Mánudagur 2.7.2012 - 12:03 - FB ummæli ()

Met í aukningu kaupmáttar

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor sagði um daginn að kreppan væri búin og góðæri hafið. Hagvöxtur væri hér einn sá mesti sem mældist á Vesturlöndum og atvinnuleysi væri minnkandi. Menn eru enn að melta þetta.

Þetta kom reyndar líka fram í skýrslu sem ég og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur birtum í apríl síðastliðnum (Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar). Þar sýndum við margar vísbendingar um að Ísland hefði náð botni samdráttarins um mitt ár 2010 og uppsveifla hafist á seinni hluta ársins, fyrst rólega en síðan með mjög vaxandi hraða á árinu 2011. Áfram heldur uppsveiflan á þessu ári.

Þetta er auðvitað mjög uppörvandi fyrir Íslendinga, ekki síst vegna þess að margar aðrar þjóðir sem lentu illa í fjármálakreppunni eru enn við botninn eða jafnvel enn á leiðinni niður, t.d. Grikkir, Portúgalir, Írar og Spánverjar.

Hér eru nýjustu tölur Hagstofunnar um kaupmáttaraukningu launavísitölunnar. Tölurnar eru 12 mánaða hækkun kaupmáttarins frá maí til maí, fyrir tímabilið frá 1990 til 2012.

Það er sérstaklega athyglisvert að kaupmáttaraukningin síðustu 12 mánuðina er meiri en verið hefur nokkurt ár síðan 1998, þ.e. kaupmáttaraukningin nú er sú mesta sem verið hefur sl. 14 ár.

Það er einungis eitt ár síðan 1990 sem var með meiri kaupmáttaraukningu en síðasta árið, þ.e. árið 1998 (5,6% á móti 5,3% núna). Á “góðærisárinu 2007” var meira að segja ívið minni kaupmáttaraukning, þó litlu muni.

Þetta er auðvitað gott, þó það þýði ekki að kreppan sé að fullu að baki. Við erum enn að glíma við afleiðingar mistaka sem gerð voru fyrir hrun, ekki síst hina gríðarlega skuldasöfnun sem varð hér í kjölfar einkavæðingar bankanna og í stjórnleysi bóluhagkerfisins eftir aldamót.

Sú arfleifð mun því miður fylgja okkur inn í framtíðina en þar eru sem betur fer líka að koma fram merki um árangur. Við komum betur að því síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 1.7.2012 - 14:02 - FB ummæli ()

Flétta Ólafs Ragnars

Eftir að Ólafur Ragnar hefur nú lokið hringferð sinni um hið pólitíska litróf (sjá Forseti litrófsins) þá er fróðlegt að kryfja til mergjar hvernig hann náði hinu ómögulega.

Hann byrjaði sem forseti með stuðningi vinstri manna en hefur nú sitt fimmta kjörtímabil með mestum stuðningi sjálfstæðismanna. Hann skipti um stuðningsmannahóp!

Það sem gerðist í kosningunum núna var þetta. Ólafur hafði dregið staðfestingu framboðs síns úr hófi í þeirri von að ekki kæmu fram alvöru frambjóðendur. Það brást á endanum því framboð Þóru Arnórsdóttur var alvöru ógn fyrir Ólaf. Hann þurfti að fara í alvöru slag.

Ólafur hefur náttúrulega lesið landslagið á kjósendamarkaðinum af fagmennsku og þar sá hann að hægra fylgið var á lausu. Það var enginn sterkur hægri frambjóðandi í boði. Hann þurfti því einungis að tryggja sér stuðning hægri manna til að ná meirihluta.

Það gerði hann með því að þykjast vera í stjórnarandstöðu annars vegar og hins vegar með yfirlýsingu sinni um andstöðu við ESB aðild. Það voru sterk skilaboð til hægri manna, ekki síst í Sjálfstæðisflokki, þó efnislega ættu þau alla jafna ekki að skipta máli í forsetakosningum. Icesave atkvæðagreiðslurnar hjálpuðu honum við að raungera fléttuna.

En þessu til viðbótar króaði hann Þóru af gagnvart hægra fylginu með því að hengja kröftuglega á hana stimpil Samfylkingarinnar og tengja hana við ESB aðild, með heldur ósvífnum hætti. Þetta tókst líka og þar með var Þóra komin í vörn og átti lítil sóknarfæri gagnvart hægra fylginu. Hún nær í raun furðu miklu fylgi miðað við þetta upplegg.

Ólafur Ragnar spilaði þannig á fylgið, rak það í réttirnar og dró hægri menn í sinn dilk. Er hann þá orðinn  sjálfstæðismaður núna?

Nei, ég held ekki.

Hann mun halda sinni stefnu, ÓRG-stefnunni. Sú stefna snýst um tryggja að pólitískur ferill hans verði einstakur í sögu þjóðarinnar, óháð flokkum, stjórnum og stjórnarandstöðum. Og það hefur honum nú þegar tekist. Hversu langt hann muni ganga í að grípa inn í störf Alþingis á auðvitað eftir að koma í ljós, en hann er til alls vís.

Í sjónvarpsumræðum kvöldið fyrir kjördag minnti Ólafur Ragnar á að hann hefði vakið athygli á því í miðju góðærinu að fátækt væri alvöru vandamál fyrir hluta þjóðarinnar. Hann sagðist enn hafa áhyggjur af aðstæðum fátækra.

Það er hins vegar ekki áhugamál þeirra Sjálfstæðismanna sem fögnuðu kjöri Ólafs í Valhöll. Þeir hafa bara áhyggjur af hag auðmanna, sem þeir vilja umfram allt sem bestan. Ólafur Ragnar mun því ekki festast í vasa þeirra frekar en annarra.

Ólafur Ragnar telur sig sennilega of stóran til að vera bara hægri eða vinstri mann. Hann vill vera forseti hins pólitíska litrófs. Það hefur honum líka tekist á vissan hátt.

Í dag sagði hann á Bessastöðum að hann vildi blanda sér í þjóðmáladeilurnar í auknum mæli í framhaldinu. Taka þátt í samfélagslegu samræðunni og leiða mál til lykta með þjóðinni, sagði hann. Efla með því lýðræðið.

Það gæti verið stórbrotið prógram! Gæti til dæmis fært völdin í þjóðfélaginu frá stjórnmálum og auðmönnum til almennings.

Sennilega munu hægri stjórnmálamenn nú verða æstir í að skilgreina ramma stjórnarskrárinnar um hlutverk forsetans mjög þröngt – í flýti…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.6.2012 - 10:54 - FB ummæli ()

Bjarni Benediktsson sér árangur

Það eru tíðindi að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skuli hafa viðurkennt í gær að Ísland sé að ná árangri. Hagvöxtur sé vaxandi og atvinna að aukast.

Í reynd eru þetta stór tímamót. Eftir allar úrtölurnar og bölmóðinn sem frá honum og félögum hans hefur komið.

Þeir nánast froðufelldu yfir hverju einasta úrræði sem gripið var til í björgunaraðgerðum eftir frjálshyggjuhrunið. Lögðu steina í götu stjórnvalda.

Þeir sögðu útilokað að nokkur árangur myndi nást og töluðu um skemmdarverk ríkisstjórnarinnar. SA, Viðskiptaráð og Morgunblaðið sungu með.

Þess var þó ekki að vænta að Bjarni myndi hæla ríkisstjórninni fyrir árangurinn, líkt og margir helstu hagspekingar heimsins gera nú.

Bjarni segir árangurinn einkum vera vegna aukinna makrílveiða!

Hann hefði kanski bara átt að segja að hagvöxturinn væri vegna þess að krakkar um land allt hefðu veitt fleiri marhnúta á bryggjusporðum!

Sólin skín sem sagt á Jóhönnu, Steingrím og félaga, eftir úrhelli og snjóstorma síðustu ára.

Þetta yfirklór Bjarna kitlar sjálfsagt í þeim hláturtaugarnar…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 29.6.2012 - 01:00 - FB ummæli ()

Forseti litrófsins

Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega verið athyglisverður og áhrifamikill forseti.

Hann hefur þegar skapað sér sess í sögunni með langri valdasetu á Bessastöðum og vasklegri framgöngu á innlendum og erlendum vettvangi.

Hann byrjaði í pólitík sem umbótamaður í Framsóknarflokknum á sjöunda áratugnum, en umbótavilji hans varð snemma of mikill til að rúmast innan þess flokks.

Þá sveigði hann sig til vinstri og gekk til liðs við Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Síðar fór hann í Alþýðubandalagið og varð loks formaður þess á árunum 1987 til 1995.

Þaðan fór hann í forsetaembættið og varð fyrsti sósíalistinn til að gegna því. Hægri menn voru með böggum hildar yfir uppákomunni!

Nú býður hann sig fram í fimmta skiptið og virðist ætla að ná kosningu – og þá ekki síst með stuðningi hægri manna!

Hann er þá á sinn hátt búin að fara hringinn í hinu pólitíska litrófi, ef þetta gengur eftir. Það þarf mikla pólitíska útsjónarsemi til að ná slíkum árangri. Svona ferð er bara fyrir pólitíska töframenn!

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Ólafs Ragnars, eða a.m.k. frá því við vorum samstarfsmenn í háskólanum upp úr 1980. Hann er eldklár og hefur góða kímnigáfu.

Mitt fyrsta verk í HÍ var reyndar að taka við kennslu í námskeiði um þjóðfélagsfræði í viðskiptafræðideild háskólans, sem Ólafur hafði kennt. Hann var kominn í full mikið annríki í pólitíkinni, þegar þarna var komið sögu.

Í gær skrifaði ég á Eyjuna að Ólafur Ragnar hefði gert alvarleg mistök þegar hann vísaði síðasta Icesave samningnum í þjóðaratkvæði. Það mátti verja það að greiða atkvæði um fyrri samninginn, en hitt var hættulegt glapræði.

Auðvitað er hann líka orðinn full hofmóðugur af langri valdasetu og auðvitað sagði hann á nýársdag að hann ætlaði að hætta og auðvitað daðraði hann of mikið við útrásarliðið.

En Ólafur Ragnar var samt ekki mesta klappstýra útrásarinnar, eins og Hannes Hólmsteinn titlaði hann strax eftir hrun. Það er Hannes sem öðrum fremur verðskuldar þann titil, sjálfur grillmeistari græðginnar.

Þrátt fyrir þessa bresti verður það ekki tekið af Ólafi Ragnari að hann er afar öflugur talsmaður Íslands erlendis. Það er okkur mikilvægt.

En þeir hægri menn sem vilja kjósa hann nú geta ekki gengið að honum sem vísum bandamanni, ef svo ólíklega færi að þeir kæmust til valda að ári.

Forseti litrófsins mun halda sinni stefnu, óháður flokkum, stjórnum og stjórnarandstöðum.

Hann mun skrifa sína eigin hringadróttinssögu til enda…

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.6.2012 - 17:49 - FB ummæli ()

Óheilindi í Icesave-málinu?

Það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þjóðin var gróflega blekkt með málflutningi sumra andstæðinga samningaleiðarinnar í Icesave-málinu.

Forsetinn gerði einnig alvarleg mistök þegar hann vísaði Icesave III (Buchheit-samningnum) í þjóðaratkvæðagreiðslu, á röngum forsendum og gegn mjög rúmum meirihluta á Alþingi.

Hver eru rökin fyrir þessum fullyrðingum mínum?

  • Kostnaður sem var líklegur til að falla á ríkissjóð vegna Icesave var stórlega ýktur af andstæðingum samningaleiðarinnar á öllum stigum málsins.
  • Tap Seðlabanka Davíðs Oddssonar var mun stærra en kostnaður af báðum Svavars-samningunum og Buchheit-samningnum.
  • Þjóðinni var talin trú um að hún gæti valið um að greiða ekki reikninginn, sem aldrei stóð þó til. Valið var um samningaleið eða dómstólaleið.
  • Þeir sem hvöttu til að Icesave III samningur Buchheit-nefndarinnar yrði felldur og dómstólaleið farin lögðu þjóðina í gríðarlega áhættu – að ástæðulausu.
  • Einn leiðtoga þeirra segir nú að við munum tapa málinu, vegna þess að Bretar og Hollendingar séu valdameiri en við! Það voru þeir líka þegar hann hvatti til að samningurinn yrði felldur.

Hér eru nýjustu tölur fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn fyrir ríkissjóð við hina ólíku Icesave-samninga, ásamt samanburði við tap Seðlabankans:

 

Dýrasti samningurinn var sá sem lagður var upp á vegum ríkisstjórnar Geirs Haarde og sem Bjarni Benediktsson mælti fyrir á Alþingi fyrir árslok 2008 (um 13,4% af vergri landsframleiðslu).

Kostnaður fyrri Svavars-samningsins, sem ýmsir hægri róttæklingar hafa útmáð sem “afleik aldarinnar”, var rétt rúmlega helmingur af Haarde-Mathiesen samningnum, en Baldur Guðlaugsson var formaður þeirrar samninganefndar.

Icesave IIB (seinni samningur Svavars-nefndarinnar) kostaði minna en helming af tapi Seðlabanka Davíðs, vegna ástarbréfa-lánanna til banka, sem hann sagðist eftirá hafa vitað að væru á leið í þrot.

Buchheit-samningurinn hefði einungis kostað ríkissjóð 2,8% af vergri landsframleiðslu eins árs. Hann var gerður af bestu mönnum með samráðum við stjórnarandstöðu, bauð upp á siðlega lausn á milliríkjadeilu með samningi og viðráðanlegum kostnaði.

Við gátum lokið málinu með sæmd.

Dómstólaleiðin sem farin var með því að fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslu (þar sem almenningi var ranglega talin trú um að verið væri að kjósa um að “greiða ekki þessa skuld einkabanka”) fól hins vegar í sér gríðarlega áhættu fyrir þjóðina. Þrotabúið átti eðli máls samkvæmt að greiða megnið af kostnaðinum.

Nú gætum við, íslenskir skattgreiðendur, þurft að greiða miklu hærri upphæðir en náðust í Buchheit- samningnum. Ef málið tapast fyrir dómstólum.

Í gær upplýsti Hannes Hólmsteinn, einn af baráttumönnum fyrir því að fella samninginn, að hann teldi að Hollendingar og Bretar myndu vinna dómsmálið, enda valdameiri en við. Það voru þeir líka þegar hann, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og margir aðrir hvöttu til að samningurinn yrði felldur.

Skyldu fleiri í hirð Davíðs hafa viljað fella samninginn þó þeir hafi trúað því að við myndum tapa dómsmálinu? Voru fleiri en Hannes svona óheilir í afstöðu sinni?

Eða voru þeir bara að berjast gegn ríkisstjórninni, sama þó það fæli í sér að hagsmunum þjóðarinnar yrði gróflega fórnað? Það var jú strategían sem Davíð beitti alltaf, að eigin sögn (þ.e. að berjast líka gegn góðum málum sem andstæðingar hans ynnu að, jafnvel þó hann væri þeim sammála).

Kanski var hið mikla andóf Davíðs Oddssonar og félaga gegn Buchheit-samningnum fyrst og fremst til að draga athyglina frá tjóninu sem Davíð sjálfur olli í Seðlabankanum?

Það var í reynd mun stærra en kostnaðurinn af þremur seinni Icesave samningunum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.6.2012 - 23:22 - FB ummæli ()

Höll Múmínpabba – við Tjörnina

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu…

Flokkar: Menning og listir

Þriðjudagur 26.6.2012 - 10:18 - FB ummæli ()

Veiðigjaldið – sigur þjóðarinnar

Samþykkt nýja frumvarpsins um veiðigjöld í síðustu viku var ekki bara mikill sigur fyrir ríkisstjórnarflokkana. Þetta var stórsigur fyrir þjóðina.

Loks kom að því að útvegsmenn greiða gjald sem um munar fyrir afnot af sjávarauðlind þjóðarinnar, sem þeir hafa hingað til farið með sem sína einkaeign. Þeir hafa braskað með veiðileyfin, veðsett þau og fénýtt til eigin ábata, en þjóðin hefur ekki notið auðlindarentunnar svo neinu hafi numið.

Eftir að þjóðin tók á sig um 50% gengisfellingu í hruninu, með tilheyrandi 25-30% kjaraskerðingu, þá hafa útvegsmenn baðað sig í gróða, sem gengisfellingin færði þeim. Okkar kjaraskerðing var þeirra gróði.

Nýja veiðigjaldið færir þjóðinni hluta af þeim gróða til baka – en þó bara hluta. Harma má að gefið var eftir í samningum við stjórnarandstöðuna á síðustu metrunum. Um 15 milljarða veiðigjald af 78 milljarða framlegð var ekkert of mikið. Og síst af öllu er veiðgjaldið landsbyggðaskattur.

Árangurinn er samt mikill, um 13,5 milljarðar á næsta ári. Og þá sjáum við strax áhrifin af því á hag almennings í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem sýnir hvernig milljarðarnir verða notaðir.

Ávinningurinn fer m.a. í vegagerð um land allt (alls 7,5 milljarðar á næstu þremur árum), stóraukið framlag til vísinda, rannsókna og nýsköpunar (6 milljarðar – m.a. verða samkeppnissjóðir RANNÍS tvöfaldaðir strax á næsta ári), og loks til framkvæmdar á landshlutaáætlunum í samræmi við Ísland 2020 áætlunina (3,6 milljarðar). Allt frábær markmið.

Í stað þess að auðmenn í sjávarútvegi flytji arðinn út úr greininna í brask í Reykjavík eða erlendis, þá mun þjóðin a.m.k. njóta auðlindarentunnar. Líka landsbyggðin.

Loksins! Loksins!

Almenningur ætti hins vegar að leggja á minnið hvaða stjórnmálaöfl gengu erinda auðmanna í sjávarútvegi í málinu. Þau tóku sérhagsmuni fram yfir almannahag.

Nú lofa Sjálfstæðismenn að skila fénu aftur til auðmanna, ef þeir komast til valda. Ef til slíks kæmi hlyti forseti þjóðarinnar að skjóta málinu í þjóðaratkvæði, hver sem hann/hún verður. Það mætti hann raunar gera strax, til að negla málið fast.

Almenningur mun auðvitað samþykkja veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 25.6.2012 - 20:56 - FB ummæli ()

Togað undir Jökli

Sólarlag á Jónsmessu (í fyrra).

Myndin er tekin með aðdráttarlinsu frá Gufunesi í átt Snæfellsjökuls.

Þetta er ein af þessum andartaksmyndum í sólarlaginu sem gefa ævintýralega liti…

 

Flokkar: Menning og listir

Sunnudagur 24.6.2012 - 23:54 - FB ummæli ()

Súrrealísk úrskurðarnefnd

Kæra Önnu Kristínar Ólafsdóttur á hendur forsætisráðuneytinu vekur mikla furðu.

Anna sótti ásamt fleirum um starf skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Skipuð var fagnefnd sérfræðinga til að úrskurða um hæfni umsækjenda um starfið.

Anna Kristín lenti í 5. sæti í hæfnismatinu en karlmaður sem var í 1. sæti var ráðinn. Nú vill svo til að Anna Kristín er þekkt sem Samfylkingarkona.

Hvað hefi gerst ef ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ráðið flokkssystur hennar sem hafði hafnað í 5. sæti í hæfnismatinu? Tekið hana framfyrir fjóra sem töldust hæfari. Allt hefði orðið stjörnugalið. Eðlilega!

En auðvitað réð ráðuneyti Jóhönnu þann sem var talinn hæfastur. Jafnvel þó um karlmann væri að ræða.

Hvernig gat það þá gerst að Samfylkingarkonan í 5. sæti drægi ráðuneytið fyrir dóm og krefðist 15,5 milljóna króna skaðabóta fyrir að hljóta ekki starfið?

Þar kemur súrrealisminn til sögunnar.

Kærunefnd jafnréttismála taldi sig þess umkomna að ógilda hæfnismat fagnefndarinnar og ákvað að sú í 5. sæti væri að minnsta kosti jafn hæf og sá sem var í 1. sæti. Með það fór Anna og kærði.

En er kærunefnd jafnréttismála ekki komin út fyrir sitt svið þegar hún gerist eins konar yfirmatsnefnd starfshæfnimats til allra starfa hjá hinu opinbera – á öllum fagsviðum? Svo virðist vera.

Við þyrftum að fá úttekt á starfsháttum Kærunefndar jafnréttismála. Fyrst þetta mál gat orðið svona undarlegt getur verið að víðar sé pottur brotinn í starfi nefndarinnar.

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur virðist hafa gert rétt í málinu, en Kærunefnd jafnréttismála fór langt út fyrir eðlilega starfshætti.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.6.2012 - 18:37 - FB ummæli ()

Hjól atvinnulífsins snúast…

Kolbeinn Stefánsson er með athyglisverða pistla um atvinnuleysi og atvinnuþátttöku á Lífskjarablogginu (http://lifskjor.hi.is/).

Þar sýnir hann að árangur Íslands í að aftra atvinnuleysi í kjölfar hrunsins er góður í samanburði við aðrar kreppuþjóðir, eins og Íra og þær þjóðir í Evrópu sem fóru hvað verst út úr kreppunni.

Átaksverkefni Vinnumálastofnunar eru líka að skila góðum árangri og nú stefnir í að atvinnuleysi verði ekki meira en 5% í sumar. Það er ótrúlega góður árangur.

Helstu kreppuþjóðirnar hafa verið með 10-25% atvinnuleysi og hjá sumum er það enn að aukast.

Atvinnuþátttakan á Íslandi 2010 er líka sú hæsta meðal OECD-ríkjanna, þrátt fyrir allt það sem yfir okkur hrundi.

Þetta eru athyglisverð umhugsunarefni sem Kolbeinn fjallar um…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.6.2012 - 09:27 - FB ummæli ()

Bílaflotinn eldist – hér er lausnin

Í Fréttablaðinu í gær var bent á það að bílaflotinn hefur elst um 2 ár frá hruni, vegna þess að almenningur kaupir ekki nógu marga nýja bíla.

Eðlileg endurnýjunarþörf er um 12 þúsund bílar á ári. Þrátt fyrir að við séum á leiðinni upp úr kreppunni núna verða ekki seldir fleiri en um 6 þúsund nýir bílar í ár, segir talsmaður Bílgreinasambandsins. Þetta er óviðunandi. Öryggi í umferðinni hrakar.

Hér er lausnin:

Forstjórarnir í Bílgreinasambandinu, sem eru samtök fyrirtækja í bílgreinum, eiga að beita sér fyrir því á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, að kaupmáttur almennings verði aukinn mun hraðar.

Þá kaupum við fleiri bíla.

Þá kaupum við líka meira af öllu öðru. Atvinnurekendur græða á því þegar upp er staðið.

Flokkar: Viðskipti og fjármál

Föstudagur 22.6.2012 - 15:10 - FB ummæli ()

Íslendingar ánægðir á ný

Eftir miklar þrengingar og umrót í kjölfar hrunsins virðist nú margt vera á uppleið á Íslandi og landinn að taka gleði sína á ný.

Einhverjir gætu haldið að það væri vegna sumarkomunnar – en svo er ekki.

Nýbirt könnun Eurobarometer, sem framkvæmd var í nóvember síðastliðnum í öllum Evrópuríkjunum, sýnir að Íslendingar voru þá þegar komnir í næstefsta sæti á lista yfir ánægðustu þjóðirnar, næst á eftir Dönum.

Um 56% Íslendinga sögðust vera mjög ánægðir með lífið og önnur 40% voru frekar ánægðir. Þannig voru 96% Íslendinga ánægðir með lífið í nóvember. Kannski hefur það hækkað í 97% með sumarkomunni!

Við erum sem sagt komin á þann stað sem við vorum á fyrir hrun, með ánægðustu þjóðum heims. Það er góðs viti.

Þetta er auðvitað í hrópandi mótsögn við þá síbylju bölmóðs og þrugls sem ríður húsum í íslenskum fjölmiðlum, ekki síst á netinu. Kanski fer því brátt að linna…

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar