Laugardagur 27.10.2012 - 18:45 - Rita ummæli

Stærsta stjórnmálahreyfing Íslands

Á næstu dögum ganga fulltrúar stærstu stjórnmálahreyfingar Íslands að kjörborðinu og kjósa sér fólk sem skipa mun sæti á lista í kjördæmum landsins fyrir næstu alþingiskosningar. Það er fagnaðarefni að þessi fjöldahreyfing sé að ná vopnum sínum eftir hremmingar síðustu ára, rangfærslna og jafnvel lygar og sögufölsun fárra en hávaðasamra fjölmiðla og falskra félagshyggjuafla.

Margir hafa nú séð í gegnum þetta.

Forysta Sjálfstæðisflokksins

Ótvíræð stefna Sjálfstæðisflokksins undir styrkri stjórn Bjarna Benediktssonar er eini valkostur Íslendinga hvað atvinnumál varðar. Sjálfstæðisflokkurinn mun enn á ný bjóða nýjum einstaklingi sæti í forystusveitinni þegar Ólöf Nordal víkur úr sæti varaformanns á næsta landsfundi flokksins. Einnig mun vænta mikillar endurnýjunar á listum flokksins og mikil gróska er um allt land innan hans. Bæði konur og karlar hafa komið fram sem munu endurnýja flokkinn og mynda nýjan og öflugan þingflokk eftir næstu kosningar. Það er sá þingflokkur sem mun verða sá stærsti á þingi og koma málum landsins á hreyfingu í rétta átt að betra og lífvænlegra samfélagi. Þessi þingflokkur mun verða sá sem litið verður til þegar Ísland verður byggt upp á næstu árum og áratugum.

Það sem mestu máli skiptir nú er að Bjarni Benediktsson hefur hvergi gefið eftir þegar stjórnarandstaðan og ýmsir anarkistar hafa tröllriðið húsum á Alþingi og m.a. sent hvern skattareikninginn á fætur öðrum út til almennings og fyrirtækja án þess að fólk hafi innistæðu til að borga slíkt. Það er sorglegt þegar einstakir alþingismenn skilja ekki atvinnulífið, hvernig það virkar og hvaða kraftar það eru sem verka á almenning þegar viljinn dvínar vegna óhóflegrar skattpíningar. Sumir þessara þingmanna beinlínis vinna gegn atvinnulífinu innan nefnda þingsins sem er skelfilegt.

Hvar sem litið er má sjá að almenningur lítur til Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir þegar velta á ríkisstjórninni úr sessi og koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Hagsmunir heimila og þjóðar

Eftir að Hæstiréttur Íslands hefur beitt þriðja valdinu og dæmt í málum er varða ólögmæt gengistryggð lán rennur betur upp fyrir almenning hvernig allt þetta kom til hér fyrir hrun þegar ákveðnir einstaklingar, fyrirtæki og einstök fjármálafyrirtæki gengu beinlínis gegn peningastefnu Seðlabanka Íslands og lánuðu þessi lán þvert á lög og reglur sem settar voru undir stjórn Sjálfstæðisflokksins árið 2001.

Þeir tímar eru liðnir þegar Framsóknarflokkurinn plataði landsmenn með falsvæntingar um fíkniefnalaust Íslandi fyrir árið 2000 og 100% lán fyrir alla sem síðar stefndu í að yrðu yfir 100% af brunabótamati. Þá var það Jóhanna sem steig í ræðustól Alþingis ásamt Steingrími J. Sigfússyni og kallaði eftir því að þar sem bankarnir lánuðu 100% lán árið 2004 að Íbúðarlánasjóði yrði gert að lána einnig fyrir enn hærra veðmarki en eðlilegt þótti. Þarna fór núverandi og fráfarandi leiðtogi Samfylkingarinnar sem stuðlaði að því að ganga gegn verðbólgumarkmiðum sem sett voru í lög á sínum tíma. Hún stuðlaði að því að verðbólgan varð hærri en ella og át upp eignir almennings. Það var nú meiri fyrirhyggjan.

Það voru Samfylkingin, VG og Framsóknarflokkurinn og vinstri vængir þessara flokka sem gátu þvingað fram óeðli í íslenskt fjármálalíf. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki láta þetta endurtaka sig, þ.e. að láta félagshyggjuöflin rústa fjármálastöðugleika með það eina að markmiði að eyðileggja gjaldmiðil þjóðarinnar og tala hann, sem og stjórnarskránna, niður aðeins til að getað gengið í alþýðulýðveldið ESB.

Þetta er stefna þeirra sem vilja sjálfstæði þjóðarinnar feigt.

Þáverandi ráðherra félagsmála (ath. félagsmála !) sem framsóknarráðherra knúði þessi ósköp fram á sínum tíma, þ.e. fyrir Jóhönnu og Steingrím. Þetta brenndi heimilin upp ásamt ólögmætum lánum og eyðilagði peningastefnuna, rústaði krónunni nánast því sem þó hefur staðið þetta af sér fyrir tilstuðlan velviljaðra.

Því er ótækt fyrir heimilin í landinu annað en að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda og efli atvinnulíf, sjái til að auka gildi krónunnar en tali hana ekki niður eins og núverandi fjármálaráðherra. Er þetta allt viljandi eða af vitleysu mælt?

Hagmunir heimila munu því best tryggðir undir þeim flokki sem setti varnir í lög sem eru nú að koma til góða eftir að hafa staðist tímans tönn og tryggt þannig leiðréttingu lána undir sjálfstæðum dómstólum Íslands. Sá flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn er sameiningartákn

Sjálfstæðisflokkurinn eflir atvinnulíf, tryggir stöðugleika og byggir á því að lægri skattar efli áhuga fólks og fyrirtækja til að byggja upp og skapa atvinnu til lengri tíma. Þetta þekkir fólk sem starfar sjálfstætt eða fyrir stærri fyrirtæki.

Bjarni Benediktsson er traustur og öflugur leiðtogi sem höfðar til yngri kynslóða og þeirrar eldri sem er hryggjarstykkið í flokknum, hryggjarstykkið í samfélaginu og það fólk sem man tímanna tvenna. Ung kynslóð fólks sér eignir sína brenna upp. Þingmenn vinstrimanna vinna gegn ungu fólki í dag og fyrirtækjum sem það vinnur hjá. Fólkið veit sem víst að ekkert betra tekur við nema að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda eftir næstkomandi kosningar.

Þingmenn vinstrimanna tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar, tala niður atvinnulífið og stjórnarskrá þjóðarinnar, gera svo ekkert til að leiðrétta lán almennings né tryggja stöðugleika. Þetta eru ekki þeir sem eiga að fá framgöngu í næstu kosningum til Alþingis, eða hvað?

Því og þess vegna er Sjálfstæðisflokkurinn sameiningartákn sem þjóðin getur treyst á að byggi upp land og þjóð á erfiðum tímum. Flokkurinn hefur sannað það.

Því geta aðrir stjórnmálaflokkar ekki unnið sér sæti í ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar nema þá og því aðeins að þeir leiti á náðir stærstu stjórnmálahreyfingar Íslands, Sjálfstæðisflokksins.

Góða helgi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur