Miðvikudagur 03.10.2012 - 16:08 - Rita ummæli

Stjórnarskrárbrjótur á dansgólfið

Hnotubrjóturinn eftir Pyotr Tchaikovsky hefur verið á fjölum Íslensku óperunnar og þótt mikið meistaraverk en þessi snillingur samdi þetta verk 1892 og þá sérstaklega fyrir ballett. Í þessu ævintýraverki er verið að fjalla um Klöru og Hnotubrjótinn en Klara fékk hnotubrjót í jólagjöf og dreymdi svo á jólanótt að brjóturinn breyttist í prins. Í draumförum stúlkunnar fóru þau saman í mikið ferðalag til hinna ýmsu landa og gátu þar baðað sig í sólinni.

Í ævintýrinu um Ísland hefur nú stjórnarskrárbrjótur stigið ansi framarlega á svið íslenskra stjórnmála og telur sig vera prins íslensku þjóðarinnar og sækist nú eftir formennsku í Samfylkingunni.

Árnalögin voru dregin upp af þessum prins og voru keyrð í gegnum þingið, troðið þveröfugum ofan í kok íslenskra heimila og fyrirtækja sem börðust fyrir lífi sínu gegn ofurefli, ríkisstjórn, Seðlabanka Íslands, fjármálafyrirtækjum, skilanefndum og slitastjórnum. Svo féll dómur í febrúar 2012 sem áréttaði það sem margur hafði áður sagt að þessi lög færu í bága við Stjórnarskrá Íslands. Þá gátu fjármálafyrirtækin fengið frest til að heimta meiri vexti, klípa aðeins meira af heimilum og fyrirtækjum, meiri dráttarvexti og von um að lukkan snúist þeim í hag í þessum „óljósu“ málaferlum framundan.

Eftir það taldi ríkisstjórnin vissulega að þyrfti að breyta þessari árans stjórnarskrá og eru því kosningar boðaðar til þess arna í þessum mánuði illu heilli þar sem söngvar satans hér á landi óma m.a. gegn þjóðkirkjunni. Það gengi þótti allt í lagi að setja ofan í Hæstarétt enda þrískipting ríkisvaldsins talin algjört aukaatriði í sósíalískum ríkjum vinstri manna.

Nú mælir prinsinn með að þeir sem með honum eru í þessari martröð innan Samfylkingarinnar kjósi hann til forystu flokks sem slá vildi skjaldborg um heimili landsins. Nú ætlar hann að grípa í hönd þjóðarinnar og taka hana með sér í ævintýraferð til sólarlanda og dansa út í eitt, hring eftir hring.

Reikna má með að aðgangseyririnn verði það hár að seðlabankastjóri Íslands hafi ekki efni á að mæta ef vísað er til nýjustu frétta enda verður Stjórnarskrárbrjóturinn ansi kostnaðarsamt verk, viðamikið, leiðinlegt og langdregið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur