaust“, enda nýr leiðtogi listans hlynntur ESB-aðild.

Slíkur opinn fundur myndi án efa hafa mikið skemmtigildi fyrir þá sem hafa gaman að kaldhæðni.

Í dag fárast Styrmir svo yfir því að Dagur B. Eggertsson sé að uppskera langmestan stuðning í embætti borgarstjóra. Styrmir spyr hvað í störfum Sjálfstæðisflokksins hafi valdið þessari stöðu, sem sé niðurlægjandi fyrir flokkinn (sjá hér).

Góð spurning, en Styrmir á að vita svarið.

 

Það sem gerist meðan Styrmir svaf

Ástæða virðist því til að minna Styrmi á hvers vegna fylgi Sjálfstæðisflokksins er almennt mun minna nú en á árum áður og hvers vegna staðan í Reykjavík er sérstaklega slæm. Ég hef raunar áður bent á þetta, meðal annars í ritdómi um bók Styrmis um deilur og átök í Sjálfstæðisflokknum (hér og hér).

Eftir að Eimreiðarmenn, með róttæklinginn Hannes Hólmstein í forystu, tóku yfir flokkinn og sveigðu hann á tíma Davíðs í átt róttækrar frjálshyggju að hætti Repúblikana í Bandaríkjunum, þá hurfu forsendurnar fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð stuðningi meira en 20-30 prósenta kjósenda. Jafnvel þó reynt sé að fela þessa róttæku frjálshyggju þá getur slíkur flokkur ekki höfðað til stærri hluta íslenskra kjósenda.

Í Reykjavík mætti auðvitað rifja upp skelfilegan feril Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórninni, frá því þeir rændu þar völdum með óábyrgum gylliboðum til Ólafs F. Magnússonar, sem þá var í veikindaleyfi. Þeir notuðu hann á ósvífinn og siðlausan hátt til að kljúfa sitjandi meirihluta.

Rúmum sex mánuðum síðar slátruðu Sjálfstæðismenn Ólafi, einnig á einkar ósmekklegar hátt. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sagði einmitt frá þessu fyrr á þessu ári og lýsti vanþóknun sinni á framferði félaga sinna í Sjálfstæðisflokknum.

Svo þegar Hanna Birna hafði komist til valda, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði losað sig við Ólaf F. Magnússon, þá sagði hún fyrir kosningar að staða Orkuveitunnar væri með ágætum og ekki þyrfti að hækka notendagjöldin. Orkuveitan var þá á hraðferð í risagjaldþrot!

Þetta eru aðeins tvö dæmi af mörgum sem skýra hvers vegna mörgum þykir nú lítið til vinnubragða Sjálfstæðismanna koma.

Styrmir virðist hafa sofið á vaktinni, ef allt þetta hefur farið framhjá honum. Ekki hvarflar að mér að halda að hann telji að svona framferði sé í lagi, eða  geti gengið án þess að fjöldi kjósenda hverfi á braut!

En vonandi verður Styrmi að ósk sinni um opinn fund í Valhöll um vanda og vonleysi Sjálfstæðismanna.

 

Síðasti pistill: Dagur er risinn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.11.2013 - 10:11 - FB ummæli ()

Dagur er risinn

Hún er athyglisverð nýjasta könnunin á fylgi flokka í Reykjavík (hér).

Björt framtíð, sem verður vettvangur þess sem eftir lifir af Besta flokknum, er með mest fylgi. Síðan koma Sjálfstæðisflokkur og Samfylking.

En þegar spurt er hvern fólk vilji helst fá sem næsta borgarstjóra er Dagur B. Eggertsson með yfirburði. Um þriðjungur kjósenda styður Dag. Sá sem næstur kemur er Ísfirðingurinn Halldór Halldórsson í Sjálfstæðisflokki, með aðeins um 12% atkvæða.

Dagur er að rísa í pólitíkinni.

Hann hefur verið lykilmaður í borgarstjórn Besta flokksins og Samfylkingar. Haft forystu um mörg bestu málin. Samt hefur Dagur haldið sig fjarri sviðsljósinu og lagt áherslu á verkin.

Það virðist sem uppskerutími Dags geti nú verið kominn. Fólk kann greinilega að meta að hann hefur unnið í kyrrþey og látið verkin tala.

Fylgi hans er mun meira en fylgi Samfylkingarinnar.

Það verður athyglisvert að fylgjast með framhaldinu í borginni.

 

Síðasti pistill: Djarfur áróður SA gegn kauphækkunum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.11.2013 - 17:07 - FB ummæli ()

Djarfur áróður SA gegn kauphækkun

Samtök atvinnulífsins og fleiri hafa barist gegn alvöru kauphækkunum til almennings á síðustu misserum.

Þau vilja festa Íslendinga í láglaunafari kreppunnar. Þetta hefur ítrekað komið fram og nú síðast í rándýru áróðursmyndbandi, sem fer fram með ævintýraleg ósannindi um kaupmáttarþróun á Íslandi á síðustu sjö árum.

Þar er t.d. sagt að 2% kauphækkun muni bæta kjör heimilanna en meiri kauphækkun muni engu skila, eða minna en engu! Í reynd er það svo að 2% kauphækkun þýðir kaupmáttarrýrnum, því Hagstofan spáir 3,6% verðbólgu næsta árið. Kaupmáttarrýrnum heimilanna bætir ekki kjör þeirra!

Þetta er gróft hjá SA.

En þeir bæta um betur í ósannindum.

Sagt er í myndbandinu að kaup hafi hækkað meira hér en í grannríkjunum á síðustu sjö árum, en kaupmáttur sé samt lægri en var í byrjun tímabilsins. Síðan er það útskýrt í myndbandinu svona:

“Ástæða er í raun og veru einföld. Of miklar launahækkanir hafa valdið verðbólgu sem hefur étið upp ávinninginn.”

Þetta er kolrangt! Ástæða þess að kaupmáttur er nú lægri en hann var árið 2006 er hrunið 2008 til 2009, þegar gengi krónunnar féll um nærri 50% og orsakaði verðbólgubylgju sem skerti kaupmáttinn (og jók skuldirnar).

Kaupmáttur hefur í reynd aukist mun minna en framleiðnin eftir hrun (sjá hér).

Það voru sem sagt ekki kauphækkanir sem ollu þessari verðbólgu – heldur gengisfellingin risastóra í hruninu.

Hvernig dettur mönnum í hug að slá fram slíkum ósannindum, eins og SA gera? ASÍ hefur þegar bent á að þetta er sögufölsun.

En ég myndi bæta við, að þetta er ótrúlega ósvífin sögufölsun.

Langt er nú seilst til að halda Íslendingum á láglaunastiginu!

 

Síðasti pistill: Leiguíbúðir:  Dögun í Reykjavík?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.11.2013 - 14:01 - FB ummæli ()

Leiguíbúðir: Dögun í Reykjavík?

Það er athyglisvert að lesa um nýja áætlun Reykjavíkurborgar um mikla fjölgun leiguíbúða á viðráðanlegu verði á næstu misserum (sjá hér).

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, fer fyrir verkefninu, sem sækir fyrirmyndir til hinna Norðurlandanna. Dagur hefur komið að hverju góðu verkefninu á fætur öðru á síðustu misserum.

Hann lætur verkin tala.

Hugmyndin felur í sér að Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar ehf. byggi 400 til 800 íbúðir á næstu fimm til tíu árum. Borgin leggi til allt að 10 prósent af framkvæmdakostnaði í eiginfjárframlag, lóðir og gatnagerðargjöld. Það heldur kostnaði niðri.

Meðal nýjunga er að Félagsbústaðir færu í samstarf við önnur leigufélög, svo sem Búseta, leigufélög námsmanna og jafnvel verkalýðshreyfinguna. Félagsbústaðir yrðu því kjölfestan í nýrri tegund af leigufélagi. Í sama húsi yrðu því íbúðir leigðar út af ólíkum leigufélögum til ólíkra hópa.

Þarna yrði boðið upp á hagstætt leiguhúsnæði fyrir fólk, bæði í lægri og milli tekjuhópum.

Þetta er athyglisverð og tímabær hugmynd, sem tekur á þeim vanda sem hefur hlaðist upp á leigumarkaði undanfarið, með of litlu framboði og of háu verði leiguhúsnæðis.

Vonandi er þetta til marks um nýja dagrenningu á leigumarkaði í Reykjavík.

 

Síðasti pistill: Hví er svo mikil andstaða við skuldalækkun?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.11.2013 - 10:37 - FB ummæli ()

Hví er svo mikil andstaða við skuldalækkun?

Það er talsvert undrunarefni hversu mikil andstaða er gegn lækkun skulda heimilanna, bæði meðal stjórnarandstöðufólks og í Sjálfstæðisflokknum.

Fólk sem ætti að fagna öllum möguleikum á lækkun skulda heimilanna fer stundum offari í gagnrýni sinni á hugmynd Framsóknar.

Ég veit ekki hver útfærslan verður, né hvort hún gengur upp. En ef það tekst að fjármagna skuldaleiðréttinguna á þann máta sem Framsókn lagði upp með, þá verður það alveg frábært fyrir heimilin og þjóðarbúið.

Hvers vegna ekki að gefa því séns?

Lækkun um 200 milljarða er ekkert svo gríðarlega mikil, í samhengi þess sem gerst hefur. Skuldabyrði heimilanna lækkaði jafnvel meira en það á síðasta kjörtímabili – bæði vegna afskrifta og hækkunar vaxtabóta.

Skuldir fyrirtækja hafa verið afskrifaðar um margfalt meira. Margfalt! Pælið í því!

Auðvitað væri það slæmt fyrir pólitíska keppinauta Framsóknar ef áætlunin gengur upp á besta veg. Þá mun Framsókn njóta þess. En skiptir þó ekki meira máli að heimilin og þjóðarbúið njóta góðs af?

Breytingar á verðtryggingunni geta líka verið mikilvægt hagsmunamál fyrir heimilin. Vonandi kemur eitthvað gott út úr því.

Ég held að menn ættu ekki að vera svona neikvæðir gagnvart mögulegum hagsbótum fyrir heimilin.

Manni finnst stundum eins og hér á landi sé engin trú eða sannfæring fyrir því að setja megi heimilin í forgang. Það sé endalaust hægt að ganga í skrokk á almenningi, bæði með lágum launum, óhóflegri vinnuþrælkun og skuldabyrði.

Hægri menn setji alltaf fyrirtæki og fjármálamenn í forgang – yfirstéttina.

En bæði miðju og vinstri menn ættu að setja heimili almennings í forgang.

Þeim hættir sumum til að gleyma því.

 

Síðasti pistill: Markvörðurinn bjargaði okkur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.11.2013 - 21:11 - FB ummæli ()

Markvörðurinn bjargaði okkur

Ég horfði á leikinn með öðru auganu.

Var auðvitað að vona að okkar menn gætu komist áfram.

En munur liðanna var of mikill, alveg frá byrjun. Fyrsta mark Króata var búið að liggja lengi í loftinu þegar það kom. Vörnin okkar megin var slakari nú en á Laugardalsvellinum.

Íslenski markvörðurinn, Hannes Þór Halldórsson, var hins vegar frábær.

Raunar bjargaði hann okkur frá niðurlægingu.

Það var þó gott að komast þetta langt. Það hefur verið gaman að sjá hversu góðum árangri Lars þjálfari hefur náð með þetta lið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.11.2013 - 10:24 - FB ummæli ()

Kaupið mun hækka um 6% þann 1. janúar nk.

Ég hef verið talsmaður þess að nauðsynlegt sé að koma Íslandi upp úr láglaunafari kreppunnar.

Hér hrapaði kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um hátt í 30% á árunum 2008 og 2009, með hruni krónunnar, auknu atvinnuleysi og aukinni skuldabyrði. Það var Evrópumet í kjaraskerðingu.

Við höfum bara náð hluta af kjaraskerðingunni til baka. Of litlum hluta.

Þess vegna er einkaneysla og eftirspurn í hagkerfinu of lítil. Það heldur öllu í hægagangi. Þið sjáið það í verslununum. Þar liggur dauð hönd yfir öllu.

Það er alltaf mikilvægt að auka eftirspurn neytenda til að koma þjóðum upp úr kreppu, því það skapar fyrirtækjum verkefni og kemur hjólum atvinnulífsins á ferð. Hagvöxtur eykst, eins og gerðist árið 2011, þegar kaupmáttur jókst um nálægt 3% með um 6% kauphækkun.

Hvers vegna segi ég að kaupið muni nú hækka um 6% í komandi kjarasamningum?

Jú, það er byggt inn í forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Þar er ein af forsendunum fyrir tekjuáætlun ríkisins sú, að kaupmáttur launa aukist um 2,5% á næsta ári.

Hins vegar er gert ráð fyrir 3,6% verðbólgu.

Til að ná 2,5% aukningu kaupmáttar þarf að hækka nafnlaunin um nálægt 6%.

Þar hafið þið það: Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpi sínu.

Sumir biðja nú um minni kauphækkun. Til dæmis tala atvinnurekendur (SA) og seðlabankastjóri um hámark 2-2,5% kauphækkun. Það myndi þýða lækkun kaupmáttar í 3,6% verðbólgu.

Ég hef meiri trú á að forsendur ríkisstjórnarinnar gangi eftir og kaupmátturinn aukist um a.m.k. 2,5%, sem gerist með um 6% kauphækkun.

Atvinnurekendur munu reyna að láta hækkunina koma tvískipta, helming 1, janúar og rest í lok samningstímans (sem verður eitt ár).

Launþegahreyfingin getur varla verið þekkt fyrir annað en að sækja a.m.k. 6% hækkun strax þann 1. janúar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.11.2013 - 10:19 - FB ummæli ()

Heimskautarefur stýrir hænsnabúi Valhallar

Fyrir þá sem hafa gaman að kaldhæðni eru úrslit í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík nokkurt skemmtiefni.

Frambjóðandi frá Ísafirði, sem er næsti bær við Nuuk á Grænlandi, skrapp í bæinn og vann fyrsta sætið – með naumindum þó. Halldór Halldórsson var bæjarstjóri á Ísafirði og nýlega formaður Samtaka sveitarfélaga, eins og Gamli Góði Villi (sem þó reyndist illa sem borgarstjóri).

Halldór kemur sem sagt úr byggðum refanna.

Konur með nútímalegri viðhorf, sem boðuðu breytta starfshætti í Sjálfstæðisflokknum, röðuðust í neðstu virku sætin á framboðslistanum. Það var lítill áhugi á þeim í Valhöllu. Menn vilja frekar gömlu (góðu) vinnubrögðin!

Samt er kosning Halldórs raunar mjög veik. Hann hlaut aðeins um 1800 atkvæði, af um 5000 greiddum atkvæðum. Það eru einungis um 8% kosningabærra fylgjenda flokksins (um 20.600) sem kusu hann, því þátttaka var lítil!

Þó er skondið að Halldór Halldórsson er með þá sérkennilegu afstöðu að vilja klára aðildarviðræður við ESB. Sumir segja að hann styðji jafnvel aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ja, hvað segir Hádegismóri nú? Og allir hinir forheimskandi og frussandi ESB andstæðingarnir í Sjálfstæðisflokknum?

Hvað segja til dæmis vaktstjórarnir á Evrópuvakt Hannesar Hólmsteins (Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason)? Eða fólkið í Heimssýn? Ætlar það ágæta fólk að viðurkenna að þeirra sýn var heimsk sýn?

Hætt er við að ófriðlegt verði í útibúi Valhallar við Tjörnina…

Þau Dagur og Nótt sem leiða hin helstu framboðin í borginni hljóta að vera í skýjunum.

 

Síðasti pistill: Óábyrg stjórnun íslenskra fyrirtækja

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar