Föstudagur 05.10.2012 - 09:16 - Rita ummæli

,,Herra Netanyahu – rífðu niður þennan vegg !“

Það er vel þekkt í argaþrasið á milli húseigenda í fjöleignarhúsum á Íslandi og jafnvel á milli nágranna sem berst inná borð Húseigendafélagsins. Oft er þar um að ræða skrautlegar uppákomur og margar ekki mönnum sæmandi. Flestir búa í góðu samneyti við aðra og reisa veggi t.a.m. vegna hávaða og áhættu sem stafar getur af hinu ytra umhverfi. Markmiðið með slíkum veggjum er t.a.m. að gæta að öryggi barna og lágmarka hávaða svo hægt sé að sofa bærilega heimafyrir.

Nýlega stóð pistlahöfundur í framkvæmdum við lóð sína og reisti 1,8 metra háan vegg eins og lög leyfa og þar sem landið rís á því 25 metra hafi sem veggurinn spannar varð að hækka hann talsvert m.a. eftir leiðbeiningu frá Vegagerð ríkisins sem reiknar út hávaðamengun um borg og bý. Sumir ökumenn aka á löglegum hraða við þann veg sem veggurinn snýr að og sumir ökufantar spýta í og haga sér ósæmilega og gætu hugsanlega endað inní garði þar sem börn eru að leik. Allt er þetta gert til að tryggja öryggi hjá friðsamri fjölskyldu, fjölskyldu sem vill ekki ökufanta og fyllirafta upp að svefnherbergisgluggum sínum.

Í ályktun Landsfundar Samfylkingarinnar frá árinu 2011 segir m.a. varðandi utanríkismál, undir yfirskriftinni ,,Ábyrg utanríkisstefna“:

Samfylkingin leggur áherslu á nána og góða samvinnu við lýðræðisríki og virka þátttöku Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins.

Nýlegt útspil utanríkisráðherra var að ,,hjóla í“ Öryggisráðið eins og það var orðað nýlega í fjölmiðlum. Þetta gerir ráðherra í miðju borgarastríði í Sýrlandi þar sem ástandið er vægast sagt viðkvæmt um þessar mundir og réðst auk þess sérstaklega á forsætisráðherra eina lýðræðisríkisins á svæðinu.

Þarna setti utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sig í stellingar og beitti hvorki meira né minna fyrir sig orðfæri Ronalds heitins Regans fyrrverandi bandaríkjaforseta. Í ofanálag sagði ráðherra þetta vera skilaboð frá íslensku þjóðinni sem hann bæri þarna á borð. Þetta eru ekki skilaboð frá pistlahöfundi og rétt að minnast á það til að forðast allan misskilning. Hugsanlega gætu þetta verið skilaboð frá einhverju brotabroti af þeim 40% sem Þorvaldur Gylfason telur nægjanlegt til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu síðar í þessum mánuði svo þær teljist bindandi. Þetta er nú allt lýðræðið sem boðið er uppá í dag á Íslandi.

Þarna mætti halda að utanríkisráðherra hafi vonast til að eftir þetta BOLD útspil sitt yrði forstjóra Landhelgisgæslunnar fyrr eða síðar falið að láta smíða fyrsta íslenska flugmóðuskipið og það nefnt í höfuðið á utanríkisráðherra fyrir töffaraskapinn í honum. Ef hönnun á slíku skipi yrði háttað líkt og við gerð stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands og sambærileg stjórn þar um borð í brúnni má ætla að af þessu skipi tækju á loft vélar sem aldrei myndu snúa aftur. Þannig heimasmíðaðar vélar og jafnvel loftbelgi má sjá á safni við Checkpoint Charlie í Berlín.

Hvað sem líður því að framfylgja ályktun Alþingis frá árinu 1989 varðandi Palestínu, sbr. stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar, er það ámælisvert af utanríkisráðherra að ráðast með slíkum orðum á eina lýðræðisríkið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er ekki sambærilegt t.a.m. Berlínarmúrnum þar sem hugmyndasmiðir kommúnismans lokuðu sitt fólk inni með þeim orðum að það væri gert til að hleypa ekki inn hugmyndum varðandi lýðræði og frelsi einstaklingsins.

Svo þetta með ökuþóranna, hávaðaseggina og fyllibytturnar sem gætu ekið inní garðinn hjá manni hér heima í Mosfellsbænum skal þó áréttað að þrátt fyrir að Guðbjartur Hannesson sé bindindismaður skv. fréttum DV er alveg hugsanlegt að hann muni í framtíðinni ráfa ófullur inní garða annarra manna í fylgd Össurar í leit að skatttekjum eftir að allir skatta-skjólveggir hafa verið rifnir niður á Íslandi. Það er nefnilega hugsanlegt að þessi ,,fleygu“ orð Össurar hafi aðeins náð eyrum formanns og framkvæmdastjóra Húseigendafélagsins en ekki mikið lengra þó að þau hafi verið hrópuð í einhverju mikilmennskubrjálæði rétt við Wall Street, New York.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur