Laugardagur 15.09.2012 - 14:23 - Rita ummæli

Prófkjör sjálfstæðismanna – Áfram xD !

Á næstu vikum munu kjördæmaráð Sjálfstæðisflokksins funda um land allt og ákvarða hvort og þá hvenær prófkjör verða haldin. Óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríkir innan vébanda Sjálfstæðisflokksins varðandi ný framboð fólks og endurnýjun á listum fyrir næstkomandi kosningar til Alþingis Íslendinga. Í sama mund óttast andstæðingar flokksins að hann muni endurnýjast og ógna þannig viðveru vinstrimanna og villuráfandi stjórnleysingjum á þingi.

Einhver áhöld hafa verið uppi um hvort prófkjör séu hentug leið til að velja félagsmenn á lista fyrir kosningar og hvernig fyrirkomulag skal vera, hverjir fái að kjósa og hvort smölun nýrra félagsmanna, sem staldra margir fremur stutt við í flokkum, sé rétta aðferðin til að tryggja framgang stefnunnar sem mótuð er á meðal félagsmanna t.a.m. á landsfundum eða á þingum flokka eins og á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Greinarhöfundur telur að prófkjör séu besta leiðin til að breiða út stefnu Sjálfstæðisflokksins og tryggja honum breitt fylgi í komandi kosningum. Einnig má ætla að fólk, sem skráir sig í flokkinn fyrir prófkjör, hafi sterkar skoðanir rétt eins og þeir rótgrónu um hvaða einstaklingar eiga að skipa sæti á lista stærsta stjórnmálaafsl á Íslandi.

Vænta má að talsverð pólitísk átök muni verða milli einstaklinga í efstu sætum á lista flokksins víða um land en styrkleiki sjálfstæðismanna er að sameinast undir einu merki að loknu prófkjöri. Þrátt fyrir samstöðuna er mikið bakland á milli kosninga fólgið í félögum um land allt sem halda þingmönnum sínum og sveitastjórnarfólki að efninu og benda á þegar vikið er frá stefnu flokksins í samstarfi við önnur stjórnmálaöfl. Hver og einn frambjóðandi verður að gæta sín hvað fjármögnun varðar fyrir prófkjörin og þar má enginn selja sálu sína eins og kommúnistar gerðu hér á árum áður.

Nú má vænta að nýr forystumaður taki þátt í landsmálnum og færir sig úr borgarstjórn eftir að hafa átt undir högg að sækja gegn stjórnleysisafli sem barðist m.a. fyrir því að koma lifandi ísbirni fyrir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en lofaði því jafnframt að fara á skjön við stefnuskrá sína. Óljóst er hvernig tekið verður í framboð oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn á næstu misserum en óhætt er að segja að þar fer skelegg manneskja sem mun láta að sér kveða og ógna annars skelfilegu liði stjórnarflokkana sem hafa brotið hverja einustu brú að baki sér og farið gegn eigin flokksmönnum í hverju málinu á fætur öðru. Einnig er leitt að önnur skelegg kona hafi þurft að yfirgefa flokkinn vegna persónulegra mála, kona sem hefur barist lengi og vel gegn vinstrimönnum og stjórnleysingjum á Alþingi. Seint verður fullþakkað framtak hennar og áræðni í ræðustól á Alþingi þegar mest á reyndi.

Þrátt fyrir allt og væntar breytingar í forystusveit Sjálfstæðisflokksins og á listum fyrir næstu kosningar verður bakland flokksins að tryggja að prófkjör verði haldið í öllum kjördæmum á næstunni. Einnig verður að draga upp í stefnuskrá einfalda og skýra sviðsmynd af því hvað tekur við ef vinstriflokkar ná að halda völdum.

Eitt gott dæmið er að ný vinstristjórn mun leiða af sér áframhaldandi viðræður við ESB og jafnvel enn frekara framsal á fullveldinu en á horfðist í fyrstu þegar sótt var um aðild. Nýlegur úrskurður stjórnlagadómstóls Þýskalands hefur gefið til kynna frekara framsal á fullveldi aðildarríkja sambandsins. Á þetta þarf að benda og flækja ekki umræður um nýjan gjaldmiðil þegar slíkt er ekki í sjónmáli a.m.k. á næsta áratug.

Að auki verður að leggja áherslu á hagsmuni heimilanna og að ganga til liðs við heimilin í landinu í næstu kosningum. Samhliða því verða atvinnumálin að vera stór þáttur í baráttunni enda ljóst að ríkisstjórn Íslands hefur gert illt verra á undanförnum árum og stefnir að því að taka enn frekar út af pólitískum og efnahagslegum yfirdrætti þjóðarinnar til að kaupa sér atkvæði á næstkomandi kosningavetri. Á þetta þarf að leggja áherslu og ítreka.

Ekki má víkja frá því að hvatt sé til sparnaðar, skattar lækkaðir og þeim sem eiga fjármagn tryggt að það fjármagn verði ekki af þeim tekið með ósanngjörnum hætti eða með óeðlilegri skattlagningu á fjármagn eða atvinnuveg. Samhliða þessu verður fjármálakerfið að gæta að fjármálastöðguleika og fjármálaöryggi þjóðarinnar í heild. Að þessu stuðla núverandi stjórnvöld ekki og gera illt verra, meta ekki áhættu rétt og virðast hafa takmarkað vit á rekstri, því miður. Sama má segja um einstakar stofuplöntur háskólasamfélagsins sem virðast hlaupa undir hverja vitleysuna á fætur annarri sem þessi ríkisstjórn hefur viðhaft undanfarin ár enda ekki að furða því að öðrum kosti þurrkast þær upp og ná ekki að blómstra.

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki og má ekki selja sig til þjóðarinnar með þessum falska hætti heldur verður að gæta að því að innistæða sé fyrir árangri sem lofað er og treystir greinarhöfundur aðeins þeim flokki til að standa við gefin fyrirheit í þeim efnum enda hefur sagan sannað það. Til þessa þarf að velja á lista flokksins um land allt fólk úr atvinnulífinu, fólk með reynslu af því að berjast fyrir hverri krónu og vill byggja upp land og þjóð, verja land sitt og auðlindir þess um ókomin ár og tryggja atvinnu, atvinnufrelsi, frelsi einstaklingsins og rækta samvinnu við lýðræðisþjóðir og helstu vinaþjóðir Íslands.

Greinarhöfundur hvetur því sjálfstæðisfólk um land allt til þátttöku í prófkjörum og hvetja til þeirra innan kjördæmisráða sinna. Við verðum að tryggja að fyrir næstu kosningar til Alþingis sýni Sjálfstæðisflokkurinn að hann er flokkur allra stétta sem hann virðist ekki vera í dag en verður að endurspegla !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur