Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra
Í nýlegum pistli sínum bendir Björn Bjarnason, fv. dómsmálaráðherra, réttilega á að enn á ný leitast RÚV við að finna einhvern stjórnmálamann, einhvern sem helst er á flæðiskeri staddur, sem hefur áhuga á því að kona, sem á sæti í ríkisstjórn, verði gert að segja af sér. Þessi kona barðist fyrir því að hlutur kvenna í Landsdómi, nýju dómstólastigi á Íslandi, verði réttur m.a. með vísan í áratugalanga baráttu kvenna og umtalsverða umræðu sem og lög er varða jafnrétti. En það kemur meira til en það eitt og sér.
Dómur Hæstaréttar
Oftar en ekki vísar RÚV blindandi í dóm Hæstaréttar sem í sátu þau:
- Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari,
- Kristinn Bjarnason hæstaréttarlögmaður,
- Stefán Már Stefánsson prófessor,
- Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og
- Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari,
Þetta eru 3 karlar og 2 konur. Þar segir m.a.:
Eins og áður er rakið fór dómsmálaráðherra ekki eftir þeim reglum sem fylgja bar þegar hún gerði tillögu um að vikið yrði frá áliti dómnefndar varðandi veitingu áðurnefndra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt. Var áfrýjandi sem fyrr segir í hópi þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði ekki tillögu um. Þau atriði sem dómsmálaráðherra færði fram til stuðnings ákvörðun sinni eftir að hún var tekin og send Alþingi gátu eins og áður er rakið ekki bætt úr þeim annmarka sem fyrir hendi var á málsmeðferð hennar. Þótt ekkert sé komið fram í málinu um að ráðherrann hafi hagað gerðum sínum sérstaklega til að beina meingerð að æru eða persónu áfrýjanda höfðu ákvarðanir hennar eigi að síður þær afleiðingar að bættur var hlutur einhvers úr hópi fjögurra annarra umsækjenda sem dómnefnd hafði raðað lægra en áfrýjanda. Þótt ráðherrann hafi ekki í tengslum við þetta látið orð falla til að vega að persónu eða æru áfrýjanda verður ekki fram hjá því litið að henni mátti vera ljóst að þessar gerðir gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori áfrýjanda og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta gekk ráðherrann fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu.
Í reifun 2. mgr. 5.tl. IV kafla dómsins segir m.a.:
Að gættu framansögðu bar ráðherra í ljósi rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu.
10. og 11. grein stjórnsýslulaga
Hér er vísað í 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varðar rannsóknarregluna. Þar segir:
Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Það sem virðist gleymast er 11. grein stjórnsýslulaga. Svo virðist sem Hæstiréttur, meirihlutinn skipaður körlum og aðeins 2 konum, hafi steingleymt þessu ákvæði en þar segir:
- mgr. Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
- mgr. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.
Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 segir m.a. um 11. grein:
Ákvæði 11. gr. eru byggð á þeirri óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins sem nefnd hefur verið jafnræðisreglan.
Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að ekki er um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmið um.
Þá er einnig rétt að minna á það að til eru undantekningar frá meginreglunni í 2. mgr. enda eigi þær sér stoð í settum lögum. Þannig teldist það ekki brot gegn 2. mgr. þó að tekið væri sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar eða byggt á því sjónarmiði við val nefndarmanna í stjórnsýslunefndir að skipa sem næst jafnmargar konur og karla, sbr. 3. og 12. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt eðli máls yrði það heldur ekki talið brot á 2. mgr. þótt litið sé til stjórnmálaskoðana við val í pólitísk störf, svo sem stöður aðstoðarmanns ráðherra, bæjarstjóra eða sveitarstjóra svo að dæmi séu nefnd.
Það má vel vera að þetta kunni ekki að varða málið beint sem lá fyrir dómnum enda á þessu stigi búið að framkvæma óafturkræfar aðgerðir. Eftir stendur ósanngirnin í dómnum sem ekki er annað en hægt að vera ósammála. Engu að síður er verðugt að skoða hér samhengið og ferlið allt.
Karlar í krapinu
Í pisli mínum frá því 31. maí 2017 kem ég að því hverjir sátu í þeirri nefnd sem um ræðir og úrskurðaði út frá Excel töflu hverjir ættu að sitja í hinum nýja Landsdómi. Þeir voru eftirtaldir:
- Gunnlaugur Claessen
- Halldór Halldórsson
- Valtýr Sigurðsson
- Ingibjörg Pálmadóttir
- Guðrún Björk Bjarnadóttir
Þetta eru 3 (60%) karlar og 2 (40%) konur til áréttingar. Þessir 3 karlar og þessar 2 konur höfðu valið 10 (67%) karla og aðeins 5 (33%) konur í Landsdóm. Þess má svo geta að af þeim 5 konum sem valdar voru af dómnefndinni sat ein þeirra í dómnefndinni sjálfri en vék sæti í dómnefndinni því ekki var eðlilegt að viðkomandi veldi sig í embætti. En félagar hennar í dómnefndinni völdu hana sem var hið besta mál. Svo náin eru tengslin með fullri virðingu fyrir þeirri konu, þekkingu hennar og reynslu. Það ota allir sínum tota.
Einnig eru mjög náin tengsl á milli dómara, sem sátu í Hæstarétti í dómi þeim er dæmdi ráðherra, og þeirra sem sátu í dómnefndinni og það þekkja allir sem það vilja. Valdajafnvægið í dómnefndinni var þannig að þar sátu þrír ráðríkir karlar, ein kona, fyrrum ráðherra og frábær framsóknarfrú auk konu sem er héraðsdómslögmaður.
Með fullri virðingu fyrir þeim er sátu í þessari dómnefnd var ekki alveg í lagi með þessa skipan í nefndina. Ekki voru einu sinni gerðar kröfur um að menntun þeirra, sem sátu í nefndinni, væri a.m.k. á pari við þær kröfur sem gerðar voru til umsækjenda um dómara í Landsdóm. Það hefði verið ráð að gera Excel skjal um þessa nefnd áður en nefndin gerði Excel skalið sem enginn skilur og raðaði upp í hæfnisröð umsækjendum um dómarastöður í Landsdóm. Nefndin steingleymdi að gera ráð fyrir reynsluboltum úr dómarastétt í sakamálum í þessum Excel æfingum sínum.
Það er augljóst að í öllu ferlinu hefur verið mismunað m.t.t. kyns og reynslu viðkomandi. Þetta varðar dómnefndina sjálfa, skipan hæstaréttardómara við dóm í málinu sem RÚV reifar blindandi og uppröðun nefndarinnar í Landsdóm. Það voru því og eru enn fagleg og gild rök fyrir því að lista nefndarinnar var breytt sem lagður var fyrir Alþingi vegna skipan dómara við Landsdóm. Þar kom hæfi umfram allt annað til álita og mikilvægi að reynslumiklir dómarar sætu í þessu nýja dómstigi. Siðferðislega má árétta að tilviljun réði því væntanlega að hægt var með þessari breytingu að rétta stöðu kvenna í dómnum sem ætti að vera fagnaðarefni.
#meetoo tekur á sig margar myndir
Það vita allir sem hafa tjáð sig í tengslum við #metoo byltinguna að þar eru þátttakendur konur jafnt sem karlar. Þar er beitt beinu og óbeinu ofbeldi gagnvart konum þó það þurfi ekki endilega að vera kynferðislegt áreiti eða enn verra en það. Það er einnig til kynbundið ofbeldi og mikilvægt er að sjá allar þær myndir sem þetta fyrirbæri getur tekið á sig. Karlmenn geta vel séð það eins og konur. Konur geta einnig verið blindar fyrir því eins og karlar.
Var ekki í lófa lagið, þegar kallaðir voru inn varamenn eftir að dómnefndarmenn urðu meira og minna vanhæfir, m.a. vegna eigin umsókna um dómarastöður í Landsdómi eða vegna vensla og vinskapar, að kalla inn fleiri konur en karla í þessa dómnefnd á sínum tíma? Þar rofnar keðja réttlætisins og siðferðisins fyrst af öllu í þessu máli. Þar hefst kynbundna ofbeldið í þessu máli að mínu mati og ójafnvægið.
Hefði það ekki einnig verið ráð að Hæsiréttur Íslands, sem stöðugt hefur hlotið ákúrur vegna vægra kynferðislæpadóma og þægðar við saksóknaraembættin í bankamálum, í þessu efni svo áríðandi sem það var, að kalla inn fleiri konur en karla í dóminn sem dæmdi ráðherra að ósekju?
Með því hefði mátt hugsanlega sjá að það væri einhver á Íslandi sem skilur að dómsmálaráðherra var að jafna annars mjög ójafna stöðu kvenna samhliða því t.a.m. að tryggja hæfi dómsins í sakamálum eftir að það kom í ljós að val nefndarinnar innihélt ekki reynda dómara í þeim kafla lagabókstafsins.
Voru það ekki nægjanleg rök svo Hæstiréttur yrði ekki kaffærður í sakamálum sem vísa ætti vegna formgalla frá honum eða niður á lægra dómsstig sí og æ? Maður þekkir nú það af þessum bankamálum að fólk situr blátt í framan í um áratug ekki vitandi um hvort þau séu sekir eða saklausir menn. Nei, það var svo ekki því dómurinn var skipaður að mestu fólki sem eru algjörlega utan dómsins enda viku aðrir dómarar Hæstaréttar svo þeir yrðu ekki vanhæfir. Var dómurinn ekki eftir allt saman óhæfur?
RÚV sigað á ráðherra
Nú rekur RÚV #metoo kynbundna eineltið án þess að sjá þá mynd sem hér hefur verið dregin upp. Gerendurnir eru þéttskipaðir með umboðsvanda að vanda, dulin tengsl og þekkt. Eftir stendur, að þegar þorri fólks sér hvernig í pottinn er búið, að dómur Hæsaréttar var í glænýju formi kynbundins ofbeldis gagnvart ráðherra sem var að leitast við, ásamt Alþingi, að rétta stöðu kynjanna við skipan í Landsdóm en umfram allt að styrkja dómin fræðilega með reyndum dómurum í sakamálum.
Hvers vegna spyr RÚV ekki út í reynslubanka umsækjenda varðandi sakamál? Hví er ekki Excel skjalið ekki tekið upp og birt með vísan í reynslubrunna og einkunnagjafar? Hví er ekki sett upp námskeið í lestri á þessu Excel skjali sem enginn reglugerð virðist vera til um hvernig á að setja upp og afgreiða? Hvers vegna tekur RÚV þátt í ótuktar aðgerðum eins og þeim sem hér um ræðir?
Ráðherra styrkti Landsdóm varðandi sakamál
Mikilvægt er að halda því til haga að það fylgdi réttlætanleg styrking, með breytingum ráðherra á lista þeim sem lagður var fyrir Alþingi, á þekkingagrunni hins nýja Landsdóms í sakamálum.
Dómnefndin tók ekki tillit til þessa, nefnd sem skipuð var að meirihluta karlmönnum með gífurlega mikla reynslu og karlmennsku langt umfram þær 2 konur (með fullri virðingu fyrir þeim) sem þeir væntanlega yfirgnæfðu með setu í þessari óláns nefnd enda í meirihluta. Þannig komast karlarnir að og troða sér framfyrir.
Lokaorð
Sem faðir tveggja stúlkna vil ég ekki sjá svona vinnubrögð karlrembu- og klíkunefnda og sé í gegnum þetta með mínum gleraugum sem faðir þeirra þegar þátttakendur í pólitíska ofbeldinu reyna allt til að klekkja á fólki sem vill vel. Sigríður Á. Andersen er kjarnakona og góð fyrirmynd fyrir stúlkur og konur á öllum aldri sem vilja standa sig og vera raungóðar á ögurstundu.