Þriðjudagur 21.11.2017 - 09:20 - Lokað fyrir ummæli

Hvað ef Geir verður…?

Geir H. Haarde (c) Vísir

Þjóðahátíðarræðu sinni, árið 2008, lauk Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra Íslands og formaður Sjálfstæðisflokkins, með því að vitna í ljóð eftir  Jakob Jóhannesson Smára (fæddur 9. október 1889 á Sauðafelli í Dölum, stúdent frá MR).  Ljóðið ber heitið 17. júní 1944;

Vor þjóð er margþætt, en þó ein,

og eins manns böl er sérhvers mein,

en takmark allra og innstu þrá

með einum rómi túlka má.

Þarna er Geir að vísa til náttúruhamfara sem urðu á Suðurlandi og mikilvægi þess að í slíkum hamförum að allir standi saman sem einn maður. Þakkar hann björgunarsveitum, lögreglu, Rauða kross Íslands, heilbrigðisstarfsfólki sem og öðrum fyrir góð og óeigingjörn störf í kjölfar þess að jarðskjálfti að styrk 6,0 á Richter olli tjóni á Suðurlandi 29. maí 2008. Í þessum skjálfta varð talsvert tjón en þó ekki manntjón. Þakka má Guði fyrir að svo varð ekki en við Íslendingar höfum verið lánsamir að eiga gott fagfólk á mörgum sviðum. Þar má nefna verkfræðistéttina sem tryggt hefur að hús okkar eru sterkbyggð fyrir skjálfta af þessari stærðargráðu. Til að svo sé er menntun ekki næg því skynsemin þarf að fylgja á eftir ásamt hyggjuviti.

Annað áfall af öðrum meiði

Á haustdögum 2008 skall á annað áfall. Það geisaði fjármálakreppa í heiminum og höfðu bankar fallið í Bandaríkjunum. Þessi flóðbylgja náði ströndum Íslands og felldi illa varða banka á Íslandi sem og fjölmörg fyrirtæki og heimili. Það mátti þakka að ríkissjóður hér á landi var nánast því skuldlaus og gat brugðist við. Þetta tók gríðarlega á en sem betur fer hafði Seðlabanki Íslands séð um að búið var að draga upp frumvarp að neyðarlögum kæmi til þess að allt færi á versta veg. Komið hefur greinilega í ljós að ákveðnir ráðherrar Samfylkingarinnar þrýstu á að Seðlabanki Íslands lánaði án þess að greiðsluhæfi væri til staðar t.a.m. hjá Kaupþingi og sáu svo til þess að vísa 3 valinkunnum bankastjórum úr embætti og brjóta þannig lög um bankan sjálfan nr. 36/2001 er varðaði sjálfstæði hans.

Ofan í kaupið var einn maður ákærður og sá sem fyrir valinu varð er sá sem ritaði framangreind þakkarorð til fólks sem bjargaði því sem bjargað var eftir náttúruhamfarir á Íslandi 2008, þ.e. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem stóðu að þessu umfram aðra voru þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna.

Hvað ef Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm Geir í vil?

Um þessar mundir standa yfir viðræður um á milli Framsóknarflokksins, Vinstri-grænna og Sjálfstæðisflokkins um stjórnarmyndun þar sem krafa Vinstri-grænna er að formaður þeirrar hreyfingar verði gerður að forsætisráðherra á Íslandi.

Á fimmtudaginn síðar í þessari viku, þ.e. 23. nóvember 2017, er að vænta dóms Mannréttindardómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í máli sem Alþingi höfðaði gegn honum persónulega, sbr. þingsályktunartillögu nr. 1502 , sem samþykkt var 28. september 2010 auk tilsvarandi ákæru Saksóknara Aþingis sem lögð var fram 10. maí 2011. Kveðinn var upp dómur í Landsdómi, sem aldrei hafði áður komið saman á Íslandi, í máli nr. 3/2011 þann 23. apríl 2012.

Hverjir sáu um að kæra Geir H. Haarde á hinu háa Alþingi?

Þeir sem greiddu atkvæði um að Alþingi kærði fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins voru eftirtaldir:

Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Huld Aðalbjarnardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín JakobsdóttirLilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Pétursdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. SigfússonSvandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.

Hvað ef…?

Í ljósi þess að forseti Íslands, sem er vel þekktur sagnfræðingur, hefur oft tíðkað þá list að spyrja ,,hvað ef…“spurninga um fortíðna, er nú tækifæri fyrir sagnfræðinga og aðra að velta fyrir sér framtíðinni, þ.e. fram að fimmtudeginum. Hvað ef Geir H. Haarde verður dæmt í vil?

Getur sitjandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins eftir það sem á undan er gengið, virkilega stuðlað að því að gera formann Vinstri-grænna að forsætisráðherra Íslands ef Mannréttindardómstóll Evrópu dæmir Geir H. Haarde í vil? Eins og flestir vita var Geir H. Haarde að vinna erfitt verk í miðjum hamförum og tók á því pólitíska ábyrgð. Hann hefur einnig axlað þá pólitísku ábyrgð og rúmlega það.

Ég segi nei. Það getur núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ekki nema því aðeins ef formleg og einnig opinber afsökunarbeiðni liggi fyrir frá öllum framangreindum þingmönnum Vinstri-grænna sem nýlega hafa verið endurkjörnir. Hið sama ætti við um þingmenn Framsóknarflokksins. Skilyrði um slíkt ætti að vera í nýjum stjórnarsáttmála ef verður af ríkisstjórn þessara flokka og afsökunarbeiðnirnar skulu vera fluttar munnlega í ræðustól Alþingis Íslendinga.

Að öðrum kosti verður það ekki reyndin að ,,eins manns böl er sérhvers mein“ hér á landi eins og þjóðskáldið orti um Íslendinga sem eru heilir í raun og sann þegar á reynir.

 

Flokkar: Siðferði · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur