Sunnudagur 09.04.2017 - 01:50 - Lokað fyrir ummæli

Hryðjuverk í Svíþjóð

Í gær ákvað einstaklingur, aðeins einn maður, að tilefni væri til þess að ræna stórri bifreið og aka Dottningagötuna, sem við hjónin eitt sinn gengum upp með ásamt kornungum dætrum okkar eftir að hafa verið í Gamla stan. Markmið þessa manns var að drepa eins marga og kostur var á leið sinni í að sprengja öfluga sprengju sem betur fer sprakk ekki. Þarna dóu of margir og meðal þeirra 11 ára stúlkubarn.

Hvað var þessi maður að gera og hver var tilgangurinn? Þessi maður er í fyrsta lagi að leitast við að kljúfa samstöðu vesturveldanna, samstöðu almennings og þá samstöðu sem við sem þjóðir höfum náð að byggja upp síðustu aldir. Hann er ekki einn um það. Þeir sem fremja þessi hryðjuverk gera það einnig að verkum að samlandar þeirra, saklaust fólk sem býr og er af erlendum uppruna í þessum löndum, t.a.m. á norðurlöndunum, verða fyrir aðkasti. Þeir byggja því einnig upp óeiningu er gerir það að verkum að við viljum sum hver helst hætta að hjálpa öðrum eins og saklausu flóttafólki.

Við eigum að halda áfram með líf okkar og taka fólki fagnandi, fólki sem kemur sjálviljugt og vill búa með okkur sem og þeim sem koma hingað sem flóttamenn og af góðum vilja. Sumir segja hryðjuverkamenn geðveika. Svo er ekki. Þeir geðveiku sem og aðrir sem eru veikir vilja alls ekki gera fólki þetta. Þetta er glæpaverk og það á ekki að sjúkdómsvæða til að gera því skónna að þeir sem fremja slíkan voðaverknað eigi í einhverjum erfiðleikum með að búa með okkur frekar en hver annar og það reki viðkomandi til að fremja voðaverk eins og það að drepa saklausa samborgara sína.

Ég kalla eftir auknu öryggi og forvirkum rannsóknarheimildum til handa íslenskri lögreglu. Einnig kalla ég eftir auknu fjármagni til að flýta fyrir hvers kyns hælisumsóknum og til að tryggja að við veljum rétt og gerum gott, hjálpum. Við eigum einnig að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft heimafyrir t.a.m. með þróunarhjálp. Við Íslendingar erum eftirbátar í því efni og erum alls ekki að uppfylla skuldbindingar okkar í þessum efnum. Það er miður.

Við viljum samhliða stuðla að því að okkar sjúklingar hér heima og aldraðir fái góða umönnun og verðum að tryggja það öryggi sem og almennt öryggi þegna m.a. gegn hryðjuverkum. Til þess arna verðum við að stuðla að því að fjármagn renni í þessa liði og lögreglu svo tryggja megi það sem þessum aðilum er gert að standa vörð um með tilvist sinni, þ.e. öryggi.

Ég vil geta farið aftur til Stokkhólms með fjölskylduna og mun gera það. Þar munum við ganga örugg upp Drottningagötuna frá Gamla stan. Ef við hugsum svona og erum áræðin þá sigrum við. Samhliða mun fjölskyldan ávallt greiða til SOS barnaþorpana og óska þess að íslenska ríkið geri það einnig, þ.e. til þróunarhjálpar og nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar svo áfram verði  hlustað með athygli þegar fulltrúar lands og þjóðar kveða sér hljóðs á erlendum vettvangi.

Guð geymi þá sem létust í Stokkhólmi í gær og styrki þá sem eiga þar nú um sárt að binda.

Flokkar: Siðferði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur